júl 26 2004

Bechtel í blíðu og stríðu eftir Írisi Ellenberger

Morgunblaðið 26. júlí 2004

Bechtel nefnist fyrirtæki sem nú vinnur að byggingu fyrirhugaðs álvers Alcoa í Reyðarfirði. Það var stofnað árið 1898, á höfuðstöðvar í San Francisco en vinnur að ýmsum byggingaframkvæmdum um heim allan. Þegar fyrsta skóflustungan að fyrirhuguðu álveri í Reyðarfirði var tekin þann 8. júlí stóð Náttúruvaktin, baráttuhópur fyrir náttúruvernd og virkara lýðræði, fyrir mótmælum. Fréttatilkynning frá samtökunum bergmálaði ásakanir erlendra mannréttindasamtaka og fjölmiðla á hendur Bechtel. Í fréttum Stöðvar 2 af skóflustungunni vildi talsmaður fyrirtækisins ekki svara þessum ásökunum.

Bechtel í Írak

Ásakanirnar á hendur Bechtel eru margþættar, allt frá miklum hækkunum á byggingarkostnaði til tengsla við hryðjuverkamenn. Bechtel hefur orð á sér fyrir að vera stríðsgróðafyrirtæki enda hefur það meðal annars komi við sögu í Víetnamstríðinu, báðum Íraksstríðunum og borgarastyrjöldinni í Kongó. Nú síðast í janúar á þessu ári gerði Bechtel samning að verðmæti 1,8 milljarða dollara við Bandaríkjastjórn til framkvæmda í Írak og hafði áður í apríl 2003 verið valið úr hópi sjö fyrirtækja í lokuðu útboði til að skrifa undir 680 milljón dollara samning vegna verkefna í Írak.
Starfshættir Bandaríkjastjórnar við val á á fyrirtækjum við uppbygginguna í Írak hafa verið harðlega gagnrýndir meðal annars að send hafi verið út útboðsgögn til fyrirtækjanna sjö áður en innrásin í landið hófst. Einnig er Bandaríkjastjórn grunuð um greiðastarfsemi við dygga flokksmeðlimi. Gagnrýnendur segja að Bechtel hafi hlotið hnossið vegna náinna tengsla við Repúblikanaflokkinn um áratugaskeið. M.a. á George Shultz, utanríkissráðherra Reagan-stjórnarinnar, sæti í stjórn Bechtel. Riley Bechtel, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, var skipaður í útflutningsráð Bush Bandaríkjaforseta í febrúar 2003. Svipaða sögu er að segja af stórfyrirtækinu Halliburton sem valið var án útboðs til að slökkva elda í olíulindum í Írak. Dick Cheyney varaforseti Bandaríkjanna, stjórnaði fyrirtækinu á árunum 1995-2000.

Reynsla í Mið-Austurlöndum

Bandaríkjastjórn segir að Bechtel hafi orðið fyrir valinu vegna reynslu fyrirtækisins við byggingaframkvæmdir í Miðausturlöndum þar sem það hefur starfað til fjölda ára við misjafnan orðstír. Meðal annars skrifaði fyrirtækið undir samning við stjórn Saddams Hussein árið 1988 um byggingu risaefnaverksmiðju aðeins fjórum mánuðum eftir að íraski herinn gerði gasárás á þorp Kúrda í Írak sem olli dauð 5000 einstaklinga. Að sögn Bechtel var verksmiðjunni einungis ætlað að framleiða skaðlaus efni en samkvæmt öðrum heimildum stóð til að hún framleiddi efni sem meðal annars er notað í sinnepsgas sem nýverið fannst í Írak og þótti benda til efnavopnaeignar Saddams Hussein. Bechtel þurfti að hætta við byggingu verksmiðjunnar árið 1990 þegar íraski herinn réðst inn í Kúveit en ekki er ljóst hversu langt bygging hennar var komin.
Bechtel er einnig ásakað um að hafa komið sér upp miður æskilegum samböndum í gegnum starf sitt í Miðausturlöndum. Í The New Yorker í maí 2003 var staðhæft að bin Laden fjölskyldan væri stór fjárfestir í fyrrum dótturfyrirtæki Bechtel, Fremont Investments sem var að mestum hluta í eigu Bechtel-fjölskyldunnar en fimm stjórnarmenn Bechtel sátu einnig í stjórn Fremont. Einnig staðhæfir The Nation að Al-Bunnia Trading Company, einn undirverktaka Bechtel í Írak, tengist Malaysian Swiss Gulf and African Chamber sem er á lista Bandaríkjastjórnar og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna yfir fyrirtæki sem hafa fjármagnað al-Kaída- hryðjuverkasamtökin.

Bechtel og einkavæðing vatns

Bechtel hefur einnig látið til sín taka við uppbyggingu vatnsveitukerfis í ýmsum löndum í kjölfar einkavæðingar víða um heim. Í Manila á Filippseyjum ræður Bechtel dreifingu vatns sem hluti af samsteypu þriggja aðila í Manila Water Company samkvæmt 25 ára samningi frá árinu 1997. Fyrirtækið segist hafa fært tveim milljónum manna vatn en sú tala hefur verið dregin í efa. Einnig kemur fram í marshefti the Ecologist að verð á neysluvatni hafi hækkað svo mjög að fátækustu fjölskyldurnar þurfi mánaðarlega að velja á milli neysluvatns og matar í tvo daga. Í Cochabamba, þriðju stærstu borg Bólivíu, hækkaði vatnsverð um 35% í kjölfar þess að fyrirtækið Aguas del Tunari, sem Bechtel á 27,5% hlut í, öðlaðist einkarétt á dreifingu vatns í borginni til 40 ára. Fólk á lágmarkslaunum þurfti jafnvel að borga 20% af tekjum sínum fyrir vatn. Verðhækkunin olli óeirðum í borginni og í kjölfar þeirra var samningnum slitið. Aguas del Tunari lögsótti aftur á móti bólivíska ríkið og krafðist skaðabóta fyrir tekjutap sem fyrirtækið taldi nema allt að 25 milljónum dollara.

The Big Dig

Bechtel hefur þó ekki einungis sætt gagnrýni fyrir störf sín í fjarlægum álfum heldur einnig í heimalandi sínu. Bechtel er annað þeirra fyrirtækja sem hafa yfirumsjón með verkefni í Boston sem hefur hlotið viðurnefnið „The Big Dig“ og felur í sér byggingu ganga til að veita þjóðvegi undir borgina. Árið 1982 var kostnaður við framkvæmdirnar metinn á 2,6 milljarða dollara en hann var orðinn 14,6 milljarðar árið 2003. Rekja má talsverðan hluta kostnaðaraukningarinnar til verðbólgu en samkvæmt umfangsmikilli rannsókn The Boston Globe á framkvæmdunum mátti kenna mistökum Bechtel um a.m.k. 1,1 milljarð dollara af umframkostnaðinum. Hafin er lögsókn á hendur Bechtel vegna málsins.

Bechtel vinnur nú í einum áfanga að byggingu álvers í Reyðarfirði sem verður það stærsta sinnar tegundar á Íslandi, nær helmingi stærri en álver Alcan í Straumsvík. Í ljósi ofannefndra ásakana, þótt misalvarlegar séu, væri æskilegt að fjölmiðlar fjölluðu nánar um málið og leituðu svara hjá Bechtel.

Náttúruvaktin