ágú 21 2005

Mótmælendur og andstyggð

Haukur Már Helgason fjallar um aðgerðir Saving Iceland sumarið 2005.

Þegar talað er í niðrandi tóni um „atvinnumótmælendur“ er látið í veðri vaka að þeir stingi tilviljanakennt niður fæti hvar sem eitthvað gerist, og mótmæli því. Þetta er næstum rétt en þar með alveg rangt. Því framvinda heimsins er ekki jafn tilviljanakennd og hún getur virst í nærmynd. Eftir að önnur kerfi lögðu upp laupana er nú eitt kerfi í þann mund að sölsa undir sig veröld manna eins og hún leggur sig, yfirleitt nefnt kapítalismi. Það felur einkum í sér að skiptagildi hluta og fyrirbæra í heiminum er gert hærra undir höfði en raungildi nokkurs í lífi manneskju. Enda er skiptagildi þægilegra en raungildi, að því leyti að það má mæla og því má safna.

Mótmælendurnir eru ekki hér vegna þess að þeim þyki svo sérstaklega vænt um íslenska kletta, heldur til að berjast gegn því að öllu sem fólki þykir vænt um, þ. á m. íslenskum klettum, verði drekkt í auðmagni.

Auðmagnið er sérstök vél og undarleg. Á Íslandi hefur í fimmtán ár eða lengur mest borið á þeim málstað að auðmagnið sé betra í að búa til auð en önnur kerfi. Og því er ekki hægt að andmæla. Enda er nú svo mikill auður á Íslandi að þarf að farga honum, bílaumboð í borginni fargaði á síðasta ári 4-5 ára gömlum notuðum bílum sem ekki fékkst nógu hátt verð fyrir, frekar en selja þá ódýrt. Þetta er hinn íslenski álþríhyrningur: ál fer út, bílar fara inn, hraðar en nokkru sinni (og stífla götur…) og er fargað eftir fjögur ár til að rýma fyrir nýjum. Auðurinn eykst en hann á sér rökvísi sem er önnur en mannleg rökvísi.

Mótmælendurnir sem lögreglan hefur elt um hálendið og suður til Reykjavíkur tilheyra þá þeim djarfa hópi fólks sem annars vegar neitar að taka þátt í framleiðslu fáránleikans, og vill hins vegar varpa ljósi á hann, jafnvel með ólöglegum aðgerðum. Þetta heitir borgaraleg óhlýðni, og hefur á öllum stigum sögunnar verið nauðsynlegur undanfari mögulegra breytinga.

Umfjöllunin um mótmælendurna virðist hins vegar aðallega neikvæð. Og allir virðast geta tínt eitthvað til, til að formæla erlendu mótmælendunum. Það er vitaskuld auðveldast fyrir yfirlýsta hægrimenn, og næsta sjálfgefið, en tekur sárast að heyra vinstrimenn, jafnvel andmælendur virkjanaframkvæmda, tína til frávísunarklisjur. „Þetta eru bara krakkar að skemmta sér.“ „Þetta er allt of seint.“ „Þau eru að kaupa sér samvisku.“ „Þau vilja geta sagt frægðarsögur af sér.“ „Hafa þau ekkert betra að gera?“ Ég hef sérstakt dálæti á þeim ummælum sem ég heyrði að skiljanlegt væri ef raðhúsaeigendur í Hafnarfirði mótmæltu stækkun álversins þar, þá væri þó verið að traðka á eignum manna en „svona lagað er náttúrlega bara barnaskapur“. Hvers vegna hafa allir tiltæk svona einföld rök til að láta eins og ekkert hafi gerst? Og hvernig er hægt að láta eins og ekkert hafi gerst á meðan lögregla, yfirvöld, prestar og fjölmiðlafulltrúar bregðast við af óvenjulegri og, að virðist, óþarfri sefasýki?

Mergur málsins er sá að eitthvað gerðist. Atburður átti sér stað. Og atburðir eru ekki velkomnir á Íslandi, þeir raska ró smábæjarsamfélagsins. Það komu manneskjur sem lá nógu mikið á hjarta til að klífa 50 metra háan byggingakrana og hírast í honum í margar klukkustundir. Þau eiga ekki raðhús í Hafnarfirði en finnst gaman að tjalda. Það er óþægilegt að standa frammi fyrir spurningunni: Er í alvörunni eitthvað þess virði? og þægilegra að formæla krökkunum fyrir lætin. Því það sem er vegið að eins og yfirvöld sýna fyrir slysni með viðbrögðum sínum er hvernig við lifum. Það er hægt að lifa öðruvísi. Og það er raunar auðvelt. Það þarf margra ára skólagöngu og stöðugar áminningar fjölmiðla til að halda trú á hagkerfið gangandi. Peningar eru nefnilega þess eðlis að ef allir hætta að trúa á þá verða þeir verðlausir og hætta þar með að verða til. Því þeir eru bara holdtekinn átrúnaður. Á tímum þegar stjórnmálamenn hafa tekið að sér hlutverk samningsaðila við fjármagnsheiminn og sölu þess sem þeir áttu aldrei, og drekkt svo stofnunum lýðræðisins í skiptagildi að þær þykja ómerkilegri en góðar stöður innan stórfyrirtækja, verða þeir ekki endilega vinsælir sem mæta til að benda og hrópa þar sem sökkva skal enn einum stað í peningum. Og þá ekki á meðal hinna sem héldu að þeir hefðu andmælt nóg og væru nú þegar saklausir. Gestirnir sem komu til að vera með læti eiga ómælt lof skilið og verði þeim nú fylgt úr landi, eins og lítur út fyrir, koma þau vonandi sem fyrst aftur.

Höfundur er rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. ágúst 2005.

Náttúruvaktin