mar 15 2007

Hnattrænar afleiðingar stóriðju og stórstíflna – Ráðstefna „Saving Iceland“ 2007

Laugardaginn & sunnudaginn 7 – 8 júlí 2007
Hótel Hlíð, Króki, Ölfusi.

Blaðamannafundur ráðstefnu Saving Iceland verður kl. 17.30 á laugardaginn að Hótel Hlíð.

Til að komast í samband við erlenda fyrirlesara eða fá nánari upplýsingar um ráðstefnuna hafið samband við: conference@savingiceland.org eða hringið í síma: 663 7653 / 843 0629

Ókeypis aðgangur, tjaldstæði, matur og barnagæsla.
Ráðstefnan fer fram á ensku og hefst kl. 11. 00 á báðum dögunum.
Drög að dagskrá á ensku: /conference

Um ráðstefnuna

Saving Iceland er alþjóðlegt net einstaklinga sem vilja spyrna gegn því að stóriðja og virkjanir eyðileggi íslenska náttúru.

Áhugi erlendra stórfyrirtækja á íslenskum náttúruauðlindum er gríðarlegur um þessar mundir. Að sama skapi hefur áhugi íslendinga á því að kynna sér þessi sömu fyrirtæki í hnattrænu samhengi ekki verið eins mikill. Áliðnaðurinn og gríðarleg orkuþörf og baxítvinnsla hans hefur haft geigvænleg áhrif um allan heim, Ísland er aðeins brot af heildarmynd sem nær til Jamaica, Amazon, Afríku, Ástralíu og Asíu. Ráðstefnan miðar að því að styrkja tengslin milli grasrótarhreyfinga um allan heim. Saving Iceland hefur því fengið til landsins prófessora, talsmenn ættbálka og íbúasamtaka í fimm heimsálfum til að miðla af reynslu sinni.

„Verndun íslenskrar náttúru tengist beint málefnum sem eru hitamál um allan heim, eins og loftslagsbreytingar og orkumál,“ segir Jaap Krater frá Hollandi, einn skipuleggjenda.
„Ráðstefna okkar mun horfa á baráttuna gegn stóriðju á Íslandi út frá þessum þáttum og hún verður einstakt tækifæri fyrir fólk frá yfir tólf löndum til að deila reynslu sinni. Við viljum ekki frekari stóriðju eða stórstíflur, ekki á Íslandi og hvorki í þriðja heiminum né fyrsta heiminum. Við stefnum öll að því að stöðva þróun sem er farin fram úr sjálfri sér og viljum efla félagslegt réttlæti og lífshætti í samhljómi við náttúruleg kerfi jarðarinnar.“

Ræðumenn á ráðstefnu Saving Iceland

* Dr. Eric Duchemin, adjunct prófessor við háskólann í Québec, Montréal, Kanada og rannsóknarstjóri DREX environnement, hefur verið í forsvari fyrir Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC) Sameinuðu Þjóðanna. Rannsóknir hans hafa leitt til þess að vatnsorka er ekki sjálfkrafa flokkuð sem ,,hrein orka“. Hann mun fjalla um áhrif stórstíflna á loftslag.

* Cirineu da Rocha frá Dam-Affected People’s Movement frá Amazónsvæðum Brasilíu, þar sem Alcoa vill reisa marga stíflur.

* Lerato Maria Maregele sem tekur þátt í baráttunni gegn nýrri álbræðslu ALCAN í Suður Afríku.

* Attilah Springer, Rights Action Group, berst gegn nýrri álbræðslu ALCOA í Trinidad & Tóbagó.

* Kailash Awasya er hluti af Save the Narmada Movement (Narmada Bachao Andolan), sem er þekktasta grasrótarhreyfing Suður Asíu og berst gegn stórstíflum og fyrir réttindum ættbálka í Narmada dalnum í Indlandi og víðar.

* Frá Englandi kemur Helen B. Hún hefur verið öflugur þátttakandi í hreyfingunni gegn hraðbrautagerð á Bretlandseyjum. Hún mun gefa ráðstefnugestum yfirsýn yfir heillandi sögu beinna aðgerða.

* Till Weidensticker tók þátt í nýafstöðnum aðgerðum gegn G8 í Þýskalandi, jafnframt þátttöku í Saving Iceland og ræðir hvort tveggja.

* Jaap Krater, frá Hollandi, er ritstjóri tímaritsins Out of Order og hluti af hollenska armi Earth First! Hans umfjöllunarefni verður svörun áliðnaðarins við komandi orkukreppu og lofstslagsbreytingar.

* Derrick Jensen er bandarískur rithöfundur og róttækur umhverfisaktivisti. Hann mun flytja erindið Stóriðja og siðmenning.

Kynnir ráðstefnunnar er hinn þekkti ameríski prédikari, húmoristi og aktivisti, séra Reverend Billy frá Church of Stop Shopping (kirkju samtakanna Hættum að kaupa.)

Þar að auki taka eftirtaldir íslenskir gestir þátt:

Ráðstefnan hefst með erindum Guðbergs Bergssonar og Ómars Ragnarssonar, en hvorugan þeirra þarf að kynna fyrir Íslendingum. Guðmundur Beck fyrrum bóndi að Kollaleiru í Reyðarfirði og Einar Þorleifsson fuglafræðingur munu einnig flytja erindi.

Á ráðstefnunni verða framsögumenn frá Náttúruvaktinni, Fuglaverndunarfélagi Íslands, Framtíðarlandinu, Saving Iceland, Sólarhópunum og öðrum íslenskum hópum sem verjast stóriðju á sínum heimasvæðum.

Drög að helstu umfjöllunarefnum erinda og umræðna
(Nánari drög að dagskrá ráðstefnunnar á ensku: /conference )

  • Íslandi ógnað
    Kynning á þeirri ógn sem steðjar að Íslandi vegna stóriðju.
  • Stórar stíflur, áliðnaðurinn og loftslagsbreytingar
    Ekki aðeins álframleiðsla – loftslagsáhrif metans og perflúorkolefna.
  • Áhrif stórstíflna á vistkerfi vatnsfalla
    Vistfræði og líffræðileg fjölbreytni – áhrif stórra stíflna.
  • Saga borgaralegrar óhlýðni og beinna aðgerða
    Frá fortíð til framtíðar – Hvernig beinar aðgerðir geta breytt gangi sögunnar
  • Græn eða grá framtíð?
    Mismunandi framtíðarsýn
  • Orkuöflun til stóriðju – Frá Kyoto til Peak Oil
    Stóriðja í leit að hernaðarlega hentugri staðsetningu orkuvera
  • Barátta í Trinidad
    Barátta fólks gegn nýjum bræðslum ALCOA og Alutrint í
    Trinidad & Tobago.
  • Narmada Bachao Andolan
    Best þekkta alþýðuhreyfingin á Indlandi, sem berst fyrir réttindum adivasi-ættbálksins sem hrakinn hefur verið frá heimkynnum sínum vegna stórstíflu.
  • Baráttan í Kashipur
    Barátta gegn yfirborðsnámu ALCAN í Kashipur, norðaustur Indlandi.
  • Stíflur á Amazonsvæðinu
    Ál ógnar regskógunum.
  • Rannsókn á áliðnaðinum
    Kynntir helstu aðilar til leiks og greint frá nýjustu þróun í áliðnaði
  • Stærsta ósnortna víðernið í Evrópu
    Landslag og lífríki sem ógnað er á Íslandi
  • Breytingar á erfðavísum á Íslandi
    Víðara sjónarhorn á erfðabreytt bygg á Íslandi.
  • Vaxandi þungi gegn risavélinni
    Að bera saman bækur: alþýðuhreyfingar gegn stóriðju, stórstíflum og hnattvæðingu.

Eldri kynning á ráðstefnunni

Eftir þriggja ára baráttu gegn stórstíflum og stóriðju mun herferð „Saving Iceland“ tengjast baráttunni um heim allan. Um víða veröld hafa stóriðja og stórstíflur hrakið á brott fólk í milljónatali, að mestu án þess að bætur komi fyrir. Þessi mannvirki hafa eyðilagt vistkerfi á sjó og landi og eytt dýralífi. Þau hafa mengað andrúmsloft okkar og vötn og breytt loftslagi á óbætanlegan hátt – í nafni framfara.
Fyrrverandi forsætisráðherra Indlands, Jawaharlal Nehru, orðaði það svo: „Ef þú þarft að þjást, ættirðu að gera það í þágu lands þíns“, í ræðu yfir þorpsbúum sem átti að hrekja frá heimilum sínum vegna Hirakudstíflunnar árið 1948.
Ríkisstjórnir Íslands og Indlands telja risaraforkuver enn vera tákn um hugvitsemi, framfarir og þjóðarstolt. Í Trinidad og Tobago, sem og á Íslandi leitar áliðnaðurinn að óþrjótandi orkulindum á tímum vaxandi óvissu í orkumálum.

Samt hefur sagan alltaf sýnt undirstrauma sem ekki eru í samræmi við hin ríkjandi framfaraviðhorf. Fjöldi fólks berst gegn því að vera fórnað í þágu lands síns eða efnahagsins og margir hafa barist gegn því að landi þeirra og óbyggðum sé fórnað.

Ráðstefna „Saving Iceland“ 2007 mun auka og dýpka þekkingu þína á baráttunni gegn stóriðjunni.

Náttúruvaktin