nóv 15 2008

Náttúra.info vill breyta spítölum í ferðaþjónustu

NEI

Haukur Már Helgason

Náttúra.info er félagsskapur um náttúruvernd og náttúrufróðleik á Íslandi. Á vefsvæðinu sem hópurinn er kenndur við er snúið að komast að raun um hverjir stofnuðu hann, en mest áberandi fyrir hópsins hönd hafa verið Björk Guðmundsdóttir og Sigur-rós. Á vefsvæðinu má í fljótu bragði greina táknrænan stuðning við sprotafyrirtæki, einkum hátækni og hönnun, til viðbótar við einföld náttúruverndarsjónarmið. Vefurinn og hópurinn voru sett á laggirnar um svipað leyti og tónleikar með sömu yfirskrift og sömu grafísku umgjörð voru haldnir síðasta sumar. Tónleikarnir voru kolefnisjafnaðir „og buðust bændur á Þjórsársvæðinu og Sól á Suðurlandi til að gróðursetja 1001 björk og hefur garðurinn fengið nafnið Sigur Rósarlundur,“ sagði þá í tilkynningu.

Félagsskapurinn endurbirtir nú skýrsluna „Heilsulandið Ísland“ sem unnin var fyrir Samgönguráðuneytið veturinn 1999-2000, um heilbrigðiskerfi sem ferðamannaiðnað. Skýrslunni gömlu fylgir hópurinn eftir með eigin framsetningu á tíu tillögum um „Ísland sem land heilbrigðis“. Texta hópsins má líklega líta á sem áskorun, í öllu falli virðist smit vera á milli hans og „gullpakkans“ sem Björk Guðmundsdóttir færði forsætisráðherra sl. miðvikudag (12. nóv), en þeim pakka fylgdi bréf þar sem helstu „sprotahugmyndir“ voru reifaðar, meðal annars þessi: „að heilsutengd starfsemi tengist uppbyggingu á þekkingar- og fjármálasviðum.“

Í áskoruninni „Heilsa Íslands“ má finna nánari útlistun á þessari hugmynd. Þar segir meðal annars:

„6. Vekja þarf meðvitund um þau verðmæti sem við eigum og grundvöll þeirra til uppbyggingar arðbærs heilsugeira. Það er veruleg sóun í kerfinu í formi dýrra stofnana sem geta ekki breyst af því að sokkinn kostnaður er hugsaður sem verðmæti. Vinnuafl er oft óþarflega dýrt og möguleikar eru á að gera þjónustusamninga sem væru mun ódýrari í framkvæmd. Draga þarf úr þessari sóun og nýta frekar sokkinn kostnað með öðrum hætti en hingað til. Mikill hluti af sóuninni í heilbrigðisgeiranum felst í því að fenginn ávinningur af dvöl í heilsuumhverfi er ekki skilgreindur sem verðmæti og því hvorki metinn af verðleikum né settur í verð. Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Aðrar tillögur eru í sama dúr. Þessi verðmæti sem á að takmarka aðgengi að, til að auka virðingu fyrir þeim, er semsagt líf þitt og limir. Heilsa þín. Þessi viðskiptalegi orðaforði um heilsu fólks er framleiddur í viðskiptaháskólunum sem spruttu hér eins og gorkúlur, í fagi sem er nefnt heilsuhagfræði og þjónar þeim eina tilgangi að undirbúa aukinn einkarekstur í heilbrigðisgeiranum – að líf og dauði verði rekin á sömu forsendum og annar íslenskur, eða alþjóðlegur, bissness. Þá hlýtur fólk nú að fara að bera meiri virðingu fyrir lífi sínu og dauða, ef Hannes Smárason kemur að málinu.

Þessar hugmyndir voru raunar líka reifaðar í skýrslu framtíðarhóps Viðskiptaþings 2006 um þróun viðskiptalífs á landinu til ársins 2015. Þar eru þessar hugmyndir raunar settar efstar á lista í sóknarfærum viðskiptalífsins:

„3.10 AÐGERÐAÁÆTLUN TIL ÁRSINS 2015
— Einkaaðilum verði í auknum mæli treyst til að reka heilbrigðisstofnanir.
— Kynna Ísland sem land heilbrigðis.
— Einkaaðilar taki við fleiri þáttum almannatryggingakerfis.

— Einkaaðilar byggi, fjármagni og reki fleiri samgöngumannvirki.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við bankana um fjármögnun íbúðarhúsnæðis.
— Afnema tolla og landbúnaðarstyrki og aflétta höftum af bændum.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við einkaaðila.
— Fækka ráðuneytum.
— Fækka stofnunum án þess að það valdi auknum kostnaði.“

Í hópnum sem vann þá skýrslu má finna nokkra gamla góða: Bjarna Ármannsson, þáverandi forstjóra Íslandsbanka, Finn Ingólfsson, forstjóra VÍS, Gunnar Pál Pálsson, margfrægan formann VR, Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, ásamt fastagestum í hugmyndaheimi viðskiptalífsins, sem veita hugmyndunum vottun barna og listafólks: Magnúsi Scheving, Hjálmari H. Ragnarssyni, Þorvaldi Þorsteinssyni og síðast en ekki síst Svöfu Grönfeldt, sem er nú landskunn fyrir skýrslugerð.

Með öðrum orðum: það er ekki bara þegar íslenskt viðskiptalíf og kapítalísk hagskipan hafa unnið sér rækilega inn fyrir algeru vantrausti, heldur einmitt í sömu viku og stærsta einkafyrirtækið á heilbrigðissviði, sem rekið var í hagnaðarskyni, lagði upp laupana, þrátt fyrir töluverða fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera, sem einkavæðing og gróðarekstur á sviði lífs og dauða er boðaður eins og ekkert hefði í skorist, með fulltingi fólks sem á að vilja og vita miklu, miklu betur.

„Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Oj bara! Nei. hrækir á þessar hugmyndir og skorar á nattura.is að draga stuðning sinn við þær til baka hið snarasta. Það er einmitt þetta sem nú þarf að varast. Náttúran skiptir máli. Amma skiptir meira máli.

Hér að neðan má sjá þau firmamerki sem fylgdu skýrslu Viðskiptaþings um hugmyndirnar úr hlaði, 2006.

styrkt

Hér fylgja nokkuð áhugverð samskipti um innihald ofanverðrar greinar á NEI:

  • […] Annars er þetta alltof langur formáli að því að benda fólki að lesa frétt Hauks Más í Nei. í dag – um Björk, natturu.info og heilsuferðamennskufrjálshyggju. Hún er hér. […]

  • Í vef-dagblaðinu Nei er ritað um nýlega færslu á Nattura.info undir titlinum “Heilsa Íslands” og samhliða birtingu í Fréttablaði á föstudaginn s.l. á drögum að tillögum samræðuhóps Neista um breytingar í heilsugeira á Íslandi. Í orðum Neis gætir ígrundaðs misskilnings sem mig langar að gera tilraun til að leiðrétta í stuttu máli.

    Í fyrsta lagi virðist gæta misskilnings um að það efni sem er birt á vef nattura.info, sé allt hluti af stefnuskrá eða skoðun þess “félagsskapar” sem stendur á bak við vefinn. Í færslu á Nei segir: “Félagsskapurinn endurbirtir nú skýrsluna „Heilsulandið Ísland“ sem unnin var fyrir Samgönguráðuneytið veturinn 1999-2000, um heilbrigðiskerfi sem ferðamannaiðnað. Skýrslunni gömlu fylgir hópurinn eftir með eigin framsetningu á tíu tillögum um „Ísland sem land heilbrigðis“.

    Síðar í færslu á Nei er látið að því liggja að niðurstöur skýrslu séu í takt við tillögur Neista um æskilegar breytingar í heilsugeiranum. Hér má benda á að nattura.info birtir gjarnan gamlar skýrslur til upplýsinga um þann málaflokk sem um er fjallað, án þess að skrifa undir þær skýrslur eða fylgja þeim eftir. Í þessu tilfelli er um nokkura ára gamalt umfjöllunarefni; Heilsulandið Ísland sem víða hefur verið fjallað um og fagnar ritstjórn nattura.info mjög öllum aðsendum upplýsingum um málið, enda er vefnum ætlað að vera vettvangur fyrir opna samræðu um náttúruvernd, sjálfbæra þróun, sprotavöxt og nýsköpun; vettvangur fyrir ólíkar skoðanir og sýnir, fyrir tillögur um stefnumótun, en ekki málgagn tiltekinnar stefnu.

    Og þá komum við að aðal misskilningi ritara umræddrar greinar Neis. Þar er vísað í orð í tillögum vinnufunds Neista um heilsugeira, en þær tillögur voru afhentar Ríkisstjórn Íslands og því er ekki um neitt “smit” að ræða, eins og Nei gerir ráð fyrir heldur opinbera birtingu á drögum að tillögum sem voru unnar í vinnuhópum og kallast ekki niðurstöður heldur útgangspunktar, einskonar stöðumat í ferli:

    “Mikill hluti af sóuninni í heilbrigðisgeiranum felst í því að fenginn ávinningur af dvöl í heilsuumhverfi er ekki skilgreindur sem verðmæti og því hvorki metinn af verðleikum né settur í verð. Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

    Vissulega er orðalagið nokkuð viðskiptalegt, en það sem hér er átt við er að þau verðmæti sem liggja til grundvallar hvers kyns uppbyggingu á heilsusviði á Íslandi hljóti að vera náttúru- og menningarauðlindir sem hingað til hafa ekki verið metnar nógsamlega að verðleikum í umræðu um atvinnuuppbyggingu á Íslandi; til dæmis er menntun heilbrigðisstétta ekki álitin vera eins mikilvæg og ætla mætti. Og hér á landi hefur meðvitunarleysi gert að verkum að aðgengi erlendra auðhringja hefur ekki nógsamlega verið takmarkað að náttúruauðlindum, m.a. vegna vöntunar á umræðu um gildi ómengaðs vatns, lofts og endurnýtanlegrar jarðorku. Um of hefur verið litið á þessar auðlindir sem gefnar og því er tekið svo til orða að takmarka þurfi á einhvern hátt aðgang að þeim, ekki í þeim skilningi að einhver auðhringur taki sér það vald í hendur, heldur að íslenska þjóðin átti sig á þeim auðlindum sem hún á og skapi sér stefnu um nýtingu þeirra, í stað þess að nýtingin sé tilviljunakennd í nafni hinnar og þessarar nytja- og frjálshyggjunnar. Þessi orð, sem vissulega má rangtúlka, eru svo sannarlega rangtúlkuð í umfjöllun Neis, þar sem segir m.a.:

    “Þessi verðmæti sem á að takmarka aðgengi að, til að auka virðingu fyrir þeim, er semsagt líf þitt og limir. Heilsa þín. Þessi viðskiptalegi orðaforði um heilsu fólks er framleiddur í viðskiptaháskólunum sem spruttu hér eins og gorkúlur, í fagi sem er nefnt heilsuhagfræði og þjónar þeim eina tilgangi að undirbúa aukinn einkarekstur í heilbrigðisgeiranum – að líf og dauði verði rekin á sömu forsendum og annar íslenskur, eða alþjóðlegur, bissness. Þá hlýtur fólk nú að fara að bera meiri virðingu fyrir lífi sínu og dauða, ef Hannes Smárason kemur að málinu… Oj bara! Nei. hrækir á þessar hugmyndir og skorar á nattura.is að draga stuðning sinn við þær til baka hið snarasta. Það er einmitt þetta sem nú þarf að varast. Náttúran skiptir máli. Amma skiptir meira máli…”

    Fyrir hönd vefsvæðis Nattura.info og undirbúningshóps um breytingartillögur á sviði heilsumála á Íslandi, þakka ég Neiinu fyrir ábendinguna, enda þurfum við á opinni umræðu um auðlindamál og stefnumótun um þau að halda á vorum tímum, þar sem ekkert er dregið undan, í upplýsingaduld og langdregnum rangtúlkunum, heldur sótt til sanngirnis og upplýstrar stefnumótunar á öllum sviðum uppbyggingar.

    oddný eir ævarsdóttir,
    ritstjóri nattura.info

  • admin

    Hæ, Oddný.

    Ég sé ekki að hér sé misskilningur á ferð. Eftir stendur að náttúra.info leggur fram og styður hugmyndir um takmörkun á aðgengi að heilsuvernd og heilbrigðisstofnunum – setja það „í verð“ eins og þið orðið það – og vill að „dvöl í heilsuumhverfi“ geti orðið hluti af öðrum þjónustupökkum eða nokkurs konar pakkaferðum.

    Ég sé ekki í fljótu bragði að þið minnist berum orðu á einkavæðingu í textanum – en ljóst er að öll þau öfl sem sjá sér hag í að taka þátt í verkefnum af þessum toga, og öll öfl sem standa á bakvið þá hliðrun orðfæri í átt að viðskiptaheiminum, sem er mjög greinileg í kynningarefninu, gera beinlínis ráð fyrir tilfærslu heilbrigðiskerfisins í hendur svonefndra „einkaaðila“ – þ.e. fyrirtækja eða auðhringja. Hvort þessir aðilar eru íslenskir eða útlenskir skiptir minnstu máli.

    Hliðrun orðfæris: viðskiptavinir í stað sjúklinga, dvöl í heilsuumhverfi í stað legu, „MBA-nemendur vinna ákveðna grunnvinnu við að skapa viðmiðanir um markaðssetningu og árangur“. Og svo framvegis.

    Þarna lítur því út fyrir að nattura.info taki því miður höndum saman við þau andstyggilegustu öfl sem við verður að etja á næstunni, þegar gera má ráð fyrir að saga þeirra ríkja sem leita ásjár IMF í nauð reyni að ganga sinn vanagang, og leggja niður það sem eftir er af velferðar- og almannatryggingakerfi í landinu, víkja því úr vegi peningahagkerfis. Það er dálítið harkalegt að segjast hrækja á hugmyndir, eins og Nei. hótaði í fréttinni hér að ofan – en það sleppur því strangt til tekið er það ekki hægt. Það er hins vegar enn harkalegra að neita manneskjum um meðferð eða henda þeim út af sjúkrastofnunum vegna þess að þau eiga ekki monní – eða samræmast ekki áherslum í markaðssetningu á „dvöl í heilsuumhverfi“. Það er harkalegt en hægt.

    Til hvers yrði það gert? Til að kreista fólk. Sumum finnst ekki nóg kreist.

    Nattura.info virðist í þessu máli taka að sér það hlutverk, gefins, að vera hin mjúka mannlega ásjóna hamslausrar, kerfisbundinnar grimmdar. Ég sé ekki að þessi túlkun hafi verið hrakin og bið ykkur því enn að endurskoða afstöðu ykkar til málsins.

    Með góðri kveðju,

    Haukur Már.

  • Sælt Nei.

    Til leiðréttinga: Í niðurlagi greinarinnar „Náttúra.info vill breyta spítölum í ferðaþjónustu“ segir; „Oj bara! Nei. hrækir á þessar hugmyndir og skorar á nattura.is að draga stuðning sinn við þær til baka hið snarasta. Það er einmitt þetta sem nú þarf að varast“ náttúran skiptir máli. Amma skiptir meira máli.“
    Skiljanlega er vefnum nattura.info oft ruglað við vefinn nattura.is/náttúra.is/natturan.is/náttúran.is/nature.is/natur.is blandað saman en vefurinn natturan.is opnaði fyrir rúmum tveim árum og hefur ekkert með yfirlýsingar Bjarkarvefsins að gera. Ég benti Björk strax og fréttir bárust af því að hún hefði í huga að stofna vef undir nafninu nattura..eitthvað að við ættum nafnið og þætti miður að hún ætlaði að nota sama nafn sem lén. En Björk, sem ég þekki frá fornu fari, þótti það ekki skipta neinu máli, heldur ekki að yfirlýsingar um tilgang vefsins væri í stíl við yfirlýsingar um natturan.is. Við buðum henni samstarf og aðkomu þannig að við myndum reyna að efla vefinn natturan.is og það sem málið snýst um þ.e. „að koma Íslandi rekspöl í átt til sjálfbærni og gott betur“. En í stað þess hefur Björk og co. frekar valið að láta sem við séum ekki til, sem er óvirðig við það frumkvöðlastarfi sem fjöldi manns hefur árum saman lagt allt í sölurnar fyrir. Yfirlýsingar um stuðning við frumkvöðlastarf hefur því verið gersamlega kastað fyrir borð hvað okkur varðar. Björk er frábær listamaður en það er ekki þar með sagt að hún geti valtað yfir allt og alla í skjóli frægðar sinnar. Þessu má líkja við það að ég myndi opna vef sem heitir bjork.info og gæfi út plötu sem heitir Terpentine. Auðvitað vill Björk hasla sér völl sem náttúruverndarsinni, nokkrum árum seinna en við, en var nauðsynlegt að gera það á þennan hátt?

 

Náttúruvaktin