des 17 2009

DON´T BUY THE LIE!

Svartsokka.org

Nú er skrípaleikurinn í Kaupmannahöfn brátt á enda runninn. Kókauglýsingarnar með slagorðunum “Hopenhagen” og “Coke: A Bottle of Hope” verða brátt teknar niður af strætóskýlunum. Lögreglan mun aftur fara að áreita pólitíska flóttamenn í stað anarkista sem berjast fyrir réttlátara samfélagi.

Siemens blaðran sem einnig auglýsir “Hopenhagen” mun verða tekin niður af Ráðhústorginu og smám saman mun hugur fólks reika að imbakassanum í leit að innihaldslausu lífi. Hvað kom út úr tveggja vikna stanslausum fundarhöldum, fyrirlestrum, auglýsingum, mótmælum, öskrum, slagorðum, bannerum, óeirðum, blóði, grjóti, táragasi?

Svarið er: nákvæmlega ekki neitt.

Ástæða þess er sú að þeir sem ráða munu alltaf taka gróða fram yfir lifandi verur. Það er þessi vitneskja sem sameinaði 513 hreyfingar frá 36 löndum í Kaupmannahöfn undanfarin misseri.

Um hvað snúast loftslagsviðskipti?

Kyoto bókunin var upphaflega sett fram til þess að hægt væri að minnka kolvísýring í andrúmsloftinu án þess að draga úr hagvexti. Sú leið sem var farin til þess að ná fram þessu markmiði var sú að stofna markað um losunarheimildir, þar sem þær gengu kaupum og sölum. Þetta átti að valda því að sum lönd gætu stundað áframhaldandi iðnvæðingu á sama tíma og koltvísýringslosun í heiminum sem heild myndi minnka.

Viðskipti með losunarheimilidir hefur valdið því að ábatasamur markaður hefur myndast, og rétt eins og í kvótabraski græða fyrirtækin oft meira á viðskiptum með losunarheimildirnar heldur en á raunverulegu framleiðslunni.  Þessi markaður virkar í stuttu máli á þann veg að áætlað er að koltvísýringslosun verði ákveðið mikil af hálfu einhvers aðila á vissu tímabili. Ef sá aðili mengar ekki eins mikið og til stóð fær hann annað hvort að menga meira á móti eða selja losunarheimild sínar til annars aðila.

Þetta er hugsað til þess að minnka koltvísýringslosun, en virkar í raun á þann hátt að fyrirtæki færi sig venjulega til landa þar sem auðveldara er að búa til losunarheimildir. Það er meðal annars gert með því að stórfyrirtæki kaupa upp stór svæði í þróunarlöndum og planta þar skógum. Gallinn við þetta er að trjátegundirnar sem eru notaðar eru ekki hentugar á svæðinu, sjúga upp í sig of mikið af vatni, sem veldur vatnsskorti, og taka yfir innfæddar tegundir sem hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir náttúru, dýralíf og lifibrauð innfæddra.  Á sama tíma taka þau stór landsvæði af innfæddum sem hafa ekki annað lífsviðurværi en land sitt.

Í stað þess að viðskipti með losunarheimildir hafi náð að minnka koltvísýringslosun hefur hið gagnstæða gerst; koltvísýringur í andrúmsloftinu hefur aukist. Með því að beygja lögin tekst markaðsöflunum að braska með kvótann á þann hátt að hann er talinn tvisvar til þrisvar. Mest mengandi fyrirtækin tvöfalda þannig losunarheimildir sínar með bellibrögðum einum saman. Markmið þessara afla er ekki að hverfa frá tækni sem byggir á jarðeldsneyti heldur að SELJA MENGUNINA og dæla öllu því gasi og olíu upp úr jörðinni á meðan eitthvað er eftir. Markaðurinn átti að leysa loftslagsvandann en tókst í staðinn að gera hann enn verri. COP15 snýst ekki um að bjarga heiminum heldur að viðhalda því gallaða kerfi sem byggir á því að örfáir útvaldir græði á kostnað allra hinna.

Hvað með endurnýjanlega orku?

Ísland fékk undanþágu frá Kyoto bókuninni á þann hátt að því var í raun leyft að auka kolefnislosun sína. Þetta var gert á þeim forsendum að það væri gert með “endurnýjanlegri” orku og þar af leiðandi væri ferlið ekki eins mengandi og ef það væri gert annars staðar. Nú eru losunarheimilidr Íslendinga komnar upp í topp og rúmlega það með álverunum sem eru á kortinu. En vatnsaflsorka sem margir álíta vera lausnina er ekki eins sjálfbær eins og oft er haldið fram, bæði vegna þess að lónin fyllast með tíð og tíma, en einnig vegna þess að “[g]róðurinn sem fer undir lónstæði vatnsaflsvirkjanna rotnar, sem verður til þess að uppistöðulónin senda frá sér gróðurhúsalofttegundina metan sem er margfalt skaðlegri fyrir andrúmsloftið en koltvísýringur”, eins og kemur fram í þriðja tölublaði anarkistatímaritsins Svartur Svanur.

Eins er fáránlegt að skoða ekki þessa hugmyndafræði sem heild. Til dæmis má nefna að álfyrirtækin sem hafa notað hina “sjálfbæru” orku á Íslandi sem rök fyrir því að fá að framleiða meira áldrasl til hergagnaframleiðslu og annars óþarfa, menga á sama tíma gríðarlega stór landsvæði í löndunum þar sem báxítið er framleitt en það er nauðsynlegur þáttur álframleiðslunnar. Eins er ekki tekið tillit til mengunarinnar sem felst í því að flytja hráefni milli staða. Að lokum má benda á að ekki er minnst á óþarfann sem er fólginn í mestu af þessari framleiðslu en grunntilgangur hennar er að halda efnahagskerfum í sífelldum vexti.

En ef við kaupum bara umhverfisvæna hluti?

Annað dæmi um hinar fölsku lausnir sem okkur eru færðar er hin ímyndaða nauðsyn þess að kaupa “grænt”, til að mynda minna mengandi bíla, “grænar” snyrtivörur, lífrænt ræktaðan mat eða sparneytnar ljósaperur. Þetta er eins langt frá því að vera lausn eins og að taka verkjalyf við fótbroti. Tilgangur þess að hvetja fólk til þess að kaupa „grænt“ er fyrst og fremst sá að viðhalda hagvexti og veita fólki stundarfrið á sama tíma. Hagvöxtur mun hins vegar alltaf hafa neikvæð umhverfisáhrif vegna þess hversu mikið hann byggist á stöðugri og síaukinni neyslu.
Hin hliðin á þessari neyslumiðuðu lausn felst í því að öll ábyrgðin er sett yfir á einstaklinginn sem neytanda. Á sama tíma og fólk telur sig vera að kaupa umhverfisvænar vörur halda stórfyrirtækin áfram að menga náttúruna. Á sama tíma og Kók auglýsir „flösku fulla af von“ og segist vilja taka upp umhverfisvænni tegund af plastflöskum er fyrirtækið að menga grunnvatn á Indlandi. Shell setur fram lífefnaeldsneyti sem lausn, en mengar enn í Nígeríu. Alcoa segja betra að notast við íslenska „sjálfbæra“ raforku en kol, en á sama tíma er standa þau fyrir gríðarlega mengandi báxítvinnslu og skógareyðingu á Jamaica. Þetta eru einungis örfá dæmi um það að lausnirnar sem settar eru fram á COP15 eru falskar.
Allar tilraunir til þess að minnka áhrif loftslagsbreytinga eru dæmdar til þess að mistakast á meðan við búum við markaðsmiðað hagvaxtarhagkerfi. Kerfi sem er byggt upp á sífellt stækkandi hagkerfi mun í eðli sínu alltaf byggja á arðráni, bæði á fólki og náttúru. Þessvegna eru lausnirnar á COP15 lygi.
Ekki kaupa lygina!

Náttúruvaktin