ágú 19 2010

Samviska heimsins – Viðtal við Samarendra Das

Viðtalið birtist upphaflega á Smugunni, þann 19. ágúst 2010.

„Ég er pólitískur aktívisti,“ segir Samarendra Das sem hélt fyrirlestur fyrir fullu húsi í gær um bók sína sem gæti kallast með réttu Svartbók áliðnaðarins. Hann hefur ástæðu til að fagna í dag en margt bendir til þess að baráttan um Niyamgiri fjallið í Odisha héraðinu á Indlandi hafi unnist. Þar stóð til að að breska fjölþjóðafyrirtækið Vedanta færi að vinna báxít og hrekti þar með burt sérstæðan ættbálk sem býr við fjallið og trúir á það sem uppsprettu lífsins. Ný skýrsla stjórnskipaðrar nefndar er sögð leiða í ljós að ekki sé hægt að mæla með því að fyrirtækið fái leyfi til námuvinnslu vegna endurtekinna lögbrota í tengslum við undirbúninginn. Niðurstaðan verður gerð opinber á morgun en fyrirtækið hefur fallið um níu prósent í verði og lánshæfismatið hefur lækkað.

Samviska heimsins
„Vopnin sem ég beiti er að upplýsa fólk, það er ekki hægt að breyta nema vekja upp samvisku sem hefur ekki landamæri, samfélagslega ábyrgð sem einskorðar sig ekki við þrönga heimsmynd heldur tekur til allra þátta . Ég segi fólkinu á Íslandi frá fjallinu helga á Indlandi sem átti að fórna á Indlandi til að breskt fjölþjóðafyrirtæki gæti unnið þar baxít, það á síðan meðal annars að flytja til Íslands og nota í álbræðslu hér. Og ég segi fólkinu á Indlandi og víðar frá jökulánum á Íslandi sem voru stíflaðar til að álbræðslurnar hér fái rafmagn. Og hluti af álinu endar síðan í hergagnaiðnaði og veldur hörmungum einhversstaðar í heiminum.“

Umræðan er hættulegt vopn
„Upplýsingar eru hættulegt vald og stórfyrirtækjum er vel kunnugt um hvað það er dýrmætt að stjórna umræðunni, enda hóta þau, beita ofbeldi og hafa jafnvel mannslíf á samviskunni. Pólitísk umræða er orðin svo gríðarlega hægri-sinnuð og gegnsýrð af frjálshyggjunni og það er erfitt að ná til fólks, en það er hægt. Við erum öll orðin slitin úr tengslum við raunveruleikann og það hverjar raunverulegar þarfir okkar eru. Þarafleiðandi nær það ekki eyrum venjulegs fólks hvernig lífsstíll þess leggur líf annarra í rúst.

Þekking er lykillinn að raunverulegum breytingum. Heimurinn er eitt samfélag, það verður fólk að skilja og stjórnmálamenn eru ófærir um að koma því til skila. Ég er hluti af fjölskyldu fólks frá ólíkum löndum og vinn við að tengja saman grasrótarfólk hvaðanæva að. Ég er samt Indverji og stoltur af því, þú ert íslensk og stolt af því. Það breytir því ekki að við tilheyrum allri heimsbyggðinni.“

Voldugri en þjóðþingin
„Stóru fjölþjóðafyrirtækin eru mun voldugri en þjóðþing einstakra ríkja. Og framtíð marga í þriðja heiminum er ákveðin á stjórnarfundum þessara fyrirtækja. Þeir sem dirfast að andmæla áformum þessara fyrirtækja eða flækjast fyrir eru ekki sýnilegir og þeir hafa veika rödd. Það er þarna sem hlutverk pólitískra aktívista verður gríðarlega mikilvægt. Þeir geta með því að skrifa, tala og rannsaka þessa hluti gefið fólkinu rödd og samtakamátturinn getur fært þeim vald.“

Síðustu árin hefur barátta Samarendra að miklu leyti verið háð á heimaslóðum en hann er frá héraðinu Odisha á suð-austur Indlandi. Dongria Kondh nefnist ættbálkur sem telur um áttaþúsund manneskjur sem lifa í skógi við rætur fjallsins Niyamgiri. Fólkið trúir á fjallið sem uppsprettu lífsins og lítur á það sem helgan stað auk þess að sækja lifibrauð sitt af ræktun í hlíðum þess. Breska fjölþjóðafyrirtækið Vedanta, vildi hinsvegar vinna Báxít úr fjallinu en slíkt hefði lagt lífsafkomu og menningu ættbálksins í rúst.

Samarendra og fleiri pólitískir aktívistar hafa helgað sig þessari baráttu ættbálksins sem annars hefði sjálfsagt verið dæmd til að tapast. Þeir hafa dregið fram í umræðuna lögbrot og yfirgang fyrirtækisins og verið óþreytandi við að fræða og upplýsa fólk um það sem tapast. Nú lítur út fyrir að þeir fái umbun erfiðisins þegar stjórnvaldsskýrslan kemur út á morgun, sem mælir gegn námuvinnsluleyfi til fyrirtækisins.

Upphaflega stærðfræðingur
Samarendra Das lærði upphaflega stærðfræði og tölvuverkfræði en starfaði einungis við verkfræðina í nokkra mánuði en þá sneri hann sér að blaðamennsku. Hann var dálkahöfundur og rannsóknarblaðamaður á Dainik Asha, elsta dagblaðinu í Odisha í mörg ár. Þá vann hann í aukavinnu við að skrifa fyrir dagblað sem blaðamennirnir límdu á vegg í nágrenni útimarkaðar og átti að höfða til fátækasta fólksins.

Árið 2001 gekk hann til liðs við Þjóðarráð Sósíaslista á Indlandi og þá hófst ferill hans sem aktívista fyrir alvöru. Hann starfar enn sem blaðamaður og rithöfundur og hefur gefið út þrjár bækur auk þeirrar sem hann kynnti á fundinum í gær.

Þetta er í annað sinn sem hann kemur til Íslands en í bæði skiptin hefur hann verið hér á vegum samtakanna Saving Iceland.

Samarendra segir Ísland um margt í áhugaverðri stöðu fyrir pólitískan aktívista. Fyrir það fyrsta séu auðlindir landsins í mikilli hættu þar sem landið sé í mikilli þörf fyrir og í raun háð erlendu fjármagni. Stórfyrirtækin sæki inn á veikari svæði, þar sem orkan sé ódýrust. 69 álver séu að loka í 26 löndum aðallega í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu. Finna þurfi ný lönd til að framleiða fimm komma sjö milljón tonn af áli og horft sé til svæða sem eru veik fyrir hvað varðar efnahag og stjórnmál. Ísland væri núna skilgreint sem slíkt svæði og það ætti að vera nóg til að opna augu fólks fyrir alvarleika málsins.“

Náttúruvaktin