apr 26 2011

Gleymum ekki að Alcoa er vopnaframleiðandi – Myndband!

Forsvarsmenn Alcoa á Íslandi hafa stöðugt neitað þeim ásökunum Saving Iceland og annarra andstæðinga fyrirtækisins um vopnaframleiðslu þess og tengsl við hergagna- og stríðsiðnaðinn. Í kjölfar ummæla söngkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur sama efnis, sem hún lét falla í tengslum við Náttúrutónleika hennar og Sigur Rósar í Laugadalnum sumarið 2008, skrifaði Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, grein í Morgunblaðið þar sem hún sagði gagnrýninina á misskilningi byggða því ál sé einfaldlega „notað í nær öll farartæki undir sólinni, þar á meðal herflugvélar og bíla, geimferjur og eldflaugar.“ Erna fullyrti að Alcoa væri eingöngu álframleiðandi og hefði ekkert um framtíðarlíf áls að gera eftir að það færi úr verksmiðjum fyrirtækisins. En 30 % alls áls sem framleitt er í heiminum fer í hergagnaframleiðslu.

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, einn talsmanna Saving Iceland, svaraði Ernu með grein í Morgunblaðinu þar sem hann taldi upp nokkra af nýjustu samningum Alcoa við bandaríska herinn og vopnaframleiðendur á borð við Lockheed Martin og AM General. Síðan þá hefur Alcoa ekki sagt eitt aukatekið orð um málið og ekkert bólar á svari frá Ernu Indriðadóttur.

Í samfélagi þar sem fólk og fjölmiðlar eru meðvitað eða ómeðvitað einstaklega fljótir að gleyma verður stöðugt að minna á staðreyndirnar.

Hér fyrir neðan má sjá auglýsingamyndband frá Alcoa Defense, þess hluta fyrirtækisins sem sérhæfir sig í vopnaframleiðslu, þar sem sagt er frá framleiðslu og þróun hergagna með slíku stolti að óskiljanlegt er hvers vegna forsvarsmenn Alcoa á Íslandi reyndu til að byrja með að halda öðru fram.

Alcoa Defense – „Lighter, Faster, Stronger“ from Mind Over Media on Vimeo.

 

Lesið einnig:

Lygar og útúrsnúningar – um hergagnaframleiðslu Alcoa, grein Snorra Páls í Morgunblaðinu.

Alcoa í þjónustu bandaríska hersins í Írak, grein Einars Ólafssonar af vefnum Friður.is.

Áliðnaðurinn: Umhverfismál á heimsvísu, grein Einars Þorleifssonar og Bergs Sigurðssonar í Fréttablaðinu.

Náttúruvaktin