jún 27 2011

Íslenskt háskólasamfélag og róttækni

„Ef Íslenskt háskólasamfélag væri eitthvað í líkingu við hið bandaríska myndi maður ætla að í samtökum á borð við Saving Iceland, Attac eða No Borders væru nokkrir háskólaprófessorar,“ er meðal þess sem Magnús Sveinn Helgason segir í grein sem upphaflega birtist á Smugunni.

Í síðustu viku skrifaði Páll Vilhjálmsson arfavitlausan bloggpistil um að íslenskt háskólasamfélag einkenndist af “vinstrihjarðmennsku”, og tíndi til ýmis undarleg rök sem áttu að styðja þá skoðun. Meðal annars að íslenska háskólasamfélagið hefði gerst “þjónustustofnun fyrir atvinnulífið”, og að háskólamenn hefðu almennt dásamað útrásina og útrásarvíkinga. Og þó sérstaklega Baug.

Skrif Páls voru til komin vegna ummæla Lilju Mósesdóttur á Facebook um að ákveðin hjarðmennska einkenndi íslenska háskólamenn. Páll vildi hins vegar vera ósammála Lilju um hverskonar hjarðmennska einkenndi háskólasamfélagið.

Í þessari undarlegu “deilu” hefur Lilja hins vegar augljóslega á réttu að standa. Og reyndar Páll líka, ef maður horfir á það út frá pínulítið öðru sjónarhorni.

Róttækniskortur íslenska háskólasamfélagsins

Það er nefnilega ótrúlega lítið um raunverulega róttækni meðal íslenskra háskólaborgara, og í mikilvægum eða viðkvæmum málum virðist íslenska háskólasamfélagið eða íslenskir háskólaborgarar lítt viljugir til að taka róttæka afstöðu sem gengur þvert á ríkjandi viðhorf, sem ógna stöðugleika, “the status quo” eða “the powers that be”. Fyrir hvern þann sem fylgist eitthvað með pólítískri umræðu, t.d. í bandarísku háskólasamfélagi, er sláandi hversu hógværar og varkárar stjórnmálaskoðanir íslenskra háskólamanna eru.

Páll virðist hafa komið auga á þetta þegar hann nefnir t.d. afstöðu manna til Icesave og útrásarinnar: Í báðum tilfellum tók háskólasamfélagið furðulega lítið gagnrýna afstöðu. Gagnrýni á útrásina var lítil og afstaðan til Icesave einkenndist af varkárni þess sem vill semja – ekki róttækni þess sem er tilbúinn til að segja hinu alþjóðlega fjármálakerfi stríð á hendur, þess sem er tilbúinn til að taka þá áhættu sem felst í róttækri, jafnvel byltingarkenndri afstöðu.

Það merkilega við pistil Páls Vilhjálmssonar er nefnilega að það er marg rétt í honum – kannski flest – nema auðvitað aðalatriðið, það að þetta undarlega ástand sem ríkir í akademíunni sé til marks um “vinstrimennsku”. Kannski er hægt að fyrirgefa Páli, því hér á landi hefur eina róttæknin sem hefur viðgengist eða fengið einhvern hljómgrunn, verið frá hægri. Gott dæmi er Icesave: Hér á landi voru það hægrimenn sem tóku forystuna í báráttunni gegn Icesave. AMX og Vefþjóðviljinn. Sem er dálítið makalaust – þar með voru róttækir hægrimenn orðnir helstu talsmenn þess að Íslendingar neituðu að samþykkja leikreglur hins alþjóðlega fjármálakerfis. Þessi afstaða íslenskra hægrimanna er þeim mun merkilegri þegar haft er í huga að róttækir vinstrimenn í Evrópu fögnuðu allir ákvörðun Íslendinga að hafna Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mótmælendur í Grikklandi og á Spáni túlkuðu þá ákvörðun sem uppreisn íslenskrar alþýðu gegn heimskapítalismanum. En einhverra hluta vegna var það hægriarmur Sjálfstæðisflokksins sem leiddi þessa alþýðuppreisn.

Þetta er skrýtið. Og mig grunar að það sé þetta sem bæði Lilja og Páll eru að glíma við.

Almennur róttækniskortur eða miðjuhjarðmennska?

Í bandarískum hug- og félagsvísindadeildum má ganga að því sem vísu að finna nokkra, alla vegana einn eða tvo alvöru Marxista (fleiri í greinum eins og sagnfræði, American Studies eða kynjafræði) auk stórs hóps róttækra femínista og sósíalista, hóp eldheitra and-nýlendusinna og harðra friðarsinna. Og bandarískir akademíkerar og háskólakennarar leggja margir hverjir mikið upp úr því að taka virkan þátt í pólítískum aktívisma. Ekki stjórnmálastarfi og biðraðastöðu innan flokkanna, heldur grasrótaraktívisma. Ef Íslenskt háskólasamfélag væri eitthvað í líkingu við hið bandaríska myndi maður ætla að í samtökum á borð við Saving Iceland, Attac eða No Borders væru nokkrir háskólaprófessorar.

Það er auðvitað töluvert af vinstrimönnum í háskólasamfélaginu. En mig grunar að ólíkt mörgum bandarískum kollegum sínum skilgreini þeir sig frekar sem hófsama sósíaldemókrata en róttæklinga. En þeir hafa sig ekki sérstaklega mikið í frammi, og sérstaklega ekki þegar kemur að viðkvæmum stórpólítískum málum eins og t.d. útrásinni, nú, eða Icesave. Ef marka má Hannes Hólmstein Gissurarson virðast róttækir hægrimenn innan háskólasamfélagsins ekki jafn hræddir við að tjá sig.

Ég er ekki að segja að það þurfi allir háskólaprófessorar að vera á kafi í aktívisma. Alls ekki. Menn eru ólíkir, og meðan sumir brenna fyrir samfélagsbreytingum hafa aðrir áhuga á frímerkjasöfnun. En þetta er engu að síður staðreynd: Það er ekki mikið um róttækan pólítískan aktívisma eða róttækar pólítískar skoðanir í íslenskri akademíu.

Hvað veldur?

Það eru ábyggilega margar ástæður fyrir þessu ástandi.

Flestir íslenskir háskólakennarar eru störfum hlaðnir og það er vandséð að þeir hafi tíma til að skipuleggja aðgerðir og pólítískar uppákomur. Tími manna fer að mestu í kennslu, og sá litli tími sem er aflögu fer í stjórnun og fundasetu, og sá tími sem er þá aflögu fer í eigin rannsóknir. Kennsluskylda bandarískra háskólaprófessora við rannsóknarháskóla er vanalega minni, þeir hafa aðstoðarmenn sem sjá um yfirlestur prófa og ritgerða, skrifstofustarfsmenn sem sjá um ljósritun og aðgang að alvöru styrkjasjóðum sem gera þeim kleift að stunda rannsóknir. Og fyrir vikið geta þeir líka stundað einhvern aktívisma.

En það er ekki hægt að skýra skortinn á róttækri vinstrimennsku meðal íslenskra háskólaborgara með þessu einu – það þarf að horfa líka til stofnanamenningar háskólans og íslensks háskólasamfélags: Það er frekar veik hefð fyrir róttækri pólítík meðal háskólaprófessora. Sögulega eru þeir hluti íslenska embættismannakerfisins og háskólinn ein mikilvægasta stofnun samfélagsins, eins og Þjóðkirkjan eða Alþingi, frekar en að vera einhverskonar uppspretta þjóðfélagslegs andófs og andstöðu við aðrar stofnanir samfélagsins.

Sögulega var lítill ef nokkur munur á stétt íslenskra menntamanna og embættismanna, og menn fóru í háskóla til þess að undirbúa sig fyrir opinber embættisstörf. Háskóli Íslands var stofnaður með sameiningu þriggja embættismannaskóla, prestaskólans, lagaskólans og læknaskólans – og var til að byrja með til húsa í Alþingishúsinu. Tengsl embættismannakerfisins og háskólans var því nokkuð augljós. Og þó það hafi verið heimspekideild í hinum nýstofnaða háskóla var enginn nemandi skráður í heimspeki fyrsta árið.

Hvernig sem á því stendur hafa þessi tengsl að mestu haldist til okkar daga, né virðist hafa myndast nein varanleg hefð fyrir því að litið sé á háskólann, eða háskólana, sem aðhald við valdhafa.

Ég er hreinlega ekki nógu vel að mér í félags og menningarsögu íslenska háskólasamfélagsins til að geta mér til um hver ástæðan fyrir þessu sé. En hver sem skýringin er þá er sláandi hversu lítið er af andófi eða róttækni í íslensku háskólasamfélagi. Og það virðist sem þessi einkenni hafi orðið meira áberandi á síðustu tveimur áratugum ef eitthvað er. Tal um mikilvægi þess að tengsl háskólanna og atvinnulífsins yrðu efld hefur líklega ekki orðið til að ýta undir róttækni eða gagnrýni á stjórnvöld, efnahagsstefnu þeirra, atvinnulífið eða ríkjandi þjóðskipulag almennt.

Þetta er enn meira sláandi þegar íslenskt háskólasamfélag er borið saman við það sem gengur og gerist í öðrum löndum. Og mig grunar að ef íslenskt háskólasamfélag vilji komast í röð þeirra bestu í heimi gæti þurft að bæta úr þessu. Íslenskir háskólaborgarar mega alveg vera tilbúnir til að taka róttækari og gagnrýnni afstöðu til ríkjandi þjóðskipulags, stjórnvalda og atvinnulífsins. Slík gagnrýni myndi bæði vera af hinu góða fyrir háskólasamfélagið, en ekki síður fyrir íslenska þjóðfélagsumræðu almennt.

Náttúruvaktin