jún 05 2011

Tugir manns rífa upp erfðabreyttar kartöflur

Róstur.org

Þann 29.maí hlupu tugir aktívista úr hreyfingunni Belgian Field Liberation Movement inn á tilraunareit í bænum Wetteren í Belgíu og náðu að rífa upp erfðabreyttar kartöflur og planta heilbrigðum í þeirra stað. Erfðabreytingar á plöntum eru bannaðar á svæðinu og braut því flæmska héraðsstjórnin gegn banninu. Tilraunastarfsemin er á vegum háskólans í Gent og eiturefnafyrirtækisins BASF. Tilraunastarfssemin ber heitið DURPH-potato og hefur kartaflan verið hönnuð til að verjast svokallaðari phytophtora veiki í kartöflum.

Áður en aðgerðin hófst höfðu m.a. bændur, íbúar, aktívistar og prófessorar skipulagt viðburð sem samanstóð af bændamarkaði, fræ-skiptum, tónleikum og umræðuvettvangi um erfðabreyttar kartöflur. FLM tilkynnti fyrir viðburðinn að friðsöm aðgerð í anda borgaralegrar óhlýðni myndi eiga sér stað klukkan 14:00. Tilraunareiturinn var umkringdur alvopnuðum lögreglumönnum sem mættu fólkinu með hörku og þyrlur svifu yfir svæðinu á meðan aðgerðinni stóð. Alls 400 manns tóku þátt í viðburðinum og hluti þeirra komst inn á reitinn. Alls 40 manns voru handteknir af lögreglunni. Ein aðstandenda viðburðarins sagði í viðtali við Róstur að eftirskjálftarnir af aðgerðinni hafi verið miklir og fjölmiðlar fjallað um aðgerðina sem hryðjuverk og þátttakendur sem eco-talíbana. Nokkrum dögum síðar missti prófessor við vísindadeild Háskólans í Louvain starfið fyrir að gagnrýna tilraunastarfssemina og vera viðstödd á bændamarkaðnum.

Rétt eins og á Íslandi þá er varrúðarreglan virt að vettugi þegar útiræktun á erfðabreyttum plöntum er hrint í framkvæmd en í niðurstöðum Ríó-ráðstefnunarinnar var viðurkennt það sjónarmið að náttúran skuli að jafnaði njóta vafans:

Í því skyni að vernda umhverfið skulu ríki í ríkum mæli beita varúðarreglunni eftir því sem þau hafa getu til. Skorti á vísindalegri fullvissu, þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, skal ekki beitt sem rökum til þess að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll.

Þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir vísindamanna sem ekki tengjast GMO iðnaðinum, aktívista, bænda og áhugamanna um óerfðabreytta náttúru þá halda yfirvöld áfram að gefa út leyfi fyrir tilraunarækt utandyra. í júní 2009 veitti umhverfisstofnun ORF leyfi til útiræktunar á byggi sem framleiðir prótín sem nota á í snyrtivörur. Innan Evrópu var þetta þriðja leyfið sem veitt hefur verið til tilraunaræktunar utandyra á erfðabreyttum plöntum sem nota á í snyrtivöru- og lyfjaiðnaðinn. Tilraunareitirnir eru að öllu jafna mjög litlir því eingöngu er um tilraunaræktun að ræða. Í tilfelli ORF var ekki um lítinn tilraunareit að ræða heldur 20 hektara og því skal það kallað sína rétta nafni framleiðsla. Hákon Már Oddson hrakti ummæli Eiríks Steingrímssonar prófessors við Læknadeild HÍ í Kastljósi stuttu eftir leyfisveitinguna sem fékk óáreittur að tala um skaðleysi erfðabreytinga og „misskilning“ fólks á málinu. Hann var ekki spurður út í andmæli kollega sinna innan Háskólans og fullyrti ranglega að allir hefðu verið sammála.

Það þarf ekki að leita lengi að upplýsingum um mögulega skaðsemi erfðabreyttra plantna á náttúruna ef víxl-frjóvgun á sér stað. ORF fullyrðir að víxl-frjóvgun geti ekki átt sér stað vegna litningasamsetningu tegundarinnar. Lyfjabyggið er tvílitnunga en all flestar plöntur sem bygg getur frjóvgast við er fjöllitnunga. ORF gerði rannsókn í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem athugað voru líkur á frjóvgun tvílitna byggsins og þess sem notað er til matvælaframleiðslu. Úrtakið voru 750 þús plöntur og fannst enginn kynblendingur meðal þeirra að sögn ORF. Dr. Kesara Jónsson gerði athugasemd við þessa rannsókn og nefndi að rannsóknin hefði verið takmörkuð og m.a. ekki athugað frjóvgun lyfjabyggsins við melgresi sem gerist reglulega í náttúrunni. Forstjóri rannsóknarstofnun landbúnaðarins sem hafði yfirumsjón með rannsókninni er einnig stjórnarformaður ORF sem gerir hann varla hæfan til að stýra slíkri rannsókn.

Í annarri umsögn var nefnt að fræin berist ekki lengra en 35 metra út fyrir tilraunareitinn með vindi og segir að það verði ekki hjá því komist að fuglar borði fræin og beri þau með sér annað. Fundist hafa erfðabreytt gen í botnfalli, jarðvegi og vatni áar í allt að 82km fjarlægð frá ræktunarstað. Með öðrum orðum þá er ekki hægt að hafa neina stjórn á útbreiðslu fræjanna í náttúrunni svo lengi sem fuglar hafi aðgang að akrinum.

Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF ,sagði í erindi sínu á kynningarfundi umhverfisstofnunar í aðdraganda leyfisveitingarinnar að lyfjabyggið hefði ekki verið prófað á músum, enda “óþarft vegna þekkingar sinnar á líffræði”. Erlendar rannsóknir hafa þó sýnt að erfðabreyttar lyfjaplöntur sem hafa verið prófaðar á músum orsökuðu ofnæmisviðbrögð, magasár, bilanir í hjarta og nýrum. Í nýlegu samstarfsverkefni vísíndamanna úr þremur háskólum í Frakklandi sýna rannsóknir á músum eftir að hafa neytt erfðabreytt matvæli sláandi niðurstöður. Alls voru 19 aðskildar tilraunir gerðar og í öllum þeirra komu fram miklar lifrar- og nýrnabilanir.

Í frönsku rannsókninni þá er um að ræða erfðabreytt matvæli og ORF endurtekur það sífellt að það sé allt önnur umræða en lyfjabyggið. Prótínið sem um ræðir sé ekki virkt í fræinu sjálfu og það sé að finna í öllu kjöt og mjólk. Að það sé ekki að finna í plöntum hlýtur því að vekja upp spurningar afhverju það gerist ekki af náttúrulegum ástæðum. Fullyrðing Eiríks Sigurðssonar, starfsmanns hjá ORF í Fréttablaðinu um að bygg geti ekki frjóvgast við aðrar plöntur er á skjön við erindi Dr. Kesara Jónsson sem segir það algengt að bygg geti frjóvgast við aðrar plöntutegundir þ.a.m. melgresi, sem segir einnig að það sé ekki lengur umdeilt að mismunandi tegundir geti frjóvgað hvor aðra. Afhverju gerði LBHÍ ekki rannsóknina á melgresi til að taka út þennan vafa? Útiræktun gerir fuglum kleyft að komast í fræin og að “þekking á líffræði” séu nægileg rök til að fullyrða um gang náttúrunnar í framtíðinni er ekki bara ófullnægjandi rökfærsla heldur kjánaleg.

Í ágúst 2009 fóru meðlimir hreyfingarinnar Illgresi inn á tilraunareitinn í Gunnarsholti og eyðilögðu allt byggið sem ORF hafði plantað.

Sjá einnig:

Um ræktun erfðabreytts byggs

Sabotage on an Icelandic GMP Testing Field – No Harvest this Fall

img_5715.jpgmid
37
Screen shot 2011-06-05 at 4.32.36 PM
Screen shot 2011-06-05 at 4.32.55 PM
Screen shot 2011-06-05 at 4.33.47 PM
Screen shot 2011-06-05 at 4.34.03 PM
Screen shot 2011-06-05 at 4.34.41 PM

Náttúruvaktin