des 18 2011

Þýskur þingmaður krefst óháðrar alþjóðlegrar rannsóknar á störfum Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara

Breska dagblaðið The Guardian greindi nú um helgina frá málsókn átta kvenna á hendur bresku lögreglunni í ljósi þess að þær voru gabbaðar í ástarsambönd við flugumenn lögreglunnar allt frá miðjum 9. áratug síðustu aldar til ársins 2010. Einn þessara flugumanna er Mark Kennedy en eins og margoft hefur verið fjallað um í fjölmiðlum síðasta árið ferðaðist Mark Kennedy til 22 Evrópulanda, Íslands þar á meðal, á því sjö ára tímabili sem hann starfaði sem flugumaður bresku lögreglunnar, safnaði þar upplýsingum um andófshreyfingar og notaði meðal annars ástar- og kynlífssambönd sem tæki til að nálgast upplýsingar.

Andrej Hunko, þingmaður Der Linke í Þýskalandi, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann fagnar málsókn kvennana. Segir hann störf flugumannanna brjóta í bága við 8. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til einka- og fjölskyldulífs. Þýsk og írsk yfirvöld hafa fyrir löngu viðurkennt að hafa haft vitneskju um störf Kennedy og átt í samstarfi við hann á meðan hann starfði sem flugumaður. Kennedy sagði sjálfur eftirfarandi í viðtali við breska blaðið Daily Mail: „Ég fór aldrei til útlanda nema með leyfi frá yfirmönnum mínum og lögreglunni á staðnum.“

Í yfirlýsingu Hunko, sem meðal annars hefur verið birt á vefsíðu Saving Iceland, segir að nauðsynlegt sé að setja á fót óháða og alþjóðlega rannsókn á máli Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara sem plantað hefur verið í andófshópa um víða veröld. Þannig megi komast að hinu sanna um störf flugumanna í löndum á borð við Ísland, Ítalíu, Frakkland, Írland, Bandaríkin og Þýskaland. Áður en slík rannsókn fari fram þurfi hins vegar ítarlegar rannsóknir að eiga sér stað í þeim löndum sem Kennedy og aðrir flugumenn hafa starfað. Það þurfi bresk stjórnvöld að samþykkja.

Eins og kunnugt er óskaði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, eftir rannsókn á vitneskju og samstarfi íslenskra lögregluyfirvalda við Mark Kennedy í tengslum við njósnir hans á Saving Iceland hreyfingunni, meðal annars í mótmælabúðum á Kárahnjúkum sumarið 2005. Fátt var um efnisleg svör hjá Ríkislögreglustjóra og var því til stuðnings helst vitnað til þagnarskyldu íslensku lögreglunnar gagnvart þeirri bresku. Tók Ögmundur undir þann útúrsnúning. Eins og Hunko bendir á þarf að aflétta þeirri þagnarskyldu svo sannleikurinn megi koma í ljós.

_________________________________

Sjá nánar:

Frétt Guardian af málsókn kvennanna
Yfirlýsing Saving Iceland um veru og störf Mark Kennedy innan hreyfingarinnar
Yfirlýsing Saving Iceland um skýrslu Ríkislögreglustjóra

 

Náttúruvaktin