'Þeistareikir' Tag Archive

nóv 03 2011

Ómerkilegur útúrsnúningur iðnaðarráðherra


Sigmundur Einarsson

Í fréttum af fundi um atvinnumál á Húsavík í gær sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra að það væri ekki sitt hlutverk að segja frá fyrirætlunum stórfyrirtækja. Þessi ómerkilegi útúrsnúningur er dæmigerður fyrir framkomu yfirmanna orkumála hér á landi síðustu misserin. Þar á bæ hefur lengi vantað hugrekki til að segja sannleikann umbúðalaust.

Sannleikurinn hentar ekki

Nú eru liðin rúmlega tvö ár síðan ég skrifaði grein hér í Smuguna (og á Saving Iceland, ritstj.) um „Hinar miklu orkulindir Íslands.“ Tilefni þeirra skrifa voru síendurteknar yfirlýsingar ýmissa þingmanna, sveitastjórnarmanna og frammámanna í atvinnulífi þess efnis að styrkur Íslands lægi í auðlindum þjóðarinnar, ekki síst gríðarlegri orku í jarðhitasvæðum landsins. Þessir spámenn lýstu því ítrekað yfir að það eina sem virkilega gæti bjargað íslenskri þjóð frá ævarandi örbirgð væru nýjar virkjanir og álbræðslur. Mér ofbauð þessi málflutningur og vildi fá fram málefnalega umfjöllun. Ég lagði töluverða vinnu í að taka saman grein um málið. En viti menn. Viðbrögð voru sáralítil. Orkustofnun og iðnaðarráðuneyti þögðu þunnu hljóði. Nokkrir andmæltu mér opinberlega, einkum „sérfræðingar“ sem áttu að vita betur. Vandinn er nefnilega sá að „sérfræðingar“ okkar í orkumálum hafa nær allir beinan eða óbeinan hag af aukinni orkuvinnslu. Sannleikurinn reyndist hvorki henta sérfæðingunum né „frammámönnum“ í atvinnulífi. Read More

ágú 26 2011

Rammaáætlun með alvarlegum annmörkum


Hjörleifur Guttormsson

Árið 1989 samþykkti Alþingi eftirfarandi um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða:„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Drög að slíkri áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar fyrir árslok 1990 og áætlunin fullbúin til staðfestingar síðar.“

 

Í greinargerð með tillögunni sagði m.a.: „Með slíkri vinnuaðferð væri tryggt að ekki sé verið að verja fjármagni til rannsókna í þágu orkuvinnslu á svæðum sem vilji er til að varðveita sem lengst í náttúrulegu horfi og jafnframt væru síður líkur á hagsmunaárekstrum og hatrömmum deilum sem dæmi eru um hérlendis. Í þessu sambandi má vísa til reynslu Norðmanna þar sem norska Stórþingið hefur friðlýst fjölmörg vatnsföll, sumpart um takmarkaðan tíma.“ Read More

júl 16 2010

Þeistareykir – forsagan


Þeistareikir

Sigmundur Einarsson – jarðfræðingur

Þann 30. apríl sl. lagði orkufyrirtækið Þeistareykir ehf., sem nú mun að fullu í eigu Landsvirkjunar, fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegna byggingar allt að 200 MWe jarðvarmaorkuvers á Þeistareykjum. Skýrslan nær jafnframt yfir mat á umhverfisáhrifum vegar milli Húsavíkur og virkjunarsvæðisins. Þennan sama dag voru lagðar fram fimm stórar frummatsskýrslur um fyrirhugaða orkuvinnslu og stóriðju á Norðausturlandi samtals tæplega 1100 bls. auk fjölda viðauka. Það gefur auga leið að það er ekki hægt að ætla nokkrum manni eða frjálsum félagasamtökum að rýna í málin í frítíma á þeim sex vikum sem ætlaðar voru til athugasemda skv. lögum. Frestur til að gera athugasemdir við skýrslurnar fimm rann úr 14. júní sl.
Við skoðun á skýrslunni um Þeistareyki koma ótrúlegustu hlutir í ljós. Reyndar hef ég ekki komið á svæðið eftir útkomu skýrslunnar og hef því ekki getað skoðað ýmislegt sem ástæða væri til að kanna sérstaklega, s.s. nýtt vegstæði, ný námusvæði, helstu mannvirkjasvæði og síðast en ekki síst heildarsamhengi framkvæmdarinnar. Ég ætla samt að reyna að fara í gegnum helstu þætti málsins í nokkrum áföngum þannig að áhugasamir geti kynnst minni sýn á það, en hún er nokkuð önnur en sýn framkvæmdaraðilans og sveitarfélagsins sem ber ábyrgð á skipulagi á svæðinu.

Read More

Náttúruvaktin