'Jarðhiti' Tag Archive

apr 04 2013

Krýsuvík — Náttúrufórnir í fólkvangi


Saving Iceland bendir lesendum sínum á nýja heimildamynd Ellerts Grétarssonar, Krýsuvík — Náttúrufórnir í fólkvangi, sem forsýnd var í byrjun þessa árs og hefur nú verið gerð öllum aðgengileg á netinu.

Um myndina segir:

Krýsuvík er innan Reykjanesfólkvangs og er eitt vinsælasta útivistarsvæðið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Til stendur að fórna þessu svæði undir orkuvinnslu sem hafa mun gríðarleg áhrif á ásýnd þessarar náttúruperlu og um leið eyðileggja gildi hennar fyrir útivist og ferðamennsku.

Í þessari heimildamynd Ellerts Grétarssonar, náttúruljósmyndara, er fjallað um Krýsuvíkursvæðið, sögu þess og jarðfræði. Varpað er ljósi á þau virkjanaáform sem uppi eru á svæðinu og hvaða áhrif þau munu hafa.

Ellert hefur ljósmyndað svæðið á ótal gönguferðum sínum undanfarin ár og kynnt sér vel náttúru þess. Í myndinni er brugðið upp fjölda mynda Ellerts af náttúruperlum svæðisins, sagt frá vinsælum gönguleiðum og fleiru áhugaverðu.

Sjá einnig ítarlega úttekt Saving Iceland á áhrifum fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Reykjanesinu hér og umfjöllun um umhverfis- og heilsufarsáhrif jarðhitavirkjunarinnar á Hellisheiði hér.

maí 27 2012

Endurnýjanlegir orkugjafar en ósjálfbær nýting


Í apríl sl. kynntu umhverfis- og iðnaðarráðherra þingsályktunartillögu fyrir Rammaáætlun um vernd og virkjun jarðhita og vatnsafls á Íslandi. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að hinar umdeildu áætlanir Landsvirkjunar um byggingu þriggja virkjana í neðri Þjórsá verði settar í bið, en aftur á móti að hin einstöku jarðhitasvæði Reykjanesskagans verði virkjuð nánast öll sem eitt og svæðinu þar með breytt í samfellt iðnaðarsvæði. Síðustu vikur hefur tillagan verið í höndum Atvinnuvegarnefndar Alþingis, í ferli sem innihélt umsagnarferli þar sem meira en 300 umsagnir voru sendar inn af einstaklingum, félagasamtökum, stofnunum og fyrirtækjum.

Umsögnunum má í grófum dráttum skipta í tvennt eftir þeim sem þær senda og þau viðhorf sem í þeim birtast: Annars vegar er um að ræða einstaklinga og náttúruverndarsamtök sem fyrst og fremst mótmæla fyrrgreindum áætlunum um gjöreyðileggingu Reykjanesskagans; hins vegar er um að ræða fyrirtæki og stofnanir sem hafa beina hagsmuni af frekari stóriðjuvæðingu Íslands og krefjast þess að Rammaáætlun gangi í gegnum þingið óbreytt frá því að 2. áfangi starfshópa áætlunarinnar var kynntur á síðasta ári, en í honum var gert ráð fyrir virkjunum í Þjórsá sem og fleiri vatnsaflsvirkjunum sem ekki eru í þingsályktunartillögunni.

Ein af umsögnunum sker sig þó frá þessum hópum þar sem í henni er fjallað um orkuframleiðslu og náttúruvernd í stærra og lengri tíma samhengi. Saving Iceland birtir hér umsögnina sem skrifuð var af og send inn af Helgu Katrínu Tryggvadóttur, þróunarfræðingi og íbúa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Ég, undirrituð, finn mig knúna til að gera nokkrar athugasemdir í tilefni af umræðu Atvinnuveganefndar um rammaáætlun. Athugasemdir mínar snúa ekki að einstökum svæðum heldur af heildarhugmyndum um umfang og eðli verndar og nýtingar náttúrusvæða. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrst var farið af stað með rammaáætlun og fer þekkingu og rannsóknum á orkunýtingu og náttúruvernd sífellt fram. Breytingar á samfélagsmynstri og viðhorfi fólks til náttúruverndar hafa einnig verið miklar síðan fyrstu drög að rammáætlun voru sett fram, þar sem áherslan á verndun náttúrusvæða verður sífellt háværari. Með þetta í huga er nauðsynlegt að taka tillit til þess að áhersla á náttúruvernd sé líkleg til að aukast enn fremur á komandi árum, og því er nauðsynlegt fyrir Atvinnumálanefnd að huga að því að þó einhver svæði séu sett í biðflokk, þá útilokar það ekki nýtingu síðar. Verði svæði hins vegar nýtt nú þegar er ekki hægt að vernda þau eftir á. Read More

apr 29 2012

Ályktun Náttúruverndarþings 2012 um þingsályktunartillögu að áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða


Náttúruverndarþing 2012 tekur eindregið undir umsögn þrettán náttúruverndarfélaga um drög að tillögu um rammaáætlun sem send var iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra 11. nóvember 2011. Þingið fagnar því að allmörg verðmæt svæði, sem löngu var tímabært að friðlýsa, hafa samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu verið sett í verndarflokk. Nokkur önnur svæði, þar á meðal tengd Neðri-Þjórsá, Skrokköldu og Hágöngum hafa réttilega verið færð úr nýtingu í biðflokk. Náttúruverndarþing leggur ríka áherslu á að miðhálendi Íslands í heild verði um alla framtíð friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum eins og ríkur stuðningur er við hjá stórum hluta landsmanna. Þá er því fagnað að tillagan gerir ráð fyrir eflingu á starfsemi á verksviði friðlýsinga.

Þrátt fyrir jákvæða þætti í þingsályktunartillögunni um rammaáætlun gerir Náttúruverndarþing 2012  alvarlegar athugasemdir við eftirtalið:

  • Náttúruverndarþing gagnrýnir harðlega fyrirliggjandi tillögur um Reykjanesskaga þar sem flest jarðhitasvæði frá Krísuvík og vestur úr eru sett í nýtingarflokk. Þingið telur virkjanir í Reykjanesfólkvangi óásættanlegar. Með því er m.a. gengið gegn áformum um að vernda fólkvanginn og stofna þar eldfjallaþjóðgarð, en náttúruverndarhreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar hafa áður bent á þau ríku tækifæri sem í því felast. Jarðfræði Reykjanesskagans er einstök á heimsvísu og upplifunargildi lítt snortinnar náttúru á stórum svæðum í næsta nágrenni höfuðborgarinnar er hátt. Samkvæmt ábendingum faghóps II um rammaáætlun hafa verðmæti lítt snortinna svæða í nágrenni höfuðborgarinnar að öllum líkindum verið vanmetin fyrir útivist og ferðaþjónustu. Náttúruverndarþing 2012 krefst þess að Alþingi endurskoði þennan þátt áætlunarinnar og færi hið minnsta Sveifluháls í Krísuvík, Sandfell sunnan Keilis, Stóru-Sandvík og Eldvörp í bið- eða verndarflokk.
  • Óvissa ríkir um endingu jarðvarmans sem auðlindar og um marga þætti sem tengjast beislun hans, auk umhverfis- og heilsufarsáhrifa, eins og vísindamenn hafa ítrekað bent á. Því ber að gæta varúðar í jarðvarmanýtingu, sérstaklega til raforkuframleiðslu. Fjölga ætti til muna jarðhitasvæðum í biðflokki á meðan frekari upplýsinga er aflað. Þetta á m.a. við um fyrirhugaða jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og á Norðausturlandi, t.d. í Bjarnarflagi. Hafa ber í huga að þegar hefur 9 af 19 sýnilegum háhitasvæðum verið raskað með nýtingu eða rannsóknaborunum.
  • Þingið telur að svæði með afar hátt náttúruverndargildi eins og vatnasvið Jökulsánna í Skagafirði og vatnasvið Hólmsár og Skaftár í Skaftárhreppi ættu að færast úr biðflokki í verndarflokk og vísa til rökstuðnings í niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
  • Náttúruverndarþing beinir því til Alþingis að það færi forræði yfir efnislegri meðferð þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða frá atvinnuveganefnd Alþingis til umhverfis- og samgöngunefndar.

des 20 2011

Er HS Orka á heljarþröm?


Sigmundur Einarsson jarðfræðingur

Þann 23. apríl 2007 samdi HS Orka við Norðurál um sölu á 150 MW af raforku til álbræðslu í Helguvík. Samkvæmt forstjóra HS Orku eru ýmsir fyrirvarar í samningnum m.a. um arðsemi virkjana, umhverfismat, árangur af borunum, samkomulag við viðkomandi sveitarfélög og samninga við Landsnet um flutning orkunnar. Þegar ekkert bólaði á orkunni tveimur árum eftir undirritun var fyrirvörunum aflétt (30. júní 2009) og ári síðar (júlí 2010) stefndi Norðurál HS Orku fyrir vanefndir á samningum. Þá var kominn júlí 2010, þrjú ár liðin frá undirritun og ekkert hafði gerst í orkuöflun. Af einhverjum ástæðum sem mér eru ókunnar endaði málið hjá sænskum gerðardómi sem nú hefur fellt þann úrskurð að HS Orku sé skylt að afhenda Norðuráli þessi 150 MW.

Og nú gleðjast Suðurnesjamenn væntanlega því forstjóri Norðuráls segir að bræðslan geti tekið til starfa árið 2014. Þetta er loksins alveg að koma en það hefur reyndar heyrst oft áður. Ætli einhver vandamál hafi verið leyst? Hver skyldi vera orsökin fyrir þeim töfum sem orðið hafa?

Lengi framan af var umhverfisráðherra talinn sá erkióvinur sem gerði allt sem hægt var til að tefja verkið. Seinna var ríkisstjórnin í heild orðin að höfuðóvini. Um tíma féllu þung orð í garð Orkustofnunar vegna „bábilju og forsjárhyggju“ en síðustu misserin hefur m.a. staðið á skipulagsvinnu af hálfu sveitarfélaganna Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Nú allra síðast hefur dregist að fá niðurstöðu frá gerðardómi í Svíþjóð vegna ágreinings um orkuverð. En nú er niðurstaðan komin. Ágreiningurinn reyndist vera annað og meira en orkuverðið. HS Orka vildi greinilega losna undan samningum í heild vegna þess að fyrirtækið getur alls ekki útvegað orkuna. Þetta hefur í reynd legið fyrir frá upphafi og samningurinn við Norðurál er með slíkum ólíkindum að vinnubrögðin hljóta að teljast í meira lagi ámælisverð ef samningurinn stendur. Read More

nóv 03 2011

Ómerkilegur útúrsnúningur iðnaðarráðherra


Sigmundur Einarsson

Í fréttum af fundi um atvinnumál á Húsavík í gær sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra að það væri ekki sitt hlutverk að segja frá fyrirætlunum stórfyrirtækja. Þessi ómerkilegi útúrsnúningur er dæmigerður fyrir framkomu yfirmanna orkumála hér á landi síðustu misserin. Þar á bæ hefur lengi vantað hugrekki til að segja sannleikann umbúðalaust.

Sannleikurinn hentar ekki

Nú eru liðin rúmlega tvö ár síðan ég skrifaði grein hér í Smuguna (og á Saving Iceland, ritstj.) um „Hinar miklu orkulindir Íslands.“ Tilefni þeirra skrifa voru síendurteknar yfirlýsingar ýmissa þingmanna, sveitastjórnarmanna og frammámanna í atvinnulífi þess efnis að styrkur Íslands lægi í auðlindum þjóðarinnar, ekki síst gríðarlegri orku í jarðhitasvæðum landsins. Þessir spámenn lýstu því ítrekað yfir að það eina sem virkilega gæti bjargað íslenskri þjóð frá ævarandi örbirgð væru nýjar virkjanir og álbræðslur. Mér ofbauð þessi málflutningur og vildi fá fram málefnalega umfjöllun. Ég lagði töluverða vinnu í að taka saman grein um málið. En viti menn. Viðbrögð voru sáralítil. Orkustofnun og iðnaðarráðuneyti þögðu þunnu hljóði. Nokkrir andmæltu mér opinberlega, einkum „sérfræðingar“ sem áttu að vita betur. Vandinn er nefnilega sá að „sérfræðingar“ okkar í orkumálum hafa nær allir beinan eða óbeinan hag af aukinni orkuvinnslu. Sannleikurinn reyndist hvorki henta sérfæðingunum né „frammámönnum“ í atvinnulífi. Read More

ágú 26 2011

Rammaáætlun með alvarlegum annmörkum


Hjörleifur Guttormsson

Árið 1989 samþykkti Alþingi eftirfarandi um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða:„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Drög að slíkri áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar fyrir árslok 1990 og áætlunin fullbúin til staðfestingar síðar.“

 

Í greinargerð með tillögunni sagði m.a.: „Með slíkri vinnuaðferð væri tryggt að ekki sé verið að verja fjármagni til rannsókna í þágu orkuvinnslu á svæðum sem vilji er til að varðveita sem lengst í náttúrulegu horfi og jafnframt væru síður líkur á hagsmunaárekstrum og hatrömmum deilum sem dæmi eru um hérlendis. Í þessu sambandi má vísa til reynslu Norðmanna þar sem norska Stórþingið hefur friðlýst fjölmörg vatnsföll, sumpart um takmarkaðan tíma.“ Read More

sep 16 2010

Í landi hinna klikkuðu karlmanna


Andri Snær Magnason

Það er einsdæmi í veröldinni að þjóð drekki fyrirtækjum sínum í skuldir til þess að tvöfalda orkuframleiðslu og tvöfalda hana aftur með tilheyrandi raski, segir Andri Snær Magnason í grein um græðgi og geðveiki. Það eru til mælikvarðar á alla hluti. Yfirleitt skynjum við í okkar daglega lífi hvað er eðlilegt og hvað er yfirgengilegt.

Það eru til mælikvarðar á alla hluti. Yfirleitt skynjum við í okkar daglega lífi hvað er eðlilegt og hvað er yfirgengilegt. Stundum blindar umræðan okkur og þá getur verið ágætt að prófa að tala um hlutina á útlensku til að sjá þá í nýju ljósi. Prófið til dæmis að segja einhverjum að hér hafi einn ríkisbanki verið seldur með láni frá hinum ríkisbankanum og öfugt. Þannig hafi þeir verið afhentir mönnum nátengdum ríkjandi stjórnmálaflokkum. Framkvæmdastjóri annars flokksins varð formaður bankaráðs í öðrum bankanum á meðan fyrrverandi viðskiptaráðherra hins flokksins var einn þeirra sem fékk hinn bankann. Sá maður hafði aðgang að öllum upplýsingum um stöðu bankans. Í millitíðinni varð þessi fyrrverandi viðskiptaráðherra hins vegar seðlabankastjóri. Hann flaug til Ameríku og gerði Alcoa tilboð sem fyrirtækið gat ekki hafnað. Þannig var hann búinn að tryggja mestu stórframkvæmdir Íslandssögunnar og stóraukin umsvif bankans sem hann var að enda við að selja sjálfum sér. Read More

sep 29 2008

Hræsni?


Eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, upphaflega birt í Morgunblaðinu

„Veistu að hjólastólinn þinn er úr áli?“ sagði lögregluþjónn við einn þeirra sem stöðvuðu vinnu í Helguvík í sumar. Hann kaffærði rök álversandstæðinga fyrir fullt og allt, er það ekki? Eftir að grein Jakobs Björnssonar um Björk Guðmundsdótur og álnotkun hennar birtist í Morgunblaðinu tók ritstjórn blaðsins sig til og skrifaði Staksteina þar sem sagt er að flestir álversandstæðingar séu líklega ekki samkvæmir sjálfum sér. Flestir noti þeir ál dags daglega og meira að segja Saving Iceland eldi í álpottum og noti álstangir til að halda uppi tjöldum sínum. „Hræsni,“ sagði Mogginn.

Þessi gagnrýni er ekki ný. Hún hefur markvisst verið notuð gegn þeim sem eru mótfallnir frekari uppbyggingu stóriðju hér á landi, eyðileggingu íslenskrar náttúru fyrir orkuframleiðslu og vistkerfa út um allan heim vegna báxítgraftar, og orkusölu til fyrirtækis sem montar sig af samstarfi sínu við bandaríska herinn. Auk þess þegar álversandstæðingar eru ásakaðir um að vilja færa íslenskt samfélag aftur til torfkofanna og byggja efnahag landsins á fjallagrasatínslu, hefur þessi gagnrýni verið sú fyrirferðarmesta. Sama hversu oft er búið að benda á þá staðreynd að a.m.k. 30% af áli eru framleidd fyrir hergagnaiðnaðinn (og þá skiptir engu hvort álfyrirtækið sjáft framleiðir vopnin eða ekki); sama hversu oft búið er að segja frá því hversu mikið ál endar sem landfylling eftir að hafa gegnt hlutverki sínu sem einnota drykkjarílát; þó búið sé að benda á samhengið milli lágs orkuverðs og þess hversu auðvelt það er fyrir okkur að framleiða ál, nota einu sinni, henda því svo og framleiða meira; ennþá er okkur sagt að við séum ekki sjálfum okkur samkvæm. Read More

Náttúruvaktin