'Kárahnjúkavirkjun' Tag Archive

apr 21 2009

Saving Iceland fagnar táknrænum skellum á stóriðjuflokkana


Ólafur Páll Sigurðsson

Saving Iceland fagnar þeim táknrænu skellum sem stóriðjuflokkarnir þrír fengu í formi græns skyrs í gærdag.

Samkvæmt öruggum heimildum Saving Iceland voru aðgerðirnar gerðar af þremur mismunandi hópum, en ekki einum, eins og háðar fréttastofur hafa talið. Saving Iceland er einnig kunnugt um að aðgerðasinnarnir séu allir Íslendingar. Þetta gefur til kynna að um sé að ræða öflugan hóp aðgerðasinna sem beitir sér gegn stóriðjustefnunni hér á landi. Saving Iceland lýsir yfir fullum stuðningi við hópinn.

Þau öfl sem standa á bakvið Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna hafa gerst sek um alvarleg landráð með stóriðjustefnu sinni. Af kosningaáróðri þeirra er ekki að ráða að flokkarnir hafi á nokkurn hátt lært þær lexíur um áhrif stóriðjuþenslu sem þeir hefðu átt að geta lært af efnahagshruninu.

Um leið og gengdarlaus græðgisvæðing þessara flokka hefur haft í för með sér gríðarlegar og óafturkræfar skemmdir á einstæðri náttúru landsins hefur þessi stefna ekki síður skaðað íslenskt samfélag. Valdníðslan og þöggunin sem beitt var í Kárahnjúkamálinu hefur nú þegar dregið mikinn dilk á eftir sér. Þessir sömu stjórnmálaflokkar og standa að baki Kárahnjúkavirkjunar ætla nú að viðhalda sömu stefnu og óþokkabrögðum í því skini að klekja á upplýstu lýðræðislegu ákvarðanaferli um nýtingu auðlinda landsins. Read More

feb 19 2009

Gjaldþrota stóriðjustefna


Hjörleifur Guttormsson

Erlend stóriðja hérlendis hefur verið afar umdeild allt frá því að samningar um álbræðslu í Staumsvík voru í undirbúningi fyrir hartnær hálfri öld. Af andstæðingum þeirra samninga var dregið í efa að þjóðhagslegur hagnaður af álbræðslunni væri sá sem látið var í veðri vaka, teflt væri á tvær hættur um orkuverð og ekki gert ráð fyrir mengunarvörnum í verksmiðjunni. Viðreisnarstjórnin svonefnda hafði þó sitt fram og Alusuisse hóf rekstur dótturfélagsins ÍSALs sem enn starfar með breyttu eignarhaldi. Um 1980 komu í ljós stórfelldir meinbugir á rekstri fyrirtækisins vegna bókhaldsfalsana og skattaundandráttar. Fékk svikamyllan heitið „hækkun í hafi“. Jafnframt blasti við að raforkuverð til álbræðslunnar stóð ekki undir framleiðslukostnaði og að óbreyttu legðist mismunurinn af vaxandi þunga á almenna raforkunotendur innanlands. Auðhringurinn sá sitt óvænna, féllst á endurskoðun samninga og tvöföldun á raforkuverði sem bjargaði hag Landsvirkjunar þá um sinn.

Bundið fyrir bæði augu

Afhjúpun svikamyllunnar í Straumsvík dugði skammt og íslensk stjórnvöld kinokuðu sér við að fara í saumana á efnahagslegum áhrifum erlendu stóriðjustefnunnar. Einn ráðherrann af öðrum gerðist talsmaður fyrir álbræðslur sem notaðar voru sem pólitísk skiptimynt og fóru stækkandi stig af stigi með tilheyrandi kröfum um stórvirkjanir og línulagnir þvers og kruss um landið. Virkjanaiðnaðurinn hérlendis varð brátt ígildi hernaðariðnaðar í stærri löndum og hjúpaður leynd þar sem orkuverðið var lýst ríkisleyndarmál og herkostnaðurinn af náttúruspjöllum í engu metinn. Read More

okt 18 2008

Úr einu ruglinu í annað


Andri Snær Magnason, Fréttablaðið – Á þessum viðsjárverðu tímum nota hagsmunaaðilar tækifærið til að ota að okkur „lausnum“ og bjargráðum. Núna felst hún í því að „aflétta öllum hömlum“ og skuldsetja opinber orkufyrirtæki sem nemur 300 til 400 milljörðum fyrir tvö til þrjú ný álver.

Þetta vilja menn gera þegar heildarskuldir OR og LV eru þegar orðnar 550 milljarðar – að mestu leyti vegna Alcoa og Norðuráls. Þetta er ástæðan fyrir því að bankarnir boðuðu alltaf stóriðjustefnu – meiri skuldir – meira stuð. Það stendur upp á álverð að endurgreiða þessi lán en álverð hríðfellur og stigi offramleiðslu er þegar náð.

Orkuverð til almennings hefur verið hækkað. Þjóðin trúir því að töfraorðið ÚTFLUTNINGSTEKJUR séu gjaldeyrir sem endar í vasa þjóðarinnar. Fréttir um útflutningstekjur og gjaldeyristekjur hafa ítrekað verið beinlínis rangar og skaðlegar.

Read More

ágú 11 2008
1 Comment

Fjöll sprengd í loft upp, eiturlyf og bleikt klósett


Jaap Krater, Iceland ReviewSem einstaklingur sem hefur nú verið virkur með Saving Iceland í nokkur ár, las ég grein grein James Weston um umfjöllun fjölmiðla um baráttu okkar og hafði gaman af. Margt af því sem hann skrifar er ekki bara fyndið, heldur einnig satt.
Fyrir mér, bendir greinin þó einnig á nokkrar sorglegar staðreyndir. Fólk situr og horfir á sjónvarpið þar sem það sér annað fólk læsa sig við vinnuvélar (samkvæmt skoðanakönnunum lítur út fyrir að flestir séu jafn vel sammála okkur um stóriðjuvæðingu landsins) og leiðist.
Read More

sep 27 2006

Álftin, ormurinn og fljótið


Gréta Ósk Sigurðardóttir

EFTIR Lagarfljóti heitir Fljótsdalur og Fljótsdalshérað eftir dalnum. Fljótið er lífæð Héraðsins og í því býr sál þess í líki Ormsins. Frá upphafi byggðar hefur það verið örlagavaldur. Halldór Laxness yrkir um ,,fljótsins dreymnu ró“. ( Helgi Hallgrímsson: LAGARFLJÓT)

Í júlí sl.var gönguhópur Augnabliks á ferð niður með Jökulsá í Fljótsdal. Áin geymir fegurstu fossaröð Íslands, nú eign ALCOA. Hún er aurminnsta jökuláin öfugt við stöllu sína Jökulsá á Brú sem er aurugust. Því varðveittist þessi einstæða fossaröð.

Gengið var niður með ánni og áð við hinn magnaða foss Faxa. Sumir gengu niður að fossinum, aðrir tóku upp nesti. Ég ráfaði eitthvað um, sá örfáar kindur framundan og þótti ein hafa æði skrýtið vaxtar- og göngulag, ekki kindarlegt. Þarna kjagaði álft með blessuðum skjátunum. Hugsaði ég ekki meir útí það en settist hjá fólkinu.

Sem við sitjum þarna þá flýgur álftin yfir, segir „gvak“ og svo rakleitt í fossinn. Þögn sló á hópinn og leitt að sjá blessaða skepnuna farast í fossinum. Veltu menn vöngum en komust ekki að niðurstöðu. Kona stóð við fossinn og sýndist henni álftin reyna að bremsa sig af áður en hún hvarf í iðuna. Þegar við héldum af stað á ný sá ég hvar álftin duggaði í ánni hinumegin við bakkann og kom í ljós að hún var lifandi og spræk. Hvar sem þessi saga var sögð þótti mönnum undrum sæta.

Mánuði seinna er ég enn á ferð þarna og er gengið upp með ánni, frá Glúmsstaðaseli. Þegar við komum að Axaránni sjáum við álftina á klettasyllu í brattri hlíðinni fast við fossinn, einsog að hún lægi á hreiðri sem var auðvitað ekki raunin. Fylgdist hún stóísk með okkur. Var þetta undarlegur staður fyrir álft að halda sig á. Sagði ég Helga Hallgrímssyni alla álftarsöguna þegar ég kom til byggða. Hann spyr hvort ég sé skyggn. Ég neita og bendi á að allir hafi séð álftina. Þá segir Helgi að sagt sé að Lagarfljótsormurinn birtist gjarnan í álftarlíki á undan stórtíðindum. Finn ég strax að skýring Helga muni rétt.

Um miðjan ágúst er ég á ný í ferð niður með ánni. Heitt er í veðri og allt eins unaðslegt og á verður kosið, geti maður gleymt því að ALCOA fékk fossana að gjöf og ætlar að múlbinda þá. Það er lenska í þessum ferðum að taka fjaðrir sem á vegi verða, aðallega gæsafjaðrir og skreyta sig með þeim. Er þá stundum sem fari þar indíánahópur! Ég leita að álftinni minni, orminum mínum, en sé hann hvergi. Þá liggur allt í einu fyrir fótum mér drifhvít álftarfjöður sem enginn hafði komið auga á. Veit ég um leið að þar eru komin skilaboð frá Orminum til mín að nú sé hann kominn í ormshaminn og því finni ég hann ekki í álftarlíki. Var ég hrærð og glöð og huggun að vita að nú sé hann kominn á vaktina að verja sitt Fljót. Ekki hafa Héraðsbúar í sér döngun að reyna að halda hlífiskildi yfir lífæð síns Héraðs, þeirri náttúruperlu og Héraðsstolti sem Fljótið er og ætti að vera. Malda þeir ekki í móinn yfir að foraðinu, Jöklu blessaðri skuli veitt milli vatnasviða, sem er skýrt lögbrot og siðlaust með öllu. Má vart á milli sjá hvort það er meiri móðgun fyrir Jöklu eða Fljótið. Það er eins rangt og hugsast getur að raska þannig jafnvægi Móður Náttúru sem veit hvað hún syngur.

En hún tekur til sinna ráða og Austfirðingar kalla hefnd hennar yfir þjóðina með því að heimta álversskrímslið, Héraðsbúar með að verja ekki sitt Hérað, ríkisstjórnin með siðspillingu og þjóðin með að fljóta sofandi að feigðarósi og vilja ekki vita hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Jökla hefnir sín með Dauðalóni (Hálslóni). Gróðri og náttúruperlum verður drekkt, dýra- og fuglalífi raskað, leirfok spillir lífsgæðum á Héraði um ókomna tíð. Lagarfljót breytist úr dulúðugu vatnsfalli í drullupoll. Ekki þarf skyggnigáfu til að sjá að Austfirðingar verða lagðir í einelti þegar fram líða stundir fyrir að heimta þennan skerf þjóðaeignarinnar með offorsi. Fari á versta veg getur orðið hamfarahlaup. Er þá ekki spurt að leikslokum.

Allt leggst á eitt um að vara okkur við að halda þessari virkjun til streitu, og enn er hægt að hætta við. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segir að ,,Kárahnjúkavirkjun … muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hafi verið sýnt fram á að annar ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu, óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin muni fyrirsjáanlega hafa…“ Alþjóð veit að Skipulagsstofnun lagðist gegn framkvæmdinni og gaf falleinkunn. Að auki er eitthvað bogið við að ekki megi tala um nýtt arðsemismat en þjóðin neydd til fjárhagslegrar ábyrgðar á framkvæmdinni. Ekki er seinna vænna að vakna til vitundar og hlusta á viðvaranir, þessa heims og annars.

Að lokum er góð ábending frá Landsvirkjun af kortinu ,,Ferðaleiðir á öræfum umhverfis Snæfell“. Þar er bent á að eyða ekki né spilla gróðri, trufla ekki fugla- og dýralíf og ekki hlaða vörður (bara stíflur!). Svo koma gullvæg orð sem ég bið þá sjálfa og alla íbúa þessa lands að íhuga: MUNIÐ AÐ ÞAÐ ER ENGIN SKÖMM AÐ ÞVÍ AÐ SNÚA VIÐ Í TÍMA.

Höfundur er bóndakona á Vaði í Skriðdal.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

ágú 05 2006

Ógnandi framkoma lögreglu


Fréttablaðið

„Mér var hótað handtöku, það voru teknar myndir af okkur í tjaldbúðunum við Snæfell, ég var krafin um að sýna ökuskírteini og það var skoðað inn í bílinn hjá mér,“ segir Hrund Ólafsdóttir sem var stödd í fjölskyldubúðum við Snæfell í grennd við virkjanasvæðið á Kárahnjúkum um síðustu helgi. „Mér er stórlega misboðið hvernig lögreglan kom þarna fram við venjulega borgara og erlenda gesti.“

Hrund segir að lögregla hafi viðhaft ógnandi framkomu við fólk sem var þarna statt til að taka þátt í friðsamlegum mótmælum og henni kom á óvart hversu margir þeir voru á svæðinu, en hún sá sjálf um það bil tíu lögregluþjóna.

„Við friðsama mótmælastöðu á landi í almenningseign kom lögregluþjónn til mín og hótaði mér handtöku ef ég færi lengra. Fólki er frjálst að vera þarna og því get ég ekki sætt mig við þessa hótun.“ Hrund segir að lögreglumenn í ómerktum bílum hafi tekið myndir af fólki og neitað að upplýsa tilganginn með því. Svo þegar Hrund var á leið burt af svæðinu var hún stöðvuð af lögreglu og krafin um ökuskírteini. „Á meðan gengu sex lögreglumenn kringum bílinn og voru að skoða inn um rúðurnar. Maður veltir fyrir sér hver það er sem borgar þessa löggæslu og hver ákveður að hafa svona marga menn á svæðinu. Mér finnst þessi framkoma lögreglunnar alveg með ólíkindum.“

okt 13 2005

Af meintri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar


Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði.

Margir hafa orðið til að gagnrýna framkvæmdir Landsvirkjunar við Kárahnjúka. Sumir gagnrýnendur telja náttúrufórnir tengdar framkvæmdinni óásættanlegar. Aðrir, þar á meðal stór hópur hagfræðinga, telja að Landsvirkjun og iðnaðarráðuneyti hafi ekki tekist að sýna fram á að ávinningur í krónum og aurum sé meiri en svari til þeirra verðmæta í krónum og aurum sem til er fórnað. Skiljanlega getur verið erfitt að sætta sjónarmið hörðustu náttúruverndarsinna annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar. Fyrirfram hefði mátt ætla að auðvelt væri að sætta sjónarmið Landsvirkjunar og hagfræðinga/viðskiptafræðinga og bankamanna. Til þess þarf aðeins að leggja fram gögn og reikna út. En þar stendur hnífur í kú. Gagnrýni hagfræðinga og bankamanna er þríþætt. Í fyrsta lagi er gagnrýnt að framkvæmdin skuli gerð í skjóli ríkisábyrgðar á lánum hennar vegna. Í öðru lagi er gagnrýnt að ekki skuli lagt mat á verðmæti allra þeirra gæða sem fórnað er í þágu virkjunarinnar. Í þriðja lagi er gagnrýnt að arðsemi virkjunarinnar sé lítil og það jafnvel þó svo sumir kostnaðarþættir séu ekki taldir með.

Forstjóri LV reynir að svara gagnrýni í Morgunblaðinu 12. sept. sl. Hann svarar fyrsta atriðinu með því að benda á að Landsvirkjun greiði ríkisábyrgðargjald af lánum. Rétt er það að hægt er að svipta LV hagræðinu af ríkisábyrgð með því að rukka nægjanlega hátt ríkisábyrgðargjald af fyrirtækinu. Í þessu sambandi má minna á að í upphafi stóð til að stofna sérstakt fyrirtæki um stórvirkjun á Austurlandi og beita svokallaðri verkefnafjármögnun. Ekki stóð til að veita því fyrirtæki ríkisábyrgð á lánum. Horfið var frá þessum áformum um verkefnafjármögnun. Það var greinilega mat iðnaðarráðuneytisins og forystu LV um aldamótin 2000 að það væri hagfelldara fyrir verkefnið að taka lán með ríkisábyrgð og ríkisábyrgðargjaldi en án. Landsvirkjun hefur því óbeint upplýst okkur um að ríkisábyrgðargjaldið sé of lágt.

Forstjóri LV telur í svari sínu ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi landsvæðanna sem fórnað er. Til vara bendir hann á að David Bothe hafi komist að þeirri niðurstöðu í doktorsritgerð sinni að núlifandi Íslendingar telji tilvistargildið lítið. Forstjórinn verður að gera upp við sig hvort það sé mögulegt eða ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi. Er það ómögulegt ef hann heldur að útkoman verði honum óhagstæð, er það mögulegt ef hann telur að útkoman verði honum þóknanleg? Vonandi er þessi afstaða ekki lýsandi fyrir áætlanagerð fyrirtækisins almennt. En varla getur það talist stórmannlegt af fyrirtæki sem stendur fyrir stærstu framkvæmd Íslandssögunnar að fela sig á bak við niðurstöður námsmanns sem varð að sníða umfang rannsóknar sinnar að afar takmarkandi útgjaldaramma.

Kemur þá að þriðja atriðinu. Forstjórinn vísar til þess að raunarðsemi af Kárahnjúkavirkjun sé ætluð 5,5%. Þessi tala skiptir þó ekki máli má skilja af skrifum hans heldur stærð sem hann kallar arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar. Þessi arðsemi er heil 11% segir hann bara nokkuð drjúgur, enda 11 nákvæmlega tvöfalt stærri tala en 5,5. Hefði ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær tekið segjum 25 milljarða af skattfé og lagt fram sem hlutafé í slíku félagi þá er það rétt og satt að arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar hf. hefði skipt skattgreiðendur nokkru máli. En þessi leið var ekki farin. Eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar er afgangsstærð sem verður til þegar ljóst er hver hagnaður LV er þau ár sem framkvæmdir standa á Kárahnjúkasvæðinu. Þessi stærð hoppar upp og niður eftir því hver þessi hagnaður er og hverjir vextir eru á alþjóðamörkuðum. Báðar stærðirnar, eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar og arðsemi þess hoppa fram og til baka eins og börn í leikafangabúð um jólaleytið. Með því að hækka vexti á alþjóðamörkuðum úr 3,5% í 7% má lækka útreiknaða arðsemi eiginfjár í 1%. Með því að lækka eiginfjárhlutfallið niður í næstum ekki neitt en ganga út frá 3,5% vöxtum erlendis má láta útreiknaða arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar verða 100%, 1000%, 1000000% eða hverja aðra tölu sem þykir áhugaverð! En þar fyrir utan þá skiptir þessi tala skattgreiðendur og aðra þegna landsins litlu máli. Það sem skiptir máli er hvaða ávinningur fæst af Kárahnjúkaævintýrinu umfram önnur efnahagsleg ævintýri sem þegar eru sögð og framkvæmd á vegum Íslands hf. Ávöxtun á hlutabréfamarkaði á Íslandi bendir til að ávinningur af fjárfestingum íslenskra einkafyrirtækja sé langt umfram það sem endurspeglast í þeim 5,5% sem forstjórinn nefnir svo feimnislega. Því verður að skjóta inn hér að þessi 5,5% eru of há tala því það er eftir að draga frá kostnað vegna ómetinna umhverfisfórna eins og þegar hefur verið drepið á. Gagnrýnendur Kárahnjúkaframkvæmdanna úr hópi „peningamanna“ óttast þess vegna að virkjanaframkvæmdirnar nú séu á kostnað arðsamari verkefna á vegum einkaaðila. Hafi þeir rétt fyrir sér hefði Ísland hf. verið betur sett án álversvirkjunarinnar fyrir austan.

Svar forstjóra LV er ekki til þess fallið að veita þeim hugarró sem hafa áhyggjur af ávinningi Íslands hf. af Kárahnjúkavirkjun. Þvert á móti vakna efasemdir um hvort æðsta stjórn fyrirtækisins geri sér ljóst hvert umboð hennar sé og hverjir umbjóðendurnir. Það ætti að hvetja til árvekni gagnvart framtíðaráformum fyrirtækisins, því miður.

Höfundur er prófessor í hagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands (VHHÍ). Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

ágú 17 2005

Yfirlýsing frá mótmælendum í ágúst 2005


Saving Iceland

VIÐ SEM MÓTMÆLT HÖFUM stóriðju og stórfelldum spjöllum á náttúru Íslands undanfarna mánuði við Kárahnjúka og víðar á landinu viljum að gefnu tilefni gefa eftirfarandi yfirlýsingu:

Við mótmæli okkar höfum við beitt aðferðum sem eiga sér ef til vill ekki langa sögu hérlendis en aðgerðir þær sem við höfum staðið fyrir flokkast ekki undir lögbrot. Við erum breiður hópur fólks Íslendinga og útlendinga víðsvegar að og það sem sameinar okkur er virðing fyrir náttúrunni, óþol gagnvart valdníðslu, kúgun og mannréttindabrotum. Við höfum tjáð andúð okkar á stórfelldum spjöllum á einstökum náttúruperlum á hálendi Íslands með því að:

Dreifa upplýsingum um stóriðjuæði íslenskra stjórnvalda sem speglast í fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum sem nú liggja á teikniborði Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja svo sem í Þjórsárverum, Langasjó, Skjálfandafljóti og í Skagafirði. Read More

mar 22 2004

Kárahnjúkavirkjun mótmælt á Tate Modern sýningu Ólafs Elíassonar


Morgunblaðið 22. mars 2004

Virkjun mótmælt á lokadeginum

EFNT var til mótmæla gegn Kárahjúkavirkjun í Tate Modern-safninu í gær á síðasta sýningardegi Ólafs Elíassonar. Hópur fólks, bæði Bretar og Íslendingar búsettir í London, safnaðist saman í túrbínusalnum upp úr hádegi og opnaði regnhlífar á gólfi salarins á meðan bréfmiðum var hent ofan af svölum og niður á gólf.

Áletranir með slagorðum gegn virkjuninni voru á regnhlífunum og á miðunum var vitnað í ummæli Ólafs í blaðinu Guardian frá desember sl. þess efnis að Alcoa væri að eyðileggja hálendi Íslands með stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar. Vöktu þessi mótmæli mikla athygli, en voru friðsöm að sögn blaðamanns Morgunblaðsins sem staddur var á sýningunni í gær.

Meðal áletrana voru: „Don’t let the sun go down on Iceland“ og vísað þar til sólarinnar í verki Ólafs. Í tilkynningu frá mótmælendum segir að með Kárahnjúkavirkjun sé verið að stíga skref aftur til 20. aldar.

Sjá nánar (á ensku): Umbrella Protest in Tate Modern

Náttúruvaktin