'Loftslagsbreytingar' Tag Archive

maí 27 2012

Endurnýjanlegir orkugjafar en ósjálfbær nýting


Í apríl sl. kynntu umhverfis- og iðnaðarráðherra þingsályktunartillögu fyrir Rammaáætlun um vernd og virkjun jarðhita og vatnsafls á Íslandi. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að hinar umdeildu áætlanir Landsvirkjunar um byggingu þriggja virkjana í neðri Þjórsá verði settar í bið, en aftur á móti að hin einstöku jarðhitasvæði Reykjanesskagans verði virkjuð nánast öll sem eitt og svæðinu þar með breytt í samfellt iðnaðarsvæði. Síðustu vikur hefur tillagan verið í höndum Atvinnuvegarnefndar Alþingis, í ferli sem innihélt umsagnarferli þar sem meira en 300 umsagnir voru sendar inn af einstaklingum, félagasamtökum, stofnunum og fyrirtækjum.

Umsögnunum má í grófum dráttum skipta í tvennt eftir þeim sem þær senda og þau viðhorf sem í þeim birtast: Annars vegar er um að ræða einstaklinga og náttúruverndarsamtök sem fyrst og fremst mótmæla fyrrgreindum áætlunum um gjöreyðileggingu Reykjanesskagans; hins vegar er um að ræða fyrirtæki og stofnanir sem hafa beina hagsmuni af frekari stóriðjuvæðingu Íslands og krefjast þess að Rammaáætlun gangi í gegnum þingið óbreytt frá því að 2. áfangi starfshópa áætlunarinnar var kynntur á síðasta ári, en í honum var gert ráð fyrir virkjunum í Þjórsá sem og fleiri vatnsaflsvirkjunum sem ekki eru í þingsályktunartillögunni.

Ein af umsögnunum sker sig þó frá þessum hópum þar sem í henni er fjallað um orkuframleiðslu og náttúruvernd í stærra og lengri tíma samhengi. Saving Iceland birtir hér umsögnina sem skrifuð var af og send inn af Helgu Katrínu Tryggvadóttur, þróunarfræðingi og íbúa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Ég, undirrituð, finn mig knúna til að gera nokkrar athugasemdir í tilefni af umræðu Atvinnuveganefndar um rammaáætlun. Athugasemdir mínar snúa ekki að einstökum svæðum heldur af heildarhugmyndum um umfang og eðli verndar og nýtingar náttúrusvæða. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrst var farið af stað með rammaáætlun og fer þekkingu og rannsóknum á orkunýtingu og náttúruvernd sífellt fram. Breytingar á samfélagsmynstri og viðhorfi fólks til náttúruverndar hafa einnig verið miklar síðan fyrstu drög að rammáætlun voru sett fram, þar sem áherslan á verndun náttúrusvæða verður sífellt háværari. Með þetta í huga er nauðsynlegt að taka tillit til þess að áhersla á náttúruvernd sé líkleg til að aukast enn fremur á komandi árum, og því er nauðsynlegt fyrir Atvinnumálanefnd að huga að því að þó einhver svæði séu sett í biðflokk, þá útilokar það ekki nýtingu síðar. Verði svæði hins vegar nýtt nú þegar er ekki hægt að vernda þau eftir á. Read More

feb 25 2012

Vekjum ekki sofandi dreka – Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu


Eftir Guðna Elísson. Birtist upphaflega í 4. tölublaði Tímarits Máls og Menningar árið 2011.

Í frétt sem birtist á vef Morgunblaðsins í september 2011 segir frá því að áður „óþekktar olíulindir, sem fundist hafa í norska landgrunninu í Norðursjó, gætu verið 1168 milljarða norskra króna virði en það svarar til 24 þúsund milljarða íslenskra króna“.1 Samkvæmt norskum sérfræðingi hjá Nordea Markets hefur fundurinn gríðarleg áhrif á norskan efnahag ef lindirnar eru nýttar og lengir „til muna þann tíma, sem Norðmenn geta vænt [svo] þess að fá tekjur af olíuvinnslu“ Í bloggi um fréttina hugleiðir íslensk kona hvaða áhrif samskonar fundur hefði fyrir efnahag landsmanna: „Mikið rosalega væri það gaman fyrir íslenska þjóð ef það fyndust olíulindir á hafsbotni á svæði sem við eigum. Ég er svosem ekkert að biðja um það fyrir mig, en framtíðinni [svo] mætti vera bjartari fyrir unga fólkið og barnabörnin okkar.“ Konan vonar jafnframt að farið verði að „leita að olíu á markvissan hátt og að það finnist eitthvað“ og spyr hvort nokkuð sé að því að „biðja Norðmenn um hjálp?“ Í athugasemdakerfinu er tekið undir orð konunnar og áréttað að „ef olía finnst á Drekasvæðinu“ sé „glæpur að leggja stein í götu þess að hún verði unnin“.2

En er málið svona einfalt? Í pistli um olíu- og gasfundinn í Norðursjónum bendir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á að erfitt geti verið fyrir Norðmenn að nýta þessa auðlind af þeirri einföldu ástæðu að óhreyfðar olíulindir menga ekki og auka þar með ekki á gróðurhúsaáhrifin:

Fyrir loftslagsfund Sþ. í Kaupmannahöfn rétt fyrir jólin 2009 sýndi Potsdamloftslagsstofnunin með Stefan Rahmsdorf í fararbroddi fram á það að til að ná halda sig undir 2°C markinu mætti ekki brenna meira en innan við helming nýtanlegra birgða jarðefnaeldsneytis sem þá voru þekktar. Í raun eru þetta tiltölulega einfaldir útreikningar þar sem menn vita upp á hár hve [svo] hvert tonn af olíu, kolum og jarðgasi gefur af CO2 út í lofthjúpinn við bruna. Í framhaldinu spáðu menn hvernig sú aukning koltvísýrings á breytt geislunarálag lofthjúps hefði áhrif á meðalhitastig jarðar og er sú spá byggð á bestu vitneskju og þekkingu eins sagt er.3

Read More

Náttúruvaktin