júl 19 2007

Skammist ykkar! Bréf til Blaðsins frá Saving Iceland aktívista

Engar kylfur notaðar?!cr

MYND: Í ágúst 2006 fullvissaði Óskar Bjartmarz yfirlögregluþjónn lesendur Morgunblaðsins um að kylfum væri ekki beitt gegn mótmælendum. Með greininni birtist þessi mynd sem var tekin sömu viku á Kárahnjúkum.

Leiðarinn ‘Vantrú á málstaðnum’ (3. júlí) eftir ritstjóra Blaðsins, Ólaf Þ. Stephensen, er svipuð öðrum greinum sem hafa verið birtar í íslenskum dagblöðum í aðdraganda ráðstefnu Saving Iceland (S.I.) í Ölfusi nú í sumar. Þessar greinar hafa einkennst af viljandi fáfræði um umræðuefnið, þ.e.a.s. mótmælendurna sem eins og ég starfa með eða innan S.I.

Ég vil persónulega mótmæla harðlega þeim ásökunum að ég sé rekin áfram af þörf fyrir hugsunarlaus átök, sé andlega vanheil á einhvern hátt eða að líf mitt vanti svo sterklega spennu að ég þurfi að ferðast til afskekktrar eyju langt í norðri á hverju sumri til þess eins að lenda í rifrildi við lögregluþjóna sem vilja henda mér út úr tjaldinu mínu. Hvað þykist Ólafur vita um líf okkar eða hvað það er sem drífur okkur áfram þegar hann hefur aldrei lagt það á sig að tala við okkur og komast að því sjálfur?
Sú staðhæfing að við séum ekkert annað en óeirðahópur til leigu er ekkert annað en rógburður og lygi sem stenst engan veginn nánari skoðun. Þvert á móti höfum við viljað sýna samstöðu með þeim mörgu örvæntingarfullu einstaklingum á Íslandi sem horfa upp á hvernig náttúran sem þeir elska hefur verið eyðilögð, og við höfum líka heillast af þessari náttúru.
Það segir meira um neikvæðni ritstjórans en okkar að hann skuli ekki geta ímyndað sér þann möguleika að okkur þyki vænt um þá einstæðu, óspilltu náttúru sem enn er að finna á Íslandi og að það sé vegna hennar en ekki okkar sjálfra sem við erum tilbúin til að standa í vegi fyrir þessari eyðileggingu. Það er það sem við höfum verið að gera: setja líkama okkar bókstaflega á milli nánast ósnortinnar náttúru og eyðileggingarvélanna, hlekkjuð við þær og leggjum þannig líf okkar að veði. Hvernig er hugsanlega hægt að hafa meiri trú eða staðfestu gagnvart málstað en að vera tilbúinn að hætta sínu eigin lífi fyrir hann?
Samt notar Ólafur orðið skemmdarverk margoft til að lýsa aðgerðum S.I. enda þótt engin skemmdarverk hafi verið framin í nafni samtakanna í raunveruleikanum. Sakfellingarnar sem hann tengir á misvísandi hátt við orðið skemmdarverk eru næstum allar fyrir “óhlýðni við lögregluna”, sem er væg ákæra og reyndar mjög vafasöm.
Eins virðist það vera í flestum tilvikum regla hjá íslenskum fjölmiðlum að í hvert skipti sem lögreglan gengur yfir strikið og beitir ofbeldi gegn mótmælendum þá eru mótmælin sjálf úthrópuð sem ofbeldisfull. Þetta eru ógeðfelld vinnubrögð, sérstaklega í ljósi þess að þeir sem tekið hafa þátt í mótmælum S.I. eru friðarsinnar af djúpri sannfæringu.

En hverjir eru það sem valda hinum raunverulega skaða? Hverjir hafa gerst sekir um stórfelld skemmdarverk á kostnað sjálfrar móður náttúru?
Dómstólar dæma eftir bókstaf laganna sem er bæði þröngur og hliðhollur valdinu. En er það ekki stórfelldur glæpur frá siðferðilegu sjónarmiði gagnvart jörðinni og komandi kynslóðum að valda óafturkræfum skaða á ómetanlegum náttúruverðmætum? Eða er það þvert á móti glæpur að reyna með friðsamlegum hætti að hindra þessa náttúruböðla?
Það er leitt að gagnrýnendur okkar innan íslenskra fjölmiðla skuli ekki hafa hirt um að fylgja eftir fljótfærnislegum og illa grunduðum árásum sínum á okkur með því að mæta okkur í upplýsandi umræðu á ráðstefnu okkar í Ölfusi eða fréttafundi sem þeim var boðið til á fyrsta degi ráðstefnunnar. Því miður kjósa menn heldur að skapa mynd af okkur sem brjálæðingum í greinaskrifum en að spyrja okkur sjálf gagnrýninna spurninga.

Rebecca E.

Engar kylfur notaðar?!cr

Sjá einnig: „Who Pays Saving Iceland?“

Náttúruvaktin