'Fjölmiðlar' Tag Archive

mar 07 2017
2 Comments

Flugumaður njósnaði um mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar


Atli Þór Fanndal

Lundúnarlögregla hefur fallist á að greiða sjö konum skaðabætur vegna framferðis flugumannsins Mark Kennedy sem árum saman njósnaði um anarkista og umhverfissinna víðsvegar í Evrópu. Þar líkur kafla í langri sögu þessa furðulega máls. Mark Kennedy njósnaði meðal annars um aðgerðarsinna á Íslandi í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Íslensk lögregluyfirvöld hafa opinberlega haldið því fram að þau hafi enga vitneskju haft um veru hans hér á landi. Þær yfirlýsingar standast ekki skoðun. Ljóst er að lögregla vissi ekki aðeins af Kennedy hér á landi heldur hafði af honum afskipti. Þá kom ítrekað fram í tengslum við Kárahnjúkavirkjun að lögreglu bærust upplýsingar um mótmælendur frá erlendum lögregluyfirvöldum.

Fjallað var um Mark Kennedy í tímaritinu Man magasín í maíhefti árið 2015. Þar var ítarlega farið yfir málið og sýnt fram á hve lítið haldbært er að finna í fjarstæðukenndum yfirlýsingum íslenskra lögregluyfirvalda um málið. Umfjöllun Man er hér endurbirt í heild sinni.

Mark Stone kom hingað til lands árið 2005 í hópi umhverfisverndarsinna. Ætlunin var að taka þátt í mótmælum vegna byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Hér á landi tók Stone þátt í tveimur beinum mótmælaaðgerðum við Kárahnjúka, í júlí 2005, en fór skömmu síðar af landi brott. Örfáum árum seinna, árið 2010, var Stone afhjúpaður sem Mark Kennedy. Flugumaður á launum hjá Lundúnarlögreglu sem hafði það hlutverk að villa á sér heimildir og njósna um umhverfisverndarhreyfingar og anarkista víða um Evrópu.

Kennedy eyddi sjö árum í leynum meðal umhverfisverndarsinna og anarkista víða um Evrópu, þar á meðal í Danmörku, Þýskalandi og Íslandi en mest á Bretlandseyjum. Áður en upp um hann komst hafði hann ferðast til allavega 22 Evrópulanda, átti í kynferðissambandi við fjölda kvenna og lögregla hafði meðal annars afskipti af honum í Þýskalandi, Bretlandi, Danmörku og Íslandi. Þau afskipti hafa íslensk löggæsluyfirvöld ekki viðurkennt. Hins vegar benda gögn málsins til að það sé ekki sannleikanum samkvæmt. Þar á meðal eru ljósmyndir af aðgerðum Saving Iceland sem sýna afskipti lögreglu.

Aðgerðir lögreglu

Árið 2008 lét Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, taka saman skýrslu um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum, að beiðni þingmanna VG. Í henni er sleppt að minnast á mál sem staðfest er að áttu sér stað og voru skráð í málaskrá. Það sem þó kemur fram gefur mynd af þeim aðgerðum sem lögregla stóð fyrir á tímabilinu. 19 mál eru sögð finnast í málaskrá lögreglu. 219 lögreglumenn tóku þátt í þeim aðgerðum sem nefndar eru í skýrslunni. Það skal tekið fram að aðgerðirnar eru yfir þrjú sumur og ekki er átt við einstaka lögreglumenn. 83 einstaklingar höfðu réttarstöðu grunaðra. 104 voru handteknir og 14 sviptir frelsi. Leitað var í tjaldbúðum mótmælenda og þær rýmdar. Skýrslan minnist raunar ekki á þetta utan eins atviks þar sem sagt er að fíkniefni hafi fundist. Hið rétta er að pípa fannst og aðgerðirnar voru fleiri en ein. Lögregla neitar fyrir húsleitir og leit í bifreiðum en greinir frá því að hafa fundið búnað til að mótmæla í bílum ferðalanga. Myndbandsupptaka er til af lögreglurassíu í tjaldbúðum mótmælenda þar sem ítrekað var neitað að sýna leitarheimild. Tilraun var gerð til að vísa fjölda fólks úr landi og ferðamenn spurðir út í stjórnmálaskoðanir þeirra við komuna hingað til lands. Það er viðurkennt í skýrslunni.

Gleneagles

Í júlí 2005 var fundur G8 ríkjanna haldinn í Gleneagles í Skotlandi. Staðfest er að Mark Kennedy var þar en kom til Íslands skömmu síðar vegna fyrirhugaðra mótmæla. Þá þegar hafði Kennedy starfað í leynum meðal umhverfissinna í um tvö ár. Til Íslands kom hann í hópi aðgerðarsinna sem komu til Íslands til að taka þátt í mótmælum Saving Iceland gegn byggingu Kárahnjúka.
„Á þessum tíma er stóriðjustefnan í einskonar helreið um allt hálendi Íslands,“ segir Ólafur Páll Sigurðsson, hvatamaður að tjaldbúðum Saving Iceland. „Andstaða náttúruverndarsinna á Íslandi hafði hálfpartinn verið brotin á bak. “ – Hvernig þá? „Flestir voru örmagna eftir baráttuna um björgun Eyjabakka,“ segir Ólafur. „Kárahnjúkavirkjun var greinilega orðin óstöðvandi þannig að fólk var orðið vonlítið. Út frá mínum bæjardyrum séð var samt alls ekki hægt að gefast upp. Það varð að berjast gegn þessari virkjun þó ekki væri nema út af síðari tímum, öllum hinum virkjununum sem voru áformaðar. Það var einfaldlega ekki hægt að leggja bara skottið aftur á milli lappanna. Ég kallaði því út lið frá útlöndum, þannig að meirihlutinn voru útlendingar í þessum fyrstu mótmælabúðum. Það hljóp auðvitað dálítið fyrir hjartað á þjóðernissinnuðum Íslendingum,“ segir Ólafur. Hann segir lögreglu hafa sýnt mótmælendum einstaka vanvirðingu. Þau hafi verið áreitt og meðferð hafi almennt verið slæm og mótuð af fyrirlitningu lögreglu. „Það fór samt auðvitað eftir einstaklingum hvað heiftin gagnvart okkur var mikil. Hún var kannski mest meðal þeirra sem voru hæst settir í lögreglunni.“

Fátt um svör

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og þáverandi innanríkisráðherra, óskaði árið 2011 eftir upplýsingum lögreglu um málefni Kennedy. Í skýrslunni [sjá greiningu Saving Iceland á skýrslunni og viðbrögðum ráðherra hér] kemur fram að samstarf hefur verið á milli íslensku lögreglunnar og erlendra lögregluliða um miðlun upplýsinga varðandi aðgerðir mótmælenda við Kárahnjúka. Þannig hafi verið fengnir hingað til lands lögreglumenn til að upplýsa íslensku lögregluna um þekktar baráttuaðferðir og upplýsingum miðlað landa í millum um einstaklinga sem handteknir voru vegna mótmælanna. Þá segir í túlkun ráðherra á skýrslunni að: „Athugun embættis ríkislögreglustjóra hefur leitt í ljós að engin gögn eða upplýsingar fyrirfinnist sem bendi til að vitneskja hafi verið um að Mark Kennedy hafi verið hér á landi sem flugumaður á vegum bresku lögreglunnar. Embættið leggur jafnframt áherslu á að samstarf við erlend lögreglulið byggist iðulega á miðlun upplýsinga sem viðtakandi er ekki upplýstur um hvaðan komi. Þess vegna sé vafasamt að fullyrða hvaðan upplýsingar séu runnar og kunni það að eiga við um mótmælin við Kárahnjúka.“

Upplýsingar erlendis frá

Morgunblaðið fjallaði í apríl árið 2005 um „ráðstefnu herskárra anarkista í Skotlandi.“ Vitnað er til fréttar Sunday Times þar sem vitnað var til tveggja Íslendinga, þar á meðal Ólaf, sem blaðamaðurinn hitti aldrei, auk Rúnars Guðbrandsson, leikstjóra, sem var á fundinum. „Tveir Íslendingar voru meðal hóps herskárra anarkista í Skotlandi sem héldu nokkurra daga ráðstefnu um síðustu helgi til þess að skipuleggja mótmælaaðgerðir sem eiga að skapa glundroða á fundi átta helstu iðnríkja heims (G8) í júlí [2005],“ segir í frétt Morgunblaðsins. Fundurinn var liður í skipulagningu G8 mótmælanna í Gleaneagle. Í frétt Times segir að á fundinum hafi Íslendingarnir verið til að skipuleggja mótmælaaðgerðir gegn vatnsaflsvirkjun næsta sumar af fullri alvöru, og sagði að þeir hefðu mætt á þennan fund til þess að læra hvað hægt væri að gera í þeim efnum. Greinin vakti töluverða athygli í Bretlandi líka enda fjallaði hún að mestu um væntanleg mótmæli vegna G8 fundarins í Skotlandi. „Þetta er bara einhver della,“ sagði Rúnar í samtali við Morgunblaðið og bætti því við að þetta hafi fyrst og fremst verið forvitni og fræðilegur áhugi sem hafi hvatt hann til þess að sækja ráðstefnuna.
Að auki virðist lögreglan hér á landi hafa fengið uplýsingar í gegnum samstarf sitt við lögregluna í Bretlandi. Í grein sinni Spellvirkjar og mótmælendur, sem birtist árið 2006 í Lögreglublaðinu, ári eftir veru Kennedy hér á landi, skýrir Gísli Jökull Gíslason, þáverandi ritstjóri blaðsins, frá þessum tengslum: „Vegna reynslu frá því í fyrra þá var samstarf á milli íslensku og bresku lögreglunnar en starfsbræður okkar í Englandi hafa mikla reynslu af slíkum aðgerðum og hafa þróað með sér skilvirkar starfsaðferðir. Höfðu þeir líka haft fréttir af því í Englandi að framkvæmdir á Íslandi höfðu vakið athygli á meðal herskárra hópa spellvirkja.“
MAN óskaði upplýsinga hjá lögreglu um málefni Mark Kennedy hér á landi. Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn endaði símtal við blaðamann skyndilega er Mark Kennedy bar á góma og óskaði fyrirspurnar í tölvupósti. Rúmri viku síðar var fyrirspurn blaðsins svarað með hlekk í nýlegt svar lögreglu við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, frá árinu 2014. Efnislega er svarið hið sama og Ögmundur fékk árið 2011.

Nýjar upplýsingar

Ýmislegt hefur þó verið upplýst um starfsemi Mark Kennedy síðan 2011. Breskir græningjar hafa staðið í ströngu á vettvangi breska þingsins og í borgarstjórn London við að falast eftir upplýsingum frá lögreglu vegna njósna um aðgerðarsinna. Upplýst hefur verið að lögregludeildin sem Mark Kennedy tilheyrði njósnaði meðal annars um þingmenn og kjörna fulltrúa græningja. Þá hefur Andrej Hunko, þingmaður Die Linke í Þýskalandi, lagt mikla vinnu í að upplýsa mál Kennedy í heimalandinu. Árið 2013 kom út bókin Undercover: The True Story of Britain’s Secret Police, sem fjallar um málefni breskra leynilögreglumanna og þá sérstaklega Mark Kennedy. Í bókinni má finna upplýsingar um aðgerðir Kennedy hér á landi. Þá kemur fram að hann kom hingað til lands með ‘Megan’ sem var kærasta hans til lengri tíma. Megan taldi ávallt að hún væri í sambandi með aðgerðarsinnanum Mark Stone. Í sömu bók kemur fram að hann hafi átt í samskiptum við aðrar konur, þar á meðal á Íslandi. Þetta var staðfest af fjölda viðmælenda blaðsins. Ögmundur Jónasson sagði í samtali við MAN að hann hefði sem ráðherra heyrt sögur af kynferðissambandi Kennedy við aðra mótmælendur á Íslandi. Enginn hafi hins vegar gefið sig fram eða kært slíkt atvik á Íslandi. Í desember árið 2011 hófu átta konur málaferli gegn breskum yfirvöldum vegna þessa. Kennedy er ekki eini breski leyniþjónustumaðurinn sem um ræðir. Dæmi er um konur sem ólu mönnunum börn og áttu í löngu sambandi við flugumenn áður en þeir hurfu. Mikilvægt er þó að bresk yfirvöld hafa viðurkennt að Mark Kennedy var njósnari á þeirra vegum. Íslenska lögreglan ætti því að geta aflétt eigin trúnaði.

Höfðu afskipti af Kennedy

Þrátt fyrir loðin svör íslenskra lögregluyfirvalda er ljóst að lögreglan hafði afskipti af Kennedy hér á landi. Nokkur fjöldi mynda (smellið á myndirnar til að stækka þær) er til af Kennedy hér á landi. Sumar eru úr hans eigin fórum en hann deildi þeim með öðrum aðgerðarsinnum. Þar á meðal mynd sem tekin var 14. júlí árið 2005, skömmu eftir að hann kom til landsins. Um tveimur vikum síðar tók Kennedy þátt í aðgerðum við Kárahnjúka þar sem aðgerðarsinnar hlekkjuðu sig við vinnuvélar. Stafrænar myndavélar skrá svokallað ‘metadata’ á allar myndaskrár. Meðal þeirra upplýsinga sem finna má í ljósmyndaskrám eru upplýsingar um tegund myndavélar, ljósopsstillingu ásamt dagsetningu og tíma þegar mynd var tekin. Tvær ljósmyndir vekja sérstaka athygli séu þessar upplýsingar skoðaðar. Annars vegar mynd þar Kennedy sést hlaupa að stjórnklefa vinnutækis og svo mynd þar sem Mark Kennedy er ásamt tveimur lögreglumönnum. Tímastimpill myndanna sýnir að þær eru teknar með aðeins nokkurra mínútna millibili, þann 26. júlí 2005. Það er sami dagur og seinni aðgerðir Saving Iceland voru á Kárahnjúkum.

Kennedy gaf lögreglunni falleinkun

Ítarlega lýsingu er að finna á aðgerðum Saving Iceland þennan dag í bókinni, Undercover: The True Story of Britain’s Secret Police, sem og í bækling sem gefinn var út af Saving Iceland samtökunum. Þar skrifar meðal annars Mark Kennedy sjálfur um eigin reynslu.

Hann segir minnstu hafa munað að alvarlegt slys hefði orðið vegna gáleysis lögreglumanna sem hvatt hafi starfsmann til að ræsa risavaxið vinnutæki sem hópur aðgerðarsinna var tjóðraður við. „Lögreglan skipaði verkstjóra að segja bílstjóra að ræsa vél vinnuvélar sem mótmælendur höfðu tjóðrað sig við,“ skrifar hann og bætir við að vélin sem um er að ræða sé Volvo A35D, risavaxið tæki. Hann lýsir því hvernig hann óttaðist að tækið myndi hrökkva í gír og taka rikk með hóp fólks tjóðrað við vélina. „Aðgerðir lögreglu á tímabilinu voru reknar áfram af vanþekkingu og algjöru sinnuleysi gagnvart öryggi fólks.“ Fjöldi vitna sem blaðið ræddi við staðfesta að Kennedy sjálfur hljóp upp að stjórnklefa vinnuvélarinnar, reif lykla úr startara og kastaði út, frá vélinni. Það er í samræmi við ljósmyndir af atvikun. Í bókinni Undercover segir frá því að Kennedy hafi orðið viti sínu fjær af hræðslu vegna þess að Megan, kona sem hann átti í löngu kynferðissambandi við, var tjóðruð við vinnuvélina og hann óttaðist að hrykki vélin í gírinn lifði hún það ekki af. Kennedy brást ókvæða við. Til ryskinga kom á milli hans og lögreglu sem leiddi til afskipta lögreglu af honum. Kennedy var leiddur á brott af tveimur lögreglumönnum með hendur fyrir aftan bak. Þetta staðfestir önnur ljósmynd.

Lögreglan sem ekkert veit

Í skýrslu lögreglu til dómsmálaráðherra er fjallað um mál 026-2005-000712, 26. júlí árið 2005, sama dag og myndirnar af Kennedy eru teknar. Ein frelsisvipting og þrjár handtökur eru sagðar hafa átt sér stað í tengslum við aðgerðirnar. Annarsstaðar er því haldið fram að erlendir ríkisborgarar hafi alla jafna verið beðnir um vegabréf og þau ljósrituð. Það vekur því furðu að maðurinn sem þekktur var sem Mark Stone, hafi alla tíð sloppið við þessa skráningu. Árið 2007 ferðaðist Kennedy til Berlínar og heimsótti umhverfisverndarsinna þar í borg. Komið hefur fram, í svörum við fyrirspurnum Hunko, í þýska þinginu að til landsins hafi Kennedy, í einhverjum tilfellum, komið með samþykki þýskra lögregluyfirvalda. Í Berlín var Mark Stone handtekinn fyrir að kveikja í gámi. Stone samdi um að greiða sekt og fór því ekki fyrir dómstóla. Málið hefur vakið athygli í Þýskalandi sökum þess að málareksturinn fór allur fram gegn Mark Stone, ekki Kennedy. Þýsk yfirvöld kannast þó ekki við að hafa heimilað allar ferðir Kennedy til landsins.

Annar maður á myndinni

Samtökin Saving Iceland héldu því fram strax árið 2011 að maðurinn sem sést á myndunum sé Mark Kennedy. Því hefur lögreglan hins vegar alfarið neitað. „Eftir skoðun hjá embættinu á myndinni er ljóst að hér er ekki um Mark Kennedy (Stone) að ræða heldur annan mann. Lögreglunni er ljóst hver sá maður er og þurfti að hafa afskipti af honum nokkrum sinnum meðan á framkvæmdum stóð við Kárahnjúka,“ hafði Morgunblaðið eftir lögreglunni. Sú skýring er satt best að segja ekki mjög trúverðug. Líkindi mannsins eru augljós. Þá hafa myndir úr fórum hans birst í erlendum miðlum þar sem hann er í sömu fötum. Vert er að benda á að Kennedy var að meðal annars á Íslandi við það sem kallast ‘legend building’, það er að byggja upp ímynd sína og skapa tengsl. Þátttöku sína í aðgerðum á Kárahnjúkum notaði hann svo til að komast í samband við aðrar hreyfingar í Evrópu. Read More

feb 25 2012

Vekjum ekki sofandi dreka – Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu


Eftir Guðna Elísson. Birtist upphaflega í 4. tölublaði Tímarits Máls og Menningar árið 2011.

Í frétt sem birtist á vef Morgunblaðsins í september 2011 segir frá því að áður „óþekktar olíulindir, sem fundist hafa í norska landgrunninu í Norðursjó, gætu verið 1168 milljarða norskra króna virði en það svarar til 24 þúsund milljarða íslenskra króna“.1 Samkvæmt norskum sérfræðingi hjá Nordea Markets hefur fundurinn gríðarleg áhrif á norskan efnahag ef lindirnar eru nýttar og lengir „til muna þann tíma, sem Norðmenn geta vænt [svo] þess að fá tekjur af olíuvinnslu“ Í bloggi um fréttina hugleiðir íslensk kona hvaða áhrif samskonar fundur hefði fyrir efnahag landsmanna: „Mikið rosalega væri það gaman fyrir íslenska þjóð ef það fyndust olíulindir á hafsbotni á svæði sem við eigum. Ég er svosem ekkert að biðja um það fyrir mig, en framtíðinni [svo] mætti vera bjartari fyrir unga fólkið og barnabörnin okkar.“ Konan vonar jafnframt að farið verði að „leita að olíu á markvissan hátt og að það finnist eitthvað“ og spyr hvort nokkuð sé að því að „biðja Norðmenn um hjálp?“ Í athugasemdakerfinu er tekið undir orð konunnar og áréttað að „ef olía finnst á Drekasvæðinu“ sé „glæpur að leggja stein í götu þess að hún verði unnin“.2

En er málið svona einfalt? Í pistli um olíu- og gasfundinn í Norðursjónum bendir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á að erfitt geti verið fyrir Norðmenn að nýta þessa auðlind af þeirri einföldu ástæðu að óhreyfðar olíulindir menga ekki og auka þar með ekki á gróðurhúsaáhrifin:

Fyrir loftslagsfund Sþ. í Kaupmannahöfn rétt fyrir jólin 2009 sýndi Potsdamloftslagsstofnunin með Stefan Rahmsdorf í fararbroddi fram á það að til að ná halda sig undir 2°C markinu mætti ekki brenna meira en innan við helming nýtanlegra birgða jarðefnaeldsneytis sem þá voru þekktar. Í raun eru þetta tiltölulega einfaldir útreikningar þar sem menn vita upp á hár hve [svo] hvert tonn af olíu, kolum og jarðgasi gefur af CO2 út í lofthjúpinn við bruna. Í framhaldinu spáðu menn hvernig sú aukning koltvísýrings á breytt geislunarálag lofthjúps hefði áhrif á meðalhitastig jarðar og er sú spá byggð á bestu vitneskju og þekkingu eins sagt er.3

Read More

okt 25 2010

RVK-9 í DV


Í helgarblaði DV helgina 1.-3. október birtist ýtarleg umfjöllun við níumenningana sem eru ákærð fyrir árás á Alþingi. Er þetta eitt af þeim örfáu skiptum þar sem stærri hérlendur fjölmiðill hefur gefið níumenningunum færi á að koma skoðunum sínum varðandi málið á framfæri.

Smellið á myndina eða hér til að hala greininni niður sem pdf-skrá.

Einnig minnum við á stuðningssíðu níumenninganna, rvk9.org.

ágú 12 2010

Ákall Saving Iceland!


Takið þátt í baráttunni gegn iðnvæðingu einhverra sérstæðustu náttúrusvæða Evrópu og grípið til beinna aðgerða gegn stóriðju!

Baráttan fram að þessu

Baráttan heldur áfram til varnar stærstu ósnortnu víðernum Evrópu. Síðastliðin fimm ár hafa sumarbúðir beinna aðgerða á Íslandi beinst gegn álbræðslum, risastíflum og jarðgufuvirkjunum. Eftir þá skelfilegu eyðileggingu sem fylgdi byggingu stærstu stíflu Evrópu við Kárahnjúka og mikilla jarðgufuvirkjana í Hengli, er enn tími til að rjúfa „snilldaráætlun“ valdhafa um stíflur í öllum stærstu jökulánum, gernýtingu allra helstu háhitasvæðanna og byggingu álvera, olíuhreinsistöðva, gagnavera og sílikonverksmiðja. Þessar framkvæmdir myndu ekki aðeins eyðileggja einstakt landslag og vistkerfi, heldur einnig hafa í för með sér stórfellda aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Read More

maí 20 2010
1 Comment

Íslenska umræðuplanið


Rvk9Hvernig fjölmiðar og aðrir dómarar götunnar hafa dæmt nímenningana fyrirfram

Þann 8. desember 2008 fóru þrjátíu manns inn í Alþingishúsið. Tveir einstaklingar, af sitthvoru kyni, fóru upp á þingpalla og hvöttu þingmenn til að koma sér út úr húsi sem þjónaði ekki tilgangi sínum lengur. Aðrir voru stöðvaðir í stigaganginum, þeim var hótað piparúðun og lentu síðar meir sumir í stimpingum við lögreglu og þingverði. Nokkrir voru handteknir, yfirheyrðir og svo sleppt – þinghald tafðist um klukkustund. Rúmu ári seinna var níu einstaklingum – undirritaður þar með talinn – stefnt af Láru V. Júlíusdóttur, settum ríkissaksóknara, meðal annars fyrir árás gegn sjálfræði Alþingis. Refsiramminn sem héraðsdómaranum Pétri Guðgeirssyni er gert að dæma okkur eftir, er eins árs til lífstíðarfangelsi. Read More

okt 06 2009

Skemmdarverk eða sýruárás?


Prentmiðlar fluttu frétt þann 3.október sem bar titilinn „Sýra notuð í fleiri árásum“. Í greininni er svo sagt frá því að samskonar sýra var notuð við heimili Rannveigar Rist, forstjóra Alcan, og Hjörleifs Kvarans, forstjóra OR, þegar skemmdarverk voru unninn á bifreiðum þeirra í sumar. Í lok fréttarinnar kemur svo fram „að þegar Rannveig opnaði framdyr fjölskyldubílsins um morguninn skvettist sýra úr hurðarfalsinu í andlit hennar neðan við hægra augað og fær hún varanlegt ör“. Þessir atburðir gerðust þann 5.ágúst.

Þegar Svartsokka las titilinn „Sýra notuð í fleiri árásum“ á MBL brá henni því andstaða við stóriðju á Íslandi hefur verið friðsæl hingað til. Fólk hlekkjar sig við vinnuvélar til að stöðva vinnu á byggingarsvæðum álvera, skvettir skyri á Landsvirkjunarbás í Háskóla Íslands og á kosningaskrifstofum stjórnmálaflokkana, og svo í sumar skvetta lakkhreinsi á bíla forstjóra stóriðjufyrirtækjana.  Ef við lítum aftur framsetningu efnisins þá er mikilvægt að átta sig á því að ákveðnum lykilorðum hafa verið skipt út til að vekja tilfinningar hjá lesandanum um að skemmdarverkið í ofangreindri frétt hafi verið sýruárás á andlit Rannveigar.

Lakkeyðir -> Sýra
Bifreið -> Við heimili
Skemmdarverk -> árás Read More

des 16 2007

Ólafur Páll Sigurðsson í ‘Upp og ofan’ (Viðtal)


Jón Ólafsson (JÓ) ræðir við Ólaf Pál Sigurðsson (ÓPS) umhverfisverndarsinna og stofnanda samtakanna Saving Iceland í þættinum Upp og ofan á Rás 1. 16. desember, 2007.

Jón Ólafsson:
Góðir hlustendur, ég hef í haust fengið til mín fagfólk sem oftast hefur verið tengt einhverjum háskóla landsins og verið að fást við hluti sem að mér hafa fundist að tengdust bæði háskólasamfélaginu og líka pólitík. Í dag, í þessum síðasta þætti mínum, hef ég fengið hingað mann sem er ekkert tengdur háskólasamfélaginu en hins vegar mjög tengdur pólitík eða pólitískum aðgerðum en það er Ólafur Páll Sigurðsson, menntaður bókmenntafræðingur og kvikmyndagerðarmaður en nú aðallega þekktur aktífisti og margir tengja hann væntanlega við samtökin Saving Iceland.
Read More

sep 28 2007

Þarfar ábendingar til íslenskra fréttamanna um mótmæli!


natturuvaktin.jpgNáttúruvaktin.com

 

Tilefni mótmæla er aðalatriðið!

a. Hverju er verið að mótmæla?
b. Kannið málið
c. Eru áhyggjur mótmælenda réttmætar?
d. Kannið málið
e. Ef þið kannist ekki við neitt…
f. …er kominn tími til að kanna málið!

Mótmæli eru tjáning nauðsynleg lýðræðinu þegar allt annað þrýtur

1. Kynnið ykkur málið
2. Lesið á mótmælaspjöld og/eða -borða
3. Hlustið eftir slagorðum
4. Lesið fréttatilkynningar ef til eru
5. Hví er mótmælt akkúrat þann daginn?
6. Ef um fjöldamótmæli er að ræða, berið saman tölur lögreglu og mótmælenda sjálfra um fjölda mótmælenda og gefið hvort tveggja upp við umfjöllun
7. Þegar mótmælin eru táknræn, lesið í þau
8. Leitið ekki eingöngu að „þekktum“ andlitum
9. Leggið spurningar fyrir þá sem ábyrgir eru fyrir því sem verið er að mótmæla, sem og mótmælendur
10. Athugið, mótmæli eru alltaf til að vekja athygli á einhverju

= Fjölmiðlar eru mikilvægt mótvægi valds í lýðræðisríki

ágú 04 2007

‘Atvinna í boði’ eftir Önnu Björk Einarsdóttur


auglysingVar uppspunnin auglýsing eftir atvinnumótmælendum heimildin á bak við frétt ríkissjónvarpsins um að atvinnumótmælendur fái greitt fyrir störf sín? Einn af höfundum auglýsingarinnar spyr í eftirfarandi grein og veltir fyrir sér viðhorfum til mótmælenda. 

 

Menningarblað/Lesbók
Laugardaginn 4. ágúst, 2007

Nennir þetta fólk ekki að vinna?! „Þegar umræðan um atvinnumótmælendur er skoðuð kemur fljótt í ljós þversögn því að á sama tíma og forskeytið atvinna er notað í niðrandi tón um mótmælendurna eru þeir sífellt sakaðir um að nenna ekki að leggja stund á atvinnu.“

Var uppspunnin auglýsing eftir atvinnumótmælendum heimildin á bak við frétt ríkissjónvarpsins um að atvinnumótmælendur fái greitt fyrir störf sín? Einn af höfundum auglýsingarinnar spyr í eftirfarandi grein og veltir fyrir sér viðhorfum til mótmælenda.

„Atvinnumótmælendur vantar núna. Reynsla æskileg en allir velkomnir. Borgað samkvæmt taxta, bónus fyrir kranaklifur. Sendið umsókn á atvinnumotmaelandi@gmail.com.“

Þessi smáauglýsing birtist í Fréttablaðinu og á Vísi.is fimmtudaginn 26. júlí. Sama kvöld var því slegið upp í kvöldfréttum RÚV að mótmælendur á vegum Saving Iceland fengju greitt fyrir þátttöku í aðgerðum og jafnvel aukalega fyrir handtökur. Ekki fylgdi sögunni hver stæði á bak við greiðslur til mótmælenda né hversu háar fjárhæðir væri um að ræða.

Read More

apr 12 2003

Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar beita lygum og ósannindum


Andri Snær Magnason
Morgunblaðið
Laugardaginn 12. apríl, 2003

Þjóðin hefur eignast nýjan ríkisfjölmiðil. Þetta er frétta- og upplýsingavefur sem heitir star.is og er rekinn af iðnaðarráðuneyti, Landsvirkjun og fleiri aðilum sem mynda STAR, opinbera undirbúningsnefnd fyrir virkjun og álver fyrir austan. Ef menn opna star.is og velja „allar fréttir“ kemur í ljós að hann lýtur einkennilegum lögmálum. Hér er dæmi: „Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar beita lygum og ósannindum“. Undir fyrirsögninni er birt opið bréf sem á að „vekja athygli á þeirri lygaþvælu sem spunnin er gegn virkjuninni við Kárahnjúka“. Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur er sakaður um „lygar“ þegar hann bendir á tengsl Kárahnjúkavirkjunar við mögulega virkjun Jökulsár á Fjöllum. Lygar Guðmundar Páls eru sagðar „hliðstæðar lygar og Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður hafði uppi í Kastljósi þegar hún talaði um lónstæðið sem eldvirkt svæði“. Lygi er meiðandi orð og yfirleitt ætla menn fólki mismæli eða misskilning í opinberri umræðu en hér er því ekki að heilsa. Star.is hafði áður fjallað um Guðmund Pál og námskeið hans um náttúrufar norðan Vatnajökuls með orðunum: „Endurmenntunarstofnun HÍ í áróðursstríði gegn Kárahnjúkavirkjun!“ Með námskeiði Guðmundar er Háskólinn sagður hafa „lagt sitt af mörkum í áróðri gegn Kárahnjúkavirkjun“.

Read More

Náttúruvaktin