Grípum til aðgerða

Nafnið Saving Iceland (Björgum Íslandi) stendur fyrir hóp af fólki sem er staðráðið í að standa gegn því að íslensk náttúra sé eyðilögð fyrir hagsmuni stórfyrirtækja í áliðnaði. Í samræmi við það að stórfyrirtækin eru í rekstri um allan heim er baráttan gegn þeim alþjóðleg og fólk frá mörgum löndum er hluti af Saving Iceland.

Saving Iceland var fyrst og fremst stofnað sem hópur sem beitir sér í upplýsingaveitu og beinum aðgerðum. Það þýðir ekki að við gerum lítið úr öðrum passífari formum mótmæla heldur geta hverskonar mótmæli, verkefni eða hlutverk innan baráttunnar átt sér stað í nafni Saving Iceland. Samt sem áður hallast hópurinn að aðgerðum í róttækari kantinum.

Ásókn nokkurra stærstu álframleiðslufyrirtækja heimsins í íslenska orku er vistfræðileg glæpastarfsemi á heimsmælikvarða. Allir sem geta lagt hönd á plóginn verða að hjálpast að við að stöðva þessa innrás.

Fyrir hverju berjumst við?

Hvers vegna skyldum við leyfa nokkrum misvitrum stjórnmálamönnum að láta sína einstrengingslegu framtíðarsýn bitna á og móta arfleifð allra íbúa landsins? Þau sem nú eru tímabundið við völd eru að taka ákvarðanir sem munu verða fordæmdar af komandi kynslóðum.

Hálendið, háhitasvæðin víða um land og strandlengja Íslands eru einstök landsvæði á heimsvísu. Í mörgum Evrópulöndum er varla lengur um það að ræða að ferðast um án þess að vera stöðugt innan mannabyggða. Í þessum mannlausu undraheimum Íslands hafa nokkur stórfyrirtæki í álframleiðslu þegar komið sér fyrir og enn fleiri hafa augastað á möguleikum íslenskrar náttúru til rafmagnsframleiðslu og ætla sér að koma upp þungaiðnaði í stórum stíl þar sem nú er nánast ósnert náttúra. Þessir alþjóðlegu hvítflibbabófar hafa hrundið af stað skaðræðislegum hamförum í umhverfi okkar með dyggri aðstoð ríkisstjórnar Íslands og orkugeirans.

Þeirri röð risavirkjana sem þegar hafa verið reistar við Kárahnjúka og Eyjabakka er einungis ætlað að skapa raforku fyrir álver Alcoa sem reist er af stríðsgróðafyrirtækinu Bechtel. Verksmiðjan, sem var þröngvað niður í tigna náttúrufegurð Reyðarfjarðar, fór í gang nú í vor, 2007. Ekki eitt einasta kílóvatt á að nýtast Íslendingum þó að framleiðsla rafmagnsins útheimti að griðastað sjaldsgæfs gróðurs og búsvæðum fágætra dýra sé sökkt.

Þó að ótrúlegt sé til frásagnar eru mörg þeirra svæða sem stimpluð hafa verið hæf til eyðileggingar, eins og Kringilsárrani og Þjórsárver, undir vernd bæði íslenskra og alþjóðlegra laga. Svæðið sem fór undir Hálslón var stærsta samfellda gróðursvæði norðan Vatnajökuls. Þessi svæði eru vegna jarðfræði sinnar og einstaks plöntu- og dýralífs ómetanleg náttúruvísindunum. Sem slík kunna þau um leið að verða lífsspursmál fyrir kynslóðir seinni tíma.

Hvernig vaðið hefur verið yfir fólk

Hingað til hefur ríkisstjórn Íslands og aðilar frá orkugeiranum ekki hikað við að beita ófrægingum, hótunum, fjársektum og öðrum ofsóknum á hendur einstaklingum sem standa gegn orkustefnu hennar og íslenskir umhverfisverndarsinnar eiga í erfiðri baráttu sem víst er að verður ekki unnin í einu vetfangi.

Grandvarir vísindamenn eiga undir högg að sækja og hafa oft þurft að verja sig og bjarga starfsheiðri sínum gagnvart ósvífnum fölsunum stjórnmálamanna og orkufyrirtækja á vísindalegum niðurstöðum þeirra. (Skemmst er að minnast hvernig Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur var rændur tjáningarfrelsi sínu sumarið 2006.)

Vegna ofkeyrslu hagkerfisins eykst verðbólga. Þetta er nákvæmlega það sem hagfræðingar spáðu fyrir um ef anað væri út í óhefta stóriðju, en á þá var ekki hlustað eða þá að ríkistjórnin þaggaði niður í þeim og skýrslum þeirra var stungið undir stólinn og hentugri tölfræði tranað fram.

Taprekstur næstu ára á Kárahnjúkavirkjun, sem nú hefur verið staðfestur, mun koma niður á heimilum landsmanna. Vandamál vegna stóriðjustefnunnar eru í fréttum í hverri viku og um leið verður fólki ljósara umfang eyðileggingarinnar. Skoðanakönnun Gallup frá því í apríl 2007 sýnir að meira en helmingur þjóðarinnar telur rétt að leyfa enga frekari stóriðjuuppbyggingu næstu fimm árin.

Hver eru rökin?

Ein af meginröksemdunum fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana fyrir álver er að vatnsorka sé umhverfisvæn. En uppistöðulón kaffæra gróður sem síðan rotnar og leysir gróðurhúsalofttegundir úr læðingi. Uppistöðulón framleiða einnig umfangsmikið magn af Co2 og metangasi, í sumum tilfellum framleiða þau jafnvel meira af gróðurhúsalofttegundum en orkuver sem knúin eru með olíu. Uppistöðulón almennt virka heldur ekki sem endurnýjanleg orka því þau fyllast af framburði aurugra jökulánna jafnvel á 40 árum. Síbreytileg vatnsborð lónanna valda sandfoki og landrofi sem hefur skelfileg áhrif á gróður umhverfis langt út fyrir stíflustæðið. Næringarríkur framburður jökulánna skilar sér ekki lengur út á fiskimiðin, sem hefur afar neikvæð áhrif á lífríki sjávar og fiskimiða undan ströndinni. Framburður jökuláa heftir gróðurhúsalofttegundir þegar hann kemst í sjó. Með því að stöðva þetta volduga viðnám náttúrunnar við að sporna við gróðurhúsaáhrifum í andrúmsloftinu eru Íslendingar að auka enn við gróðurhúsavanda jarðarinnar á þeim tíma sem síst skyldi.

Nú þegar rökin um ‘umhverfisvænar’og ‘sjálfbærar’ vatnsaflsvirkjanir hafa verið hrakin er byrjað að ljúga því beinlínis að gufuaflsvirkjanir séu umhverfisvænn möguleiki til rafmagnsframleiðslu. En heitt vatn er einungis gott til að halda hita á húsunum okkar og sundlaugum, nýting þess til rafmagnsframleiðslu er afar léleg. Borholur endast ekki nema í 40 ár. Eftir það þarf að hvíla svæðið í jafnlangan tíma. Hver tilraunaborun gerir ruslakistu úr fallegu landi. Gufuaflsvirkjanir kalla á mikið jarðrask, fleiri raflínur og rörleiðslur og hver þessara virkjana skilar ekki nema litlum hluta af þeirri orku sem álver þarf á að halda. Eitt stykki álver kallar á mörg orkuver. Vísindamenn hafa bent á að í raun séu háhitasvæði á landinu ekki mörg, eða aðeins um tuttugu talsins. Vitneskja okkar um lífríki jarðhitasvæðanna sé afar takmörkuð og því sé afar varhugavert að rasa um ráð fram í að virkja þessi svæði því náttúrufar á þeim og lífríki sé einstætt og mjög merkilegt.

Sumir réttnefndir ‘atvinnumeðmælendur’ stóriðjustefnunnar halda því fram að vegna baráttunnar gegn hækkandi hitastigi jarðar, sé það hnattræn skylda Íslendinga að útvega fyrirtækjum í áliðnaði ‘græna’ orku, annars ‘neyðist’ þau til að nota orku frá olíu og kolum. Þetta er ekki rétt. Flest álver í heiminum eru knúin af vatnsorku eða gasi.

Þessir sömu aðilar gera enga kröfu um að álfyrirtækin láti af að framleiða einnotavöru og snúi sér að endurvinnslu áls í stað frumvinnslu, sem myndi hafa í för með sér miklu minni orkuþörf, miklu minni mengun og minna af álrusli sem fleygt er á ári hverju.

Þess er heldur ekki krafist að álrisarnir einskorði framleiðslu sína við nauðsynjavörur, hvað þá að þeir hætti að framleiða ál í morðvopn, eins og bæði Alcoa og Alcan gera.

Hinsvegar eiga Íslendingar að fórna náttúru sinni til að þessi starfsemi verði fjárhagslega hagkvæmari fyrir hergagnaframleiðendur!

Við skulum ekki gleyma því að ekkert þessara álvera er í eigu Íslendinga og að fyrirtækin sem eiga þau sækja hingað einungis vegna undirlægjuháttar stjórnvalda og orkuverðsins, sem er svo skammarlega lágt að því er haldið leyndu fyrir almenningi. – Orka sem á eftir að margfaldast í gildi á næstu áratugum.

Þessi fyrirtæki hafa á engan hátt til þess unnið að víðfeðm náttúrusvæði séu eyðilögð og vistkerfi menguð til þess eins að þau geti bætt hag sinn.

Hversu djúpt ristir metnaður stjórnvalda fyrir hönd íslensks almennings?

Saving Iceland stendur gegn þeirri þriðjaheimsstefnu að einblínt sé á frumframleiðslu, með einhliða atvinnutækifæri og óheilbrigt atvinnu umhverfi, sem eina möguleikann til uppbyggingar í atvinnulífi á Íslandi.

Þegar Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álvers Alcan með lýðræðiskosningu, var það mikill sigur, þó mjótt hafi verið á mununum, enda afar ójafn leikur í aðdraganda kosningana. Um leið heyrðist hljóð úr koppi forystumanna atvinnulífsins sem bölvuðu lýðræðinu þar sem það stæði í vegi fyrir að fyrirtækin gætu farið sínu fram. Við spyrjum tilbaka; er íbúum Íslands einungis ætlað að vera viljalaus leikföng pólitíkusa, verktaka, atvinnurekenda og erlendra stórfyrirtækja? Kemur það almenningi ekki við hvernig farið er með vistkerfi, land og samfélag?

Með því að ýta undir innflutning á ódýru vinnuafli erlendis frá er ríkisstjórn Íslands leynt og ljóst að reyna að skrúfa til baka réttindabaráttu íslensks verkalýðs á síðustu öld. Samt eru viðbrögð verkalýðsfélaga sama sem engin eða þá að þau bera keim af af spillingu og þjónkun við ríkið. Þessi staðreynd afhjúpar einnig fals þeirrar staðhæfingar ríkisstjórnarinnar að virkjanir og álver séu reist til að skapa störf fyrir Íslendinga. Atvinnuleysi á Íslandi er alls ekki það mikið að grípa þurfi til örþrifaráða. Stuðningur við margbreytilegan minni rekstur skapar störf og fjölbreytt mannlíf. Við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og verksmiðu Alcoa komu um 90% verkamanna við stíflubygginguna og verksmiðju Alcoa erlendis frá og fréttir af ömurlegum aðstæðum þeirra eru enn tíðar. Þetta gengur þvert á fyrri röksemdir fyrir brýnni nauðsyn þessa verkefnis til uppbyggingar atvinnulífs á landinu. Auk þess sýna mannfjöldarannsóknir að burtfluttir Austfirðingar hafa ekki flust tilbaka þrátt fyrir allt umstangið. Þrátt fyrir þessar staðreyndir hamast stjórnvöld við að sannfæra þjóðina um að það besta fyrir landsbyggðina sé að íbúar hennar gerist átthagabundin þý í verksmiðjuvíti.

Þetta helst í hendur við niðurborgað orkuverð til stóriðju í skiptum fyrir skemmdarverk á dýrmætustu auðlind Íslands, óspilltri náttúru. Hræsni ríkisstjórnar Íslands og stóriðjurisanna sýnir sig best í þeirri undanþágu frá Kyoto samningnum sem ríkisstjórnin kríaði út til að mögulegt væri að halda úti stefnu sinni um aukinn þungaiðnað. Um leið stæra Íslendingar sig af því að búa í óspilltu landi og kynna landið þannig. Verði markmið ríkisstjórnarinnar um aukinn þungaiðnað ekki stöðvuð verður slík landkynning marklaus og fáránleg.

Hvað er í húfi?

Alcoa hafa þegar lagt fram áætlanir um að reisa næsta álver sitt á Bakka við Húsavík. Century Aluminum (Norðurál) hefur fengið í gegn gríðarlega stækkun á sínu álveri í Hvalfirði á kostnað eyðileggingar Hengilssvæðisins. Þar sem Hafnfirðingar kusu gegn stækkun Alcan skoðar fyrirtækið áform um að reisa stækkunina á landfyllingu, í sömu fjarlægð við bæinn, þvert ofan í vilja bæjarbúa. Þvílík dæmigerð ósvífni! Ef Alcan velur Keilisnes fyrir enn aðra álbræðslu og sleppir Þorlákshöfn er varhugaverður hópur verktaka sem vill reisa þar álbræðslu með því hlálega nafni ‘álvinnslugarður’ eins og um væri að ræða ylrækt, en ekki krabbameinsvaldandi þungaiðnað. Norsk Hydro bíður færis úti í ‘Kárahnjúkaskammarkróknum’ með risaálbræðslu handa Þorlákshafnarbúum. Century vill reisa aðra álbræðslu í Helguvík og að auki hafa R&D Carbon (Kapla hf) tryggt sér byggingarleyfi fyrir olíudrifinni rafskautaverksmiðju við Katanes í Hvalfirði, sem mun valda gífurlegri mengun, fái hún að rísa. Þannig verksmiðja byggist á því að nógu mörg álver verði til að þjónusta á Íslandi. Og gleymum ekki hinni einu sönnu eiturspúandi Járnblendisverksmiðju.

Náttúruvísindamenn hafa varað íbúa höfuðborgarsvæðisins við hrikalegum afleiðingum þess að þessar áætlanir fái að verða að veruleika. Faxaflói, segja þeir, yrði þá að einu ,,mengaðasta svæði Norður Evrópu“, samhliða því að verða mesta álframleiðslusvæði í heiminum. Er þá sýnin um Hreina Ísland („Pure Iceland“) sölumennskan ein?

Við skulum heldur ekki gleyma því að nærri öll stórfyrirtækin sem minnst hefur verið á eiga sér langa sögu um dóma fyrir umhverfisglæpi og eiga enn yfir höfði sér dóma fyrir alvarlegar umhverfisskemmdir og spillingu. Alcoa eitt hefur verið dæmt yfir 50 sinnum á síðasta áratug fyrir glæpi gegn umhverfinu. Það er ansi dæmigert fyrir aðferðir þessara aðila að sumarið 2006 þegar talsmaður Alcoa-Ísland var spurð út í þessa staðreynd var það eina sem hún gat látið sér detta í hug sem svar að þetta væri nú ekki mikið mál því fyrirtækið væri svo ‘gamalt’ og því væri eðlilegt að það hefði safnað nokkrum dómum á sig. Alcoa er allmiklu eldra en tíu ára, reyndar er það elsti auðhringur sem til er.

Hvað ætli hið slóttuga lið Landsvirkjunar, verktakafyrirtækin og önnur orkufyrirtæki séu að gæla við að reisa margar virkjanir fyrir allar þessar óhugnanlegu áætlanir um álver og annan þungaiðnað? Jú, samkvæmt yfirlýsingum þeirra þýddu þær virkjun nánast allra jökuláa og háhitasvæða Íslands.

Það eru sem sagt nærri öll víðerni Íslands sem eru í húfi!

Íslenskir umhverfisverndarsinnar sjá fram á að þurfa að eiga í baráttu sem enginn endir er sjáanlegur á. Í raun eigum við í auðlindastríði við okkar eigin stjórnvöld og þá erlendu herra sem þau þjóna af lotningu. Alþjóðleg samstaða og þrýstingur erlendis frá mun vega þungt í þessari baráttu

Árið 2002 keypti Alcoa sig inn í hinn bandaríska arm World Wide Fund For Nature og þannig misstum við mikilvægan alþjóðlegan stuðning í baráttunni gegn Kárhnjúkavirkjun. Það gæti líka verið að nokkru leyti skýring á þöggunarsamsærinu sem gilti um ástand umhverfismála hér á landi, bæði heima fyrir og erlendis, fyrstu smíðaár Kárahnjúkastíflunnar. En með þrotlausri baráttu er okkur loks að takast að brjóta þennan þagnarmúr. Heimsbyggðin er loks að vakna til skilnings um hvað er í húfi.

Hvers krefjumst við?

Við krefjumst þess að öll áform um stækkanir álvera og áform um ný álver og virkjanir fyrir álframleiðslu og aðra stóriðju verði stöðvuð þegar í stað.

Við krefjumst einnig óháðs endurmats frá grunni á því hvernig niðurstöður vísindamanna hafa verið túlkaðar og að farið verði yfir ferli ákvarðanatöku um öll verkefni og áætlanir um fórnun íslenskrar náttúru fyrir orkunotkun í þungaiðnaði.

Mótmælin

Þessi aðför að íslenskri náttúru er ekki einkamál Íslendinga. Mengun virðir engin landamæri. Ástæða þess að hópar fólks úr ýmsum hornum alþjóðasamfélagsins hafa komið til landsins til að mótmæla síðustu sumur ætti að vera nokkuð augljós sé horft til hnattvæðingarinnar. Ríkisstjórn Íslands er búin að bjóða hingað fjölþjóðlegum fyrirtækjasamsteypum til að taka þátt í einskonar þungaiðnaðarkapphlaupi sem hefur tekið náttúru Íslands og íslenskt lýðræði kverkataki. Við berjumst gegn umhverfisglæpum sem koma öllum heiminum við, því að náttúra og vistkerfi heimsins er hluti af lífi og arfleifð okkar allra.

Íslensk lögregla hefur litla reynslu af skipulögðum mótmælum og engar vinnureglur um rétt almennings til að hafa bein og róttæk mótmæli í frammi. Það sem fólk er dæmt fyrir hérlendis hefur Evrópudómstóllinn margoft kallað ‘pólitíska tjáningu’. Sumarið 2006 flæmdi lögreglan mótmælendur burt frá Lindum að ósk Landsvirkjunar, en ekki af því að mótmælendur væru að brjóta lög á staðnum. Lögreglan hefti ferðir um hálendisvegi ef fólk var grunað um að hafa ‘rangar’ skoðanir á Kárahnjúkavirkjun og reyndi að svelta búðir mótmælenda í einskonar herkví. Lögreglan ‘lagaði’ einnig til eigin myndbönd og notaði Stöð 2 til að senda út ‘sönnunargögnin’.

Þegar æsingur og hamagangur lögreglunnar fer út í beinar ofsóknir og líkamlegt ofbeldi gagnvart mótmælendum blása fjölmiðlar oft út mótmælin sem ofbeldisfull. Þetta segir meira um hið sanna eðli þeirra sem rembast við og þykjast fullir vandlætingar yfir þeim sem eru tilbúnir til þess að stofna sjálfum sér í hættu til að áorka einhverju fyrir málstað sinn, frekar en að sitja döpur og aðgerðalaus gagnvart stórfelldum skemmdarverkum. Virðingu fyrir tjáningarfrelsi og réttindum borgara til að mótmæla kerfisbundinni valdníðslu er svo sannarlega ábatavant í þessu landi.

Stuðningur og þátttaka hundraða alþjóðlegra umhverfisverndarsinna í mótmælum síðustu ára var mikil lyftistöng og þátttaka þeirra í mótmælum sumarsins 2007 verður afar mikilvæg. Eins og sjá má af stóraukinni umfjöllun erlendra fjölmiðla um umhverfismál á Íslandi síðasta vetur þá er umheimurinn að vakna til vitundar. Þetta er beinn afrakstur baráttu okkar.

Sumarsólstöður 2005 mörkuðu upphaf einstakra atburða í sögu mótmælaaðgerða á Íslandi. Alþjóðlegu mótmælabúðirnar við Kárahnjúka löðuðu að sér fólk allsstaðar að úr heiminum, fólki frá Bretlandi, Spáni, Austurríki, Baskalandi, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Póllandi, Lúxemborg, Belgíu, Danmörku, Svíþjóð, Japan, Kanada og Bandaríkjunum. Margir Íslendingar hristu af sér slenið og tóku þátt í búðunum í fyrra.

Strax eftir fyrsta sumarið mátti finna fyrir því að búðirnar og beinar aðgerðir út frá þeim hafa haft afgerandi áhrif á íslenskt samfélag með því að hleypa í fólk meira hugrekki til að láta heyra til sín eftir áralanga þögn undir pólitísku oki og skoðanakúgun. Ungir Íslendingar eru að ganga til liðs við baráttuna.

Meðal þeirra áhrifa sem mótmæli síðustu ára höfðu á Íslendinga er að fólk þorir nú að skipta um skoðun á virkjanaframkvæmdum og stóriðju grillunni. Mótmælin beindu kastljósinu aftur að stóriðjunni og umhverfisáhrifum hennar og ekki síst félagslegum afleiðingum hennar. Fólk í fjármálageiranum fór að láta stöðugt í ljós andúð sína á stóriðju og benda á að áliðnaðurinn mundi ekki verða til bóta fyrir íslenskan efnahag.

Ísland er eitt síðasta stóra landsvæðið innan Evrópu sem hefur að geyma villta og töfrandi náttúru. Veröldinni er ekki stætt á því að láta græðgi stórfyrirtækja og skammsýni þeirra sem ættu að vernda hana eyðileggja náttúrufegurð Íslands.

SÝNUM SAMSTÖÐU Í VERKI MEÐ OKKAR EIGIN UMHVERFI!

ENGA STÓRIÐJU!

skodanakugun

Náttúruvaktin