'Menning' Tag Archive

nóv 04 2018

Hvalárvirkjun, forhert vanþekking eða ný framtíð?


Viðar Hreinsson

Viðar Hreinsson fjallar um Hvalárvirkjun í ítarlegri grein en hann telur að nú sé kominn tími til að byggja upp þekkingu og heildstæða sýn á sambúð manns og náttúru. Read More

okt 16 2017

Glapræði í Ófeigsfirði


Viðar Hreinsson

1. Gróðamannaþáttur

Áform eru uppi um að virkja Hvalá í Ófeigsfirði og raska Ófeigsfjarðarheiði með uppistöðulónum. Virkjunarmenn láta sem þeir séu að leysa Vestfirði og sérstaklega Árneshrepp á Ströndum úr ánauð.

Sem betur fer er í vaxandi mæli farið að kalla hlutina réttum nöfnum. Hér er græðgi á ferð, hagnaðarvon fyrirtækis sem smíðar sér yfirskin eftir hentugleikum. Það ætti að vera löngu liðin tíð að hagnaður sé eini mælikvarðinn á það hvort lagt skuli í tilteknar framkvæmdir eða ekki. Einber hagnaðarvon knýr virkjunarfyrirtækið áfram og hræsni að segja að það beri umhyggju fyrir umhverfinu, Vestfjörðum eða Árneshreppi. Ekki er nóg að segja vatnsaflsvirkjanir grænar því það á ekki að fórna náttúruverðmætum fyrir orkuframleiðslu. Það á ekki að auka sífellt orkuframboð eins og stöðugur vöxtur sé sjálfsagt mál, heldur þarf að draga úr allri orku- og auðlindasóun, ekki síst þeirri sem felst í ofneyslu og græðgi. Það hlýtur að duga að virkja í þeim mæli að það gagnist einungis nærsamfélögum í gegnum eignarhald og tekjur.

Fyrirtækið Vesturverk er að meirihluta í eigu HS Orku, sem aftur er í meirihlutaeign Alterra (áður hið alræmda Magma Energy sem átti heima í skúffu í Svíþjóð), fyrirtækis Ross Beaty sem áður rak námuvinnslu en flaggar nú búddisma og grænum viðhorfum í orkuvinnslu. Vesturverk hefur séð sér leik á borði að nýta erfiða stöðu Árneshrepps og veifar gylliboðum um bættar samgöngur, þriggja fasa rafmagn og nettenginu. Skiljanlega eru forsvarsmenn hreppsins langþreyttir á að tala fyrir daufum eyrum stjórnvalda, en kjánalegt er að halda að þessi virkjun sé töfralausn. Hún færir mestan hagnað eigendum sem eru víðsfjarri og fáeinum heimamönnum uppgrip og hressilegt þenslufyllerí. Eigendur Ófeigsfjarðar fá ugglaust dável greitt fyrir vatnsréttindi. Ekkert við þessa framkvæmd mun auka lífsgæði svæðisins til langframa heldur þvert á móti. Hvalárvirkjun verður fyrst og fremst mikið rask, með stíflum, lónum, skurðum, vegum og raflínum.

Aðferð stórgróðamannanna er vel þekkt eftir að Naomi Klein gaf út bók sína The Shock Doctrine fyrir nokkrum árum, um það þegar stórkapítalið nýtir aðstæður í kjölfar hamfara til að koma árum sínum fyrir borð og græða á uppbyggingunni. Sjá má sömu aðferð víða, ójafnvægi og óvissuástand eru nýtt til að ryðja vafasömum framkvæmdum leið. Það er svipuð aðferð og þegar Donald Trump og félagar skapa vísvitandi óreiðu til að treysta völd sín meðan athyglin beinist að ruglinu. Á sama hátt nýta gróðamenn óttann við að byggðarlag fari í eyði og lofa gulli og grænum skógum svo þeir fái að virkja. Blásið er upp neyðarástand og sett fram fölsk lausn. Umræðan er leidd afvega og samhengi brenglað þegar látið er sem verið sé að leysa vanda sveitarfélagsins þegar markmiðið er gróði orkufyrirtækisins. Read More

apr 21 2013
1 Comment

Getur þú staðið í vegi fyrir framförum? — Ferðasaga úr kaleidóskópískri tímavél Angeli Novi


Grein þessi, eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, birtist upphaflega í 1. hefti Tímarits Máls og Menningar 2013. Hún er unnin út frá sýningu Angeli Novi (Ólafs Páls Sigurðssonar og Steinunnar Gunnlaugsdóttur), Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum, sem fram fór í Nýlistasafninu í Reykjavík frá september til desember 2012. Sýningin var tilnefnd til menningarverðlauna DV í flokki myndlistar og sagði dómnefndin meðal annars að Angeli Novi hefði tekist „það sem engum öðrum á myndlistarsviðinu hefur tekist, að búa til verk sem á íhugulan hátt taka á því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér varð árið 2008.“ Myndirnar sem fylgja með greininni eru annars vegar stillur úr samnefndri kvikmynd sem var hluti af sýningunni; hins vegar ljósmyndir Guðna Gunnarssonar og Ingvars Högna Ragnarssonar.

Til er ljósmynd, tekin af Richard Peter, sem sýnir styttu af engli er horfir yfir rústir Dresden. Þrjár nætur í febrúar 1945 var þýska borgin — sem á mynd Peters er sem hrunin spilaborg — lögð í rúst af herjum bandamanna sem beittu þeirri hernaðarnýjung að varpa samtímis sprengjum og íkveikjubúnaði á borgina.1 Enn er deilt um hvort Dresden hafi haft nokkuð strategískt vægi sem hernaðarlegt skotmark, en bent hefur verið á að borgin hafi verið hálfgert menningarhreiður landsins. Það á að ýta undir þá söguskoðun að eyðilegging hennar, sem og fall þúsunda óbreyttra borgara, hafi fyrst og fremst verið til þess gerð að sýna fram á tortímingarmátt bandamanna og nýrrar tækni þeirra — framfarir þeirra í stríðsrekstri.2

Hver svo sem skýringin er kallast ljósmynd Peters beint á við níundu tesu ritgerðarinnar Um söguhugtakið, þar sem þýski heimspekingurinn Walter Benjamin hleður merkingu á málverk Paul Klee sem hann hafði nokkru áður eignast:

Til er mynd eftir Klee, sem heitir Angelus Novus. Á henni getur að líta engil, sem virðist í þann veginn að fara burt frá einhverju sem hann starir á. Augun eru glennt upp, munnurinn opinn og vængirnir þandir. Þannig hlýtur engill sögunnar að líta út. Hann snýr andliti sínu að fortíðinni. Þar sem okkur birtist keðja atburða sér hann eitt allsherjar hörmungarslys sem hleður án afláts rústum á rústir ofan og slengir þeim fram fyrir fætur honum. Helst vildi hann staldra við, vekja hina dauðu og setja saman það sem sundrast hefur. En frá Paradís berst stormur, sem tekur í vængi hans af þvílíkum krafti að engillinn getur ekki lengur dregið þá að sér. Þessi stormur hrekur hann viðstöðulaust inn í framtíðina, sem hann snýr baki í, meðan rústirnar hrannast upp fyrir framan hann allt til himins. Það sem við nefnum framfarir er þessi stormur.3

Orð Benjamins eru tæpitungulaust svar við spurningu sem öll pólitísk umræða fer fram í skugganum af: Hvað eru framfarir? Hvað raunverulega þýðir þetta allt að því heilaga orð, þessi undirstöðurök allra helstu pólitísku, efnahagslegu og félagslegu stórframkvæmda sem keyrðar eru í gegn í nafni aukinna lífsgæða og velmegunar fjöldans? Þetta orð sem horft er til, oft með trúarlegum hætti, sem leiðarinnar að fullkomnun, stígsins til fyrirheitna landsins — jafnvel fullkomnunarinnar sjálfrar.

Tuggur hinna kviksettu

„Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum.“ Þessi margtuggna klisja gnæfði síðastliðið haust stórum stöfum yfir inngangi Nýlistasafnsins í Reykjavík. Formuð líkt og hið illræmda skilti, sem kaldhæðnislega boðaði íbúum Auswitzch fangabúðanna frelsunarmátt vinnunnar, vörðuðu orðin innganginn að samnefndri sýningu Angeli Novi — samstarfsverkefnis Steinunnar Gunnlaugsdóttur og Ólafs Páls Sigurðssonar — sem stóð yfir í safninu frá lokum september til byrjunar desember síðasta árs.

Kjarni sýningarinnar var samnefnd kvikmynd sem að hluta var tekin upp í Grikklandi og á Íslandi á síðasta ári, að öðrum hluta samansett úr myndefni frá ýmsum ljósmynda- og kvikmyndasöfnum. Í forgrunni myndarinnar eru tveir til þrír einstaklingar í senn, kviksettir í sandi svo höfuðin ein standa upp úr. Ófærir um sjálfstæða hreyfingu tyggja þeir á milli sín eða skiptast á að gleypa ofan í sig og gubba út úr sér hvítum silkiborðum sem á eru ritaðar ýmsar klisjur og kreddur vestræns samfélags: Read More

mar 22 2004

Kárahnjúkavirkjun mótmælt á Tate Modern sýningu Ólafs Elíassonar


Morgunblaðið 22. mars 2004

Virkjun mótmælt á lokadeginum

EFNT var til mótmæla gegn Kárahjúkavirkjun í Tate Modern-safninu í gær á síðasta sýningardegi Ólafs Elíassonar. Hópur fólks, bæði Bretar og Íslendingar búsettir í London, safnaðist saman í túrbínusalnum upp úr hádegi og opnaði regnhlífar á gólfi salarins á meðan bréfmiðum var hent ofan af svölum og niður á gólf.

Áletranir með slagorðum gegn virkjuninni voru á regnhlífunum og á miðunum var vitnað í ummæli Ólafs í blaðinu Guardian frá desember sl. þess efnis að Alcoa væri að eyðileggja hálendi Íslands með stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar. Vöktu þessi mótmæli mikla athygli, en voru friðsöm að sögn blaðamanns Morgunblaðsins sem staddur var á sýningunni í gær.

Meðal áletrana voru: „Don’t let the sun go down on Iceland“ og vísað þar til sólarinnar í verki Ólafs. Í tilkynningu frá mótmælendum segir að með Kárahnjúkavirkjun sé verið að stíga skref aftur til 20. aldar.

Sjá nánar (á ensku): Umbrella Protest in Tate Modern

des 31 1970

Hernaðurinn gegn landinu


Á gamlársdag árið 1970 birti Halldór Laxness grein í Morgunblaðinu, sem hann nefndi „Hernaðinn gegn landinu“. Tilefni greinarskrifanna voru hugmyndir á þeim tíma um framkvæmdir í Laxá og Norðlingaöldulón í Þjórsárverum. Greinin birtist síðar í bók höfundar Yfirskygðir staðir, sem kom út hjá Helgafelli árið 1971 og er sú útgáfa greinarinnar birt hér.

Af öfugmælanáttúru sem íslendíngum er lagin, kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu innan lands og utan, einkum og sérílagi þó í ferðaauglýsingum og öðrum fróðleik handa útlendíngum, að Ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru. Margur reynir að svæfa minnimáttarkend með skrumi og má vera að okkur sé nokkur vorkunn í þessum pósti. Hið sanna í málinu vita þó allir sem vita vilja, að Ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspilt af mannavöldum. Því hefur verið spilt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp. Nokkur svæði í miðjarðarhafslöndum Evrópu, einkum Grikkland, komast því næst að þola samanburð við Ísland að því er snertir spillingu lands af mannavöldum.

Read More

Náttúruvaktin