Archive for 1998

mar 31 1998

Hin skrínlagða heimska


Pétur Gunnarsson fjallar um aðdraganda Eyjabakkadeilunnar og Kárahnjúkastríðsins.

Árið 1995 gaf markaðsdeild Iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar út bækling sem nefnist: „Lowest Energy Prices“ (Lægsta orkuverðið). Það er ekki hlaupið að því að nálgast þennan bækling, markaðsdeild Iðnaðarráðuneytisins hefur innkallað hann, hann fyrirfinnst ekki á Borgarbókasafni né Þjóðarbókhlöðu, eitt eintak er skráð í bókasafni Seðlabankans, til skoðunar á staðnum, en reyndist ekki heldur tiltækt þar og fannst að lokum í skjalasafni fyrrnefnds banka í einu úthverfa bæjarins.

Í þessum sjaldgæfa og samt tiltölulega nýja bæklingi eru tíundaðir kostir þess að við Íslendingar skulum geta boðið allra lægstlaunaða vinnuaflið í sambærilegum ríkjum Evrópu, auk þess – og takið nú vel eftir – séu starfsleyfi fyrir stóriðju hérlendis vanalega samþykkt með lágmarkskröfum til umhverfismála („the operating licence is usually granted with a minimum of environmental red tape“).

Í framtíðarsýn núverandi iðnaðarráðherra á Ísland að verða rafhlaða sem knýr álbræðslur heimsins. Þessi nútíma Skugga-Sveinn gín yfir öræfum landsins og til halds og trausts hefur hann sinn Ketil skræk sem samþykkir allt sem hann mælir fyrir um og er svo þjálfaður að skrifa upp á starfsleyfi fyrir álbræðslur að hann er iðulega búinn að því áður en þær ná að ganga frá formsatriðum umsóknarinnar, enda eins og segir í bæklingnum: starfsleyfi fyrir stóriðju hérlendis er vanalega samþykkt með lágmarkskröfum til umhverfismála.

„Fólk hefur ekki ímyndunarafl til að skilja stjórnmálamenn“ segir í Atómstöðinni, en ef þessi áform næðu fram að ganga væri úti um það Ísland sem við teljum okkur þekkja í dag.

Í hverju felst aðdráttarafl íslenskrar náttúru? Þetta sem gerir að verkum að við getum ekki án hennar verið og verðum sem oftast að hafa hana fyrir augunum og vita að hún „vakir og lifir þó enn“. Það er af því að hún er ómanngerð – þetta orð hefði ekki skilist fyrir fáeinum áratugum – en fær áþreifanlegri merkingu með hverju árinu eftir því sem fleiri neonljós ber við eiturbrasaðan himin, olíubrákin glampar víðar á þríkrossuðum höfunum og malbikið skríður hraðar yfir jarðskorpuna. Eftir því sem þessi heimsmynd verður skýrari því ómetanlegra verður Ísland í öllum sínum ósnertanleika, öræfin eru dulvitund landsins, og það er í dulvitundinni sem draumarnir búa og sköpunin – allt sem er dýrast og upprunalegast.

Í dag – eins og á Sturlungaöld – stendur okkur mest hætta af okkur sjálfum, það er fyrst og fremst valdabaráttan, auðlindasölsunin innanlands, sem við þurfum að horfast í augu við. Það er búið að taka af okkur miðin, næst á að snúa sér að landinu og koma því í hlutabréfatækt form. En það er ekki þar með sagt að við verðum rekin í burtu, þvert á móti, okkur býðst eftir sem áður að vera: „lægslaunaða vinnuaflið í sambærilegum ríkjum Evrópu“.

Í hvert skipti og óráðskennd áform á borð við þessi spyrjast út, rýkur þjóðin upp til handa og fóta með andfælum og mótmælir hástöfum. En ofvirkjunarmenn eru ekki af baki dottnir, þeir taka málið einfaldlega af dagskrá, bæklingur sem aldrei var ætlaður fyrir almenningssjónir á Íslandi er innkallaður, ekki að þeir séu hættir við, þvert á móti; undirbúningur er í fullum gangi, aðeins er hann ekki til umræðu.

Það er þessi íslenska þögn, svo lífgefandi á öræfum uppi, en að sama skapi þrúgandi í opinberri umræðu. Þess vegna er okkur lífsspursmál að eiga fjölmiðla sem halda vöku sinni, sem upplýsa okkur um gang mála í þessu litla en lokaða samfélagi okkar og hafa úthald og siðferðisþrek til að fylgja málum eftir og afhjúpa þegar brögð eru höfð í frammi.

Hin skrínlagða heimska má aldrei ná að ríkja yfir Íslandi.

Höfundur er rithöfundur.

Flutt á Rás 1 31. mars 1998 og birt í Glettingi 1998.

 

Náttúruvaktin