mar 08 2008

Er þekking best í hófi í þekkingarsamfélagi?

Guðmundur Páll Ólafsson,rithöfundur og náttúrufræðingur, skrifar um áhrif virkjana á jökulár landsins. Greinin birtist í mars 2008.

Þótt þorskur sé ekki talinn „skepna skýr“ veit hann að hollt er að eiga samleið með jökulám landsins. Hann veit að við ósa þeirra henta aðstæður hrygningu og klaki enda eru jökulfljótin einskonar skapanornir þorsksins. Þær búa honum aðstæður og örlög og munar ef til vill einna mest um systur þrjár: Ölfusá, Þjórsá og Skeiðará.

Hvergi við Íslandsstrendur hefur hrygning þorsks verið jafn öflug og umfangsmikil og framan við ósa Þjórsár. Hvergi er mikilvægara að fara að með gát en þar; ögn utar er Selvogsbanki – langstærsti og dýrmætasti banki landsins.

Samofið lífkerfi

Þegar vorið vitjar sjávarins bráðnar klaki og snjór á landi, lækir þrútna og ár hlaupa. Vorflóð eru næringarsturta sjávar. Þau töfra fram þrennt í senn: flytja framburð og uppleyst næringarefni og mynda ferskvatnshimnu ofan á sjónum – og þar sem ferska lagið mætir því salta blómgast þörungalíf og svifdýr tímgast. Þörungar eru æti svifdýra og svifdýrin æti þorskseiðanna en líka loðnuseiða svo dæmi séu tekin af stofnum sem eru í hættu. Samspilið þarf að vera ein allsherjar harmonía á þeirri ögurstund þegar seiðin leita ætis. Þetta samofna lífkerfi lands og sjávar – þar sem Þjórsá er helsta lífæðin – var ekki ofið í gær, heldur hefur viska náttúrunnar tvinnað samhengið – í Íslands milljón ár.

Þegar önnur eins Auðhumla og Þjórsá er margstífluð geldist hún rétt eins og aurugar ár um alla Jörð sem teknar hafa verið úr sambandi. Vorflóð minnka, dægursveiflur og haustflóð hverfa; framburður, uppleyst steinefni og næringarefni sitja eftir í stíflum og lífhimnan sem ferskvatnið myndar veikist – allt á kostnað vistkerfis strandsjávar og hafs.

Auðlindaeyðing

Um allan heim rekja menn auðlindaeyðingu í hafi og ám til risastíflna í aurugum fallvötnum. Stíflur eru öflugustu mannvirki heims til að eyða vistkerfum og lumar maðurinn þó á mörgum groddaaðferðum.

Allt bendir til að risastíflurnar í Þjórsá/Tungnaá hafi þegar haft alvarleg áhrif á hrygningu þorsks og afkomu þjóðarinnar. Sennilega hafa þær skaðað fleiri nytjastofna eins og loðnu. Reynsla af virkjunum í aurugum fljótum víða um heim staðfestir ótvíræða eyðingu vatnafiska, sjávarlífs og óshólmasvæða. Hér heima höfum við ekki fylgst með. Við vitum mest lítið hve alvarleg áhrifin eru vegna átakanlegs andvaraleysis við hafrannsóknir og stjórnun fiskveiða.

Þetta vitum við þó:

Árið 1975 – fimm árum eftir gangsetningu Búrfellsvirkjunar hrundi þorskstofninn við Ísland. Vitnisburðurinn er í fyrstu Svörtu skýrslu Hafrannsóknastofnunar. Síðan hefur enn syrt í álinn – og á því miður eftir að sortna.

Við vitum líka að hlaup í Skeiðará hafa haft afgerandi áhrif á hrygningu og klak þorsksins. Og við vitum að stórir árgangar þorsks tengjast hlaupum í Skeiðará.

Virðum náttúruauðlindir

Friður á að ríkja um náttúruauðlindir. Þeim má ekki spilla út af kjánaskap eða stundargróðavon. Um þetta eru flestir Íslendingar einhuga. En við búum í örlitlu samfélagi þar sem hamagangur er mikill og vandvirkni er sjaldan til trafala. Yfirsýn okkar um auðlindir er bágborin. Lítið fer fyrir auðlindavernd og orðið náttúruvernd er horfið úr öllum nöfnum stofnana. Engin heildstæð verndarstefna fyrir höfuðauðlindina, sjóinn, er til né heldur fyrir vatnafar og vatnasvið landsins – og eru hér þó aðeins nefndar tvær mikilvægustu auðlindir Íslands.

Er þekking best í hófi?

Sennilega er Þjórsá (eða var) mesti auðlindasmiður Íslands. Þar áformar Landsvirkjun að reisa þrjár, nei fjórar virkjanir til viðbótar án rannsókna á heildaráhrifum þeirra. Áformin eru um 50 ára gömul eins og verkfræðin. Engin úttekt hefur heldur farið fram á neikvæðum áhrifum virkjana í notkun. Engar langtíma kerfisrannsóknir á samspili jökulvatns og sjávarauðlindarinnar hafa farið fram. Samt hafa vísindamenn bæði bent á samhengið og varað við.

Ábyrgur sjávarútvegsráðherra tæki fyrir allt fikt við virkjun Þjórsár og reyndar í öllum jökulám landsins og setti í gang öflugar kerfisrannsóknir í sjó til að meta langtímaáhrif jökulvatna á sjávarauðlindina.

Í 1. grein laga um náttúruvernd stendur eftirfarandi: Tilgangur þessara laga er að stuðla að samskiptum manns og umhverfis þannig að hvorki spillist líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft /…/ og stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.

Engin ábyrg ríkisstjórn lætur auðlindaeyðingu afskiptalausa.

Þegar vorið vitjar Þjórsár syndir einn stærsti laxastofn landsins á hrygningarstöðvarnar í ánni. Lax er land- og vatnsgæði og það má aldrei vera undir duttlungum einstaklinga eða stjórnar Landsvirkjunar, ekki sveitarstjórna og ekki einu sinni ríkisstjórnar komið að farga slíkri auðlind. Hún á að vera til staðar þegar hver einasti núlifandi Íslendingur er kominn yfir móðuna miklu – og mun lengur. En verði virkjað við Urriðafoss eru yfirgnæfandi líkur á því að stofninn hrynji og hverfi. Er það ekki umhugsunarvert?

Náttúruauðlindir eiga að njóta verndar þingheims og ríkisstjórna sem þjóðararfur ekki síður en handritin okkar. Það er pólitík þekkingar, ábyrgðar og visku.

Náttúruvaktin