ágú 11 2008

Þrýst á að óvinnufærir starfsmenn snúi aftur til vinnu

MBL.is – Verkalýðsfélag Akraness segir að stóriðjufyrirtækin Norðurál og Elkem Ísland á Grundartanga virðast leggja nokkuð hart að þeim starfsmönnum sínum sem lent hafi í vinnuslysum að mæta sem allra fyrst til vinnu aftur, þó svo að starfsmennirnir séu með læknisvottorð sem kveði á um óvinnufærni með öllu.
Fram kemur á vef félagsins að starfsmönnum fyrirtækjanna sé oft boðið að taka að sér léttari störf á verksmiðjusvæðunum og svo virðist sem tilgangur fyrirtækjanna sé að komast hjá því að skrá vinnuslys sem fjarveruslys.

„Þessi framkoma fyrirtækjanna er að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness með öllu óþolandi og hefur formaður gert alvarlegar athugasemdir við þessa framkvæmd á vinnuslysum bæði hjá Norðuráli og Elkem Íslandi.“

Á vefsíðu félagsins er tekið dæmi þegar ung kona, sem starfar hjá Norðuráli, varð fyrir lyftara fyrir nokkrum dögum. Konan var á sjúkrahúsið á Akranesi til aðhlynningar og í ljós kom að meiðsli hennar reyndust minni en talið var í fyrstu. „Þegar stúlkan tilkynnti vaktstjóra sínum daginn eftir slysið að hún treysti sér ekki til að koma til vinnu bæði vegna áverka og andlegs áfalls þá brást vaktstjórinn ókvæða við og sagði að við slíkt væri ekki hægt að una vegna þess að þá yrði að skrá slysið sem fjarveruslys. Svona framkomu ætlar VLFA ekki að sætta sig við og mun ekki gera,“ segir á vef verkalýðsfélagsins.

Þá segir að álíka tilfelli hafi komið upp hjá Elkem Ísland á síðasta ári. Þá datt starfsmaður í stiga og handleggsbrotnaði. Verkalýðsfélag Akraness segir forsvarsmenn Elkem hafa óskað eftir því við starfsmanninn að hann mætti til vinnu til léttari starfa þó svo að hann væri óvinnufær með öllu líkt og fram hafi komið í læknisvottorði sem starfsmaðurinn fékk.

Tekið er fram að þetta séu ekki einu tilfellin þar sem óskað sé eftir að starfsmenn þessara fyrirtækja mæti strax til vinnu eftir vinnuslys.

Náttúruvaktin