júl 18 2010

Svartbók áliðnaðarins

Nýlega kom út bókin Out of this Earth: East India Adivasis and the Aluminium Cartel eftir Felix Padel og Samarendra Das. Þeir félagar hafa eytt síðustu árum í rannsóknir á áliðnaðinum á alþjóðavísu, auk þess að vinna með frumbyggjum Odisha héraðsins (áður Orissa) á Indlandi. Rithöfundurinn Arundhati Roy ritar inngang að bókinni sem er gefin út af Orient BlackSwan.

Samarendra Das er mörgum landsmönnum kunnur, því hann kom til Íslands sumarið 2008 á vegum Saving Iceland og vakti mikla athygli á fyrirlestri sem samtökin héldu í Rvk. Akademíunni ásamt Andra Snæ, þar sem hann fjallaði að mestu um báxítgröft og baráttu frumbyggja Orissa héraðsins á Indlandi gegn báxítnámum þar. Einnig hélt hann fund með Samtökum Hernaðarandstæðinga þar sem hann fjallaði um tengsl álframleiðslu og stríðs, auk þess sem opnir fundir voru haldnir með honum á ýmsum vettvöngum. Nú standa Saving Iceland fyrir annari komu hans til Íslands, þar sem hann mun halda fyrirlestra og kynna bók sína víða um land og mun meðal annars koma fram á fyrirlestrahátíð sem tímaritið Róstur mun standa fyrir þann 21. ágúst.

„Í stærstu fjöllum suðurhluta Odisha héraðsins á Indlandi er eitt heimsins mesta aðgengi að báxíti, málmgrýtinu sem breytt er í ál – ríkidæmi sem á að færa velmegun inn í eitt af fátækustu héruðum Indlands,“ segir í umfjöllun útgefanda um bókina. „En fyrir frumbyggjunum sem hafa búið þarna lengur en sögubækur muna, eru þessi fjöll heilög – þau eru ekki auðlind til að arðræna, heldur uppspretta sjálfs lífsins: Báxíthlíðarnar birgja sig upp af vatni og sleppa því svo lausu í stöðuga lífsins strauma.

Þess vegna eru málmverksmiðjur, sem byggðar eru á löndum frumbyggja með það að marki að slíta í sundur fjallstindana, séðar sem síð-nýlenduinnrás sem óhjákvæmilega mun mæta mótspyrnu. Nú þegar hafa þúsundir Adivasi fólksins – „hin upprunalegu“ – neyðst til að yfirgefa heimkynni sín, í þessu ferli menningarlegs þjóðarmorð sem byggir á illræmdum svikum og spillir samfélagi hinna valdalausu á sama tíma og óendurbætanlegum jarðargæðum er sóað.

Ál er málmur sem við álítum sjálfsagðan hlut, sjálfsagðan þátt framleiðslu. En höfum við nokkra hugmynd um hversu dýrkeyptur hann raunverulega er? Bókin rekur falda sögu áliðnaðarins og segir hana í gegnum hundruð radda, hundruð sögur, um hvernig hvert landið á fætur öðru hefur gleypt við loforðunum um velmegun og stungið sér til sunds í hringiðju arðráns og skulda sem aldrei verða borgaðar aftur. Hver eru tengsl hins gríðarlega hruns íslensku bankana annars vegar og byggingu virkjana og álvera hins vegar? Hver er tengsl mafíugripdeilda á fjáreignum Rússlands annars vegar og stöðugt auknum völdum álbaróna hins vegar? Hvers vegna voru sett takmörk á byggingu álvera í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratugnum, og álver þess í stað reist í öðrum og fátækari löndum á borð við Gana, Gíneu, Jamaíka og Indland?

Svörin leynast í vel földum fjárstyrkjum og yfirgengilegum „ytri kostnaði“.

Álframleiðsla krefst gífurlegrar notkunar á vatni og rafmagni. Iðnaðurinn er keyrður áfram af einokunarhringjum sem samanstanda af námufyrirtækjum, fjárfestingarbönkum, ríkisstjórnum, málmkaupmönnum og vopnaframleiðendum. Að baki framkvæmdum áliðnaðarins liggja leynilegir samningar málmkaupmanna í London og öðrum stórborgum heimsins, sem halda iðnaðinum gangandi.

Adivasi fólkið sem berst gegn innrás áliðnaðarins á heimkynni sín í austur Indlandi mætir þar óvini sem er jafn vægðarlaus, grimmur og illskiljanlegur og Austur Indíafélagið, sá illræmdi nýlendurisi. Námugröfturinn er keyrður áfram af rótgróinni hugmynd um framþróun, sem felur í sér svo mikil völd að lýðræði og mannréttindi virðast oft á tíðum visna við það eitt að mæta henni augliti til auglits.

Þessi skarpskyggna mannfræðirannsókn flettir ofan af átökum þar sem hinn ósjálfbæri málmamarkaður etur kappi við íbúa Indlands; fólk sem hefur frá upphafi lifað við langtímasjálfbærni, í sátt og samlyndi við landið. “

Bókin er því miður ekki komin í sölu hér á landi ennþá, en verður það vonandi innan skamms. Nánari fréttir af komu Samarendra og upplýsingar um fyrirlestra og umræðufundi sem haldnir verða með honum verða birtar hér á vef Saving Iceland þegar nær dregur.

Náttúruvaktin