ágú 28 2009

Frekari lygar lögreglu

Það er óhugnarlegt að hugsa til þess að lögreglan er sú ríkisstofnun sem sat í 2. sæti á lista yfir traust almennings til slíkra stofnanna í könnun sem Gallup gerði í árslok 2008. 80% aðspurðra lýstu þar yfir trausti á lögregluna.

Þar sem stofnuninn iðkar  augljósar lygar og áróður eins og það væri eini tilgangur hennar segir það ófagra sögu um hversu upplýstu samfélagi við búum í þegar svona stór hópur lýsir trausti á stofnunina.

Dæmi um lygar í garð mótmælenda hafa verið ófá á seinustu misserum, seinast hér fyrir skömmu eins og útlistað er í greininni ‘Lögregla Gengur í Skrokk á Konu – Fjölmiðlar Taka Þátt í Rógburði’ hér á heimasíðu Saving Iceland. [1]

Nú hefur enn bæst í flokkinn yfir furðulegar, og að þessu sinni algjörlega tilgangslausar lygar stofnunarinnar, að þessu sinni frá lögregluembættinu á Suðurlandi, nánar tiltekið í Keflavík.

Í fréttaflutningi á mbl.is um vinnustöðvunaraðgerð sem gerð var á framkvæmdarsvæðinu í Helguvík þann 24. ágúst, þar sem sex manns voru handteknir fyrir að hlekkja sig við vinnuvélar, er haft eftir varðstjóra að um átta einstalingar séu á svæðinu og að þeir hafi hlekkjað sig við grindverk. [2]

Þessi frétt birtist klukkan 7:37 að morgni, og var vitað á þeim tíma að mótmælendur hefðu hlekkjað sig við vinnuvélar, en ekki grindverk eins og varðstjóri hélt fram.

Auðvitað gæti þetta bara verið dæmi um ófagmennsku og samskiptaleysi innan embættisins.

En önnur frétt, sem birt var klukkan 11:20 segir ,,Sexmenningarnir sem voru handteknir eftir að hafa hlekkjað sig við vinnuvélar á vinnusvæði Norðuráls í Helguvík í morgun eru lausir úr haldi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum var tekin skýrsla af fólkinu og það látið laust að því loknu.” [3]

Og þetta er þver lygi og tilgangur hennar algjörlega dulinn. Fyrsta mótmælendanum var sleppt klukkan 10:15, klukkan 11:20 er fréttin birtist voru 3 lausir úr haldi og þeim sjötta og síðasta var fyrst sleppt klukkan 12:15.

Hvaða furðulega tilgangi svona lygar eiga að þjóna er algjör ráðgáta, en þær votta í enn eitt skiptið að lögregluembættinu er ekki treystandi fyrir einu einasta smáatriði. Allt sem vellur út frá stofnuninni er rógburður og lygar frá rótum og ætti fólk að hafa sér þetta til hliðsjónar þegar það les eða heyrir hluti frá þessari stofnun.

 

  1. Grein af heimasíðu Saving Iceland: ‘Lögregla Gengur í Skrokk á Konu – Fjölmiðlar Taka Þátt í Rógburði’

  2. Grein á mbl.is ‘Mótmæli í Helguvík’

  3. Grein á mbl.is ‘Laus úr Haldi Lögreglu’

Náttúruvaktin