ágú 20 2005

Vald og víðerni

Ólafur Páll Jónsson fjallar um aðgerðir lögreglu gegn Saving Iceland sumarið 2005.

Í sumar risu tjaldbúðir við Kárahnjúka þar sem stærsta jarðvegsstífla Evrópu mjakast upp. Á ferðinni var hugsjónafólk sem stendur ekki á sama um stærstu óspilltu víðerni Evrópu og margar af dýrmætustu náttúruperlum Íslands. Það vildi mótmæla virkjanaframkvæmdum og byggingu risaálbræðslu við Reyðarfjörð (á við 2 álbræðslur Alcan í Straumsvík). Í lok júlí dró til tíðinda eftir að mótmælendur fóru inn á vinnusvæði og ollu töfum og tjóni sem Sigurður Arnalds, talsmaður Landsvirkjunar, segir að nemi tugum eða hundruðum þúsunda. Nokkrir mótmælendur voru handteknir og leyfið fyrir tjaldbúðunum var afturkallað. Á meðan búðirnar voru fluttar að Vaði í Skriðdal barst lögreglunni liðsauki svo ekki færri en 20 lögreglumenn á 9 bílum vöktuðu vinnusvæðið og víðernin norðan Vatnajökuls – fólk í sumarfríi var stoppað og spurt á hvaða leið það væri, hverra erinda og hvort það hefði séð til grunsamlegra mannaferða.

Skömmu síðar fóru mótmælendurnir inn á vinnusvæði álbræðslu Alcoa við Reyðarfjörð (sem ekki hefur starfsleyfi) og klifruðu upp í krana með borða. Aftur voru mótmælendur handteknir. Stuttu síðar fóru þeir af svæðinu og var fylgt eftir hundruð kílómetra af lögreglunni. Og nú hyggst útlendingastofnun vísa 21 útlendingi úr hópi mótmælenda úr landi.

Harkaleg viðbrögð

Hvers vegna hefur lögreglan allan þennan viðbúnað, ekki bara á vinnusvæðum á Austurlandi heldur einnig eftir að mótmælendurnir eru komnir til Reykjavíkur? Og hvers vegna á að vísa fólkinu úr landi? Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður, telur að án dómsúrskurðar hafi lögreglan ekki haft lagaheimildir til að veita mótmælendunum eftirför frá Vaði og til Reykjavíkur og fylgjast svo með þeim þar. Það sé brot á ferðafrelsi og friðhelgi einkalífsins. Þórir Oddsson, vararíkislögreglustjóri, svaraði Ragnari (Spegillinn, Rás 1, 9. ágúst) og sagði meðal annars: „Ástæðan fyrir því að fylgst er með þessu fólki er einfaldlega sú að þetta er hluti af þessum hefðbundnu viðbrögðum lögreglu þegar mótmælaaðgerðir eru, sérstaklega þó vegna þess sem þessi hópur hefur gert sig sekan um. Þ.e.a.s. það var talið að þeir myndu vera með friðsamleg mótmæli en það gerðist nú ekki … talsmenn hópsins sögðust myndu halda áfram þessum mótmælum. En ef þau eru eitthvað í þá veru sem verið hefur … þá er það fyllsta tilefni til að veita því sérstaka athygli og hafa það undir eftirliti.“

Var fólkinu fylgt eftir og það vaktað í Reykjavík vegna þess að einhver í hópnum braut kannski rúðu í vörubíl eða henti lyklakippu út í móa? Er það vegna þess að farið var inn á vinnusvæði og klifrað upp í krana með borða sem á voru slagorð gegn virkjun og álbræðslu? Ekkert af þessu eru stórkostlegar sakir, og varla sakir til að svipta menn stjórnarskrárvörðum rétti. Þórir Oddsson vísaði bæði í 2. og 15. gr. lögreglulaga máli sínu til stuðnings. 2. gr. fjallar um almennt hlutverk lögreglu og getur augljóslega ekki réttlætt að gengið sé á stjórnarskrárvarinn rétt. 15. gr. er nær lagi, þar er fjallað um heimildir lögreglu til afskipta af borgurunum. En 15. grein fjallar um aðgerðir í þágu almannafriðar og allsherjarreglu, og ekkert af því sem mótmælendur gerðu getur talist ógn við almannafrið. Jafnvel þótt allar þær sakir sem á þá hafa verið bornar (en fæstar staðfestar) séu sannar, þá hafa mótmælin einfaldlega ekki verið nokkur ógn við almannafrið. Þess vegna er ljóst að lögreglan hefur farið út fyrir valdsvið sitt, og það langt.

Aðgerðir mótmælendanna eru fyrir opnum tjöldum og því þarf lögreglan ekki að liggja á njósn, nóg er að hafa menn á bakvakt og kalla þá út þegar mótmælt er. Yfirvöld vita að mótmælin eru engin ógn við almannafrið, þau eru opinber og friðsamleg. En hvers vegna er Víkingasveitin þá send til að vakta mótmælendurna og hjónin á Vaði? Það þarf ekki víkingasveit til að ná manni niður úr krana – hann hefur ekki stofnað neinum í hættu. Og hvers vegna er svo fylgst með manninum þegar hann er kominn niður úr krananum og alla leið til Reykjavíkur? Eru skilaboðin kannski þau að ólíðandi sé að stóriðjustefnunni sé mótmælt? Eða er ólíðandi að útlendingar komi og skipti sér af umhverfismálum á Íslandi?

Að lokum

Viðbrögð lögreglu og útlendingastofnunar virðast beinast gegn mótmælunum sem slíkum frekar en því sem mótmælendurnir gera. Og ef það er rétt, þá er framkoma ríkisins andlýðræðisleg; eitt af grundvallaratriðum í lýðræðislegu stjórnarfari er réttur borgaranna til að mótmæla aðgerðum yfirvalda. Mótmæli eins og þau sem efnt var til fyrir austan eru ný á Íslandi en í öðrum vestrænum löndum er litið á slík mótmæli sem viðurkennda leið til að láta í ljósi andúð á tilteknum málum. Og þar virðist lögreglan ekki fara á taugum þótt fólk fari fyrir opnum tjöldum á svig við lögin og trufli það sem er yfirvöldum þóknanlegt. Viðbrögð yfirvalda einkennast ekki af umhyggju fyrir siðferðilegum og pólitískum gildum eða almennu öryggi, heldur af óþoli gagnvart gagnrýni á stóriðjustefnu yfirvalda og óhóflegri beitingu valds.

Höfundur er heimspekingur og stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Íslands.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. ágúst 2005

Sjá einnig:

„Surprise, surprise!“ – Um Útlendingastofnunarmálið.

„We who have been protesting…“ Yfirlýsing frá Saving Iceland sumarið 2005.

Náttúruvaktin