feb 11 2006

Bechtel eftir Einar Á. Friðgeirsson

bechtelGagnauga.net
11. janúar 2005

Ef útlendingur vill vinna á Íslandi þarf hann að uppfylla ýmis ströng skilyrði Útlendingastofnunar. En hvað ef þessi útlendingur er fyrirtæki? Er eðlilegt að stjórnvöld geri samninga við fyrirtæki og veiti þeim starfsleyfi án þess að taka nokkuð tillit til spillingarsögu þess? Eru virkilega engin takmörk fyrir því hvað hvað fyrirtæki mega hafa á samviskunni þegar þau koma inní landið?

Ítalska fyrirtækið Impregilo hefur staðið í ströngu, og samskipti þeirra við íslenskan almenning, ríkið og verkalýðshreyfinguna hafa verið brösótt. En nú er á leiðinni til landsins annað ekki síður stórt verktakafyrirtæki sem mun byggja álverið sjálft á Reyðarfirði. Það er viðeigandi að kynna sér nánar sögu þessa fyrirtækis í ljósi hinna fjöldamörgu árekstra sem hafa átt sér stað milli Impregilo og Íslendinga.

Uppruni og vöxtur

Bechtel Enterprises er stærsta verktakafyrirtæki heims í einkaeign, og hefur verið í fararbroddi á Bandaríkjamarkaði í byggingu stórra orku- og samgöngumannvirkja síðan á fimmta áratugnum. Velta fyrirtækisins var 13.4 milljarðar dollara árið 2001 og 15,1 milljarðar árið 2000. Þó svo að hin víðfræga Hoover stífla sé þeirra frægasta verk þá hefur Bectel aldrei ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, og í samanburði við þau verk sem að þeir takast á við á hverju ári þá er álverið á Reyðarfirði einungis smáviðvik.

Warren A. Bechtel stofnaði fyrirtækið árið 1898, og fyrsta verk þeirra var að hefla leið fyrir járnbrautir í Oklahoma. Hægt og sígandi óx fyrirtækinu fiskur um hrygg og 1906 var Bechtel fjölskyldan farin að byggja jarðgöng, brýr, vegi og stíflur.

Árið 1931 var tímamótaár í sögu Bechtel, ekki síður en annara verktaka í bandaríkjunum þegar New Deal stefnan var tekin upp og nokkur risaverkefni sett á dagskrá til að reyna að draga Bandaríkin upp úr kreppunni miklu. Ásamt öðrum verktökum stofnaði Bechtel samsteypu (The Six Companies) sem að réðst í þetta mikla verk. Ekki var allt í himnalagi, þar sem að allar tilraunir verkamanna til að stofna verkalýðsfélög á stíflustæðinu voru barðar niður af mikilli hörku og samtals sakfelldi Atvinnumálaráðuneytið (Department of Labour) samsteypuna um 70.000(!) brot á réttindum verkamanna og öryggisreglum. Meðal þess var hin margreynda leið að binda verkamenn í óopinbert þrælahald með því að borga þeim ekki í peningum heldur innleggsnótum í verslunum sem voru reknar á vinnusvæðinu af fyrirtækinu sjálfu. Leiddi þetta oftar en ekki til þess að verkafólk sökk dýpra og dýpra í skuld við vinnuveitanda sinn. Íslendingar sem hafa kynnt sér sögu einokunarverslunar Dana á íslandi kannast óþægilega við þvílík vinnubrögð. Talsmaður Bechtel sagði á þeim tíma “Þeir annaðhvort vinna á okkar skilmálum eða þeir vinna ekki neitt”

Bechtel var sektað um 350.000 dollara (á verðlagi fjórða áratugarins) en tókst að nýta sambönd sín til að fá sektina lækkaða niður í 100.000 dollara.

Segja má að upp frá þessu hafi samruni Bechtel og hægrisinnaðra afla í iðnaðar- og stórnmálageiranum hafist fyrir alvöru. Veigamest af þessun samböndum var vinskapur Stephen D. Bechtel, sonar W.A. Bechtel við John McCone. McCone hagnaðist gríðarlega á skipasmíði fyrir kyrrahafsflotann á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar í samstarfi við Bechtel, og græddu þeir félagar meira en 100 milljónir dollara á fjárfestingu upp á rétt rúmlega 400 þúsund dollara. Var þetta nægilega svakalegt til þess að bandaríkaþing kallaði McCone og S.D Bechtel fyrir rannsóknarnefnd um óhóflegt stríðsbrask (profiteering). Sluppu þeir með skrekkinn frá þeirri rannsókn, og skömmu seinna var McCone útnefndur stjórnandi Kjarnorkumálanefndarinnar (Atomic Energy Comission). Var hann harðlega gagnrýndur fyrir brask-bakgrunn sinn af Ralph Casey, formanni Bókhaldskrifstofu ríkisins (General Accounting Office) sem sagði:

“at no time in the history of American business, whether in wartime or in peacetime, have so many men made so much money with so little risk, and all at the expense of the taxpayers, not only of this generation but of generations to come.”

Þrátt fyrir harða gagnrýni drottnaði McCone eins og kóngur í ríki sínu í Kjarnorkumálanefndinni, og bar ábyrgð á hinum gríðarlegu áætlunum Bandaríkjastjórnar um að byggja kjarnorkuver um allt land til að sjá almenningi fyrir raforku. Engan skal furða að Bechtel hefur byggt 40% af þeim kjarnorkuverum og tengdum mannvirkjum í Bandaríkjunum, en það sem verra er er að í gegnum tíðina hefur Bechtel verið alræmt fyrir afar slælegt öryggi í kjarnorkuverum sínum, og verið einn helsti andstæðingur hertra öryggisreglna við byggingar og viðhaldi þeirra. Á meðal þeirra kjarnorkuvera sem að Bechtel hefur byggt og hafa orðið fyrir langvarandi óhöppum og valdið gífurlegri mengun vegna sparnaðaraðgerða Bechtel eru: Pilgrim verið í Massachusetts, Susquehanna í Pennsylvaníu, Midlands og Palisades í Michigan, David-Besse í Ohio, og San Onofre og Rancho Seco í Kaliforníu.

Alvarlegasta tilfellið er þó hið gríðarlega hneyksli í kringum hreinsunina á Three-Mile Island kjarnorkuverinu (sem vert er þó að taka fram að Bechtel byggði ekki). Sem einn af aðalverktökunum bar Bechtel ábyrgð á því að hreinsa upp geislavirkni eftir þetta alvarlegasta kjarnorkuslys í sögu heimsins á eftir Chernobyl, og að breyta verinu til að koma í veg fyrir frekari slys. Eftir fremsta megni var reynt að skjóta sér framhjá öryggisreglum til að græða meira og var öryggi starfsmanna og íbúa í nágrenninu ítrekað stefnt í hættu. Verkamenn fengu ekki viðeigandi hlífðarbúnað og tæki sem áttu að vara við geislamengun voru gömul, úr sér gengin og í mörgum tilfellum einfaldlega ónýt. Einnig sleppti Bechtel því að gera við hluta af verinu þar sem það þótti ekki “nauðsynlegt út frá öryggissjónarmiðum”. Kjarnorkureglugerðarnefnd ríkisins (Nuclear Regulatory Commision) var ekki sammála. Á endanum var Bechtel sakfellt og sektað fyrir þetta apaspil og fékk harðar ávítur fyrir að hafa hótað og ofsótt starfsmenn sína sem reyndu að vekja athygli á málinu.

Eftir að hafa tryggt Bechtel gróðvænlega samninga í kjarnorkugeiranum var John McCone útnefndur yfirmaður CIA árið 1961. Þetta veitti Bechtel sambönd á æðstu stigum bandarísks stjórnkerfis, og sú mjög svo arðbæra stefna að ráða fyrrverandi ríkisstarfsmenn með góð tengsl innan stjórnkerfisins, og að koma fyrrum starfsmönnum sínum fyrir í lykilstöðum innan varnarmála, utanríkis- og iðnaðarráðuneytis ásamt ýmsum öðrum ríkisstofnunum skaut Bechtel upp í hæstu hæðir hins alþjóðlega viðskiptalífs.

Ef litið er á ferilskrár núverandi og fyrrverandi starfsmanna Bechtel er erfitt að sjá hvar Bechtel endar og ríkisstjórn BNA byrjar, svo samofnir eru hagsmunir þeirra.

Bechtel og almenningur

Í gegnum tíðina hefur Bechtel gert sitt besta til að forðast sviðsljósið. Þeir eru ekki skráðir á hlutabréfamarkaði (og þurfa þess vegna ekki að opna bókhaldsgögn sín almenningi) og reka ekki stórar auglýsingaherferðir. Enda engin þörf á því þar sem almenningur hefur nákvæmlega ekkert um vinnuaðferðir þeirra að segja og geta ekki haft nein áhrif á afkomu þess. Allur gróði Bechtel kemur í gegnum verksamninga við ríkisstjórnir, fylkisstjórnir og/eða önnur alþjóðleg stórfyrirtæki, svo ekki sé minnst á Bretton Woods stofnanirnar (Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann) sem hafa verið duglegar í seinni tíð við að útvega Bechtel gróðvænleg verkefni í þróunarlöndunum, oft þvert á vilja og hagsmuni viðkomandi landa.

Þetta gerir það að verkum að afkoma Bechtel er ekki á neinn hátt háð góðu sambandi við almenning. Þeir framleiða enga vöru sem almenningur neytir og geta þess vegna farið sínu fram algerlega skeytingarlaust um þjóðarhagsmuni í því landi sem þeir starfa í hverju sinni. Oft koma þeir og fara án þess að viðkomandi þjóð hafi hugmynd um vægast sagt vafasama viðskiptahætti þeirra.

En nýlega hafa nokkrir atburðir orðið til þess að varpa kastljósinu að Bechtel.

Cochabamba

Árið 1999 skikkuðu Bretton Woods stofnanirnar ríkisstjórn Bólivíu til að einkavæða margar ríkisstofnanir í skiptum fyrir efnahagsaðstoð og skuldbreytingar á lánum. Ein af þessum ríkisstofnum var vatnsveitan í Cochabamba, þriðju stærstu borg Bólivíu. Bechtel fékk verkið og bar þar með ábyrgð á bæði ferskvatnsöflun og skólpveitu Cochabamba. Þrátt fyrir fögur loforð um að auka hagkvæmni og þjónustu við fátækrahverfi sem höfðu haft lélegan aðgang að ferskvatni var fyrsta verk Bechtel að kynna nýja gjaldskrá sem að hækkaði verð að meðaltali 75-150% fyrir íbúana. Fólk var sett í þá stöðu að velja milli drykkjarvatns og þess að senda börn sín í skóla, eða jafnvel kaupa mat.

Í örvæntingarfullri tilraun til að lifa mannsæmandi lífi byrjuðu íbúar Cochabamba að safna regnvatni í tunnur til að spara notkun á vatnsveitunni. Bechtel var ekki sátt við þessa sjálfsbjargarviðleitni og hótaði fylkisstjórninni öllu illu ef ekki yrði komið í veg fyrir regnvatnssöfnun. Einkavæðingin gæfi þeim einkarétt á öllu vatni, einnig því sem félli af himnum ofan. Hræddir við sektir af hálfu Bretton Woods stofnanana bönnuðu yfirvöld regnvatnssöfnun með öllu og voru vopnaðir lögreglumenn gerðir út af örkinni til að stöðva þessa andkapítalísku hegðun. Almenniningi var nóg boðið, og mótmælti harðlega. Algerlega undir hælnum á Bechtel og Bretton Woods genginu sendi fylkisstjórnin óeirðalögregluna gegn almenningi í apríl 2000 og áður en yfir lauk lá einn borgari í valnum og meira en hundrað höfðu særst.

Á endanum varð yfirvöldum ljóst að almenningur ætlaði sér ekki að gefast upp. Komnir algerlega upp á kant við sína eigin borgara sáu bólivísk yfirvöld fram á borgarastyrjöld. Þeir riftu samningnum við Bechtel og drógu til baka einkavæðingu vatnsveitunnar.

Til að bíta höfuðið algerlega af skömminni stendur Bechtel nú í málaferlum við stjórnvöld í Bólivíu og krefst 25 milljóna bandaríkjadala í skaðabætur fyrir glataðan hagnað. Málið er fyrir rétti hjá alþjóðabankanum (World Bank’s International Court for the Settlement of Investment Disputes) og fer fram fyrir lokuðum dyrum. Engum dettur í hug að velta því fyrir sér hvort ekki hafi verið óþarfi að hækka verðskrána svona mikið ef að áætlaður hagnaður af rekstrinum var 25 milljónir dollara.

Cochabamba hefur vakið þó nokkra fjölmiðlaathygli, en alls ekki eins mikla og málið á skilið. Þessi atlaga að grundvallarmannréttindum fólks er svo sem nóg til að neita Bechtel um landvistarleyfi á Íslandi en svona til að gera út um málið skulum við líta á samband Bechtel, Donald Rumsfeld og einræðisstjórnar Saddam Hussein.

Bechtel og Írak – samningar við skrattann

Enginn maður hefur verið útmálaður sem djöfullinn sjálfur á vesturlöndum síðustu fimmtíu árin eins og Saddam Hussein. Að miklu leyti má segja að orðspor hans sé verðskuldað, en einungis lítilleg rannsóknarvinna leiðir í ljós að hann átti sér marga vildarvini á vesturlöndum allt fram að innrásinni í Kúveit.

Ein af aðalréttlætingum ríkisstjórnar Bush fyrir innrásinni í Írak var vilji og geta Saddams til að framleiða efna- og sýklavopn. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hamraði Bush á því í ræðum sínum að Saddam réði ekki bara yfir efnavopnum og verksmiðjum til að framleiða meira, heldur hefði hann sýnt vilja sinn til að nota þau þegar hann beitti þeim gegn Írönum og Kúrdum á árunum 1983-1988. Á sama tíma var Bechtel upptekið við að semja í gegnum Reagan stjórnina við Saddam um lagningu olíuleiðslu frá Írak til miðjarðarhafsins í gegnum Jórdaníu. George Schultz, utanríkisráðherra Reagans og þáverandi (og núverandi) stjórnarmaður hjá Bechtel barðist hart fyrir því að þetta mjög svo gróðvænlega verk færi í gegn og útvegaði lán og tryggingar frá hinu opinbera til að liðka fyrir. Sá sem að kynnti samninginn fyrir Saddam 1983 var enginn annar en Donald Rumsfeld, einn af helstu hugmyndasmiðum repúblikana og núverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Á þeim tíma var hann sérlegur sendiherra Reagans í miðausturlöndum og vann ötullega að því að treysta samband repúblikana við einræðisstjórn Saddams með fjárstuðningi, hagstæðum vopnakaupum og fleiru.

Þegar alþjóðaþrýstingur neyddi Bandaríkjamenn til að fordæma notkun efnavopna gegn Íran 1984 lögðu Schultz og Rumsfeld sig alla fram um að draga úr alvarleika fordæmingunnar og komu í veg fyrir hverskyns hömlur á viðskipti við Írak. Ekki skyldi styggja Saddam.

Eftir mikla vinnu við olíuleiðsluverkefnið dró hinn óútreiknanlegi Saddam sig út úr því og bar við að hann teldi að Ísraelsmenn myndu vinna leiðslunni skaða. Augljóslega var þetta mikill missir fyrir Bechtel og Bandaríkjastjórn.

Ekki nóg með það heldur einungis fjórum mánuðum eftir fjöldamorðin á Kúrdum 1988 tók Bechtel að sér ráðgjafahlutverk við byggingu PC-2 efnaverksmiðjunnar sem var með smávægilegum breytingum fær um að framleiða sinnepsgas. Þessi verksmiðja varð seinna meir meginröksemd vesturveldanna fyrir því að Saddam ynni enn að efnavopnagerð eftir að viðskiptabanni var komið á. Enginn minntist einu orði á að Bechtel hefði grætt myndarlega á að kenna Írökum að framleiða hráefni í efnavopn. Þetta var gert með fullu samþykki Repúblikana.

Eftir að viðskiptabann var sett á Írak í kjölfar Flóabardaga máttu engin fyrirtæki skipta við Saddam nema með samþykki Sameinuðu Þjóðanna. Eitthvað átti Bechtel erfitt með að hemja sig eins og tvær skýrslur frá Írökum til Sameinuðu Þjóðanna frá 1996 og 2000 sýna. Bechtel er þar á meðal rúmlega tuttugu bandarískra fyrirtækja sem að brutu viðskiptabannið með því að útvega Írak hergögn, útbúnað til notkunar hergagna eða ráðgjöf.

Þetta sýnir greinilega að allt fram að valdatíð Bush yngri græddi Bechtel grimmt á ógnarstjórninni í Írak. Eftir kosningarnar árið 2000 var allt í einu komið annað hljóð í strokkinn. Nú skyldi hreinsað til í Írak. Hryðjuverkin 11. september gáfu ríkisstjórninni þann meðbyr sem þurfti til að blása til stórsóknar gegn “hryðjuverkum”. Rumsfeld, sérlegur vinur Bechtel, og Schultz sem þegar hér er komið sögu er kominn aftur yfir til Bechtel, berjast hart fyrir innrás í Írak í kjölfar farsællar herferðar til Afghanistan þar sem Bechtel hefur líka verið að gera það gott.

17. Apríl 2003, einungis mánuði eftir að innrásin í Írak hófst gerði Bechtel samning við Bandaríkjastjórn um uppbyggingu í Írak upp á 680 milljónir dollara. Þessi samningur var aldrei boðinn út, heldur fékk Bechtel hann upp í hendurnar á lokuðum fundi. Fundargerðin hefur aldrei litið dagsins ljós. Á þessum sama fundi fékk Halliburton, fyrrverandi vinnuveitandi Dick Chaney olíuiðnað Íraks nánast á silfurfati. Vert er að taka fram að samningur Bechtel er af þeirri gerð sem að alla verktaka dreymir um, svokallaður “kostnaður plús þóknun” (cost plus fixed fee), sem gerir það að verkum að Bechtel fær endurgreitt allan kostnað auk prósentu af heildarkostnaði við verkið sem umbun. Þetta er eins óhagkvæmt og hugsast getur þar sem það er nú verktakanum í hag að verkið verði eins kostnaðarsamt og mögulegt er. Hvort sem það er Íraskur almenningur eða bandarískir skattborgarar sem að borga brúsan á endanum er það alveg ljóst að Bechtel mun græða, og græða grimmt.

Niðurstaða

Saga Bechtel frá 1930 er nánast samfelld sorgarsaga óheftrar gróðahyggju, vanvirðingar á umhverfinu, fjandsemi við verkalýðsfélög, afskipta í innanríkismál sjálfstæðra ríkja og glæpsamlegra hagsmunaárekstra innan bandaríska stjórnkerfisins. Bechtel hefur sýnt það og sannað trekk í trekk að þeim er nokkuð sama hvort að verkin sem þeir leysa af hendi séu vel unnin eða ekki, og að reglugerðir um mengunarvarnir skipta þá litlu sem engu máli.

Benda má á mörg fleiri dæmi um spillingu og umhverfissóðaskap Bechtel, s.s Big Dig göngin í Boston, BART lestarkerfið í San Fransico, gullnámur í Nýju Gíneu, hlutdeild þeirra í valdaráninu í Íran 1953.

Sú spurning sem Íslendingar þurfa að spyrja sig núna er þessi: Viljum við veita þessum mönnum aðgang að landi okkar? Væri okkur ekki sómi sýndur að því að koma fram við þá eins og við komum fram við aðra fulltrúa skipulagðra glæpasataka sem reyna að ná fótfestu hér á landi? Eitt er deginum ljósara að þegar bygging álversins hefst þá erum við illa stödd ef upp kemur ágreiningur um t.d. aðbúnað erlendra starfsmanna eða mengunarvarnir í álverinu því að Bechtel hefur sýnt það og sannað að þeir eru vel færir um að valta yfir ríkisstjórnir smáríkja sem setja sig upp á móti vinnubrögðum þeirra. Hver veit? Kannski við eigum eftir að sakna Impregilo eftir allt saman?

Heimildir:

Multinationalmonitor.org

* BechtelProfile.pdf
* profilebechtel.pdf

Náttúruvaktin