maí 29 2006

Íslandsvinir spyrja þig

Upplýsingabæklingur Íslandsvina.

Vissir þú að …

1)…eftirfarandi svæði eru í bráðri hættu eða verða fyrir umtalsverðu raski vegna stóriðjuframkvæmda; Torfajökulssvæðið, Landmannalaugar, Skjálfandafljót, Skaftá, Jökulsár Skagafjarðar, Kerlingafjöll, Brennisteinsfjöll, Krísuvík, Langisjór, Þjórsá, Aldeyjarfoss, Lagarfljót, Þeistareykir, Gjástykki, Töfrafoss, Lindur, Jökla og Dynkur. Ótal fleiri svæði eru í bráðri hættu.

2)…Landsvirkjun hefur sótt um rannsóknarleyfi á eftirfarandi stöðum: í Brennisteinsfjöllum, á Gjástykki og nágrenni. Einnig á vatnasviði Skjálfandafljóts, Tungnaár ofan Sigöldu, Þjórsár neðan Búrfells, Efri hluta Skaftár og Vestari- og Austari Jökulsár í Skagafirði.

3)…önnur raforkufyrirtæki hafa sótt um rannsóknarleyfi á Reykjanesskaga, í Reykjadölum, í Rangárþingi ytra, í Kerlingafjöllum, í Brennisteinsfjöllum, á Vatnasviði Hólmsár í Skaftárhreppi, á vatnasviði Austari-og vestari Jökulsár í Skagafirði, Skjálfandafljóti, á og við Grændal og í Fremrinámum.

4)…rannsóknir kosta mikið fé. Reynslan sýnir að lítið er því til fyrirstöðu að orkufyrirtæki fái rannsóknar- og leitarleyfi sem þau sækja um. Fyrirtæki sem hafa eytt miklu fé í rannsóknir eru nánast aldrei tilbúin að pakka saman og fara að rannsóknum loknum. Rannsóknir á orkuauðlindum eru því ekkert annað en upphaf virkjanaframkvæmda.

5)…svæði sem hefur verið rannsakað er ekki lengur óspjölluð náttúra því rannsóknum fylgja umtalsverð náttúruspjöll, eins og til dæmis vegaframkvæmdir, mannvirki, borholur og leiðslur.

6)…vatnsaflsorka er ekki endilega græn orka. Rannsóknir sína að gróður rotnar í uppistöðulónum og upp gufa gróðurhúsalofttegundir auk þess sem steinefni jökuláa bindast kalki í sjónum og mynda efnasamband sem dregur úr gróðurhúsalofttegundum. Með því að virkja jökulár er þetta ferli eyðilagt

7)…jökulár á Íslandi draga úr gróðurhúsaáhrifum til jafns við 25% af ám Afríku. (Úr skýrslu Landsvirkjunar)

8)…frá jarðvarmavirkjunum rennur arsenikmengun og ekki er enn vitað hvort sú mengun sem kemur frá Hellisheiðarvirkjun muni renna í átt að Gvendarbrunnum, en áfram er haldið samt.

9)…einungis 15% af orku jarðvarmavirkjana er nýtanleg. 85% er heitt vatn sem engin þörf er fyrir.

10)…með áætluðum álversframkvæmdum á Reykjanesi og rafskautaverksmiðju í Hvalfirði mun Faxaflóasvæðið verða eitt mengaðasta svæði Norður Evrópu.

11)…á Reyðarfirði mátti ekki starfrækja litla fiskimjölsverksmiðju að sumarlagi vegna mengunar en þar má byggja 420.000 tonna álver.

12)…álverið á Reyðarfirði mun losa jafn mikið af koltvísýringi CO2 út í andrúmsloftið og allur bílafloti Íslendinga. Ekki er hægt að draga úr koltvísýringsmengun CO2 frá álverum.

13)…áliðnaðurinn er orkufrekasti iðnaður heims, Reyðarál þarf 4,7 teravattstundir af raforku á ári.

14)…til að knýja allan bílaflota landsmanna með vetni þarf aðeins 1,5 teravattstundir á ári.

15)…raforkuloforð stjórnvalda til stóriðju eru 50 teravattstundir á ári. Til að standa við þessi raforkuloforð þarf að virkja allar helstu ár Íslands auk þess að nýta flest okkar fegurstu háhitasvæði.

16)…Bandaríkjamenn urða um 800.000 tonn af áldósum sem ekki fara í endurvinnslu ár hvert. Það dugar til að endurnýja flugvélaflota þeirra fjórum sinnum. Til að endurvinna ál þarf einungis 5% af þeirri raforku sem þarf til að framleiða nýtt.

17)…með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar munu 80% af framleiddri raforku á Íslandi fara í 3 erlend stóriðjufyrirtæki; Alcan: álverið í Straumsvík, Century Aluminium: álverið á Grundartanga og Alcoa: álverið á Reyðarfirði.

18)…Alcoa en ekki óháðir sérfræðingar sjá um umhverfismat fyrir tilvonandi álver á Húsavík og í Reyðarfirði.

19)…Kárahnjúkastífla og Hálslón eru stærstu umhverfisspjöll Íslandssögunnar í einni aðgerð af mannavöldum.

20)…miðhálendi Íslands er í dag stærsta ósnortna landsvæði í Evrópu.

Allar þessar staðreyndir skipta máli í því ferli að taka upplýsta afstöðu til stóriðjuframkvæmda. Kynnum okkur málið, tökum ábyrga afstöðu. Verjum landið okkar og náttúrugersemar áður en það er um seinan. Sýnum samstöðu og mætum öll ásamt fjölskyldu og vinum í Íslandsvinagönguna á laugardaginn 27. maí. Gangan leggur af stað frá Hlemmi kl. 13 og endar á Austurvelli þar sem fjölmargir listamenn leggja málefninu lið. Fulltrúar ungu kynslóðarinnar hafa boðið forsætisráðherra að koma kl. 15.30 á Austurvöll til að taka á móti beiðni þeirra um að erfa aðgang að óspjallaðri náttúru og hreinu lofti og vatni. Einnig munu Íslandsvinir skora á stjórnvöld landsins að láta af frekari stóijðuframkvæmdum og bera þær framvegis undir þjóðina með atkvæðagreiðslu. Íslandsvinir vilja uppbyggilegt, skapandi samfélag, kröftugt efnahags- og atvinnulíf sem getur lifað í sátt og samlyndi við náttúruna.

F.h. Íslandsvina
Andrea Ólafsdóttir,
Arna Ösp Magnúsardóttir,
Arnar Steinn Friðbjörnsson,
Birgitta Jónsdóttir,
Bjarki Bragason,
Einar Rafn Þórhallsson
Helena Stefánsdóttir,
María Kristín Jónsdóttir.

Íslandsvinir – Bæklingur í pdf

www.islandsvinir.org

Póstfang:

islandsvinir@riseup.net

Náttúruvaktin