ágú 10 2006

Harkalegar aðgerðir yfirvalda á Íslandi

Einar Rafn Þórhallsson
Morgunblaðið
Ágúst 2006

Undanfarin misseri hefur lögreglan verið með mjög mikla löggæslu á hálendinu, nánar tiltekið norðan Vatnajökuls á svonefndu Kárahnjúkasvæði. Þar er mesta hitamálið Hálsalón sem er 57 ferkílómetrar að stærð og mun rafmagnsframleiðslan af þessum virkjanaframkvæmdum renna óskipt í að knýja álver Alcoa í Reyðarfirði.

Þetta sumar hefur verið mikill ferðamannastraumur á svæðið norðan Vatnajökuls þar sem fólk vill sjá og njóta stórbrotinnar náttúru sem senn fer undir vatn. Einnig hefur safnast saman stór hópur af fólki, bæði íslensku og erlendu, til að mótmæla þessum framkvæmdum ríkisstjórnarinnar. Í júlí stóðu Íslandsvinir og Saving Iceland fyrir fjölskyldubúðum við Snæfell þar sem yfir 200 manns tjölduðu og sýndu hug sinn í verki. Búðunum lauk 31.júlí en staðfastur hópur hélt áfram að mótmæla. Allan tímann hefur lögreglan haft mikinn viðbúnað sökum mögulegra mótmæla.

Undanfarið hefur lögreglan farið hamfara á svæðinu og áreitt ferðamenn sem og þá sem komnir eru til að mótmæla. Þeir hafa stoppað bíla, leitað í þeim, tekið mat, hótað handtöku og beitt óþarfa hörku við handtökur. Núna nýverið voru 17 handteknir við Desjárstíflu þar sem lögreglan fór harkalega fram og slasaði eina stelpu.

Kathleen Henwood lýsir því svo í samtali við Morgunblaðið að lögreglumennirnir hafi þrýst andliti hennar í jörðina, rifið hana upp á klúti sem hún bar um hálsinn, dregið hana eftir jörðinni og að lokum handjárnað hana. Þá hafi þeir verið með kylfur á lofti. Hún segir mótmælendurna ekki hafa gert sér grein fyrir því í upphafi að verið væri að handtaka þá, en þeir hafi síðar komist að því að þeir hafi verið handteknir fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglunnar. Hún segist hafa verið í varðhaldi í tólf klukkustundir (4.ágúst mbl.is). Einnig hefur lögreglan hindrað að mótmælendur fái vistir sendar á Lindur þar sem þeir hafa aðsetur og virðist vera að reyna svelta þá í burtu, aðferð sem líkist þeim er notast er við í stríði.

Mikið og dýrt lögreglulið ásamt sérsveit er á Kárahnjúkasvæðinu sem virðist stunda það að áreita ferðamenn, mótmælendur og að vernda vinnusvæði virkjunaframkvæmdanna alla. Eins og Óskar Bjartmars, yfirlögregluþjónn á Egilstöðum, segir þá “erum við ég og þú að borga fyrir lögregluaðgerðirnar á hálendinu”.

Þannig erum ég og þú að halda uppi lögregluliði í stríði við mótmælendur sem hafa aldrei skaðað nokkurn mann. Nokkrir hafa í mesta lagi stefnt sjálfum sér í voða með því að hlekkja sig við vinnuvélar. Óskar leiðir líkur að því að mótmælendur hafi eyðilagt dínamít en enginn hefur verið kærður eða handtekinn og engar sannanir hafa komið í ljós en sem komið er og því virðist það aðeins vera rógburður að hans hálfu.

En hvert er hlutverk lögreglunnar hér á landi? Er þeirra hlutverk að halda niðri öllum skoðunum sem eru á öndverðum meiði við ríkisstjórnina?

Hlutverk lögreglunnar er að vernda okkur, þess vegna höldum við henni uppi með skattpeningunum okkar en í þessu tilviki virðist hún vera að ganga nokkrum skrefum of langt. Samkvæmt 14. gr. Lögreglulaga um valdbeitingu er handhöfum lögregluvalds heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Er samkvæmt þessari heimild þá réttlætanlegt að berja fólk með kylfu, hóta ferðafólki handtöku, leita í bílum, svelta fólk burt, draga fólk eftir jörðinni og fleira í þeim dúr vegna þess að sama fólkið neitaði að yfirgefa óafgirt vinnusvæði?

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður telur að aðgerðir lögreglunar séu brot á stjórnarskráréttindum fólks en Óskar Bjartmars vísar ásökunum Ragnars og mótmælenda alfarið á bug. Hann segir lögin sín megin og bendir til dæmis á 15. gr lögreglulaga en þar segir: Lögreglu er heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau.

Samkvæmt íslenskum lögum er ólöglegt að pissa á almannafæri. Ef við notum þessa lagaheimild lögreglunnar á þá að taka slíkan aðila, snúa hann niður í sandinn, standa á bakinu á honum og slá hann með kylfu eins og gert var við mótmælanda?
Hægt væri að réttlæta ýmsan hræðilegan verknað lögreglunnar með þessarri heimild og hvernig Óskar kýs að nota hana.

Viljum við búa í samfélagi sem notar lögregluna til að bæla niður skoðanir fólks og stjórnarskrávarin réttindi til þess að mótmæla?

Framkoma yfirvalda við mótmælendur og almenna ferðamenn á Kárahnjúkasvæðinu er til skammar og er farinn að taka á sig verri mynd en mannréttindabrot stjórnvalda gagnvart friðsömum mótmælum Falun Gong þegar forseti Kína heimsótti Ísland.

Hvetjum stjónvöld til að endurskoða stefnu sína gagnvart mótmælum áður en það er of seint.

Einar Rafn Þórhallsson er nemi við Kennaraháskóla Íslands og Íslandsvinur

Náttúruvaktin