nóv 17 2006

Leiðréttingar á tólf alhæfingum um eðli og áhrif beinna aðgerða

STOP!

 

Andspyrna.org

Þegar vandamál koma upp í lýðræðislegu samfélagi þannig að fólki finnst vegið að frelsi sínu eða réttlætiskennd sinni misboðið, er fyrsta hugsun flestra að ríkisstjórnin eigi að gera eitthvað í málinu. Þegar hinsvegar þessi sama ríkisstjórn eða einhver stofnun hennar bera ábyrgð á óréttlætinu er hugað að kosningum – að kjósa betur næst – vitandi að í grundvallaratriðum mun það ekki breyta neinu.

 

Þeir einstaklingar og hópar sem ekki vilja gefast upp við þær vonlausu aðstæður sem nútímalýðræði getur boðið uppá, geta í staðinn gripið til beinna aðgerða. Í gegnum pólitíska sögu mannkyns hafa beinar aðgerðir verið virkt verkfæri þeirra sem barist hafa gegn óréttlæti en hafa ekki haft verkfæri valdhafa á hendi sér. Bætt kjör verkamanna, réttindi kvenna, kosningaréttur og lýðræðisfyrirkomulagið sjálft komust á með verkfærum þeirra valdalausu; mótmælum, verkföllum, hústökum, skemmdarverkum og borgaralegri óhlýðni og öðrum beinum aðgerðum af ýmsum toga. Andspyrnuhreyfingar ýmissa landa gegn hernámi nasista á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar beittu sér með beinum aðgerðum. Ghandi og fylgismenn hans frelsuðu allt Indland undan yfirráðum Breta með borgaralegri óhlýðni. Þegar 60 bændur og landeigendur tóku sig saman og eyðilögðu stíflu í Laxá árið 1970 var það dæmi um vel heppnaða beina aðgerð. Eins atvikið þegar þrír anarkistar ruddust inn á ráðstefnu álframleiðenda á Hótel Nordica og slettu grænu skyri yfir ráðstefnugesti. Aðgerðin gaf skýr skilaboð um að álframleiðendur væru búnir að ganga fram af gestrisni hins almenna Íslendings og að þeir hefðu engan rétt til að djöflast í náttúru og efnahag landsins. Um leið vakti hún aftur upp umræðuna um réttmæti stóriðjustefnu orkufyrirtækja og valdhafa.
Beinar aðgerðir geta því verið af ýmsum toga. Stundum löglegar, stundum ekki. Þær geta falið í sér að vekja athygli á ákveðnu málefni sem búið er að svæfa, þær geta truflað framgang mála og verkefna eða stöðvað þau með skemmdarverkum.
Beinar Aðgerðir skyldi því aldrei leggja í nema að vandlega íhuguðu máli og einungis að allir þátttakendur séu reiðubúnir að taka afleiðingunum.

Leiðréttingar á tólf alhæfingum um eðli og áhrif Beinna Aðgerða.

1. Beinar Aðgerðir samsvara hryðjuverkum.
Hryðjuverk beinast markvisst að því að skelfa fólk og þannig lama það. Beinum Aðgerðum er hinsvegar ætlað að vera fólki innblástur og hvatning og sýna í verki hvernig einstaklingar geta náð sameiginlegum markmiðum sínum af sjálfsdáðum. Hryðjuverkum beita örvinglaðir hópar í valdabaráttu og ríkisstjórnir sem einskis svífast. Beinar Aðgerðir sýna fram á möguleika sem allir geta nýtt sér. Þannig hvetja Beinar Aðgerðir til þess að fólk læri að stjórna eigin lífi.
Þegar lengst er gengið, geta Beinar Aðgerðir hindrað umsvif stórfyrirtækis eða stofnunar sem aðgerðasinnar telja hafa óréttlæti í frammi, en þetta er einfaldlega eitt form borgaralegrar óhlýðni (eða borgaralegs hugrekkis) en ekki hryðjuverk.

2. Beinar Aðgerðir eru ofbeldi.
Að kalla það ofbeldi þegar framin eru skemmdarverk á vinnuvélum sem eyðileggja ósnortna náttúru, eða að valda eignatjóni hjá pólitískum flokki sem hvetur til stríðs, er að setja hluti framar náttúru og mannslífum. Þessi rök gegn Beinum Aðgerðum eru í raun að réttlæta ofbeldi gagnvart lifandi verum með því að beina athyglinni að eignarréttinum og frá grundvallarspurningum.

3. Beinar Aðgerðir eru ekki pólitísk tjáning heldur glæpir.
Ólögmæti aðgerða er illa marktækur mælikvarði á réttmæti þeirra. Að tala gegn aðgerðum vegna þess að þær séu ólöglegar er að horfa framhjá spurningunni um hvort þær séu siðferðilega réttar. Að halda því fram að fólk verði að fara að lögum þó að viðkomandi lög virðist siðlaus eða viðhaldi þannig aðstæðum, er að segja gerræðislega úrskurði löggjafarvaldsins (sem oft voru festir í lögum mörgum kynslóðum fyrr) búa yfir sterkari siðferðisvitund en manns eigin samviska. Þessi rök krefjast einnig hlýðni við óréttlæti. Þegar lagasetningar verja óréttlæti er ólöglegt athæfi ekkert siðleysi og löghlýðni engin dyggð.

4. Þar sem fólk nýtur málfrelsis er engin þörf fyrir Beinar Aðgerðir.
Í samfélagi þar sem bæði fjölmiðlun og framabrautir stjórnmálafólks er orðin ískyggilega háð fjársterkum fyrirtækjum, getur verið nærri ómögulegt að koma af stað almennri umræðu um málefni nema eitthvað komi til sem vekur athygli á því. Við þannig aðstæður geta Beinar Aðgerðir verið leið til að efla málfrelsi frekar en hitt. Einnig þegar fólk lætur pólitískan yfirgang afskiptalausan vegna uppgjafar eða vana. Þá þarf að sýna því fram á að ýmsir möguleikar séu í stöðunni aðrir en að gefast upp.

5. Beinar Aðgerðir skapa fjarlægð milli aðgerðasinna og almennings.
Þvert á móti finnur það fólk sem upplifir flokkapólitík sem fjarlæga samfélaginu, bæði ögrun og innblástur í Beinum Aðgerðum. Þar sem einstaklingar eru hver öðrum ólíkir er misjafnt hvaða aðferðir höfða til þeirra. Hreyfing með ákveðin markmið verður að vera breiðvirk og innihalda marga möguleika á þátttöku. Stundum tekur fólk með sömu markmið og aðgerðasinnar uppá því að gagnrýna aðferðir þeirra harkalega og eyða allri orku sinni í að harma þær. Þannig býr það sig undir að tapa í stað þess að nota tækifærið til að beina sjónum almennings að því sem málið snýst um.

6. Fólk sem beitir sér í Beinum Aðgerðum ætti frekar að vinna eftir viðurkenndum pólitískum leiðum.
Mörg þeirra sem beita sér í Beinum Aðgerðum vinna einnig innan kerfisins. Að beita sér innan viðurkenndra stofnana til að leysa vandamál þýðir ekki að viðkomandi verði að hætta að vinna að lausnum þegar opinberar leiðir ná ekki lengra.

7. Beinar Aðgerðir útiloka almenning frá þátttöku.
Sumar tegundir Beinna Aðgerða eru ekki öllum opnar en það minnkar ekki vægi þeirra. Allir hafa mismunandi áherslur og ólíka hæfileika og ættu að hafa frelsi til að taka þátt í aðgerðum og finna upp á þeim eftir eigin höfði. Það sem skiptir höfuðmáli er hvernig starfsemi hópa sem vinna að sameiginlegum langtíma markmiðum fléttast saman, þannig að hóparnir styðji hver annan.

8. Beinar Aðgerðir eru heigulsháttur
Þessu er nær einungis haldið fram af einstaklingum sem njóta þeirra forréttinda að hafa völd í samfélagi og fylgjendum þeirra. Þeir eiga aldrei á hættu að verða fyrir aðkasti vegna þess sem þeir segja eða gera. Ef við tökum dæmi af andspyrnuhreyfingum ýmissa landa Evrópu gegn hernámi nasista á sínum tíma, þá hefðu meðlimir þeirra skrifað undir eigin dauðadóm hefðu þau starfað fyrir opnum tjöldum. Þar sem ríkisstjórn Íslands er einnig að undirbúa lagabálk til að geta skellt hryðjuverkastimpli á aðgerðafólk, er ekki að undra að einstaklingar sem sýni af sér pólitíska óhlýðni vilji halda persónulegum upplýsingum leyndum.

9. Það eru bara menntaskólakrakkar, vel stæðir einstaklingar eða örvæntingarfullt fólk o.s.frv. sem stendur í Beinum Aðgerðum.
Þessu er yfirleitt haldið fram án rökstuðnings til þess að drulla yfir aðgerðir. Raunin er sú að það er löng hefð fyrir Beinum Aðgerðum meðal fólks af öllum toga. Eina fólkið sem þetta á ekki við eru þau sem hvað best eru sett í hverju samfélagi. Einhvernveginn virðast viðurkenndar pólitískar leiðir henta markmiðum þeirra hið besta.

10. Beinar Aðgerðir eru oft verk útsendara sem vilja eyðileggja hreyfingar innanfrá.
Einnig þessu er yfirleitt skotið fram úr fjarlægð og alveg rakalaust. Að halda þessu fram gerir ekkert annað en draga úr krafti hverrar fjöldahreyfingar og aðgerðar. Svona alhæfingar gera fyrirfram ekkert úr gildi þess að nota fjölbreyttar aðferðir við baráttumál.

11. Beinar Aðgerðir eru hættulegar og geta haft neikvæðar afleiðingar fyrir aðra.
Beinar Aðgerðir geta verið hættulegar þar sem pólitískt umhverfi er mjög kúgandi og það er mikilvægt að þau sem beita sér þannig gæti þess að leggja ekki annað fólk í hættu. Hinsvegar er það engin ástæða til að beita sér ekki, þvert á móti. Því hættulegra sem það er að beita sér utanvið viðurkenndar pólitískar leiðir því mikilvægara er að láta verða af því. Yfirvöld nota kannski Beinar Aðgerðir sem afsökun til þess að taka harkalega á saklausu fólki, rétt eins og ríkisstjórnir margra landa hafa gert eftir 9. sept. 2001, en þau sem eru við völd eiga að svara fyrir það óréttlæti sem þau standa fyrir, ekki þau sem standa gegn þeim.

12. Beinar Aðgerðir skila aldrei árangri.
Hver einasta pólitísk hreyfing sögunnar, hvort sem um er að ræða kvenréttindahreyfinguna eða baráttu verkamanna fyrir bættum kjörum, hefur notað eitthvert form Beinna Aðgerða. Þannig aðgerðir geta stutt við aðrar leiðir pólitískrar baráttu á marga vegu. Þó ekki væri nema að benda á nauðsyn þess að lappa upp á starfsemi stofnana og færa þeim vopn í hendur sem vinna í því. En þær geta gengið miklu lengra og bent á möguleika þess að tilvera manna sé skipulögð á allt annan hátt en nú þekkist, þannig að allt vald dreifist jafnt innan samfélaga og allir meðlimir þeirra hafi jafnan rétt til að hafa áhrif á þau mál sem öllum koma við.

Skýr dæmi um Beinar Aðgerðir er víða að sjá. Þegar einhver opnar sjálf/ur húsnæði fyrir heimilislausa í stað þess að kjósa flokk sem lofar að vinna að málefnum þeirra með skrifræði og skattpeningum, þá er það bein aðgerð. Maður sem gefur út dreifirit um ákveðin málefni í stað þess að vona að dagblöðin taki þau til umfjöllunar er einnig í beinum aðgerðum. Eins fólk sem menntar sig sjálft með stofnun bókaklúbbs með vinum sínum í stað þess að borga háskólanum fyrir að tyggja efnið ofan í sig. Nágrannar sem taka sig saman um að halda hverfinu sínu hreinu og hrekja burt glæpamenn í stað þess að bíða eftir að lögreglan geri það eru dæmi um þær beinu aðgerðir. Þær eru alltaf að eiga sér stað og án þeirra myndi ekkert komast í verk.

Kosningar færa mikil völd innan samfélags á hendur fáeinna einstaklinga sem líta á stjórnmál sem persónulega framabraut. Að sætta sig við það leiðir til ósjálfstæðis og umkomuleysis. Með beinum aðgerðum kynnist fólk sínu félagslegu umhverfi og möguleikunum sem það býður uppá. Um leið finnur það og ræktar í sjálfu sér nýja krafta og hæfileika sem annars lægju í dvala.

Kosningum er hampað sem virku frelsi. Það er ekki rétt. Raunverulegt frelsi er að ákveða einnig valkostina í stað þess að fá að velja milli þess að drekka pepsi eða kók. Ekki þar með sagt að það sé alltaf vitlaust að beita kosningaréttinum en að láta þar við sitja er uppgjöf. Beinar aðgerðir eru raunverulegar þar sem fólk bæði leggur sjálft plönin og ákveður valkostina.

———————————————————————————————————–

Tólf alhæfingar um beinar aðgerðir leiðréttar – Bæklingur í pdf – Andspyrna útgáfa – www.andspyrna.org

Náttúruvaktin