des 21 2006

‘Stórfyrirtæki, lýðræði og beinar aðgerðir’ eftir Sigurð Harðarson

1

Hlutverk stórfyrirtækja er alltaf að færa eigendum sínum aukinn auð og völd. Því stærri og umsvifameiri sem fyrirtæki verða því meiri áhersla verður á þetta. Sama á við um öll kerfi og stofnanir manna sem ætlað er að stýra samfélagi, því stærri sem þau verða, því meira snúast þau um að viðhalda sjálfum sér. Má vera að til séu stór fyrirtæki sem þetta á ekki við um en þau eru svo fá að þau ná ekki að hafa áhrif á valdaskipulag markaðarins.

2

Fyrsti stóri bílaframleiðandi heims, Henry Ford, vildi lækka bílaverð til neytenda og bæta kjör verkamanna þegar fyrirtæki hans fór að skila verulegum hagnaði. Meðeigendur hans drógu hann fyrir lög og dóm og rétturinn dæmdi þannig að hlutverk fyrirtækisins væri ekki að skila batnandi gengi til neytenda heldur til eigenda.

3

Fyrirtæki sem ætlað er að starfa sem þjónustufyrirtæki lenda í svipuðu ferli eftir því sem þau festa sig í sessi og stækka valdsvið sitt. Hér má nefna sem dæmi Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkuveitu Suðurnesja. Stjórnendur þeirra hafa átt allan sinn feril innan valdapýramída þar sem allt má gera til að komast hærra. Því nær sem maður kemst þeim sem ofar sitja því betra. Þessvegna gera stjórnendur orkufyrirtækjanna hvað sem er til að hafa yfirmenn í áliðnaði góða. Völd álkónganna í heimsmarkaðnum eru meiri, þeim ber að lúta. Að fá að vera undir þeim stærstu finnst íslenskum smákóngum vera heiður.

4

Lýðræðiskerfið ræður ekki við valdapýramída efnahagskerfisins. Kjörnir fulltrúar eiga stöðu sína undir góðri markaðssetningu sem er kostuð af aðilum sem eru sterkir innan efnahagskerfisins. Stór verktakafyrirtæki eru dæmi um þrýstihóp sem er með fólk í áhrifastöðum í rekstri. Stjórnmálaflokkum á Íslandi ber engin skylda til að gefa upp hvaðan fjárstyrkur þeirra kemur og virðing sumra þeirra fyrir lýðræðinu er ekki meiri en svo að þeir gera það ekki heldur.
Ef lýðræðið var einhvern tímann einhvers virði þá eru framabrautir (careers) innan stjórnmála mesta mein þess.

5

Sá menningarhópur sem byggir Ísland lifði í 600 ár sem nýlenda undir erlendum konungi. Nú í rúm 60 ár við fulltrúalýðræði. Sá hugsunarháttur að það sé hlutverk einhverra annara að sjá um að hlutirnir gangi vel fyrir sig hefur náð að festa sig í sessi, rétt eins og meðal ákveðinna kynslóða innan þeirra menningarhópa sem lifðu í áratugi undir alræðisstjórn „kommúnista“. Því er sú hugsun ósjálfráð að einhverjir taki að sér félagslega þjónustu, pólitík og jafnvel mótmæli.
Þau sem gagnrýna kerfið, beina rökum sínum og tilfinningum að ríkisstjórnum og alþingi en gagnrýnin skilar engu því þessar stofnanir eru hluti af spilltu lýðræðiskerfinu og þar með umkomulausar gagnvart efnahagslegum öflum. Fyrir hugsjónafólk er bæði þreytandi og niðurlægjandi að þurfa að biðja alþingi og ríkisstjórn að láta af stefnum sem reknar eru af efnahagslega sterkum þrýstihópum. En völd þeirra sem biðlað er til liggja í raun annarsstaðar.
Þær lagabreytingar sem lýðræðislegar stofnanir koma í gegn eru aðeins þær sem trufla ekki valdajafnvægið og þær sem koma sér betur fyrir ýmsan rekstur. Þannig verða til lög sem draga úr réttindum launþega og lög sem breyta friðlýstum svæðum í iðnaðarhverfi.

Þar sem lýðræðið hættir að virka þarf beinar aðgerðir til að koma málefnum áfram.

6

Þeir einstaklingar og hópar sem ekki vilja gefast upp við þær vonlausu aðstæður sem nútímalýðræði getur boðið uppá, grípa til ýmissa aðgerða sem flokkast undir mótmæli, borgaralega óhlýðni og beinar aðgerðir. Í gegnum pólitíska sögu mannkyns hefur þetta þrennt verið virkt verkfæri þeirra sem barist hafa gegn óréttlæti en hafa ekki haft verkfæri valdhafa á hendi sér. Bætt kjör verkamanna og minnihlutahópa, réttindi kvenna, kosningaréttur og lýðræðisfyrirkomulagið sjálft komust á með þessum verkfærum fólksins; mótmælum, borgaralegri óhlýðni og beinum aðgerðum af ýmsum toga.

Andspyrnuhreyfingar ýmissa landa gegn hernámi nasista á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar beittu sér með beinum aðgerðum. Ghandi og fylgismenn hans frelsuðu allt Indland undan yfirráðum Breta með borgaralegri óhlýðni. Þegar 60 bændur tóku sig saman og eyðilögðu stíflu í Laxá árið 1970 var það dæmi um vel heppnaða beina aðgerð. Eins atvikið þegar þrír anarkistar ruddust inn á ráðstefnu álframleiðenda á Hótel Nordica og slettu grænu skyri yfir ráðstefnugesti. Aðgerðin gaf skýr skilaboð um að álframleiðendur væru búnir að ganga fram af gestrisni hins almenna Íslendings og að þeir hefðu engan rétt til að djöflast í náttúru og efnahag landsins. Um leið vakti hún aftur upp spurninguna um réttmæti stóriðjustefnu valdhafa.

Mótmælaaðgerðir geta því verið af ýmsum toga. Stundum löglegar, stundum ekki. Þær geta falið í sér að vekja athygli á ákveðnu málefni sem búið er að svæfa, þær geta truflað framgang mála og verkefna eða stöðvað þau með skemmdarverkum.

Beinar aðgerðir skyldi því aldrei leggja í nema að vandlega íhuguðu máli og einungis að allir þátttakendur séu reiðubúnir að taka afleiðingunum.

Þessi texti er hluti af bók sem unnið er að undir vinnuheitinu „Borgaraleg óhlýðni og beinar aðgerðir“

30 nóvember 2006

Náttúruvaktin