júl 21 2007

‘Hvað vekur athygli og skapar árangur?’ eftir Ómar Ragnarsson

Af bloggsíðu Ómars Ragnarssonar
22.7.2007

Ráðstefna um stóriðju og umhverfismála sem haldin var heila helgi á Hótel Hlíð í Ölfusi vakti litla sem enga athygli fjölmiðla. Ég fylgdist með upphafi hennar og kom þar stuttlega við síðar og þann tíma sem ég staldraði þarna við var augljóslega vandað til dagskrár og fólk frá ýmsum heimshornum flutti áhugarverða og fræðandi fyrirlestra fyrir fullum sal áhugasams fólks víðvegar að úr heiminum.

Glæsilegir tónleikar margra af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar sem haldnir voru við Austurvöll hurfu nánast í fjölmiðlum.

En það var ekki fyrr en nokkrir þátttakendanna hófu mótmælaaðgerðir í öðrum stíl en Íslendingar eiga að venjast að fjölmiðlar brugðust við af áhuga.

Skilaboðin sem send eru þessu mótmælafólki eru dapurleg: Ef þið haldið tónleika og ráðstefnu og boðið til blaðamannafunda um málefni ykkar höfum við ekki áhuga.

Ef þið hlekkið ykkur við vinnuvélar, klifrið upp á krana eða lendið í útstöðum við lögreglu komist þið á forsíður og fáið beinar útsendingar af vettvangi.

Slík mótmæli komast á forsíður.

15 þúsund manna friðsamleg mótmælaganga með öllum tilskyldum leyfum lögreglu í fyrrahaust komst ekki á útsíður Morgunblaðsins ef ég man rétt.

Ég sá nýlega viðtal við Robert Mc Namara sem var varnarmálaráðherra Bandaríkjamanna í Vietnam-stríðinu og var til þess tekið að 50 þúsund manns hefðu mótmælt við þinghúsið og 20 þúsund manns við varnarmálaráðuneytið.

Þetta þótti mikið hjá þjóð sem er þúsund sinnum mannfleiri en Íslendingar og var talið hafa skipt miklu máli um það hvernig Bandaríkjamenn urðu að láta undan síga í Vietnam.

Þingeyskir bændur fóru mikla för á dráttarvélum til að mótmæla fyrirætlunum um stórfelldar virkjanaframkvæmdir við Laxá og Mývatn.

Þeir komust að þeirri niðurstöðu að slík aðgerð dygði ekki og notuðu því dínamit til að sprengja stíflu í Miðkvísl.

Það er dapurleg staðreynd að slík aðgerð skyldi verða eina mótmælaaðgerðin á Íslandi til þess að duga í svona máli.

Að vísu var hætt við að sökkva Eyjabökkum eftir glæsilega undirskrifaherferð andstæðinga þess og fleiri mótmælaaðgerðir sem halda munu nafni þeirra, sem að því stóðu, á lofti um ókomna tíð.

En í raun hörfuðu virkjanasinnar ekki fet, heldur hættu þeir einungis við að sökkva Eyjabökkum vegna þess að þeir fundu leið til þess að virkja enn stórkarlalegar við Kárahnjúka og fá þar fram meiri miðlun en upphaflega var ætlunin með bæði Hálslóni og Eyjabakkalóni.

Ef sú útsmogna leið hefði ekki fundist væru Eyjabakkar sokknir.

Rétt er að hafa í huga að hvergi sést um það stafur að hætt hafi verið við áformin við Eyjabakka og Laxá, heldur eiga virkjanasinnar það uppi í erminni.

Um hvoruga fyrirætlanina hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum og því þarf sífellt að vera á varðbergi.

Niðurstaða: Það er sorgleg staðreynd að nokkrir mótmælendur uppi í krana vekja meiri athygli en 15 þúsund manna mótmælaganga, tónleikar, blaðamannafundir og ráðstefnur og í eina skiptið sem notað hefur verið dínamit í mótmælaskyni voru áhrifin meiri en af ótal ályktunum og mótmælafundum.

Ég segi sorgleg staðreynd því að mér fyndist betra ef þetta væri á hinn veginn.

Viðbrögð fólks við greininni má lesa á næstu síðu:

Síður: 1 2

Náttúruvaktin