júl 14 2007
1 Comment

Lögregluofbeldi á Snorrabrautinni í dag

Einar Rafn Þórhallsson
Eggin.is
14. júlí, 2007

 

Á leið minni heim í dag sá ég hóp af fólki í göngu. Ég vissi að til stóð að halda einhverskonar mótmælagöngu í dag, auglýsta sem rave party og ákvað að ganga í hópinn. Þá kom í ljós að lögreglan hafði stoppað gönguna á Snorrabraut. Göngumenn létu það greinilega ekki á sig fá en þarna voru trúðar með trúðalæti og mikið af fólki að fylgjast með, borðar með slagorðum gegn alþjóðlegum stórfyrirtækjum voru á lofti og fólk að dansa og skemmta sér. Lögreglan fylgdist prúð með og virtist vera í góðu skapi, hún hleypti bílum í gegn og að lokum var Snorrabraut lokað við Flókagötu. En einhverra hluta vegna leyfði hún göngunni ekki að halda áfram, og ljúka sér af, heldur stöðvaði hana á miðri Snorrabraut í rúma 2 klukkutíma.

Loksins virtist lögreglan fá skipun frá yfirmönnum sínum að ráðast til atlögu en hún réðst að bílnum sem tónlistin kom frá, braut rúðuna, opnaði og dróg þann sem þar var út, hann sýndi enga mótspyrnu. Fólkið á staðnum flykktist að og í kring en án alls ofbeldis og var flestum ýtt frá. Tveimur einstaklingum var sýnd sérstök aðgæsla (sá ekki afhverju) en það voru um 8 lögreglumenn sem snéru þá niður á gangstéttinni.

Ég stóð á gangastéttinni í um 2 metra frá staðnum þar sem verið var að halda þessum göngumönnum niðri með því að sitja ofaná þeim og snúa upp á hendur og fætur, þau sýndu ekki mótspyrnu að mér sjáanlegu. Fólkið á staðnum söng ýmis slagorð eins og að lögreglan væri að beita ofbeldi. Ég stóð þarna hrópaði stundum með en beitti annars engri ógnandi hegðun né var á nokkurn hátt dónalegur gagnvart lögreglunni, enda hélt ég að hún ætti að vera sú sem viðheldur friði, ekki sú sem kemur af stað ófriði. Mér skjátlaðist.

Skyndilega kemur lögreglumaður upp að mér og biður mig hastarlega að færa mig, ég bakka aðeins en greinilega ekki nógu mikið því hann ýtir mér aftur á bak, snýr upp hendina og skellir hausnum á mér upp við bílshurð. Því næst hendir hann mér upp að grindverki og öskrar “þú átt að hlýða því sem ég segi”. Þar á eftir snýr hann upp á hendina á mér og skellir andlitinu á mér niður á gangstéttina.

Ég tel mig hafa sýnt yfirvegun og rólyndi allan tímann, en ef eitthvað ætti að túlka sem dónaskap þá gæti það verið þegar að ég spurði: „hversvegna?” þegar mér var ýtt og sagt að hlýða. Því næst labbar hann aftur að handtökunni og skilur mig eftir í götunni.

Ég fæ ekki séð að ég hafi nokkuð ólöglegt aðhafst. Enginn réttlætanlegur ásetningur var hjá manninum og hvað er þá hægt að kalla þetta nema lögregluofbeldi!

Viljum við landsmenn að lögreglan komist upp með slíkan verknað. Hvað ef að verið væri að mótmæla háu bensínverði, of mikilli þennslu, barnaklámi, kvennamisrétti eða spillingu? Hvað má lögreglan ganga langt í að bæla niður aðgerðir hópa sem eru að berjast fyrir hugsjónum sínum?

One Response to “Lögregluofbeldi á Snorrabrautinni í dag”

  1. Nafnlaust skrifar:

    Hver gefur skipanir um aðgerðir gegn aðgerðasamtökunum Saving Iceland ?? Eru mótmæli bönnuð á Íslandi ??? Ég spyr vegna þess að ég hef haldið hingað til og mun trúa því þar til annað kemur fram að öllum sé frjálst að mótmæla svo fremi þeir ógni ekki öryggi borgara. Vonandi verður þetta mál skoðað oní kjölinn því ef svo er komið að fólk sé svift með lögregluvaldi rétti sínum til að mótmæla, þá tel ég að komið sé að kaflaskiftum í sögu friðelskandi þjóðar.

    Pálmi Gunnarsson

    http://palmig.blog.is/blog/palmig/entry/262864/

Náttúruvaktin