ágú 03 2007

Að hafa mótmæli að atvinnu – Hugleiðing um hugtakið atvinnumótmælandi

„Furðulegt háttalag Ríkissjónvarpsins þarfnast frekari skýringa svo ekki sé meira sagt.“

Sindri Freyr Steinsson
Verðandi
Ág. – Sept. 2007

Flestir landsmenn hafa frétt sitthvað af aðgerðum samtakanna Saving Iceland. Í umfjöllunum um samtökin ber orðið atvinnumótmælandi oft á góma. En er það í raun svo að fólk fái borgað fyrir að mótmæla og láta handtaka sig?

Fréttastofa Ríkisútvarpsins staðhæfði í kvöldfréttum sínum laugardaginn 28. júlí að hún hefði traustar heimildir fyrir því að mótmælendur Saving Iceland fengju peningagreiðslur í hvert skipti sem þeir væru handteknir. Þessu mótmæltu talsmenn Saving Iceland harðlega, en þrátt fyrir það var vart um annað talað í bloggheimum en iðjuleysingjana sem fengju greitt fyrir óknytti og ólæti. Samkvæmt skilgreiningu er atvinna eitthvað sem maður hefur tekjur af og þar með er því haldið fram samkvæmt beitingu orðsins atvinnumótmælandi að þeir sem hafa það að atvinnu að mótmæla fá greitt fyrir mótmæli sín. Einfalt ekki satt? Við nánari eftirgrennslan má komast að raun um hverjir það eru sem að fjármagna mótmælin. Samtökin International Protestors Fund fjármagna hvers kyns mótmæli og borga bónusa fyrir öll skemmdarverk og handtökur. International Protestors Fund hefur verið starfræktur síðan eftir síðari heimsstyrjöld og var stofnaður af Nató til þess að veita mótmælendum sem þá bjuggu austan járntjaldsins stuðning til þess að mótmæla hverju sem þá lysti. Á Wikipedia kemur fram að IPF hafi meðal annars fjármagnað mótmæli kínverskra ríkisborgara sem voru ósáttir við að borða með prjónum alla daga og kröfðust þess að fá gaffla til þess að borða með. Á þessum tíma, eftir menningarbyltinguna, var járn og stál af mjög skornum skammti og því ekki til nóg til til þess að gefa allri kínversku þjóðinni hnífa, gaffla og skeiðar. Með hjálp IPF tókst þeim að knésetja kínversk stjórnvöld og er það nú svo að hver sem kærir sig um það getur sent inn formlega beiðni til kínverskra stjórnvalda og krafist borðbúnaðar að vestrænum sið.

Eða hvað?
Er einhver sem er farinn að vantreysta sögunni um baráttu kínverja fyrir göfflum? Það væri óskandi því hún uppspuni frá rótum. Að sögn Ólafs Páls, talsmanns Saving Iceland fær enginn fær greitt fyrir störf í þágu hreyfingarinnar en þau reyna að leggja til máltíðir fyrir þá sem dvelja í mótmælendabúðum. „Við höfum einnig komið til móts við útlagðan kostnað vegna vinnu fyrir Saving Iceland, t.d. að greiða þeim sem lána bílana sína bensínkostnað. Oft afþakkar fólk greiðslur vegna útlagðs kostnaðar.“
Það er enginn hjá Saving Iceland sem fær greitt fyrir að mótmæla. Samtökin International Protestors Fund eru ekki til og verða sennilega aldrei. Orðið atvinnumótmælandi er því falsyrði yfir liðsmenn SI. Ef maður í einlægni spyr þeirrar spurningar hver í ósköpunum myndi sjá sér hag sinn í því að borga liðsmönnum SI fyrir handtökur kemst maður að því að það er hreint ekki neinn. Kúbverska ríkisstjórnin og sú kínverska koma kannski til greina ásamt félaga Húgó Chavez?

Hvernig er Saving Iceland fjármagnað?
Á heimasíðu Saving Iceland kemur skýrt fram hvernig samtökin eru fjármögnuð og hvernig peningunum er varið. Megin hluti tekna þeirra kemur frá Svisslenskum samtökum sem kalla sig Terre Humaine og fjármagna náttúruverndaraðgerðir um allan heim. Eldús Saving Iceland er styrkt af hollensku samtökunum Rampenplan sem sáu meðal annars um matreiðslu á G8 fjöldamótmótmælunum við Helligendam í Þýskalandi í sumar. Einnig eru frjáls framlög Íslendinga talsverður hluti þeirra fjárhæða sem þarf til þess að reka samtök á borð við þessi. Aðspurður að því hvað hugtakið atvinnumótmælandi merki fyrir honum segir Ólafur Páll, talsmaður SI, atvinnumótmælanda vera þann sem þiggur laun fyrir vinnu sína við mótmæli eins og meðlimir Greenpeace eða Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. „Það ætti ekki að vera neitt niðrandi við að þiggja laun fyrir vel og heiðarlega unnin störf. Það eru líka auðvitað ótalmargir atvinnumeðmælendur stóriðju á enn betri launum en þeir sem ég nefndi sem dæmi.“
Ólafur Páll segir orðnotkun andstæðinga Saving Iceland bera undirtón af málaliðamennsku. „En það er skondið að því er oft gjammað að okkur að við ættum að fá okkur vinnu.“
Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd hafa götulistamenn Reykjavíkur tekið setninguna „Þarf þetta fólk ekkert að vinna?“ upp á sína arma og með því endurómað angistarfull upphróp moggabloggara sem hneykslast á beinum aðgerðum liðsmanna Saving Iceland. Aðspurður að því hvort „þetta fólk“ þurfi ekki að vinna segir Ólafur flesta liðsmenn Saving Iceland hafa sér eitthvað til viðurværis eins og annað fólk en auk þess vinna baki brotnu við málefni SI.
Björn Malmquist, fréttamaður Ríkissjónvarpsins sem að flutti fréttina margumræddu segir Ríkissjónvarpið standa við fréttina. Hún hafi verið byggð á upplýsingum frá heimildarmanni sem að Ríkissjónvarpið telur traustan.
„Það mátti vissulega búast við því að meðlimir samtakanna myndu mótmæla þessari frétt harðlega og þeir gerðu það í næsta fréttatíma Sjónvarpsins. Málið er enda þess eðlis – og það snérist heldur ekki beint um fjármál samtakanna, heldur um greiðslur til einstakra meðlima þeirra fyrir mótmæli og handtökur. Ef við gefum okkur að þessar upplýsingar sem ég fékk í hendurnar séu réttar, þá er tæplega hægt að búast við því að þær liggi á lausu fyrir þá sem vilja vita eitthvað um fjármál samtakanna,“ sagði Björn.
Í fréttinni var þó greint frá því að ekki væri vitað frá hverjum greiðslurnar kæmu, né heldur hversu háar þær væru, og má miðað við traustar heimildir túlka frétt Ríkissjónvarpsins þannig að greiðslurnar kæmu svífandi af himnum ofan. Þegar Björn Malmquist var spurður hvort að heimildarmaðurinn ætti mögulega hagsmuna að gæta þegar kæmi að rógburði um Saving Iceland svaraði hann skiljanlega engu. En þegar hann var spurður um hvers vegna ekki hafi meira verið unnið með upplýsingarnar með frekari eftirgrennslan og frekari fréttaflutningi af greiðslunum lét hann fyrri bréf sitt standa. Sú var einnig raunin þegar spurt var hvers vegna fréttastofan hafi ekki reynt að fá nöfn þeirra sem hafi verið handteknir og fá staðfestingu eða andmæli frá þeim þar sem að fjöldi handtekinna vegna mótmæla geti ekki verið mjög mikill.
Ólafur Páll telur fréttaflutning RÚV til þess gerðan að reyna að kasta rýrð á hugsjónastarf Saving Iceland. „Þeir eru hræddir við að svona hugsjónamennska smiti út frá sér. RÚV þjónar stóriðjulobbíinu og því stendur greinilega ógn af okkur. Við höfum komið við kauninn á þeim. En þessi rógburður kemur einnig upp um hugmyndarýrð. Það hafa alltaf verið sömu auðhrekjanlegu klisjurnar síðan sumarið 2005.“
Ég spurði Björn Malmquist hvort hann teldi sig hafa brotið þriðju siðareglu Blaðamannafélags Íslands sem hljóðar á þá vegu að blaðamaður vandi upplýsingaöflun sína úrvinnslu og framsetningu og forðist allt sem valdið getur saklausu fólki óþarfa sársaka eða vanvirðu.
„Varðandi tilvísun þína í siðareglur Blaðamannafélagsins, þá er það mín skoðun að þessi regla sem þú vitnar til, eigi tæplega við í þessu samhengi. Enginn einstaklingur var nafngreindur í fréttinni, heldur hópur af fólki. Þessi hluti siðareglanna vísar að öllu jöfnu til frétta af tilteknum einstaklingum, þar sem fréttaflutningur snýst um persónuleg og oft á tíðum viðkvæm málefni.“
RÚV hefur ekki flutt frekari fréttir af málinu en þessa einu. Kastljósið tók hins vegar upp á arma sína umfjöllun um heimildarmynd um mótmælandann Steinunni Gunnlaugsdóttur sem handtekin var fyrir mótmæli og eftir myndbrot úr heimildarmyndinni var viðtal við höfunda myndarinnar en hvergi var drepið á greiðslumálinu, né heldur voru liðsmenn Saving Iceland boðaðir þangað til þess að svara fyrir sig. Þess í stað voru tveir þjóðþekktir einstaklingar sem tengdust málinu ekki neitt látnir masa um iðjulausa atvinnumótmælendur, eins þversagnakennt og það nú virðist. Furðulegt háttalag Ríkissjónvarpsins þarfnast frekari skýringa svo ekki sé meira sagt.

sindri@verdandi.is

Náttúruvaktin