jún 24 2008

Lygar og útúrsnúningar – Um hergagnaframleiðslu Alcoa

Erna Indriðadóttir gefur það í skyn að Alcoa framleiði aðeins ál og hafi ekkert um framtíð þess og notkun að segja. Það eru lygar og útúrsnúningar.

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson
Morgunblaðið, 24. júní 2008

Svar Ernu Indriðadóttur, upplýsingastjóra Alcoa Fjarðaáls, í Morgunblaðinu við skrifum Bjarkar Guðmundsdóttur er aumkunarvert og efni í frekari greinaskrif. Það sem stendur vissulega upp úr er útúrsnúningur hennar varðandi meinta hergagnaframleiðslu og mannréttindabrot Alcoa en Erna telur að Björk eigi þar við þá staðreynd ,,að ál er notað í nær öll farartæki undir sólinni, þar á meðal herflugvélar og bíla, geimferjur og eldflaugar.“ Hún heldur svo hvítþvottinum áfram með tali um samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins og sjálfbærnisverkefni.

Til að nota orðalag Ernu kveður þarna við gamlan tón því þessum útúrsnúningi hefur Alcoa Fjarðaál alltaf beitt þegar fyrirtækið er sakað um bein tengsl við stríðsrekstur og hergagnaframleiðslu. Forsvarsmenn fyrirtækisins reyna að láta líta svo út fyrir að Alcoa framleiði bara ál og selji það, en hafi hins vegar ekkert um framhaldslíf þess að segja. Það er löngu kominn tími til að blása á þessa vitleysu.

Hinn 14. desember 2005 birtist á heimasíðu Alcoa, frétt þar sem sagði að fyrirtækið hefði gert 12,5 milljón dollara samning við bandaríska herinn, um rannsóknir, þróun og smíði léttra farartækja til hernaðaraðgerða á landi. Fréttavefurinn Allbusiness.com greindi í ágúst árið 2004 frá samningum Alcoa og Howmet Castings, dótturfyrirtæki Alcoa við varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Starf Alcoa var að þróa ný efni og málmblöndur, sem draga myndu úr kostnaði við framleiðslu á næstu kynslóð hergagna til notkunar í háloftunum.

Á vefsíðunni Washingtonpost.com birtist hinn 12. október 2007, frétt um að Alcoa og hergagnaframleiðandinn Lockheed Martin hafi gert 360 milljón dollara samning sín á milli sem felur í sér hönnun og framleiðslu Alcoa á ýmsum pörtum orrustuþotunnar F-35 Lightning II, en Bandaríkjaher ætlar að skipta út eldri vélum sínum fyrir þessa nýju drápsvél. Um mánuði seinna, hinn 19. nóvember, birtist á vefsíðu Alcoa frétt um nánara samstarf fyrirtækjanna tveggja, í þetta sinn varðandi framleiðslu á næstu kynslóð hernaðarjeppa sem ganga undir nafninu Joint Light Tactical Vehicle (JLTV). Í fréttinni segir að hlutverk Alcoa í verkefninu sé efnisleg þekking og hönnun og áætlun fyrirtækisins sé að gera jeppana léttari, sterkari og hraðari en ‘Lighter, Faster, Stronger’ er einmitt slagorð Alcoa Defense, her- og varnarmálahluta Alcoa.

Í sömu tilkynningu montar Alcoa sig af þátttöku sinni í hergagnaframleiðslu, sem spannar stóran skala, allt frá orrustuþotunum fyrrnefndu að sprengjuvörpunni M777, en hún er m.a. notuð af Bandaríkjaher í Afganistan. Á síðu Alcoa Defense er einnig sagt frá samstarfi Alcoa, Bandaríkjahers og hergagnaframleiðandans AM General varðandi útvegun á áli fyrir stríðsjeppa (Humvees) sem notaðir eru í Írak og Afganistan, þar sem kemur fram að allir Alcoar (all Alcoas) vinni hart að þessu verkefni, hermönnum Bandaríkjanna til stuðnings. Fréttatilkynning um samstarfið, sem birtist á síðunni hinn 1. janúar 2007, segir orðrétt ,,Alcoa Defense er stoltur samstarfsaðili AM General og veitir þann varanleika, hreyfanleika og áreiðanleika sem Bandaríkjaher treystir á.“

Þetta eru aðeins örfá af mýmörgum dæmum um tengsl Alcoa við stríðsrekstur og eru tekin beint af vefsíðu fyrirtækisins og virtum erlendum fréttastofum. Málið er ekki svo einfalt að Alcoa framleiði bara ál og hafi ekkert með framtíð þess og notkun að gera. Alcoa er hergagnaframleiðandi! Forsvarsmenn Alcoa í Bandaríkjunum eru af fréttatilkynningunum að dæma stoltir af þessum tengslum og því vekur furðu að forsvarsmenn Fjarðaáls skuli alltaf reyna að malda í móinn þegar tengslin eru nefnd hér á landi. Ef áætlun þeirra er raunverulega að breiða yfir þessa staðreynd, þá er sú tilætlun þeirra dauðadæmd, því það þarf aðeins örlitla rannsókn á vef fyrirtækisins til þess að koma auga á þessa ógeðslegu hlið þess.

Við þurfum ekki að hlusta á þessar lygar og útúrsnúninga. Við getum sjálf aflað okkur upplýsinga um yfirvöld og stórfyrirtæki, og myndað okkar skoðanir út frá þeim. Hvít- og grænþvottur Ernu Indriðadóttur og Alcoa Fjarðaáls er aumkunarverð tilraun til að skapa fyrirtækinu ósanna ímynd. En því miður gerir hann einungis illt verra.

Náttúruvaktin