júl 25 2008

Þingkona VG dáist að Saving Iceland

AlfheidurVisir.is – „Ég bara dáist að þessu unga fólki sem sýnir afstöðu sína með þessum hætti og vill með því vekja aðra til umhugsunar, um það sem er að gerast í umhverfismálum ekki bara hér á íslandi heldur heiminum öllum,“ segir Álfheiður Ingadóttir þingmaður Vinstri-Grænna. Hún er ánægð með framgöngu samtakanna Saving Iceland, sem undanfarin sumur hafa mótmælt virkjanaframkvæmdum og stóriðjustefnu á Íslandi.

„Ég held að þessum hópi hafi tekist að sýna fram á tengslin milli þess sem er að gerast hér á landi og erlendis,“ segir Álfheiður „Til að mynda með báxítnámnurnar sem eru fóðrið í álverksmiðjurnar hér. Þetta hefur ekki verið svo mikið í umræðunni hjá öðrum umhverfishópum. Þessi hópur hefur virkilega vakið athygli á þessu samhengi hlutanna.“

Álfheiður telur ekki að umdeildar aðferðir samtakanna séu neikvæðar fyrir málsstaðinn. „Þvert á móti. Ég held að þeirra aðferðir, sem eru það sem kallast borgaraleg óhlýðni og er viðurkennd um allan heim, séu eðlilegar aðferðir. Þessi hópur er ekki að sýna neitt ofbeldi eða eyðileggja eitt eða neitt. Þetta eru friðsöm mótmæli, til þess fallin að fá menn til að stoppa aðeins, vinnuna þessvegna, og hugsa um samhengi hlutanna. Eins og ég segi, ég dáist þessum krökkum,“ segir Álfheiður.

Náttúruvaktin