júl 25 2008

Áherslur í fréttaflutningi

Birgitta Jónsdóttir, www.birgitta.blog.is – Í skjóli embættis síns hefur Friðrik Sophusson stuðlað að því að landeigendur við Þjórsá hafa sætt áþekkum aðgerðum og hann upplifði í morgun. Þeir sem vilja ekki beygja sig undir vilja Landsvirkjunar þurfa að þola heimsóknir frá starfsfólki Friðriks í viku hverri þar sem því er ýmist hótað eða reynt að tæla það að gefa eftir með gylliboðum.

Er það allt í lagi? Er ekki verið að ráðast að þeirra friðhelgi? Er Friðrik ekki ábyrgur fyrir þessum ofsóknum? Ef ekki hver þá? Ég hef setið fundi með forustusauðum Alcoa, Landsvirkjunar og Bechtel, þar sem Íslandsvinum var boðið fé til að auglýsa okkar tjaldbúðir ef við gætum skít í Saving Iceland. Auðvitað afþökkuðum við, en mér finnst þetta dæmigert fyrir vinnubrögð þessara fyrirtækja.

Nú fær Friðrik heilmikið rými til að tjá sig, en í annarri frétt sem birtist stuttu síðar um heimsókn SI til höfuðstöðva Landsvirkjunar er ekkert lagt í fréttina. Ég hef tekið eftir því að fjölmiðlum er hreinlega réttar heimildir á silfurfati og þeir trekk í trekk gera ekkert til að rannsaka heimildirnar. Það er sláandi að lesa um aðbúnað verkafólks Alcoa í öðrum löndum. Það er líka sláandi að þessi fyrirtæki sem eiga að vera bjargvættir þjóðarinnar fá aldrei gagnrýna umfjöllun þar sem farið er ofan í saumana á lygum þeim sem þau stunda.

Man að það hafði samband við mig fólk sem hafði unnið um langa hríð fyrir Alcan. Það sagði mér að ef þú slasast, eins og til dæmis fótbrotnar eða brennist en getur unnið á skrifstofunni við að hefta blöð, þá er ekki þörf á að tilkynna slysið sem vinnuslys. Þannig gat Alcan auglýst mánuð eftir mánuð sem vinnuslysalausan mánuð á meðan að raunin var allt önnur. Af hverju er þetta til dæmis ekki skoðað?

Ég las reglurnar sem starfsmenn Alcan þurftu að starfa eftir og þar kom fram að þeir megi ekki tala við fjölmiðla á meðan þeir starfa þar ef þeir hafa eitthvað að gagnrýna. Mér finnst það ekki í lagi.

Ég skora á einhvern hugrakkan blaðamann eða konu að kafa vel ofan í sögu Rio Tinto, Alcoa og Landsvirkjunar og skrifa heilsteypta grein um þessi fyrirtæki. Það væri jafnvel hægt að hafa seríu þar sem fyrirtækin eru skoðuð. Svo væri gaman að fá að lesa greinar um Báxítvinnslu. Það er oft reynt að tóna niður veruleikann í kringum Báxítvinnslu og þá hrikalegu skaðsemi sem henni fylgir.

Nú eiga margir eftir að hrópa á vefnum um að þeir hefðu haft hluttekningu með málstað Saving Iceland en þessi aðgerð hafi gert útslagið og þeir munu nú snúa baki í Saving Iceland vegna þessa. Svona grunnt liggur alltaf á hjá svo mörgum. Þeir nota fyrstu afsökun til að halda áfram að gera ekki neitt.

Náttúruvaktin