júl 15 2008

Róttækar aðgerðir og atvinnumótmælendur

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson
Morgunblaðið, 15. Júlí 2008

Sl. sunnudag fjallaði staksteinahöfundur Morgunblaðsins um Saving Iceland-hópinn, undir titlinum „Aðgerðahópar og sellur“. Hann sagði frá aðgerðabúðum hópsins á Hellisheiði og setti fram lista yfir hegðun sem búast mætti við af þeim sem taka þátt í aðgerðum hópsins í sumar, þ.e. ,,reyna að mana lögregluna í slag, hlekkja sig við það sem hendi er næst, vinna minni háttar skemmdarverk, trufla löglega starfsemi fyrirtækja eða almenna umferð“. Samkvæmt honum er þetta hegðun sem einkennt hefur starfsemi hópsins síðustu árin.

Við hjá Saving Iceland beitum beinum aðgerðum og borgaralegri óhlýðni í aðgerðum okkar gegn kapítalisma í formi stóriðjuvæðingar Íslands – því neitum við ekki. Við hlekkjum okkur hins vegar ekki við það sem hendi er næst, heldur vinnuvélar sem notaðar eru við eyðileggingu náttúrunnar. Þannig stöðvum við eyðilegginguna tímabundið. Það dettur engum í hug að læsa líkama sinn við stærðarinnar vinnuvél ,,af því bara,“ – baráttuvilji og hugsjónir eru þar að verki.

Saving Iceland vinnur ekki skemmdarverk önnur en þau að valda þeim fyrirtækjum sem græða á eyðileggingu, kúgun og ofbeldi, fjárhagslegum skaða. Við truflum starfsemi, sem vissulega í sumum tilfellum er lögleg, en síðan hvenær er samasemmerki milli þess sem er löglegt og réttlátt? Málið er ekki svo einfalt, því ef svo væri, væri hægt að réttlæta mörg mestu voðaverk mannkynssögunnar bak við hugmyndina um lög og reglu

Framkvæmdir tengdar álveri Norðuráls í Helguvík eru löglegar í þeim skilningi að Norðurál hefur leyfi til þess að byggja hús, þ.e. álversbygginguna á svæðinu. Önnur leyfi liggja ekki fyrir; hvorki samningar um orkuöflun og orkuflutning né heimildir fyrir losun gróðurhúsalofttegunda og starfsleyfi, og í raun er ekkert sem bendir sérstaklega til þess að svo verði. Samt sem áður er boðað til skóflustungu og hátíðarhalda, og þannig látið líta út fyrir að grænt ljóst hafi verið gefið fyrir framkvæmdinni. Þar með verður sífellt erfiðara að neita fyrirtækinu um tilskilin leyfi. Bygging álversins er því lögleg en framkvæmdin á sama tíma siðlaus.

Saving Iceland manar lögregluna ekki í slag en bregst auðvitað við þegar lögreglan beitir ofbeldi. Í ágúst 2006 keyrði Arinbjörn Snorrason, lögregluþjónn, á Ólaf Pál Sigurðsson, einn af þátttakendum í búðum hópsins við Snæfell, en sem betur fer slapp hinn síðarnefndi með skrekkinn. Þegar Ólafur kærði atvikið var málinu vísað frá en stuttu síðar var því snúið gegn honum og hann ásakaður um að hafa skemmt lögreglubifreiðina sem Arinbjörn sat í. Engin sönnunargögn lágu fyrir, ekki voru teknar skýrslur af nokkrum viðstöddum og einu vitnin voru fjórir lögregluþjónar sem allir voru málsaðilar. Ólafur var sýknaður, sem breytti því samt ekki að nafn hans var með umfjölluninni sífellt tengt við skemmdarverk. Lygum og fölskum ásökunum sem þessum þurfum við einnig að bregðast við.

Höfundur kallar okkur atvinnumótmælendur án þess þó að útskýra hvað hann á við. Líklegast meinar hann að við fáum borgað fyrir þátttöku okkar í aðgerðunum. Undir lok síðasta sumar fullyrti fréttastofa RÚV að þeir sem taki þátt í aðgerðum Saving Iceland fái borgað fyrir og fái þar að auki sérstakan „bónus“ ef viðkomandi er handtekinn. Án þess að geta nokkra heimilda – hverjar þær eru og hvaðan þær koma – neitaði RÚV að draga staðhæfinguna til baka. Í kjölfarið festist hugtakið „atvinnumótmælandi“ í umræðuna um Saving Iceland og er nú margoft notað þegar hópinn ber á góma. Engum hefur þó tekist að festa sönnur á þessa goðsögn, hvað þá staðfest hvaðan umrædd laun eigi að koma. Hugtakið virðist hins vegar vera svo fast í umræðunni að það krefst hvorki útskýringa né röksemda. Morgunblaðið fetar hér sömu spor og RÚV.

Að lokum fer höfundur með fjarstæðukennda fullyrðingu, þar sem hann segir að aðgerðir okkar skemmi fyrir annars góðum málstað umhverfisverndar. Þessa fullyrðingu höfum við margsinnis áður heyrt en aldrei fylgir henni nokkur rökstuðningur. Það væri áhugavert að fá heyra útskýringu á því hvernig og hvers vegna slíkt ætti að gerast.

Sú útskýring kemur þó líklega aldrei því róttæk barátta einfaldlega getur ekki skemmt nokkurn málstað. Skemmdi tilraun Claus von Stauffenbergs til að myrða Adolf Hitler, baráttuna gegn nasisma? Skemmdi þátttaka Nelson Mandela í herskárri andspyrnu, baráttuna gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku? Getur fólk virkilega snúist í skoðun sinni á stóriðjuvæðingu Íslands vegna þess að fólk með sömu skoðanir hefur mismunandi trú á áhrifum mismunandi aðferða? Nei, því aðferðir andspyrnunnar breyta ekki staðreyndunum. Kranaklifur breytir ekki þeirri staðreynd að náttúra er eyðilögð vegna orkuöflunar fyrir stóriðju? Sá sem hlekkjar sig við vinnuvél breytir því ekki að menningarleg þjóðarmorð eiga sér stað í þriðja heiminum vegna báxítgraftar fyrir álframleiðslu og börn eru drepinn í Írak og Afganistan með vopnum framleiddum af Alcoa.

Saving Iceland er ekki stikkfrí frá gagnrýni. Hún þarf hins vegar að vera byggð á öðru en ósannindum og goðsögnum til að hægt sé að taka mark á henni.

Náttúruvaktin