ágú 22 2008
1 Comment

Umhverfismat fyrir Bakka ætti að innihalda vatnsaflsvirkjanir

Jaap Krater, Morgunblaðið
.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra ákvað fyrir ekki svo löngu að heildstætt umhverfismat skuli fara fram vegna álversframkvæmda á Bakka (1). Það vekur spurningar um hvort þurfa muni að byggja nýjar vatnsaflsvirkjanir fyrir álframleiðslu á Norðurlandi. Raunsætt mat á mögulegri jarðvarmaorku fyrir norðan gefur til kynna að bygging vatnsaflsvirkjana verði nauðsynleg til að knýja áfram álver á Bakka.

Stærð álversins
Upphaflega áætlunin var sögð vera bygging 250.000 tonna álvers en Alcoa hefur áður sagt að fyrirtækið álíti álver minna en 360.000 tonn „ósjálfbær“ (2). Nú hefur fyrirtækið sagt að álverið á Bakka muni framleiða a.m.k. 346.000 tonn á ári (3) og það er ljóst að það hefur verið áætlunin frá byrjun . Upphafsrannsóknir gerðu ráð fyrir álveri af þessari stærð (4) þótt tillaga að umhverfismati og áætlanir um orkuöflun hafi fjallað um minna álver til að byrja með. Fyrir stærra en 250.000 tonna álver þyrfti að gjörbreyta og endurbyggja orkunet Norðurlands (5). Á endanum væri þá 500.000 tonna álver möguleiki. „Því stærra því betra“ sagði Bernt Reitan, varaforseti Alcoa, við undirskrift á Húsavík snemma í sumar (6).

Orkuþörf

250.000 tonna álver þarfnast 400 MW rafmagns og myndi orkan þá koma frá jarðvarmavirkjunum á Norðurlandi. Ef bjartsýnismatið um 370 MW frá Kröflu 2 (þar sem nú er borað inn í Víti), Þeistareyki og Bjarnarflag (7,8) mun standast, sem er alls ekki víst, vantar samt ennþá orku upp á. Þá yrðu 30 MW fengin frá Gjástykki, sem nú er óspillt og órannsakað svæði en myndi líða stórfenglegan skaða ef af virkjun yrði (9). Fyrir miðlungsstórt álver mun orkuþörfin svo aukast um a.m.k. 150 MW og stórt álver þyrfti að lágmarki 400 MW í viðbót.

Hugsanlegar stíflur

Ef álveri á Bakka verður ýtt í gegn er bygging nýrra stórstíflna nánast óumflýjanleg. Fyrirtæki að nafni Hrafnabjargavirkjun Hf. er nú þegar tilbúið til að hefja undirbúning að því að reisa nýja 90 MW virkjun með þremur stíflum í Skjálfandafljóti. Fljótshnjúksvirkjun (tvær stíflur) í sömu á gæti framleitt önnur 58 MW. Orkuveita Reykjavíkur á 60% í fyrirtækinu en aðrir hluthafar eru m.a. Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur (10). Fyrirhuguð Skatastaðavirkjun kallar á stíflur í Jökulsá-Eystri, Jökulsá Vestri, Giljá, Fossá, Lambá og Hölkná, Orravatni og Reyðarvatni (norðan Hofsjökuls), og gæti framleitt 184 MW. Villinganesvirkjun, með stíflur í bæði Jökulsá-Vestri og Jökulsá-Eystri í Skagafirði, gæti framleitt 33 MW til viðbótar. 72 ferkílómetra uppistöðulón í Jökulsá á Fjöllum á austuröræfum (Arnardalsvirkjun) gæti framleitt 570 MW. 

Það lítur því út fyrir að það þyrfti að reisa nýjar stíflur í Skjálfandafljóti og Jökulsá austari annars vegar, eða í Jökulsá á Fjöllum hins vegar, til þess að starfrækja aðeins miðlungsstórt álver á Bakka. Frekari möguleikar væru svo virkjanir í Laxá í Aðaldal eða Eyjabökkum (11).

Áhætta vegna jarðvarmavirkjana
Áhættan sem fylgir því að reisa virkjanir á virkum jarðhitasvæðum spilar inn í og eykur til muna líkur á því að álver á Norðurlandi muni þurfa að reiða sig á vatnsaflsorku frekar en jarðvarmaorku.

Jarðfræðirannsóknir hafa gefið til kynna hættuna á því að borholur skemmist vegna jarðvirkni, en það gerðist einmitt árið 1975 þegar fjórar af sex borholum við Bjarnarflag skemmdust vegna eldvirkni á svæðinu (12). Þaðan á hluti orkunnar fyrir álver á Bakka að koma. Álbræðsla er viðkvæm og þarfnast stanslauss orkuforða, svo langtímaskortur á rafmagni getur eyðilagt hluta álvers. Því er lágmarksmagn af orku frá annarri uppsprettu æskilegt. Þessu til viðbótar er framleiðsla jarðhitaorku dýrari en vatnsaflsorku.

Það er hvorki æskilegt né framkvæmanlegt fyrir Alcoa að starfrækja álver nálægt Húsavík, sem einungis væri keyrt áfram af jarðvarmaorku. Það þyrfti að byggja nokkrar stíflur og umhverfisáhrifin yrðu gífurleg.

Á sama tíma er nú þegar talsverður skaði af borun við Gjástykki og inn í eldfjallið Víti, auk þess sem stærðarinnar mengunarlón hefur nú myndast við Þeistareyki vegna tilraunaborana, án þess að nokkurt umhverfismat hafi þótt nauðsynlegt (13).

Þar af leiðandi kemur alls ekki á óvart að álverssinnar skuli andmæla heildstæðu umhverfismati og hegða sér eins og þeir hafa gert síðustu daga. Það væri jú miklu þægilegra fyrir þá ef umfangsminna umhverfismat færi fram fyrir hvert verkefni fyrir sig, helst þegar álverið væri hálfbyggt.

Ef heildstætt umhverfismat fyrir álver á Bakka á að taka alvarlega þarf það að fjalla um mögulegar nýjar vatnsaflsvirkjanir og allan þann skaða sem boranir í kringum Mývatn leiða af sér.

Heimildir:

 • 1 Iceland Review (2008). North Iceland Smelter Project up for Joint Assessment. http://www.icelandreview.com/icelandreview/search/news/Default.asp?ew_0_a_id=309756 [Accessed August 4th, 2008]
 • 2 Wilson, A. (2006). Alcoa clears the air. Interview with Bernt Reitan and Wade Hughes. Trinidad Guardian, Dec 7th 2006. http://www.guardian.co.tt/archives/2006-12-11/bussguardian3.html [Accessed August 4th, 2008]
 • 3 Alcoa (2008). Alcoa presents revised draft EIA proposal for an aluminum smelter at Bakki by Husavik. http://www.alcoa.com/iceland/en/news/whats_new/2008/2008_07_eia_larger.asp [Accessed August 4th, 2008]
 • 4 HRV/Honnun (2005). Primary aluminium plant located near Husavik. Site study. http://www.hrv.is/media/files/Husavik_site%20report_web.pdf [Accessed August 4th, 2008]
 • 5 Ibidem 4.
 • 6 Saving Iceland (2008). Húsavík contract signed behind closed doors. https://www.savingiceland.org/?p=2500 [Accessed August 4th, 2008]
 • 7 Ministry of Industry, Iceland (2002). Master Plan for Hydro and
 • Geothermal Energy Resources in Iceland. http://www.landvernd.is/natturuafl/index.html [Accessed August 4th, 2008]
 • 8 Pallson, B. (2007). Geothermal Power in Iceland. Nordnet.
 • 9 Iceland Review (2008). Power Company Accused of Prioritizing South Iceland. http://www.icelandreview.com/icelandreview/daily_news/?cat_id=40764&ew_0_a_id=309403 [Accessed August 5th, 2008]
 • 10 Alþingi (2008). 135. löggjafarþingi 2007–2008. Þskj. 688 — 432. mál. http://www.althingi.is/altext/135/s/0688.html [Accessed August 4th, 2008]
 • 11 Ibidem 7.
 • 12 Sæmundsson, K. (2006). Assessing Volcanic risk in north Iceland. ISOR – Icelandic Geosurvey. http://www.hrv.is/media/files/Volcanic%20risk_web.pdf [Accessed August 4th, 2008]
 • 13 Saving Iceland (2008). Energy companies destroying Þeistareykir. https://www.savingiceland.org/?p=1317 [Accessed August 5th, 2008]

One Response to “Umhverfismat fyrir Bakka ætti að innihalda vatnsaflsvirkjanir”

 1. Sigurður Magnússon skrifar:

  Eftir Guðberg Bergsson (úr DV 26/8/08)

  Flestar þjóðir eiga merki um afrek og glæsta fortíð í höllum og kirkjum auk bókmennta og lista. Allt var þetta unnið í margvíslegum stíl eftir tíðarandanum. Þannig er menning og erfðir fléttað í heild fyrir tilstilli tungunnar og minnismerkin hefur fólk fyrir augum daglega.

  Við eigum næstum ekkert sambærilegt nema Sögurnar sem enginn les lengur. Hér er ekki heldur fyrir að fara staðföstum leiðtogum sem hægt er að hafa öðrum til eftirbreytni. Áður notuðu útlendingar sem hingað komu tvær persónur, Laxness og Björk, til að kitla þjóðina og sýna með andlegri gæsku sinni að hún væri ekki öllum gleymd.

  Nú minnist enginn á Laxness lengur, stöðugt færri á Björk, og litlar líkur á því að hljómsveitin Skeifugörnin muni fylla þeirra sess. Hún nær ekki lengra en það að leika lokalagið í Kastljósi. Við erum þess vegna ekki í öðrum góðum málum en þeim að hafa náttúruna sífellt fyrir augunum. Hún hefur verið okkar menningartengsl, öllum sameiginleg. Í huga flestra hefur hún haft sama dularkraft sem felst í stórvirkjum hjá öðrum þjóðum. Hún hefur verið okkar hallir, kastalar og keisarar. Íslenskar rætur hafa ekki verið á öðrum stað en í rótum fjalla.

  Nú hefur öxin verið reidd að rótum náttúrunnar og það undarlega gerst að eyðileggingin er mest þar sem áður var talið að þjóðin, fólkið og trúin á landið hafi verið traustust. Þetta eru svæðin þar sem sannir Íslendingar bjuggu, á heiðarbýlum, lofsungnir í ljóðum og sögum. Kóróna tryggðar og trúar á landið var talin vera þar sem ameríska álverið rís.

  Á öðrum stað , ekki síðri hvað þjóðrækni varðar, í Þingeyjarsýslu var stoltið og rétti andinn talinn vera, vagga hinnar lofsungnu bændamenningar. Nú hefur montið snúist í aðra átt : íbúarnir heimta álver til að bindast átthögum sínum og verða meiri en Skagfirðingar. Hvar er álverið þeirra ? Ekki vilja Vestfirðingar vera eftirbátar heldur reisa olíuhreinsunarstöð við bæjardyr Jóns Sigurðssonar forseta, tákn fyrir nýja þjóðrækni.

  Slík athafnaörvænting getur aðeins þrifist hjá þjóð sem heimtar frelsi til þess að slíta sig úr tengslum við sína einu fótfestu frá upphafi vega : dulmagn náttúrunnar. En ef það deyr deyjum við sem þjóð. Svo einfalt er það.

  Hverjir standa fyrir þessu ? Menntaðir synir og dætur höfðingjanna, afkomendur þeirra sem göluðu hæst öldum saman í pontunni um rótgróna menningu sveitanna, kyrrðina, fuglasönginn, ferskeytluna og fjallagrösin.

Náttúruvaktin