ágú 13 2009

Ragnfærslur fjölmiðla um aðgerð Saving Iceland í Helguvík

Ýmsar rangfærslur voru í umfjöllunum fjölmiðla um aðgerð Saving Iceland í Helguvík í gær, án nokkurrar sýnilegrar ástæðu annari en þeirri að einfaldlega vilja ekki fjalla almennilega um málið. Vefsíða Morgunblaðsins birti frétt undir titlinum: ,,Hættu mótmælum“ þar sem meðal annars segir að þeir sem hlekkjuðu sig við hlið vinnusvæðisins hafi farið að tilmælum lögregu, dregið sig í hlé og leyft umferð að ganga um svæðið. Allir aðrir fjölmiðlar sögðu aðgerðina hafa stoppað vinnu í klukkustund en sannleikurinn er sá að vinnan stöðvaðist í minnsta kosti í tvo klukkutíma og hugsanlega mun lengur,þar sem það er okkur hjá Saving Iceland ókunnugt hversu miklar öryggisráðstafanir þarf að gera eftir að óviðkomandi einstaklingar fara inn á vinnusvæði á borð við Helguvík. Þeir sem hlekkjuðu sig við hlið vinnusvæðisins færðu sig ekki heldur sátu sem fastast þangað til lögreglan hafði klippt á lása þeirra.

Það er líka einkennandi fyrir fjölmiðlun hér á landi að enginn fjölmiðlanna hafi dottið í hug að birta nokkurn þátt úr fréttatilkynningunni sem send var með aðgerðinni, fyrir utan fréttastofu Sjónvarpsins sem sagði Saving Iceland telja virkjun Þjórsár vera forsendu starfandi álvers í Helguvík. Aðrir fjölmiðlar tóku það einungis fram að með aðgerðinni hafi við verið að mótmæla álvers- og virkjanaframkvæmdum – eins og þar væri einhver breyting frá fyrri aðgerðum okkar. Fréttatilkynningin inniheldur m.a. upplýsingar um hversu misjafnlega langt leyfin sem fengist hafa fyrir álverinu í Helguvík eru komin, hvernig framkvæmdirnar séu samt keyrðar áfram af fullum krafti og hvernig það minnkar stöðugt líkur á því að framkvæmdirnar verði stöðvaðar. Einnig er fjallað um vafasöm tengsl verktaka fyrirtækisins HRV við ál- og orkuiðnaðinn eru og hvernig allt tal um umhverfisvernd sem velmegunarpólitík er byggð á mýtum einum saman.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fjölmiðlar reyna ítrekað að hunsa skilaboð Saving Iceland og upplýsingar sem við bendum á um vafasamar hliðar stóriðjuframkvæmda. Þeir hafa á sama tíma nánast aldrei hikað við að birta lygar og rógburð um hreyfinguna án þess að færa rök fyrir máli sínu, t.d. þegar fréttastofa RÚV sagði okkur fá greitt fyrir mótmælaaðgerðir okkar.

Fréttatilkynning gærdagsins auk mynda frá aðgerðinni má finna hér.

Náttúruvaktin