okt 15 2009

Orkudraumar á teikniborði Norðuráls – kostuleg niðurstaða

Sigmundur Einarsson - Jarðfræðingur

Sigmundur Einarsson

Í grein minni „Hinar Miklu Orkulindir Íslands“ sem birtist í Smugunni (ásamt heimasíðu Saving Iceland-rit.) sagði ég m.a. að stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands væri tómt plat. Þetta væru skýjaborgir, byggðar á raupi óábyrgra manna. Nú hefur hluti þessara óábyrgu manna stigið fram í dagsljósið undir merkjum Norðuráls. Þann 12. október sl. birtist á heimasíðu fyrirtækisins pistill undir yfirskriftinni „Yfirdrifin orka fyrir Helguvík“. Þar kemur fram að margir hafi viðrað þá skoðun síðustu daga að erfitt verði að afla orku fyrir álver í Helguvík og á eftir fylgir þessi makalausa setning: „Þær skoðanir virðast flestar byggjast á mjög lítilli gagnaöflun eða þekkingu“.

Þar sem ætla má að pistill Norðuráls sé hugsaður sem einhvers konar svar við grein minni tel ég rétt að svara því sem óneitanlega verður að teljast „raup af hálfu óábyrgra manna“. Það er ekki hægt að láta Norðurál komast upp með að bera á borð fyrir íslenska þjóð ósannindi sem síðan eru lapin upp gagnrýnislaust í fjölmiðlum. Í raun þyrftu iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun að grípa í taumana ef þau vilja ekki feta í fótspor Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Sofandaháttur gæti kallað yfir þjóðina orkuhrun, ofan á efnahagshrunið.

Talsmaður Norðuráls skoðar orkulindirnar á Suðvesturlandi í kostulegu samhengi og kemst fyrir bragðið að kostulegri niðurstöðu. Hann segir m.a.: „Næg orka er til á Suðvesturlandi bæði fyrir álverið í Helguvík og aðra starfsemi. Þar er einfaldast að líta til þess sem þegar er á teikniborðinu“. Svo skoðar hann teikniborðið og viti menn. Hann finnur út að orkuöflun sem þegar er á teikniborðinu á Suður- og Suðvesturlandi nemur um 1500 MWe, en álver í Helguvík þarf aðeins 625 MWe þegar það er komið í fulla starfsemi.

En hér er ekki allt sem sýnist. Orkan verður hvorki til á teikniborði né í raforkuverum heldur er hún fólgin í orkulindunum, hún er náttúruafl. Ef við höfum engar orkulindir er tilgangslaust að teikna eða reisa orkuver, hvað þá álver. Við skulum því halda okkur við orkulindirnar og láta teikniborðin eiga sig.

Í grein minni hér í Smugunni var farið yfir þær orkulindir sem eru til staðar á suðvesturhorni landsins, að sjálfsögðu miðað við núverandi þekkingu og tækni. Þar var metið hversu mikla orku er skynsamlegt að vinna úr hverju svæði, hve mikið hefur verið virkjað og hve mikið er enn hægt að virkja. Með því að vera fremur bjartsýnn á vinnslu raforku á Krýsuvíkursvæði og sleppa öllum álitamálum um vinnsluréttindi og umhverfismál taldist mér til að jarðhitasvæðin í Hengli og á Reykjanesskaga nægðu ekki til að þjóna orkuþörf 250 þús. tonna álvers í Helguvík, hvað þá þörfum þess 360 þús. tonna álvers sem stefnt er að. Hvorki orkufyrirtækin né Orkustofnun hafa gert athugasemdir við þær tölur sem ég lagði fram um orkulindir á Suðvestur- og Norðausturlandi og því má ætla að tölurnar séu nálægt réttu lagi. Hér er þó rétt er að benda á að spár um orkugetu einstakra jarðhitasvæða eru fjarri því að vera sérlega traustar og má því segja að auðveldlega sé hægt að leika sér með tölur í þessu samhengi.

Nú ætla ég að setja fram lítið eitt breyttar tölur, frá því síðast, yfir það afl sem ég tel að geti verið tiltækt á suðvesturhorninu. Breytingin felst í því að nú er engin sérstök bjartsýni á ferðum. Ég geng út frá eftirfarandi:

· Ljóst er að ekki verður virkjað meira á Reykjanesi í bráð vegna mikils þrýstifalls í jarðhitakerfinu eftir að Reykjanesvirkjun tók til starfa.

· Eldvörp og Svartsengi eru eitt svæði sem gæti kannski þolað svolitla stækkun en hún getur varla talist æskileg.

· Eftir tvær djúpar holur við Trölladyngju virðist HS-Orka hafa misst áhugann á svæðinu þannig að þar verður varla reist orkuver að sinni. Gefum okkur að allt að 100 MWe fáist í öðrum hlutum Krýsuvíkursvæðisins þó svo að þar hafi aldrei mælst hærri hiti en 230°C sem er nálægt neðri mörkum nýtingarhita raforkuvera á háhitasvæðum.

· Brennisteinsfjöll eru skorin burt vegna mikillar umræðu á undanförnum árum um verndargildi svæðisins.

· Áfram er gert ráð fyrir að Hengilssvæðið þoli allt að 600 MWe nýtingu.

1. tafla. Tæknilega vinnanlegt, virkjað og óvirkjað afl á Reykjanesskaga og í Hengli

Jarðhitasvæði Tæknilega

vinnanlegt afl (MWe)

Virkjað afl (MWe) Óvirkjað afl (MWe)
Reykjanes 100 (200) 100 0
Eldvörp/Svartsengi 100 (120) 75 25
Krýsuvík (Trölladyngja,

Sandfell, Seltún, Austurengjar)

100 (480) 0 100
Brennisteinsfjöll –   (40)
Hengill (Hellisheiði,

Hverahlíð, Bitra, Nesjavellir)

600 (600) 333 267
Samtals 900 (1440) 508 392

Í öðrum dálki 1. töflu er sýnt tæknilega vinnanlegt afl á hverju jarðhitasvæði miðað við mínar eigin forsendur. Innan sviga eru tölur sem fram komu í erindi Sveinbjörns Björnssonar á Orkuþingi 2006. Breytingin er talin skýrast af því að Hengillinn er megineldstöð sem væntanlega hefur myndarlegan kjarna af innskotum í rótum sér, en Krýsuvík og önnur svæði á Reykjanesskaga eru lítt þroskuð eldstöðvakerfi sem sækja varmann fremur til minni og dreifðari innskota.

Samkvæmt aftasta dálki 1. töflu gæti óvirkjað afl á Reykjanesskaga og í Hengli verið um 390 MWe en þar af munu 90 MWe vera ætluð álveri Norðuráls í Hvalfirði. HS-Orka og Orkuveita Reykjavíkur geta því líklega lagt til um 300 MWe til álvers í Helguvík. Þetta er nokkru minna en en ég hélt fram nýlega og liggur munurinn í því að bjartsýnisstuðull fyrir raforkuvinnslu í Krýsuvík hefur verið lækkaður. Og hver veit nema 100 MWe séu enn full mikil bjartsýni fyrir Krýsuvíkursvæðið.

Við þetta er litlu að bæta. Norðurál segir að fullbyggt þurfi álverið í Helguvík 625 MWe, fyrsti áfangi með 150 þús. tonna framleiðslugetu þarf um 250 MWe og annar áfangi með 250 þús. tonna framleiðslugetu þarf 435 MWe. Orkan í jarðhitasvæðunum á suðvesturhorninu dugar ríflega í 1. áfangann en síðan ekki söguna meir. Engu máli skiptir hve mörg raforkuver eru á teikniborðinu.

Ef talsmaður Norðuráls hefur efasemdir um þessar niðurstöður mínar væri óskandi að hann benti á hvaða forsendum hann hafnar eða efast um, frekar en að setja fram órökstuddar dylgjur um að þessar niðurstöður séu byggðar á lítilli gagnaöflun eða þekkingu.

Sigmundur Einarsson

höfundur er jarðfræðingur

       
       
       
       
       
       
       

Náttúruvaktin