mar 10 2010

Einkaher og einkavæðing: Suðurnes í ljósi áfallakenningarinnar

Blóði stokkin bílrúða eftir skotárás ástralsks einkahers í Írak 2007. Tvær íraskar konur létu lífið í þessum leigubíl.Töluvert hefur verið vísað í áfallakenningu Naomi Klein á þessari síðu, jafnvel svo mjög að Svartsokku sjálfri þyki nóg um, því engum er hollt að miða alla sína samfélagsgreiningu við eina bók. Þó er svo að þegar í bígerð eru tilkoma einkahers, einkavæðing háhitans og bygging álvers sem ekki er til nóg orka fyrir, allt á sama landsvæðinu, þá hringja óhjákvæmilega viðvörunarbjöllur undir tónfalli áfallakenningarinnar. Þegar líðandi stund er greind í ljósi hennar kemur í ljós kunnuglegt mynstur; verið er að spila með okkur eins og peð á taflborði. Það sem verra er: við spilum með undir styrkri stjórn „vinstrimanna“.

Hvað er áfallakenningin?

Fyrir þá sem ekki vita þá snýst áfallakenningin í stuttu máli um það að í kjölfar stórra áfalla, á borð við flóðbylgjur, jarðskjálfta, stríð eða efnahagshrun, þá sé auðveldara en ella að koma á óvinsælum efnahagsstefnum og einkavæða það sem áður var í sameign, í þeim tilgangi að afla skjótfengins gróða (og gjarnan til að hampa vinum og félögum). Kenningin felur í sér að vegna þess að almenningur sé í sjokki yfir áfallinu eigi hann erfiðara með að berjast á móti þessum breytingum.

Hér á landi virðist sem Suðurnesin ætli sér að verða fyrsta fórnarlamb áfallakenningarinnar. Áfallið virðist þó ekki hafa leitt til þess að almenningur sé of dofinn til að berjast á móti breytingunum heldur hleypur hann á móti þeim með opnum örmum. Æsingurinn í að selja auðlindir og tæma þær sem fyrst minnir helst á vitstola mann, sem í örvæntingu sinni selur botninn úr buxunum, í þeim tilgangi að geta keypt sér bætur fyrir gatið á hnénu.

Formúlan er vel þekkt víða um heim, og um hana hafa fleiri skrifað en Naomi Klein. Hún felst einna helst í því að sleppa markaðsöflunum lausum, lækka tolla og afnema innflutningshöft. Víðast hvar hefur þetta endað með miklu atvinnuleysi, oftast mun hærra en hér á landi, eða um og yfir 20%. „Lausnin“ á þessu hefur oftast verið áframhaldandi einkavæðing, sem sífellt verður ágengari. Sem dæmi má nefna er einkavæðing rafmagns í Suður-Afríku, og áform um einkavæðingu vatns í Bólivíu, sem reyndar tókst ekki vegna mikillar andstöðu heimamanna.

Hagvöxtur og stríð: eitruð blanda

Samkvæmt Naomi Klein er einkavæðing hermennsku angi þessarar þróunar og einnig með þeim ábatasamari. Hún snýst um það að útvista verkefnum hersins til einkafyrirtækja. Ef Írak er tekið sem dæmi þá var þar um að ræða innrás hannaða af Bush stjórninni, sem útvistaði svo verkefnum í „uppbyggingarstarfi“ og öryggisvörslu til einkafyrirtækja á borð við Halliburton, sem var að hluta til í eigu meðlima Bush stjórnarinnar. Fyrir þessi fyrirtæki helst gróðinn sívaxandi, því að framboðið á stríðum eykst í beinu hlutfalli við óréttlæti og skort sem þessi fyrirtæki taka þátt í að skapa.

Dæmið skýrist enn ef litið er til þess hvernig hagkerfi Bandaríkjanna er uppbyggt, en þar er hagvexti og háu atvinnustigi haldið uppi með viðvarandi vopnaframleiðslu. Til þess að réttlæta þessa vopnaframleiðslu er nauðsynlegt fyrir Bandaríkin að eiga óvini og fara í stríð af og til. Þegar demókratar eru við stjórn eru þessi stríð kölluð „friðargæsla“ og felast m.a í því að drita nokkrum bombum á Írak og Serbíu (Clinton) eða auka í heraflanum í Afganistan (Obama) til þess að auka „öryggi“. Þegar Repúblikanar eru við stjórn heitir þetta hins vegar „frelsisstríð“, „operation enduring freedom“ (Afganistan) eða „operation Iraqi freedom“ (Írak).

Með því að fara til skiptis í stríð, rústa löndum, einkavæða náttúruauðlindir og einkavinavæða uppbyggingarstarf og öryggisgæslu er því hægt að hagnast mjög. Og rúsínan í pylsuendanum: þetta heldur bara áfram. Eyðilegging samfélagsins veldur líka innbyrðis átökum, með tilheyrandi eftirspurn eftir vopnum. Líkurnar á stríðum í aðliggjandi löndum eykst líka með tilheyrandi eftirspurn eftir vopnum. Og ef allt bregst má alltaf flytja sig í önnur lönd og aðra heimshluta með hernaðaríhlutunum og braski. Þetta veldur sífelldum hagvexti.

Og nú vilja Suðurnesjamenn, í samstarfi við Samfylkinguna, fá hluta af kökunni. Þótt tilvist E.C.A Program byggist á því að nóg framboð sé af stríðum breytir það engu. Þó fyrirtækið sé hluti af hinum gróðavænlega einkaherjabransa sem eykur eftirspurnina eftir stríðum, breytir það engu. Þó svo fyrirtækið sé hluti af hernaðar-bissnessnum, sem hagnast beint af því að sprengja upp hús fólks, hrekja það á vergang, drepa fólk og limlesta, eyðileggja lífsafkomu þess og græðir á því, breytir það engu. Við viljum atvinnu, hagvöxt og erlendar fjárfestingar. Sama hvað það kostar.

Þessi grein er tekin af anarkistavefnum svartsokka

Náttúruvaktin