júl 15 2010

Þjáningar þeirra lágt settu og samsekt okkar

Vedanta ræðst inn í OrissaAf öllum héruðum Indlands er Orissa ríkast af steintegundum. Landsvæðið er grænt og gróskumikið og er landslagið líkast bútasaumi smárra akra og skógi vaxinna fjalla þar sem fossar steypast niður rauða klettana. Eins og margir þeirra staða í heiminum þar sem enn ríkir náttúruleg frjósemi búa frumbyggjar víða í fjallshlíðunum. Þeir eru kallaðir Adivasis, sem í orðsins fyllstu merkingu þýðir „hinir upprunalegu íbúar“, og samfélag þeirra er taldið vera meðal elstu þjóðmenninga þessa heims. Fjórðungur íbúa Orissa eru frumbyggjar, sem gerir héraðið að því „fátækasta“ á Indlandi samkvæmt Alþjóðabankanum. Það stafar þó ekki af raunverulegri örbirgð, heldur því að Alþjóðabankinn mælir velferð einungis í peningaviðskiptum. Mælingin lítur því fram hjá þeirri staðreynd að í Orissa hefur aldrei ríkt hungursneyð og að flest Adivasi fólkið notar aldrei peninga, heldur býr það í sátt við fjöllin, árnar og skógana sem færa því allt sem það þarfnast. Í þakklæti fyrir forsjón náttúrunnar tilbiður margt Adivasi fólk fjöllin og sver að vernda ríkuleg vistkerfi sín. Sum fjallanna í Orissa eru meðal síðustu fjalla Indlands sem enn eru vaxin fornum skógum, þökk sé staðfestu frumbyggja gegn nýlendutilburðum Breta til að höggva skógana.

Meira jafnrétti meðal Adivasi

Þegar undirrituð dvaldi hjá Adivasi fólki á Indlandi fyrir nokkrum árum brá mér við að sjá muninn á samfélögum þess og nútíma menningu Indverja. Meðal Adivasi var mun meira um kynjajöfnuð, einlægni og frelsi samanborið við hið stranga erfðastéttakerfi og hinar kúgandi trúar- og kynjaskiptingar sem sjást svo skýrt í hefðbundnu indversku samfélagi. Adivasi fólkið var mun lánsamara og það vissi það. Það sóttist ekki eftir því að komast til borganna, dreymdi ekki um peninga og var laust við umræðuna um „þróun,“ sem sífellt ógnar hefðbundinni tilvist þess. Ef þér þykir þetta rómantískt og draumórakennt þá er það alveg rétt og það er áhugavert út af fyrir sig hversu tortryggin við verðum oft þegar okkur mæta þessir eiginleikar mannkynsins. En það hversu raunsæ þessi lýsing á Adivasi fólkinu er hefur veitt þeim nafngiftina „hið raunverulega Na’vi fólk“ úr stórmyndinni Avatar. Heimur Na‘vi fólksins hefur náð að fanga ímyndunarafl almennings vegna þess að hann veitir okkur tilfinningu sem er nánast alveg týnd í okkar ofþróaða (vestræna) heimi; tilfinningu um að vera í tengslum við náttúrulegt umhverfi okkar.

Samanburðinum við Avatar lýkur ekki hér. Adivasi fólkinu í Orissa (og alls staðar á Indlandi) stendur ógn af fjölda námugraftar- og stóriðjuverkefna sem byggja á arðráni fjallshlíðanna fyrir báxítið, stálið og járnið sem þar er og stíflun ánna fyrir rafmagnsframleiðslu til að verka málminn sem á endanum verður fluttur til Vesturlanda. Að sögn á þetta að geta af sér beinharða peninga fyrir nútímavæddan efnahag Indlands, en mun í rauninni auka ójöfnuð og að mestu verða til hagsbóta ríkasta fólks Indlands og fjölþjóðlegu námufyrirtækjanna sem græða á ódýrri orku og ódýru vinnuafli landsins. Mörg þessara verkefna eru styrkt af Alþjóðabankanum, ríkisstjórnum Vesturlanda og félagasamtökum (NGO) undir því yfirskini að um „þróunaraðstoð“ sé að ræða.

Vill hefja námugröft

Eitt slíkra verkefna var nýlega tekið til stórtækrar alþjóðlegrar rannsóknar. Fyrirtækið Vedanta, sem skrásett er í Lundúnum, er á höttunum eftir báxíti úr Nyjamgiri fjallgarðinum í Vestur Orissa, sem er heimkynni Khond ættflokkanna. Þar vill Vedanta grafa upp 18 milljónir tonna af báxíti á ári hverju næstu 25 árin, skilja fjöllin svo eftir í sárum og færa sig um set. Báxítið á að hreinsa og vinna í verksmiðju sem nú þegar er til í Lanjigarh, við fjallsræturnar, þar sem íbúarnir þjást sökum minnkandi uppskeru, öndunarvandamála og fæðingargalla sem orsakast af gífurlega menguðu vatni og ösku sem fellur úr verksmiðjunni.

Vedanta heldur því fram að fyrirtækið muni færa svæðinu peninga, menntun og þróun. Eins segir það að starfsemi þess muni fylgja hæstu stöðlum um umhverfis- og félagslega ábyrgð. En vegsummerkin á jörðu niðri ríma ekki við þær yfirlýsingar og verkefnin eru afar umdeild. Árið 2007 dró lífeyrissjóður norska ríkisins 13 milljón dollara hlut sinn úr Vedanta vegna þeirrar skoðunar að aðild hans gæti leitt af sér „óásættanlega hættu á því að stuðla að stórkostlega siðlausum framkvæmdum“. Nú síðast í febrúar losaði Englandsbanki sig við fjárfestingar sínar í fyrirtækinu af mannúðar- og umhverfisásæðum eftir að opinberir aðilar Bretlands á Indlandi staðfestu ásakanir um ólöglegt og siðlaust framferði gagnvart frumbyggjum í Orissa.

Undir yfirskini þróunar

Þrátt fyrir þessa gagnrýni hafa Þróunarstofnun Bretlands og Alþjóðabankinn átt sinn þátt í því að hvetja til samskonar verkefna í gegnum gríðarstór þróunarlán. Þeim lánum fylgja skilyrði að þau séu nýtt í „verkefni sem bæta viðskipti og stefnu ríkisstjórna“. Það sem átt er við með þessu er einkavæðing vatns- og orkugeira, auk kynningar á mögulegum námurekstri erlendra fyrirtækja á grundvelli lágra skatta, sem rýrir enn frekar möguleika á nokkur konar hagsbót fólksins á viðkomandi svæði. Aktívistar og fréttaskýrendur hafa bent á að hráefnaflutningur frá Indlandi til Vesturlanda sé mun meiri í dag heldur en hann var á tímum Austur Indíafélags bresku nýlendustjórnarinnar. Það eina sem munar um er að núverandi stefna hefur mannúðlega ásjónu og lofar „þróun“ og endalokum fátækar, þrátt fyrir að sönnunargögnin sýni fram á hið gagnstæða.

Bæði dótturfyrirtæki Vedanta, Stelite og MALCO, hafa verið dregin fyrir dómstóla fyrir glæpsamleg brot á umhverfislögum, losun eiturefnaúrgangs og ólöglegar byggingarframkvæmdir, en engu að síður hafa æðri dómsstig vísað frá öðrum málshöfðunum og heimilað fyrirtækinu að hefja námurekstur. Í nýlegri heimildarmynd eftir hinn virta kvikmyndargerðamann Simon Chamber, Cowboys in India, má sjá hvað raunverulega býr að baki þeim samfélagslega ábyrgu verkefnum sem Vedanta hefur lofað í Nyjamgiri. Við blasa tóm þorpssjúkrahús sem bera merki fyrirtækisins og hafa aldrei boðið upp á læknisþjónustu eða lækna yfir höfuð, nýtt Vedanta-samfélag þar sem lögreglan vaktar göturnar og íbúum er mútað til að bera lof á fyrirtækið fyrir framan myndavélarnar, og andófsfólk sem ógnað er af öryggisvörðum og öðrum aðilum á vegum fyrirtækisins.

Barátta fyrir landi

Adivasi fólkið hefur þó síður en svo gefist upp. Það bendir á að frjósamar báxíthettur fjallanna eru eins og svampar sem tryggja vatnsframboð ánna í öllu héraðinu. Án þeirra myndu árnar þurrkast upp og fjöldi fólks þjást í kjölfarið. Það andmælir því að visterfi sem hefur haldið lífi í Adivasi fólkinu svo hundruðum kynslóða skiptir, sé lagt í rúst á 25 árum og spyr hvernig okkur dettur í hug að kalla þetta „þróun“.
„Við getum ekki borðað peninga og vitum að þetta getur ekki varað svona til lengdar. Við höfum tapað landi okkar og lifibrauði. Á sama tíma og okkur er lofað betra lífi hlotnast okkur aðeins vandræði“ sagði íbúi frá Orissa á vefsíðunni www.minesandcommunities.org.

Khond ættbálkarnir hafa barist með kjafti og klóm fyrir rétti sínum til að lifa á sjálfbæran hátt. Á árinu 2009 tókust 10 þúsund þorpsbúar og áhyggjufullir borgarar höndum saman og mynduðu 17 kílómetra langa mannlega keðju í kringum fjöllin. Þeir hafa lokað vegum, lagt börn sín fyrir framan vinnuvélar og spurt: „Hvaða framtíð hafa þau ef þið reisið þessa námu?“ Þeir hafa orðið fyrir barðinu á kúgun lögreglunnar, skotárásum og stöðugum hótunum. Nýleg gögn sýna fram á að þeir séu réttilega tortryggir gagnvart verkefnunum. Af hálfri milljón Indverja sem þurfti að yfirgefa heimili sín vegna námugraftar síðustu 10 árin í fjórum héruðum landsins, eru 92% í mun verri stöðu heldur en áður, jafnvel þó þeir þiggi hinar lítilfjörlegu skaðabætur fyrirtækjanna. En í Indlandi eru frumbyggjar álitnir afgangsstærð sem, ásamt óraskaðri náttúru, þurfi að víkja eigi áætlanir vestrænnar þróunar að ganga eftir.

Ábyrgð okkar

Þetta er ákall um vitundarvakningu meðal okkar hér á Vesturlöndum. Málmarnir sem notaðir eru til að smíða flugvélarnar okkar, háhýsin, einnota drykkjarílátin og, það sem verst er, vopnin okkar, eru afskaplega dýrkeyptir jörðinni og fólkinu sem býr á hvað sjálfbærastan hátt á henni. Við erum samsek; allt frá skógunum þar sem málmarnir finnast til að byrja með, stíflun ánna fyrir hreinsun og bræðslu þeirra, menguðu vatninu og andrúmsloftinu sem af leiðir, til ruslsins sem við fleygjum í formi farsíma gærdagsins, endurhannaðra híbýla gærdagsins og sprengja gærdagsins. Það erum líka við, börnin okkar og barnabörnin, sem að lokum komum til með að þjást vegna áhrifa heims sem er mengaður og örsnauður sökum skorts á jarðargæðum. Þessi áhrif eru okkur dulin því þeim er þau eiga sér stað í aðframkomnum löndum þar sem mannréttindi og umhverfislög eru kraftlítil. Á meðan halda efnahagskerfi okkar raunverulegum kostnaði mengunarinnar og niðurbrotsins aðskildu frá lokaútkomunni. Því bjóðast okkur í dag ódýr flug en við munum þurfa að borga kostnaðinn við þau síðar, í formi mengaðs vatns, landflótta fólks, loftslagsbreytinga og heilsufarsvanda.

Í dag er mikið talað um kolefni en það er rangt að leggja einungis áherslu á þessa einu aukaafurð nútíma siðmenningar. Stefnur sem draga úr kolefnislosun en hunsa allan annan skaða koma sér undan raunverulega vandanum, sem er sá að notkun okkar á næstum því öllum gæðum jarðarinnar er ósjálfbær og skaðleg. Ef við lærum ekkert af Adivasi fólkinu sem býr hvað sjálfbærast af öllu fólki á þessari jörðu, eða jafnvel hinu ímyndaða Na’vi fólki, hverra verðmætamat nær dýpra en okkar neyslutengda hamingja, eigum við engan möguleika á að uppfylla nokkurn tímann til hins ýtrasta alla okkar mennsku möguleika.

Þessi grein eftir Miriam Rose birtist upprunalega í fyrsta tölublaði mánaðarritsins Róstur

Náttúruvaktin