júl 24 2010

Orka til Straumsvíkur mun koma frá Búðarhálsvirkjun

Kort af BúðarhálsvirkjunISAL (Rio Tinto Alcan) hefur tryggt sér alla þá samninga sem fyrirtækið þarf til að geta hafið stækkun álvers síns í Straumsvík. Um miðjan júní undirrituðu Landsvirkjun og ISAL endurnýjunarsamning um sölu raforku til fyrirtækisins fram til ársins 2036 og var kveðið á um kaup 75MW viðbótarorku í þeim samningi. Þessi viðbótarorka er meginforsenda þess að ISAL geti hrint í framkvæmd áformum sínum um stækkun álversins. Stækkunin hljóðar upp á 40.000 tonna aukna framleiðslugetu á ári. Mun hún fara fram á núverandi landi fyrirtækisins sem gerir hana óháða niðurstöðum íbúakosninga Hafnafjarðar og krefst þessara 75MW í viðbót við þá orku sem ISAL þegar fær afhenta á gjafaverði. Samningurinn er þó háður þeim fyrirvara að óvissu um skattalegt landslag stóriðju hér á landi verði eytt fyrir 31. ágúst, og sýnir það skýrt og skorinort hvernig forsvarsmenn álfyrirtækjanna og orkugeirans leika sér með stjórnartauma yfirvaldsins, sem hingað til hefur ekki þorað öðru en að lúta eftir slíkum kúgunaraðferðum fjársterkra aðilla og ætti því ekki að vera von á öðru í þessu tilfelli.

Viku eftir undirritun samningsins við ISAL sendi Landsvirkjun frá sér útboð þar sem fyrirtækið óskar eftir tilboðum í byggingu Búðarhálsvirkjunar. Útboðinu lýkur í lok ágúst og skal framkvæmdum lokið um haustið 2013. Undirbúningsvinna fyrir byggingu virkjunarinnar var boðin út fyrr á árinu eftir að ákveðið var að ráðast í þetta verkefni sem í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar er eitt stærsta verkefnið sem stjórnvöld sjá fyrir sér til að blása lífi í efnahagslífið. Sú vinna er nú í fullum gangi og skal samkvæmt útboðinu lokið innan 1. desember, en eftir það getur bygging virkjunarinnar sjálfrar hafist.

Um miðjan júlí undirritaði ISAL svo samning við Landsnet, dótturfyrirtæki Landsvirkjunar, um flutning raforku vegna fyrirhugaðrar stækkunar álversins. Sá samningur er þá lokapunkturinn í þeirri orkuöflun sem er meginforsenda þess að ISAL geti hrint stækkunaráformum sínum í framkvæmd. Með honum hefur Landsnet skuldbundið sig til byggingar Búðarhálslínu og tengingu hennar við álverið, sem skal lokið árið 2013.

BúðarhálslínaBúðarhálsvirkjun verður með 585GW framleiðslugetu á ári og mun krefjast sjö ferkílómetra stórs lóns, Sporðöldulóns, sem verður myndað með tveggja kílómetra langri stíflu yfir Köldukvísl, skammt ofan ármóta Köldukvíslar og Tungnaár. Á myndinni hér til hægri má sjá hina fyrirhuguðu Búðarhálslínu, háspennulínan sem mun flytja orkuna frá Búðarhálsvirkjun til tengivirkisins við Sultartanga, sem einnig verður stækkað til að taka á móti orkunni.[mynd budarhals 003]

Mat á umhverfisáhrifum af virkjuninni og tengilínum hennar var framkvæmt af Skipulagsstofnun fyrir nokkrum árum og verkstýrt af Verkfræðistofunni Hönnun (Mannvit), en það eru sömu skrifstofur og framkvæmt hafa öll slík möt á svæðum sem ráðist hefur verið inná og fórnað á altari græðginar undanfarin árin, og niðurstöður mats þeirra eru ávallt frekari iðnuppbyggingu í vil. Nýjustu hugmyndir þeirra innihalda meðal annars tillögur að því að minnka neikvæðu áhrif virkjananna með fegurri arkitektúr sem jafnvel fegir umhverfið í stað þess að skemma það.

Á næstu mynd má sjá þau verkefni sem eru í framkvæmd á vegum Landsnets, en það eru tengingar og lagnir ýmissa orkuflutningsneta um landið allt. Seinni myndin, sem er úr útboðsgögnum Landsnets frá upphafi árs 2010, sýnir svo verkefni í undirbúningi við upphafi árs, en sum þeirra eru nú komin í framkvæmd líkt og Búðarhálslína. Athygli vekur að neðri Þjórsá, og tenging við álver á Bakka eru meðal áætlana Landsnets, en mikil óvissa ríkir enn um þessi mjög umdeildu verkefni.

Náttúruvaktin