júl 02 2010

Skófla er skófla, kúgun er kúgun

Ólafur Páll Sigurðsson

Umhverfishreyfingin Saving Iceland lýsir yfir fullri samstöðu með sakborningunum níu í Reykjavík (RVK9), sem eiga á hættu allt frá eins árs til sextán ára fangelsisvist fyrir að nýta lýðræðislegan rétt sinn til að mótmæla skammarlegu þjóðþingi, 8. desember 2008.

Þessir níumenningar hafa verið valdir úr þeim þúsundum manna sem felldu fyrri ríkisstjórn með mótmælum sínum, ríkisstjórn sem vegna spillingar og getuleysis bar ábyrgð á þeirri sögulegu kreppu sem enn þjakar íslenskt samfélag. Skýrsla hinnar sérstöku rannsóknarnefndar (SIC – viðeigandi skammstöfun) hefur nú staðfest að þessi ríkisstjórn lék lykilhlutverk í þeirri valdníðslu sem hafði í för með sér algjört hrun hins íslenska hagkerfis og var lykilafl í þeirri alvarlegu spillingu, lýðræðisbresti og siðferðiskreppu sem síðan hefur komið í ljós að voru duldar orsakir hins algjöra lánleysis íslensks lýðræðis.

Að stimpla pólitíska andstæðinga sem glæpamenn, jafnvel þá sem beita ofbeldislausri, borgaralegri óhlýðni, er gömul aðferð til að afvegaleiða, notuð af kúgunarríkjum um allan heim. Þessi pólitíska kúgunaraðgerð er í æpandi mótsögn við hræsnisfullar yfirlýsingar um að ‘axla ábyrgð’ og ‘læra af reynslunni’ sem flokkarnir sem bera ábyrgð á kreppunni hafa gefið. Svo sagan endurtaki sig ekki, ættu Íslendingar að taka mjög alvarlega þá kerfisbundnu misbeitingu valds sem hefur orðið uppvíst að er rótföst í valdakerfinu og ekki láta beina sök þeirra að níumenningunum og öðrum mótmælahreyfingum.

Enn sem komið er hefur ekki einn einasti einstaklingur úr stjórnmálum eða viðskiptalífi verið dreginn fyrir dómstóla, þó að margir þeirra hafi frá öllum hliðum verið tilnefndir sem sökudólgar kreppunnar. Sú staðreynd að hinir ungu níumenningar séu fyrstu einstaklingarnir fyrir rétti í kjölfar kreppunnar sýnir svo ekki verður um villst það andrúmsloft afneitunar sem nú gegnsýrir íslenskt samfélag, og hneykslanlega tregðu íslenska ríkisins og stjórnmálastéttarinnar til að taka á sig ábyrgð eða draga lærdóma af orsökum kreppunnar.

Málaferlin gegn níumenninngunum eru blygðunarlaus afvegaleiðsla sem framkvæmd er af algerlega ábyrgðarlausu valdakerfi í fullkominni afneitun gagnvart þeim smánarlegu aðstæðum sem íslenskt lýðræði er nú komið í. Við horfum upp á kerfi sem rúið er trausti reyna að búa til sökudólga úr fólki fyrir að mótmæla þingi sem hefur verið einum rómi fordæmt fyrir að vera spillt, getulaust og vanhæft. Saving Iceland spyr hvort íslenska ríkið muni endurheimta nokkra virðingu fyrir stofnunum þess, sér í lagi þegar það legst á eitt með leggja í rúst líf þessara níu einstaklinga og fjölskyldna þeirra?

Alvarlegir misbrestir í íslensku samfélagi eru engar nýjar fréttir fyrir Saving Iceland hreyfinguna. Þegar íslenskt samfélag var í heljarklóm þeirrar ofsagræðgi sem leiddi til hrunsins vorum við meðal þeirra sárafáu sem stigu fram til að afhjúpa þróuninna og stemma stigu við henni. Af því leiddi bæði óhróðursherferðir í fjölmiðlum og pólitískar ofsóknir af hálfu dómstóla og lögreglu.

Núverandi ‘vinstristjórn’ heldur ekki einungis áfram hinni pólitísku kúgun, heldur eykur hana verulega. Nú hyggur ríkið á hefndir með þungum fangelsisdómum. Það er í hefndarskyni fyrir það sem í raun var einungis sakleysisleg og ofbeldislaus borgaraleg óhlýðni. Hin dulda réttlæting þessarar kúgunar er sú að hindra frekari borgaralega óhlýðni.

Saving Iceland vill vekja tafarlausa athygli alþjóðlegra mannréttinda- og borgararéttindasamtaka á þessari árás á lögfest réttindi mótmælenda á Íslandi. Þau réttindi eru lögfest bæði í stjórnarskrá og alþjóðlega.

Jafnvel þó að menn hafi nýlega komist að því að skrifstofa alþingis ber ábyrgð á málsókn og ákærum gegn níumenningunum, hefur forseti þingsins haldið því fram að málið sé komið úr höndum löggjafarvaldsins og komið í ‘öruggar’ hendur dómsvaldsins. Hvílík kaldhæðni! Á Íslandi er ekki að finna skýr mörk á milli dómsvalds og ríkisvalds. Enn er það svo að íslenskir dómstólar (héraðsdómur og hæstiréttur) hafa kerfisbundið verið byggðir upp af klíkulimum Sjálfstæðisflokksins. Þetta er í samræmi við hinar tíðu ásakanir um að Ísland sé ekkert annað en ‘bananalýðveldi’. Dómskerfið á Íslandi er nákvæmlega jafn ótrúverðugt og pólitíska kerfið og fjármálageirinn.

Maður hlýtur að álykta að óreiðunni sem hingað til hefur fylgt málflutningnum í máli níumenninganna, þar sem jafnvel hefur komið til uppþota, hafi verið leyft að magnast svo mjög vegna þess að það sé hluti af meðvitaðri og kaldrifjaðri tilraun kerfisins til að skapa pólitískann óstöðugleika í kringum málið og auk þess neikvæða mynd af hinum ákærðu. Ítrekaðir dómgreindarbrestir dómarans virðast staðfesta þennann grun, þeir hafa sífellt aukið spennuna og bætt í farsakennt inntak réttarhaldanna.

Þetta sést greinilega á því hvernig fjölmiðlar, sem enn er stýrt nánast eingöngu af nýfrjálshyggjuöflum, hafa stöðugt kynnt málið. Íslenskir fjölmiðlar hafa ítrekað kallað eftir þungum dómum yfir hinum ákærðu og jafnan lýst yfir augljósri sekt þeirra. Þetta hefur gengið svo langt að Ragnar Aðalsteinsson hefur lýst yfir því að níumenningarnir eigi enga möguleika á sanngjörnum réttarhöldum.

Þegar Ríkisútvarpið um síðir fékk aðgang að og sýndi öryggisupptökur af því þegar sakborningar fóru inn í þinghúsið varð augljóst að ákærurnar um ofbeldi og líkamsmeiðingar gegn starfsfólki þingsins voru með öllu tilhæfulausar.

Ein meginröksemdin sem íslenskir fjölmiðlar hafa borið fram gegn hinum ákærðu var að þeir hefðu innleitt ofbeldi í íslenskar mótmælaaðgerðir og því þyrfti að taka á þeim af festu. Þrátt fyrir mikið vægi málsins þögðu þessir sömu refsiglöðu fjölmiðlar sem fastast þegar Ríkissjónvarpið bar fram óhrekjanleg gögn sem sýna að ofbeldisákærurnar byggjast á hreinum lygum. Þetta er æpandi dæmi um tregðu íslenskra fjölmiðla (sem Rannsóknarnefnd Alþingis setti alvarlega ofan í við fyrir að vera viljugir þjónar þeirra sem báru ábyrgð á kreppunni) til að læra sína lexíu og og axla ábyrgð sína fyrir að hafa vanrækt siðareglur blaðamennskunnar og lýðræðisskyldur sínar árum saman.

Við viljum einnig vekja athygli á þeim hefndarhug sem felst í ákærunum á hendur níumenningunum. Hann styrkist við þá staðreynd að Samfylkingin, sem á að heita flokkur vinstra megin við miðju og leiðir nú ríkisstjórnina, deildi völdum með Sjálfstæðisflokknum í þeirri ríkisstjórn sem mótmælahreyfingin hrakti frá völdum. Innan núverandi ‘vinstristjórnar’ er hefndarhug þessara tveggja flokka friðþægt með því að halda til streitu ákærunum gegn níumenningunum.

Augljóst er að Vinstri grænir, sem komust til valda fyrir tilstilli mótmælahreyfingarinnar og deila nú völdum með Samfylkingunni, munu ekki af neinni alvöru þrýsta á samstarfsflokk sinn um að draga ákærurnar til baka. Svo virðist sem fórna eigi mótmælendunum til þess að friða þá sem engjast í hinu alþjóðlega sviðsljósi fyrir ábyrgð sína á kreppunni. Þetta eru fullkomin svik við kröfuna um virkara lýðræði og siðlegri stjórnmál sem fleytti Vinstri grænum til valda árið 2009.

Saving Iceland ítrekar yfirlýsingu sína um fullkomna samstöðu með níumenningunum og fjölskyldum þeirra. Einstaklingar innan Saving Iceland hreyfingarinnar þekkja ágætlega tilfinninguna sem fylgir því að vera glæpgerður og dreginn í gegnum réttarsali fyrir uppblásnar eða vísvitandi falsaðar ákærur fyrir að taka þátt í ofbeldislausri, borgaralegri óhlýðni. Við höfum lært að það er eitt af duldum markmiðum ríkisins að beita slíkum réttarhöldum til þess að rústa lífi okkar og ástvina okkar með því að kasta skugga á framtíð okkar. Þetta er meðvituð og kerfisbundin aðferð sem miðar að því að kæfa raddir okkar og draga úr okkur kjark. Það skiptir öllu að samfélagið átti sig á að eðli þessarar ríkisreknu aðferðar, að ofsækja pólitíska andstæðinga með glæpastimplun, sé svo sannarlega kaldrifjað pólitískt kúgunartæki.

Aðgerðir níumenninganna gegn Alþingi Íslendinga 8. desember 2008 gengdu mikilvægu hlutverki í að herða á mótmælum almennings gegn spilltri ríkisstjórn og stuðluðu verulega að falli hennar. Þessi staðreynd ein og sér ætti að sannfæra Íslendinga um að þeir ættu að vera þakklátir fyrir það hugrekki sem níumenningarnir sýndu, að þeir ættu að taka afstöðu gegn því að níumenningarnir séu dregin í gegnum langdregin réttarhöld og fái hugsanlega fangelsisdóma. Því skorum við á Íslendinga að styðja hina ákærðu með ráðum og dáð og stöðva það svívirðilega réttarofbeldi sem felst í þessu máli.

Saving Iceland mælist til þess einnig að alþjóðasamfélagið og samtök á vettvangi borgararéttinda og mannréttinda taki málið þegar í stað til rannsóknar og grípi til aðgerða sem fyrst til þess að stöðva þessar pólitísku ofsóknir.

Saving Iceland krefst þess að lokum að ákærur gegn níumenningunum séu þegar í stað dregnar til baka, og ennfremur, að Alþingi og íslenska ríkið sendi frá sér opinberar afsökunarbeiðnir til sakborninga og fjölskyldna þeirra fyrir þessa hreinræktuðu pólitísku kúgunaraðgerð.

Stuðningsíða Reykjavik 9 – www.rvk9.org

Ólafur Páll Sigurðsson er skáld, kvikmyndagerðarmaður og bókmenntafræðingur. Hann stofnaði Saving Iceland samtökin árið 2004.

Náttúruvaktin