apr 11 2011

Þakið saur og blóði annarra

Guðbergur Bergsson

El Pais

Það er ekkert annað en tákn okkar tíma og eðli hungraðra, og stundum staðnaðra og leiðinlegra, fjölmiðla okkar að vilja veita ítarlegar upplýsingar um atburði sem skipta engu máli fyrir mannkynið, að þefa uppi tíðindi frá fjarlægustu afkimum jarðarinnar, eins og Íslandi, og missa svo áhugann á þeim um leið og eitthvað fréttnæmt gerist annars staðar. Ísland var þar til nýlega land sem var þorra manna nokkurn veginn óþekkt. En nú er sagt um landið að bylting „fólksins“ hafi fellt íslensku ríkisstjórnina og að þetta gæti orðið að fordæmi fyrir önnur stærri lönd þar sem spilling ríkir.

En í raun og veru er þetta ekki í fyrsta skipti sem „fólkið“ hefur reynt að fella íslensku ríkisstjórnina, stundum hefur það tekist, stundum ekki. Þegar svo bar undir þá varð það ekki að fréttaefni, ekki var fjallað um þetta í heimspressunni. Hingað til hafa „byltingarnar“ á Íslandi auk þess verið hugmyndafræðilegar og pólitískar. Byltingunum hefur verið stýrt af róttækum vinstrimönnum og þess vegna þurfti að þagga niður umræðu um þær í fjölmiðlum hins frjálsa vestræna heims sem stjórnað er af bandarískum kapítalistum. Þessu til stuðnings nægir að nefna eitt lýsandi dæmi: Þegar Ísland, land sem er her- og vopnlaust, fékk inngöngu í Nató árið 1949 vegna þess að Bandaríkjamenn töldu það nauðsynlegt til að þeir gætu verið með herstöðvar í landi sem var í vari í miðju Atlantshafinu, í landi sem var ómissandi til að hægt væri að heyja sanngjarnt og réttlátt stríð gagnvart hinum hræðilegu og ósanngjörnu Sovétríkjum. Nú hefur „fólkið“ náð að koma ríkisstjórninni frá völdum, eða kannski er réttara að segja að ríkisstjórnin sjálf hafi orsakað eigið hrun eftir að sami flokkurinn hafði verið einn um völdin í landinu í tólf ár. Í þetta skipti var ekki um að ræða hugmyndafræðilega baráttu á milli vinstri og hægri. Í þetta skiptið höfðu peningarnir komið í stað hugmyndafræðinnar. „Fólkið“ hafði tapað peningunum sínum sem það hafði ætlað að nota til að kaupa sér líf sem átti að vera eitthvað í líkingu við ameríska drauminn, og út af þessu blés það til dramatískrar byltingar.

Fáir hafa nokkurn áhuga á hugmyndafræði, á meðan allir hafa áhuga á peningum og enginn vill tapa þeim, ekki bankamennirnir og enn síður almenningur sem treystir bankamönnunum fyrir peningunum sínum, sparnaði sínum, draumum sínum. Reynslan og ævintýrin sem einkenndu ferðir víkinganna til forna eiga ekkert sameiginlegt með hinum trylltu árum íslensku bankamannanna: þessi líking er miklu fremur spegilmynd þess kapítalisma sem einkenndi tímabilið og þeirrar efnishyggju sem honum fylgdi: hnattvæðingu hins frjálsa markaðar. Íslensku bankamennirnir trúðu á bandarískar kenningar sem settar höfðu verið fram af hagfræðingum, sem margir hverjir voru nóbelsverðlaunahafar, í bestu háskólum Bandaríkjanna. Íslensku almenningur trúði þessum ameríkaníseruðu postulum sínum. Bandaríski herinn var hluti af daglegu lífi þjóðarinnar í meira en hálfa öld og meðan á seinna stríðinu stóð færði hann íslenskum almenningi einu byltinguna sem fólkið hafði upplifað í sögu íslensku þjóðarinnar: peninga. Áður en herinn kom voru Íslendingar fátækir, fátækasta þjóð Evrópu, en með stríðinu urðu Íslendingar „nýríkir“ með öllum þeim afleiðingum sem slíkt felur í sér: þá þekktu tálsýn að ef allt fer vel muni peningarnir alltaf leiða af sér meiri og meiri peninga.

Íslendingar héldu að þeir væru þjóð sem Bandaríkin hefðu valið til að vera skjöldurinn sem skildi að hinn frjálsa heims og þann sovéska, til að hýsa herstöðvar Nató á öllum útnárum eyjunnar, og á endanum til að hýsa álframleiðslu: eyja hreinnar orku, jarðvarma og vatnsafls. En svo virðist sem allt taki enda að lokum: Bandaríkin eiga ekki langt eftir sem voldugt heimsveldi, herlið Nató er farið og Ísland situr eftir munaðarlaust og er stýrt af gamalli, hægrisinnaðri ríkisstjórn sem styður Bandaríkin, stjórn sem verið hefur við völd í 12 ár. Með þessu hrundi tálsýn þjóðarinnar sem búin hafði verið til hægt og bítandi, en á árangursríkan hátt, meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð, í samfélagi sem lifði af þökk sé stöðugum hernaðaraðgerðum Bandaríkjamanna. Þegar bandaríski herinn hvarf á braut missti fólkið trú sinni, bæði á bandaríska vininn og á vini sína á Alþingi, sem aftur voru vinir bandaríska vinarins. Ringulreiðin eykst og eykst, vonbrigði þjóðarinnar verða almennari og á endanum grípur um sig alger örvænting. Íslendingar taka aftur upp fyrri trú sína á gildi brauðstrits frá morgni til kvölds, ekki vegna þess að þeir eru hrifnir af hugmyndinni heldur af illri nauðsyn. Íslendingar unnu baki brotnu hér á öldum áður, þegar lífið var einfalt, til þess eins að lifa af, og bjuggu með og borðuðu sauðkindur sínar í afdölum, og úti fyrir ströndunum synti þorskurinn sem unninn var úr saltfiskur. Við getum ekki horfið aftur til fortíðar, á okkar tímum er líka í kreppa í löndunum sem hafa í gegnum tíðina keypt saltfiskinn okkar. Auk þess er minni þorsk að hafa í sjónum. Ísland getur aldrei gengið í Evrópusambandið því hagsmunir þeirra landa sem áður keyptu fiskinn af Íslendingum koma í veg fyrir það, nú vilja þær sjálfar veiða sinn eigin saltifsk úti fyrir ströndum Íslands. En Íslendingar telja sig hafa eitt tromp á hendi sem er kraftaverki líkast: Þeir vita að til lengri tíma litið geta sjómenn frá öðrum löndum ekki veitt við Íslandsstrendur. Þeir þekkja ekki sjóinn, vindinn og kuldann. Íslandi er borgið, landið verður áfram einangruð eyja líkt og það hefur alltaf verið, og í landinu býr vinnusamt fólk sem er eljusamt af nauðsyn frekar en af trúarlegum ástæðum. Dálæti þjóðarinnar á vinnunni hefur ekkert með trúarbrögð að gera, það eru aðstæðurnar sjálfar sem gera vinnuna að höfuðdyggð.

Það hefur ekki átt sér stað neitt stórslys á Íslandi, aðeins snögghemlun á því landlæga mikilmennskubrjálæði sem er afleiðing af einangrun þjóðarinnar, og hægt er að ímynda sér að fyrir vikið muni þjóðin byrja að hugsa skynsamlega. Þjóðir heimsins taka aldrei á sig rögg án þess að vera neyddar til þess.

Stærstu sökina á hruni Íslands ber að miklu leyti núverandi forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, sem er ráðvilltur mikilmennskubrjálæðingur. Hann er fyrrverandi þingmaður sem skipti nokkrum sinnum um flokk meðan hann starfaði í stjórnmálum, hann fór úr einum flokki í annan en glataði að lokum trúverðugleika sínum vegna hentistefnu sinnar. En samstundis fann hann sér aðra hillu: forsetaembættið síðastliðin fimmtán ár er gjöf þjóðarinnar til þessa manns sem er svo líkur þjóðinni sjálfri, þjóð sem hefur verið ráðvillt og einangruð frá meginlandi Evrópu og evrópskri hugsun í margar aldir, þjóð sem leitar alltaf framlág í skaut Bandaríkjamanna eftir stuðningi og vernd, skaut þessa heimsveldis sem neitar að horfast í augu við sannleikann um sjálft sig: að það hefur þakið sig í saur og blóði annarra.“

*Greinin birtist í spænska dagblaðinu El País mánudaginn 11. apríl og í íslenskri þýðingu í DV miðvikudaginn 13. apríl. Íslensk þýðing Ingi F. Vilhjálmsson

Hér er greinin á spænsku.

Ávarp Guðbergs Bergssonar á ráðstefnu Saving Iceland í Ölfusi í júlí 2007 – ‘Blue Eyes in a Pool of Sharks’.

Náttúruvaktin