apr 25 2011

Vítahringur láglaunahórunnar

Í síðustu viku hélt Landsvirkjun kynningarfund um virkajanáform sín næstu 15 árin. Fundurinn fór fram í samstarfi við Háskóla Íslands sem sá ekki ástæðu til að bjóða andmælanda að svara fullyrðingum Landsvirkjunar. Ósáttur háskólanemi ákvað að taka málin í eigin hendur og flytja óumbeðinn erindi sem birtist á Róstur.org

Í dag hefur kennslustofa verið yfirtekin. Hún hefur verið yfirtekin af einu stærsta fyrirtæki landsins sem hingað er komið í leit að nýrri kynslóð sölupjakka. Landsvirkjun er að kynna nýja hugmyndafræði sem er afar sérkennileg. Umhverfisvænar virkjanir sem framleiða græna orku. LV ætlar að setja upp 14 grasgrænar og náttúruelskandi virkjanir á næstu 15 árum og hefst nú hernaðurinn gegn landinu fyrir alvöru. Það mætti í raun kalla þetta hernaðinn gegn landsmönnum og -konum því hluti af hernaðinum er að sannfæra fólkið um skaðleysi þeirra á náttúruna. Það er ekki nóg að sannfæra fólkið í landinu því góður sölumaður verður að hafa trú á vörunni sem hann selur og verður að vera löggiltur söluaðili. Landsvirkjun er hingað komin í leit að sölupjökkum nýrra hugmynda en sömu skemmdarverka.

Og hvar er besta sölufólkið? Jú, í háskólanum. Háskólasamfélagið hefur ekkert breyst frá því fyrir peningabóluna. Hafa einhverjar breytingar átt sér stað innan háskólans eftir fall bólunnar? Nei! Fyrirtækjamenning innan háskólans hefur aukist ef eitthvað er. Það á að halda áfram að grafa undan háskólasamfélaginu. Grafa undan gagnrýnni hugsun. Það á að breyta háskólanum í verslunarmiðstöð stórfyrirtækjanna. Þetta minnir helst á Sjónvarpsmarkaðinn.

Það er algjörlega verið að grafa undan hlutverki HÍ sem gagnrýnum vettvangi. Háskólanum ber sú skylda að vera griðarstaður gegn utanaðkomandi öflum, hvort sem það heitir ríkisvald eða markaðurinn. Rétt eins og í peningabólunni á að ofurselja skólann til markaðarins í rúmlega klukkustund með áhangandi veggspjöldum, kynningarbæklingum og öðru. Í eðlilegum háskóla myndi þetta kallast „pallborðsumræður“ þar sem fólki frá öllum hliðum málsins fengi færi til að tala og svo spurningar úr sal í lokin. Á þessari kynningu eru þrír gestir og allir koma þeir auðvitað frá Landsvirkjun. Þeir fá því að tala um græna og náttúruvæna orku algjörlega óáreittir og án þess að einhver gagnrýni geti átt sér stað, yfir áheyrendahóp í atvinnuleit.

Háskólinn er að taka afstöðu með markaðnum í stað þess að standa á hliðarlínunni og gagnrýna hann. Með því að gefa Landsvirkjun leyfi til að taka yfir eina stærstu skólastofu Háskólans er hann ekki eingöngu að taka afstöðu með virkjunarframkvæmdum heldur afstöðu gegn sínum eigin nemendum og kennurum sem ekki eru hluti af tækni- og viðskiptatengdu námi innan hans.

Háskólinn á að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá ríkjandi öflum svo gagnrýni á þau geti átt sér stað en ekki að bjóða þeim heim í kaffi og kökur.

Í Fréttablaðinu um helgina talaði Landsvirkjun um 14 nýjar virkjanir á næstu 15 árum. Samkvæmt World Commission on Dams á fyrsta stigið í ákvarðanatöku um virkjanir að vera að meta hvort meint þörf fyrir vatn og orku sé raunveruleg og æskileg. Er þessi þörf fyrir orku raunveruleg? Nei. Það er engin þörf fyrir orkuna en okkur er sagt að það sé þörf fyrir peninga.

Eftir Kárahnjúka skipti Landsvirkjun um forstjóra og ímynd, til að bæta upp fyrir svarta ímynd eftir að almenningi varð ljóst hversu mikil eyðileggingin var. Rétt eins og Ísland reynir að skipta um kennitölu og ímynd eftir bankahrunið. Þetta er allt sami skíturinn. Nýja ímyndin er náttúruvernd því náttúruvernd selur. En þegar Landsvirkjun á í hlut er náttúruvernd orðin tóm. Virkjanir fara ekki saman við náttúruvernd.

Okkur er sagt að þetta sé sjálfbær græn orka en það er lygi. Bæði jarðvarmi og vatnsafl eru flokkuð sem sjálfbær, endurnýjanleg orka en það er ekki rétt. Jarðvarmi endurnýjast hægar en hann er nýttur og því verður forðinn uppurinn á nokkrum áratugum, hve mörgum er misjafnt eftir svæðum. Framburður jökuláa veldur því að miðlunarlón fyllast af aur og verða því ónothæf eftir vissan tíma. Í báðum tilfellum er miðað við að orkan sé endurnýtanleg út endingartíma virkjunarinnar, eitthvað á milli 40 og 100 ár. Það er ekki sjálfbær nýting … það er eyðilegging. Stórum virkjunum fylgir óafturkræf eyðilegging á náttúrunni. Verði af allri þessari eyðileggingu munu barnabörnin okkar hvorki fá að njóta ósnortinnar náttúru, né nýta orkuna því hún verður búin. Í stað hennar verða ryðgandi, ónýtar jarðvarmavirkjanir þar sem áður voru ósnert jarðhitasvæði og risastórir, fjúkandi leirsandar þar sem áður var gróið land. Minnismerki um heimsku nútíðarinnar, skammsýni og græðgi.

Vatnsaflsvirkjanir eru sagðar grænn kostur fyrir mengandi stóriðju því þær séu jú skárri en kol. Þetta er blekking því þær valda líka losun gróðurhúsalofttegunda og í sumum tilfellum meira en kolaorkuver vegna rotnandi jurtaleifa í miðlunarlónum sem gefa frá sér metangas. 40% af losum metans í andrúmsloftið kemur frá miðlunarlónum vatnsaflsvirkjana um allan heim. Metan er um 50x skaðlegra en koldíoxíðið sem kemur úr kolaorkuvirkjunum.

Eins og jarðvarmi er nýttur í dag klárast hann á nokkrum áratugum. Hvað hefði gerst ef foreldrar okkar hefðu keypt jarðvarma-boðskapinn í kringum 1970? Þá væri sú orka búin núna. Við þyrftum að leita annara leiða til að auka hagvöxt, jú og arðsemi Landsvirkjunar, auðvitað. Þetta er að öllu leyti hagkerfinu að kenna en við tökum það ekki niður á einum degi. Þess vegna byrjum við á að hætta að virkja og virkjum frekar fólk til að finna aðrar leiðir til að skapa sér hamingju.

Hvað fyndist okkur um það í dag ef afar okkar og ömmur hefðu virkjað Gullfoss fyrir áburðarverksmiðju, eins og til stóð að gera? Virkjunin hefði þurrkað upp fossinn og hvað ættum við þá að gera við alla túristana? Sýna þeim álfþynnur? Það sama á við um Dettifoss.

Og hvað fyndist okkur um það ef Þjórsárverum hefði verið sökkt í heild sinni árið 1972? Þá hefði stærstu, ósnortnu gróðurvin í Evrópu verið sökkt, bara fyrir stóriðju og tímabundin störf.

Það var ekki Landsvirkjun sem ákvað upp á sitt einsdæmi og gúddvill að þyrma þessum svæðum, heldur tókst það einungis vegna stöðugrar andspyrnu fólks. Gróðarsjónarmið réðu þarna öllu og ráða enn.  Og viti menn. Nú er allt í fokki í samfélaginu og Landsvirkjun getur varla kennt virkjunarandstæðingum um skuldir sínar.

Nú tala þeir um 14 nýjar virkjanir. Hverju á að fórna næstu 15 árin?

Verður það gert með sama blekkingarleiknum sem Landsvirkjun hefur stundað hingað til þar sem vísindalegum niðurstöðum er breytt ef þær hagnast ekki fyrirtækinu og stjórnvöldum? Ef ímyndin er í alvörunni breytt, mun Landsvirkjun þá núna taka mark á sérfræðingum sem meta áhrif virkjana sem of mikil á vistkerfið? Eða verður aftur þaggað niðrí fólki?

Verða vinnubrögðin enn á þá leið að þegar kynnt er um áform er bara, úps, búið að eyða allt of miklu fjármagni í þau til að hægt sé að snúa við þegar áhrifin hafa verið rannsökuð. Og mótvægisaðgerðirnar. Hvernig getur Landsvirkjun kallað ný kúabú, GSM senda og malbikaða vegi mótvægisaðgerðir þegar virkja á jökulár? Og afhverju er farið í þessa styrki, afsakið, mótvægisaðgerðir, áður en búið er að semja? Jú, til þess að hægt sé að beita sömu þvingunum og áður. Það er búið að eyða svo miklum peningum í þetta að það væri bilun að hætta við. Og svo eru það landeigendurnir. Verður enn ósamið við landeigendur þegar vatni verður hleypt í lónin – eða verða lönd bænda gerð upptæk eins og fyrrverandi forstjóri hótaði?

Fjórtán virkjanir á fimmtán árum og hvað á að gera við orkuna? Selja – bara selja hana einhverjum – segir Ísland sem selur sig á götuhornum eins og lágklassa hóra. Til að greiða niður skuldir, segir Hörður. Við þurfum nýtt lánsfé, til að virkja, til að greiða niður skuldir (af virkjunum sem við vorum að taka lán fyrir). Hóran tekur yfirdrátt til að halda áfram krakkneyslunni til að meika það að selja sig. Vítahringur.

Hvernig væri ef LV myndi eingöngu skapa orku fyrir fólkið í landinu í stað þess að selja 84% orkunnar í mengandi iðnað, líkt og til aflþynnuverksmiðju sem nýlega sleppti vítissódamenguðu vatni í Eyjafjörð, eða til álveranna svo að hægt sé að halda áfram hergagnaframleiðslu? En hey, þetta er mjög atvinnuskapandi og hver getur hafnað atvinnuskapandi iðnaði á tímum sem þessum? Landsvirkjun er jú að hjálpa litla manninum. En bíðum við. Þetta er allt tímabundin atvinna, með tímabundnum afleitum störfum og tímabundinni fasteignabólu. Og fyrirtækið stárar sig af því að hafa fáa starfsmenn, ekki nema um 200 „þrátt fyrir að vera eitt umsvifamesta fyrirtæki landsins“. Atvinnusköpun, afleit störf – þetta kemur allt frá mengandi, mannréttindabrota-hergagnaiðnaðar-stóriðjunni sem Landsvirkjun selur sálu sína á degi hverjum. Og okkar sálir með.

Höfundur: Ónafngreindur nemi við Háskóla Íslands

Náttúruvaktin