maí 18 2011

Myndir – Íslenska lögreglan hafði svo sannarlega afskipti af Mark Kennedy

Fréttatilkynning frá Saving Iceland

Vegna yfirlýsingar sem lögreglan á Seyðisfirði sendi frá sér í gær, þar sem því er alfarið neitað að mynd sem náttúruverndarhreyfingin Saving Iceland birti af breska lögreglunjósnaranum Mark Kennedy sé af honum, vill Saving Iceland ítreka að umrædd ljósmynd sýnir svo sannarlega tvo íslenska lögreglumenn kljást við Kennedy á Kárahnjúkum þann 26. júlí 2005.

Ekki þarf annað en að bera myndina saman við aðrar myndir sem teknar voru af Kennedy við Kárahnjúka til að sjá að um sama manninn er að ræða. Ein þeirra var meðal annars birt í breska dagblaðinu The Daily Mail og sýnir hún Kennedy, klæddan í sömu föt og á umræddri mynd Saving Iceland, þar sem hann stendur á vinnuvél sem hann hafði stöðvað ásamt fleiri aktívistum við Kárahnjúka.

Sú mynd sem yfirlýsing lögreglunnar á Seyðisfirði snýr að var upphaflega birt á vefsíðu Saving Iceland þann 3. maí sl. ásamt yfirlýsingu sem send var öllum íslenskum fjölmiðlum.

Að vefritunum Smugunni og Svipunni undanskildum sáu fjölmiðlar hvorki ástæðu til að birta myndina né segja frá yfirlýsingunni en í henni komu fram upplýsingar um störf Kennedy sem ekki hafði áður verið fjallað um hér á landi. Þar kom einnig fram að Kennedy hafi verið í hópi aktívista sem lögreglan hafði í haldi við Kárahnjúka á meðan farið var yfir vegabréf þeirra í júlí 2005.

Því er ljóst að íslenska lögreglan hafði í það minnsta tvisvar sinnum afskipti af Mark Kennedy, sem á þessum tíma gekk undir dulnefninu Mark Stone og var það nafn á vegabréfinu sem íslenska lögreglan skoðaði. Eins og fram kom í skýrslu Ríkislögreglustjóra sem birt var í gær óskaði íslenska lögreglan alltaf eftir upplýsingum frá bresku lögreglunni um þá bresku einstaklinga sem handteknir voru á Kárahnjúkum. Því er líklegt að hafi íslensku lögreglunni ekki verið kunnugt um veru Kennedy hér á landi hefur umrædd skoðun á vegabréfi hans leitt sannleikann í ljós.

Í ljósi ítrekaðar neitunar lögreglunnar á Seyðisfirði á því að hafa haft afskipti af Kennedy, og vegna yfirlýsingar embættisins um að ljósmynd Saving Iceland sýni annan mann sem lögreglan viti hver er, er ekki hægt að draga aðra ályktun en að lögreglan sé einmitt að tala um huldumanninn Mark Stone.

Meðfylgjandi eru þrjár myndir af Kenndy við Kárahnjúka 2005, sem allar voru birtar með ofangreindri yfirlýsingu Saving Iceland. Sú fyrsta sýnir afskipti íslensku lögreglunnar af Kennedy, önnur sýnir Kennedy í mótmælabúðum Saving Iceland við Kárahnjúka, og sú þriðja er ofangreind mynd úr The Daily Mail.

Icelandic police deal with Mark Kennedy

Traitor's cup of tea

 

mark-kennedy-on-truck-in-iceland

 

Náttúruvaktin