maí 19 2011

Nákvæmlega, Ögmundur

Innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, telur mig hafa skautað fram hjá skýrum og afdráttarlausum yfirlýsingum hans í kjölfar þess að skýrsla ríkislögreglustjóra um starfsaðferðir lögreglu, samstarf við erlendar löggæslustofnanir og meðferð trúnaðarupplýsinga var birt fyrir s.l. þriðjudag.

Gott og vel. Skoðum betur yfirlýsingar innanríkisráðherra. Hann benti hlustendum Spegilsins s.l. þriðjudag á óprúttna aðila „…á borð við þennan Mark Kennedy, útsendarar, hugsanlega einkafyrirtækja,  stórfyrirtækja, sem að hafa það eitt að markmiði að skemma góðan málstað með því að ýta fólki fram að bjargbrúninni, hvetja til lögbrota og starfsemi sem svertir þennan góða málstað.”

Nákvæmlega, Ögmundur! En þessi Mark Kennedy var ekki hér á vegum einkaaðila heldur bresku lögreglunnar sem – samkvæmt skýrslu ríkislögreglustjóra – átti í náinni samvinnu við íslensk lögregluyfirvöld. Er ekki hugsanlegt að markmið lögregluyfirvalda – breskra og íslenskra – hafi einmitt verið sá að skemma góðan málstað náttúruverndar?

Sá sem les skýrslu ríkislögreglustjóra velkist ekki í neinum vafa um að náttúruverndarsamtök eru þar flokkuð með skipulagðri glæpastarfsemi. Það er líka í anda þess þegar ráðist var í heræfingar á miðhálendi Íslands gegn hinum ímyndaði óvini: Umhverfisverndarsamtökum. Hvernig getur innanríkisráðherra, helsti varðmaður grasrótarlýðræðis á Íslandi, tekið við slíkum skýrslum athugasemdalaust?

Við Spegilinn sagðist innanríkisráðherra vilja „tryggja að hér séu ekki stundaðar njósnir gagnvart hreyfingum sem eiga sér pólitískar rætur.” Þó gerir Ögmundur Jónasson engar athugasemdir við að embætti ríkislögreglustjóri stundaði einmitt slíkar njósnir gagnvart náttúruverndarsamtökunum Saving Iceland og hann lætur óátalið að þau samtök eru í skýrslu ríkislögreglustjóra flokkuð með skipulagðri glæpastarfsemi á borð við vélhjólagengi.

Ráðherra hyggst ekki leita skýringa hjá breskum stjórnvöldum jafnvel þótt hann dragi ekki í efa að umræddur flugumaður hafi verið hér í umboði bresku lögreglunnar. Þess í stað tekur hann gilda skýringar ríkislögreglustjóra á Þriðjaríkisreglunni, sem

felur í sér að viðtakanda trúnaðarupplýsinga er óheimilt að miðla þeim til þriðja aðila nema að fyrir liggi leyfi þess er upplýsingarnar veitti. Brot á þeim reglum og hefðum sem varða slíkar trúnaðarupplýsingar, meðferð þeirra, notkun og vörslu, eru litin mjög alvarlegum augum og geta leitt til þess að viðkomandi lögreglulið/ – stofnun geti á engan veg treyst á nauðsynlegt liðsinni erlendra samstarfsaðila og slita á samstarfi.

Innanríkisráðherra beygir sig fyrir þessu lögmáli leyndarhyggju. Spyr einskis frekar. Hann seldi ríkislögreglustjóra sjálfdæmi í málinu í stað þess að skipa óháða rannsóknarnefnd. Yfirlýsingar hans eru góðra gjalda verðar en sú gagnrýni stendur að ráðherra er lítill sómi sýndur með skýrslu ríkislögreglustjóra. Ögmundi Jónassyni ber að gera alvarlegar athugasemdir við skýrsluna og lýsa því yfir afdráttarlaust að margt af því sem þar kemur fram sé bæði óviðeigandi og óviðunandi í lýðræðisríki.

Greinin birtist fyrst á Smugan.is

Náttúruvaktin