nóv 17 2011

Samningsstaða Landsvirkjunar anno 2002

Árni Finnsson

Í kjölfar yfirlýsinga forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, um laka arðsemi Kárahnjúkavirkjunar hafa tveir skýringar verið gefnar sem ástæða: Í fyrsta lagi að þáverandi stjórnendur fyrirtækisins og landsins hafi staðið sig illa í samningagerð við Alcoa. Í öðru lagi að stjórnvöld hafi rekið stóriðjustefnu til að skapa atvinnu, verkefni fyrir byggingariðnaðinn og um leið landsbyggðastefnu en látið nægja að orkuverðið stæði undir afborgunum.

Hörður vildi lítið segja um fyrri skýringuna. Á hinn bóginn lagði hann þunga áherslu á að til lengri tíma væri viðunandi arðsemi langmikilvægust fyrir áhrif fyrirtækisins á efnahag landsins. Framkvæmdaáhrifin væru vissulega góð, ekki síst í þeirri kreppu sem nú hrjáir landsmenn en þau áhrif væru tímabundin.

Ófullnægjandi arðsemi Landsvirkjunar skýrði hann fyrir lesendum Morgunblaðsins þann 15. nóvember s.l.: „Árið 2010 var hagnaður Landsvirkjunar um 73 milljónir dollara en til að ná 11% arðsemiskröfu hefði fyrirtækið átt að ná um 180 milljóna dollara hagnaði.“ Hér munar mjög miklu og ljóst að töluverðan tíma mun taka fyrir Landsvirkjun að skila eigendum sínum viðunandi arði. Þar munar mest um að verð fyrir orku frá nýjum virkjunum er of lágt segir Hörður Arnarson. Les: Kárahnjúkavirkjun. Raforkuverð verður að hækka umtalsvert og það mun taka langan tíma vegna þess hve samningarnir við Alcoa voru lélegir.

Um hvað er maðurinn eiginlega að tala? Af hverju er ekki nóg að byggja virkjanir, skapa atvinnu og láta álverið borga byggingarkostnaðinn? Svarið við  þessum spurningum felst í því að öll viljum við að sparifé okkar skili jákvæðum vöxtum. Þannig er lífeyrissjóðum lögskylt að ávaxta sparnað sjóðsfélaga sinna sem allra best. Fjárfesting í virkjun sem bara gefur 3,5% ávöxun felur í sér umtalsvert tap ef unnt er að fjárfesta í hátæknifyrirtæki sem gefur 11% ávöxtun með sömu áhættu. Að mati Landsvirkjunar og alþjóðlegra matsfyrirtækja verður arður fyrirtækisins að ná 11%. Ella er tap af rekstri þess. Þessi staðreynd birtist þegar fjármálaráðherra eyrnamerkti Landsvirkjun drjúgan hluta þess fjár sem AGS lánaði Íslandi í kjölfar hrunsins. Lánadrottnar Landsvirkjunar kröfðust þess að fyrirtækið hefði ávallt mörg hundruð milljóna bandaríkjadala í handbæru fé. Ella myndi fjármagnskostnaður hækka umtalsvert. Að auki veitti fjármálaráðherra fyrirtækinu frí frá arðgreiðslum til eigenda sinna. Kárahnjúkavirkjun er þungur baggi á Landsvirkjun.

Í skýringu Harðar má lesa þá gagnrýni að stjórnvöld hafi um langan tíma rekið Landsvirkjun til að skaffa verktökum og verkfræðistofum verkefni tímabundið en þess ekki gætt að langtímaáhrif virkjanaframkvæmda yrðu jákvæð fyrri efnahagslífið; að fyrirtækið geti greitt arð til eigenda sinna. Benti hann á að allt frá stofnun hefði Landsvirkjun greitt sáralítinn arð og gjald fyrir nýtingu auðlinda.

Afstaða forstjóra Landsvirkjunar fær stuðning í nýútkominni skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumál, sjá greiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands,  Þjóðhagsleg þýðing áætlaðra framkvæmda á bls. 42. Hagfræðistofnun bendir á að langtímaáhrif af stóriðjufjárfestingum eru miklu óvissari en skammtímaáhrifin (framkvæmdaáhrifin). Fyrirfram er yfirleitt erfitt að fullyrða um hver þau gætu verið. Hagfræðistofnun telur þó að langtímaáhrif stóriðjuframkvæmda á atvinnuleysi séu lítil.

Hugum nú að fyrri skýringunni, sem Hörður vildi sem minnst um tala þótt hann viðurkenndi að í dag hefði hann ekki gert orkusölusamninga eins og Alcoa fékk. Forverar sínir hefðu gert eins vel og þeim var unnt við erfiðar markaðsaðstæður.

En hverjar voru aðstæðurnar?

Í kjölfar þess að Skipulagsstofnun lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun þann 1. ágúst 2001 vegna verulegra og varanlegra náttúruspjalla, auk ófullnægjandi upplýsinga, fylltust ráðmenn fádæma einurð. Forsætisráðherra, Davíð Oddsson, atyrti skipulagsstjóra opinberlega og landgræðslustjóri var tekin á teppið hjá þremur ráðherrum. Halldór Ásgrímsson sagði að ríkisstjórnin væri nú ákveðnari en nokkru sinni fyrr að ráðast þessa framkvæmd. Lög um Kárahnjúkavirkjun skyldu samþykkt á Alþingi fyrir þinglok vorið 2002.

Úrskurður Skiplagsstofnunar endurspeglaði að nokkru efasemdir Norsk Hydro um Kárahnjúkavirkjun. Norsk Hydro hafði upphaflega afþakkað boð stjórnvalda um þátttöku í fjármögnun og byggingu Fljótsdalsvirkjunar vegna þess að arðsemi verkefnisins var ábótavant. Þá hafði Norsk Hydro miklar efasemdir um að samfélagsleg áhrif væru jafn jákvæð og af var látið, náttúrueyðileggingin yrði veruleg, auk þess sem afstaða iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar til náttúruverndarsamtaka einkenndist af óvild og ofstopa í garð þeirra sem leyfðu sér að hafa aðra aðra skoðun en stjórnvöld á málinu. Fram hafði komið hörð gagnrýni í Noregi og sú gagnrýni myndi skaða fyrirtækið sem sagði sig frá verkefninu í mars 2002. Nokkrum vikum síðar hófust viðræður við Alcoa sem vissulega jesúsaði sig yfir framkomu ráðamanna gagnvart almenningi en taldi litlar líkur á hörðum mótmælum fyrir utan skrifstofur fyrirtækisins á Manhattan. Samningar voru undirritaðir 11 mánuðum eftir að viðræður hófust.

Af framansögðu má ljóst vera að samningamenn Landsvirkjunar voru í vonlausri samningsstöðu gagnvart Alcoa. Ríkisstjórn og Alþingi höfðu skrúfað upp væntingar um framkvæmdir. Hvers kyns hik yrði túlkað sem eftirgjöf við vaxandi gagnrýni af hálfu náttúruverndarsamtaka heima og erlendis. Alcoa vissi að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson vildu fyrir alla muni byrja að sprengja í Dimmugljúfrum fyrir kosningar vorið 2003. Samningsstaða þeirra var álíka afleit og Indjána 19. aldar í Norður Ameríku gagnvart alríkisstjórninni í Washington. Síðar gerði forstjóri Alcoa gys að samningahæfni Íslendinga. Munurinn á Indjánum Norður Ameríku forðum tíð og ríkisstjórn Íslands var hins vegar sá að samningsstaða íslenskra ráðamanna var sjálfskaparvíti.

Hreinskilni nýrra stjórnenda Landsvirkjunar helgast af algerri nauðsyn þess að komast hjá því að lenda í sömu samningsstöðu gagnvart orkukaupa og fyrirtækið lenti í gagnvart Alcoa.

Greinin birtist fyrst á Smugunni.

Náttúruvaktin