des 20 2011

Er HS Orka á heljarþröm?

Sigmundur Einarsson jarðfræðingur

Þann 23. apríl 2007 samdi HS Orka við Norðurál um sölu á 150 MW af raforku til álbræðslu í Helguvík. Samkvæmt forstjóra HS Orku eru ýmsir fyrirvarar í samningnum m.a. um arðsemi virkjana, umhverfismat, árangur af borunum, samkomulag við viðkomandi sveitarfélög og samninga við Landsnet um flutning orkunnar. Þegar ekkert bólaði á orkunni tveimur árum eftir undirritun var fyrirvörunum aflétt (30. júní 2009) og ári síðar (júlí 2010) stefndi Norðurál HS Orku fyrir vanefndir á samningum. Þá var kominn júlí 2010, þrjú ár liðin frá undirritun og ekkert hafði gerst í orkuöflun. Af einhverjum ástæðum sem mér eru ókunnar endaði málið hjá sænskum gerðardómi sem nú hefur fellt þann úrskurð að HS Orku sé skylt að afhenda Norðuráli þessi 150 MW.

Og nú gleðjast Suðurnesjamenn væntanlega því forstjóri Norðuráls segir að bræðslan geti tekið til starfa árið 2014. Þetta er loksins alveg að koma en það hefur reyndar heyrst oft áður. Ætli einhver vandamál hafi verið leyst? Hver skyldi vera orsökin fyrir þeim töfum sem orðið hafa?

Lengi framan af var umhverfisráðherra talinn sá erkióvinur sem gerði allt sem hægt var til að tefja verkið. Seinna var ríkisstjórnin í heild orðin að höfuðóvini. Um tíma féllu þung orð í garð Orkustofnunar vegna „bábilju og forsjárhyggju“ en síðustu misserin hefur m.a. staðið á skipulagsvinnu af hálfu sveitarfélaganna Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Nú allra síðast hefur dregist að fá niðurstöðu frá gerðardómi í Svíþjóð vegna ágreinings um orkuverð. En nú er niðurstaðan komin. Ágreiningurinn reyndist vera annað og meira en orkuverðið. HS Orka vildi greinilega losna undan samningum í heild vegna þess að fyrirtækið getur alls ekki útvegað orkuna. Þetta hefur í reynd legið fyrir frá upphafi og samningurinn við Norðurál er með slíkum ólíkindum að vinnubrögðin hljóta að teljast í meira lagi ámælisverð ef samningurinn stendur.

Samningurinn var undirritaður í júní 2007 og síðan er liðin 4½ ár. Á þessum tíma hefur HS Orku ekki tekist að útvega eitt einasta megavatt af raforku. Fyrir lá í upphafi að erfitt yrði að fá leyfi til að stækka Reykjanesvirkjun en leyfið fékkst þó frá Orkustofnun sl. haust. Lengi hefur verið vitað að jarðhitasvæðin í Svartsengi og Eldvörpum fá orkuna úr sama pottinum og ekkert bendir til annars en að svæðið sé fullnýtt. Allt tal um frekari orkuöflun í Eldvörpum er því ábyrgðarlaust. Og svo er það rúsínan í pylsuendanum, Krýsuvíkursvæðið. Boranir við Trölladyngju hafa reynst árangurslausar en ókunnugt er mér um árangur af grunnri rannsóknarholu við Sandfell. Meginjarðhitinn í Krýsuvík er við Seltún og Austurengjar í landi Hafnarfjarðar. Þar hefur HS Orka fengið rannsóknarleyfi en nýtingarrétturinn tilheyrir Hafnarfirði. Þar er allt óvíst um orkuöflun. HS Orka hefur heimild til að stækka Reykjanesvirkjun um 80 MW en til þess vantar reyndar allmarga milljarða króna og enginn vill lána. Hvar er bjargvætturin Ross Beaty núna? Eru möguleikar á skyndigróða á Suðurnesjum uppurnir?

En hvað ef HS Orka getur ekki útvegað umsamda orku? Norðurál segist hafa eitt um 20 milljörðum í undirbúning álbræðslu í Helguvík nú þegar. Fær Norðurál skellinn eða gæti HS Orka verið skaðabótaskyld. Það blasir ekki við að niðurstöðuna frá Svíþjóð eigi að túlka sem gleðitíðindi líkt og Kristján Már Unnarsson fréttamaður gerði í fréttum Stöðvar 2 í gær.

Að lokum. Hvernig datt fulltrúum lífeyrissjóðanna í hug að kaupa 25% hlut í HS Orku af Ross Beaty? Keyptu þeir köttinn í sekknum?

Fyrst birt á Smugan.is

Náttúruvaktin