mar 23 2013

Skandallinn, ropið og ríkið

Eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, birtist upphaflega á Smugunni.

Í leikriti sínu, Stjórnleysingi ferst af slysförum, dregur ítalski absúrdistinn Dario Fo upp alltragíkómíska mynd af stöðu skandalsins og dæmigerðum eftirmálum hans í lýðræðisríkjum. Aðalpersóna verksins — vitfirringurinn svonefndi, dulbúinn sem hæstaréttardómari — bendir á að sé skandalnum einfaldlega leyft að koma upp á yfirborðið og velkjast dálítið um milli tannanna á fólki, gefist því færi á að „fá útrás, reiðast, hrylla við tilhugsunina… ,Hverjir halda þessir stjórnmálamenn eiginlega að þeir séu?‘ ,Úrþvætti!‘ ,Morðingjar!‘ Og svo verður fólk ennþá reiðara og svo, rop! Örlítið, frelsandi rop til að létta undir félagslegri meltingartruflun þess.“

***

Stuttu fyrir útgáfu rannsóknarskýrslu Alþingis á orsökum efnahagshrunsins 2008 fóru höfundar hennar mikinn í fjölmiðlum og vöruðu beinlínis við innihaldi hennar — sögðust hafa tárast við ritunina og mældu með því að almenningur fengi nokkra daga frí frá vinnu til að jafna sig eftir lesturinn. Þáverandi dómsmálaráðherra lét líka í sér heyra, hvatti til stillingar og fullvissaði óttaslegna þegna um að lögreglan væri vel í stakk búin til að bregðast við upplausn þeirri sem mögulega kæmi til í kjölfar opinberrar útgáfu skýrslunnar. Óeirðir lágu í loftinu — í það minnsta var ýjað að slíku. Alltumlykjandi var sú hugmynd að skandallinn væri ein meginorsök samfélagslegrar hreyfingar og umbrots — að hægðir úrþvættanna, sem við það væru að vella upp og flæða loksins ofanjarðar um samfélagið, hlytu bara að koma á stað einhverri hreyfingu.

En skýrslan kom út án varanlegra áhrifa. Vísar klukkurnar hættu ekki að snúast, hversdagurinn er að mestu óbreyttur og hjól atvinnulífsins valta enn sem áður yfir það sem í vegi þeirra stendur. Lesendur skýrslunnar gátu aftur á móti skemmt sér yfir þeirri vitneskju að fyrrum bankastjóri nokkur hafi verið fær um að innbyrgða þjóðarbakkelsið með ótrúlegum hætti — stóran súkkulaðisnúð í einum munnbita.

***

Ekki svo ólíka sögu má segja af skandalaverksmiðjunni stórgóðu og framkvæmdaglöðu, WikiLeaks. Auðvitað hafa gagnalekar hennar — til að mynda Collateral Murder myndbandið sem frumsýnt var á RÚV árið 2010 — fætt af sér reiði eða aukið þá sem fyrir var til staðar. En reiðin hefur svo sannarlega ekki orðið til þess að tryggja þeim, sem að lekunum standa, öryggi og vernd undan ofsóknum yfirvalda; hvað þá að bundinn sé endir á þann ofbeldisfulla veruleika sem gögnin sýna svart á hvítu. Það er sorglegt en satt: Meðal sýnilegustu afleiðinga lekanna — og líklega sú raunverulegasta, sú sem hvað beinust áhrif hefur haft á líf einhvers og tilveru — er að nú situr Bradley Manning í bandarísku fangelsi og bíður þess að hljóta fangelsisdóm fyrir aðkomu sína að lekunum. Á sama tíma situr Julian Assange fastur í sendiráði Ekvadors í Lundúnum, skíthræddur — og það fullkomlega skiljanlega — um að hvers kyns brölt með hann milli dómsstóla leiði á endanum til þess að honum bíði örlög Mannings.

Þó hafa lekarnir og óumdeilanleg gæði þeirra ekki afhjúpað neitt nýtt í raun og veru — ekki sýnt fram á neitt sem við ættum ekki að vita. Öllum er ljóst að í stríðum eru almennir borgarar drepnir og eins hefur lítill vafi leikið á því hvers vegna ráðist var inn í Írak. Samt sem áður hefur hver skandallinn á fætur öðrum komið upp á yfirborðið þann áratug sem síðan hefur liðið — óþægilegar staðreyndir um stríðið, orsakir þess og afleiðingar og birtingarmyndir barbarísks atferlis Bandaríkjahers og annarra herja hinna viljugu þjóða — orðið að margtuggnum fjölmiðlamat og skoðanaskiptum, leitt af sér mótmæli og kröfur um breytingar.

En hafa þeir einhverju breytt í raun og veru? Meginorsök einnar eftirminnilegustu breytingu á aktífum stuðningi hinna viljugu þjóða við innrásarstríðið hafði í það minnsta lítið sem ekkert að gera með tilkomu slíkra skandala eða eftirmála þeirra. Þvert á móti áttu þær rætur sínar að rekja til þess þegar lestasprengjur — sem komið hafði verið fyrir af hópi er kenndi sig við Al-Qaeda — sprungu í Madríd þann 11. mars 2004 og urðu tæplega tvöhundruð manns að bana. Þetta átti sér stað örfáum dögum fyrir þingkosningar þar í landi og er — að því viðbættu hve illa þáverandi stjórnvöldum tókst að eiga við árásina og eftirmála hennar — talið hafa ráðið hvað mestu um skyndilegt og áður ófyrirsjáanlegt fylgistap forsætisráðherrans José María Aznar og hægriflokks hans, Partido Popular. Í staðinn var krataflokkurinn PSOE kosinn til valda og stuttu síðar var hið þrettán hundruð manna spænska herliðið kallað heim frá Írak.

***

Það er þó alls ekki þar með sagt að skandallinn sé einskis nýtur — að skjalfesting þess vitaða, augljósa og fyrirséða sé óþörf. Hún getur einmitt þjónað því nauðsynlega hlutverki að staðfesta tiltekna vitneskju sem samfélagið hneigist til að afskrifa, draga í efa og tortryggja, sé hún ekki opinberlega skjalfest. Einhverjir muna kannski eftir íslensku sjónvarpsþáttunum Hamarinn þar sem þeir, sem stundað hafa borgaralega óhlýðni gegn stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda, voru birtir sem vænisjúkir og ofsóknaróðir taugasjúklingar. Ekki svo löngu síðar var ljóstrað upp um njósnir breska lögreglumannsins Mark Kennedy sem í sjö ár veitti yfirvöldum í Norður-Ameríku og Evrópu upplýsingar um anarkista og róttæka aðgerðasinna, þar á meðal á Íslandi. Allt frá því hefur skandallinn stækkað sem rúllandi snjóbolti, leitt í ljós áratugalangar njósnir og störf flugumanna og þannig staðfest þá vitneskju að yfirvöld skirrast ekki við beita hvaða ráðum sem er við að leggja stein í götu andófshreyfinga — líka í lýðræðisríkjum.

Viðurkenning á nauðsyn þessara uppljóstrana breytir þó engu um kjarna málsins. Stóra spurningin hér er nefnilega ekki hvort uppljóstrun og skandalar séu þarfir eða óþarfir, heldur hvort staðfesting þeirra leiði til einhverra raunverulegra breytinga á því atferli sem um ræðir hverju sinni.

***

Hið sama á við um nýjasta skandalinn á markaðnum. Rétt eins og í tilfelli Íraksstríðsins og hvað störf flugumanna lögreglunnar varðar, hefði engum átt að koma á óvart þær ekkifréttir að atvinnuuppbygging hafi nú svo gott sem drepið lífríki Lagarfljóts. Það er óþarfi — og eiginlega til marks um hálfniðurlægjandi endurtekningu á hinu augljósa og ofsagða — að týna hér til þau aðvörunarorð sem látin voru falla um akkúrat þessi áhrif Kárahnjúkavirkjunar áður en framkvæmdirnar hófust, meðan á þeim stóð og eftir að þeim lauk. Sá sem í dag kannast ekki við þau er sá sem vill þau ekki þekkja. Jafn miklu, ef ekki meira máli skipta þau virkjanaáform sem nú liggja úrbreidd á teikniborðunum og eru ekki til annars líkleg en að leiða af sér sömu áhrif eða svipuð.

Frá því að Lagarfljótskandallinn kom nú síðast upp úr ánni hefur sönn og ófögur, umfram allt löngu steingerð mynd verið dregin upp af fyrrum valdhöfum: Þeim sem ábyrgð bera á Kárahnjúkavirkjun og vill svo til að tóku sömuleiðis ákvörðun um stuðning íslenska ríkisins við innrásina í Írak auk þess að rækta jarðveginn fyrir þá skítugu birtingarmynd kapítalismans sem sýnileg varð — eða vilji varð til að gangast við og gera sýnilega — haustið 2008 og veturinn sem á eftir leið.

Heldur minna hefur farið fyrir spegilmynd þessarar ljótu myndar í dag: Fólkinu sem nú situr við valdakatlana og samþykkti nýlega svonefndan sáttmála um nýtingu náttúruauðlinda sem felur í sér glórulausa virkjun jarðhitasvæða Reykjanesskagans og byggir á goðsögn um græna orku — mýtu sem þrátt fyrir viðvarandi flóðbylgju gagnrýni og afbyggingar virðist enn við hestaheilsu. Vill svo til að sömu valdhafar tóku einnig ákvörðun um stuðning íslenska ríkisins við innrásina í Líbíu auk þess að hafa litlar sem engar tilraunir gert til að snúa raunverulega baki við ofangreindu efnahagskerfi — umfram allt unnið að því að endurreisa það og fegra með merkingarholum orðum á borð við grænt og skapandi.

Ef sagan heldur svo áfram að endurtaka sig munu skandalasögur þessara valdhafa öllum að óvörum koma upp á yfirborðið næsta áratuginn, verða að fjölmiðlamat, orsaka argaþras og reiði — loks nokkur frelsandi, daríófóísk rop.

***

Veturinn 2008-9 skaut sagan af nýju fötum keisarans reglulega upp kollinum. Yfirleitt er látið líkt og sú stórmerkilega uppgötvun mannfjöldans að keisarinn sé án klæða valdi þar einhverjum straumhvörfum — frá og með þeim tímapunkti snúi fólk baki við lygum og klækjum yfirvaldsins. En önnur er raunin. Ganga keisarans heldur áfram, enn íburðarmeiri en áður og fátt virðist benda til annars en að múgurinn hylli keisarann sem fyrr — nú með fullri meðvitund um nekt hans. Hin sögulega tilhneiging til slíkrar hegðunar er akkúrat það sem reisir stoðir undir orð vitfirringsins í leikriti Dario Fo þegar hann segir með hálfbiblískum snúningi: „Leyfið skandalnum að birtast, því á hans grunni mun enn varanlegra vald ríkisins byggjast!“

Náttúruvaktin